Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 maí 2006

Undarleg afstaða Samfylkingarinnar

HJT

Afstaða Samfylkingarinnar í útboðsmálum hefur vakið nokkra furðu bæjarbúa í þessari kosningabaráttu og þykir frekar bera nokkurn vott um sovéska fortíðarhyggju en þá framsæknu nútímalegu jafnaðarstefnu sem flokkurinn vill almennt kenna sig við á hátíðarstundum. Samfylkingin vill sumsé draga stórlega úr útboðum eða jafnvel hætta þeim alveg og taka með því stórt skref í átt að alræði hins opinbera. Þessi skoðun Samfylkingarinnar kom vel fram í máli oddvitans, Hermanns Jóns Tómassonar, á fundi í framkvæmdamiðstöð Akureyrar á þriðjudagsmorgun og einnig sést hún í pistli á heimasíðu flokksins á Akureyri.

Nú fer líklega hrollur um smærri verktaka og einyrkja og viðbúið að margir þeirra leggja upp laupana ef bærinn hættir að bjóða út verk. Í framtíðinni verða væntanlega öll verk unnin af bæjarstarfsmönnum nema þeim verði úthlutað til flokksgæðinga fylkingarinnar án útboðs. Annað sem fram kom á sama fundi var að Samfylkingin ætlar að endurskoða laun starfsmanna og endurmeta á hverjum vinnustað fyrir sig. Gefið er sterklega í skyn af frambjóðendum að í vændum séu verulegar launahækkanir. Sömu vilyrði sýnist mér að megi lesa í stefnuskrá framboðsins.

Í sömu stefnuskrá kemur fram að Samfylkingin ætlar að efla þjónustu sveitarfélagsins á öllum mögulegum og ómögulegum sviðum og alveg burtséð frá því hvort þörf er á því eður ei. Það er hinsvegar hvergi gert ráð fyrir auknum tekjum til að standa undir útgjaldaaukningunn og allir vita að ef eytt er meira en aflað er getur sá leikurinn einungis farið á einn veg. Það er augljóst, sýnist mér, að hér sé á ferðinni reynslulaust fólk í pólitík sem aldrei hefur komið nálægt eða borið ábyrgð á rekstri. Önnur útskýring finnst varla á ábyrgðarleysinu sem þarna kemur fram.