Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 maí 2006

Rebel Without a Cause

Rebel Without a Cause

Í gær keypti ég mér hálfrar aldar afmælisútgáfu kvikmyndarinnar Rebel Without a Cause. Hún er í vönduðum DVD-pakka. Tveir diskar - annar með kvikmyndinni og hinn með vönduðu aukaefni um leikarana og gerð myndarinnar. Ég horfði á þennan disk í morgun og naut þessa góða efnis. Að mínu mati er Rebel Without a Cause besta kvikmynd leikarans James Dean. Hún varð sú mynd sem mest er kennd við hann og ber hæst merki hans. Eins og flestir vita lést Dean örfáum mánuðum eftir að hann lék í myndinni. Hann lést 30. september 1955 í bílslysi, aðeins 24 ára að aldri. Dean var góður leikari og lék á skömmum ferli í þrem meistaraverkum kvikmyndasögunnar: auk þessarar í East of Eden og Giant. James Dean varð ekki langlífur en setti mikið mark á samtíð sína og framtíð og varð átrúnaðargoð og goðsögn heillar kynslóðar um allan heim. Áhrif hans náðu yfir gröf og dauða.

Í Rebel Without a Cause lék Dean uppreisnarsinnann - sú táknmynd festi hann í sessi um ókomin ár og enn í dag hugsa flestir til Dean sem hinnar sönnu ímyndar hins uppreisnargjarna og hugsjónasinnaða manns - unglingsins sem leggur til atlögu gegn eldri kynslóðunum sem honum finnst traðka á sér. Í þessari mynd lék Dean á móti Natalie Wood, einni þokkafyllstu leikkonu þessa tíma. Margar sögur gengu um samband þeirra við gerð myndarinnar. Sambandið á milli þeirra í gegnum myndina er rauði þráðurinn í sögunni. Ég hafði ekki séð þessa mynd um nokkurt skeið er ég keypti hana. Tók ég hana upp er Stöð 2 var með Dean-þema árið 1995 á þeim tíma er fjörutíu ár voru liðin frá dauða hans - en ekki horft á hana um nokkurt skeið. Þá voru allar þrjár myndirnar sýndar og veglegur heimildarþáttur um ævi hans.

Það var áhugavert að sjá þessa mynd - merkilegast finnst mér hversu vel hún hefur elst. Það má reyndar segja um allar þrjár myndir James Dean að þær eru miklar stórmyndir og algjörlega ógleymanlegar. Giant og East of Eden eru sannkallaðar eðalmyndir og ekki er þessi síðri. Merkilegast finnst mér að sjá hversu öll umgjörðin í Rebel without a Cause hefur staðist tímans tönn. Að mörgu leyti gæti hún alveg gerst í dag. Það er því svo sannarlega tilefni til að hvetja kvikmyndaunnendur til að rifja upp kvikmyndir James Dean. Þær eru enn í dag stórfengleg heimild um þennan merka leikara - þær höfða allavega allar til mín. Að mörgu leyti hitti hann í mark bæði sem kvikmyndakarakter í þessum þrem myndum og sem persóna. Sorglegur dauði hans spilar vissulega stóran þátt inn í arfleifð hans sem leikara.

Rebel Without a Cause er ein af stórmyndunum sem vert er að hvetja allar kynslóðir nútímans til að sjá. Hún ætti að höfða til flestra. Allavega féll ég aftur fyrir henni er ég sá hana um helgina og sérstaklega var ánægjulegt að sjá allt vandaða aukaefnið sem með fylgir. Þeir sem þekkja mig og vilja sjá hafi endilega samband bara og ég læt ykkur fá hana. Þetta er mynd sem passar alltaf vel við.