Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 júní 2006

Vangaveltur um ævisögu Steingríms

Steingrímur Hermannsson

Ég hef lengi unnað góðum ævisögum og haft ástríðu á bókmenntum. Sú bókmenntaástríða er þó ekki bara bundin ævisögum. Ég er mikið fyrir safaríkar og góðar bækur - gæti semsagt alls ekki lifað án góðra bókmennta. Það er óhætt að segja að þessi mánuður hafi verið tími mikilla tíðinda innan Framsóknarflokksins. Halldór Ásgrímsson hefur enda boðað endalok stjórnmálaferils síns og hefur látið af ráðherraembætti eftir langa setu. Seinustu dagana hef ég verið að glugga aftur í ævisögur Steingríms Hermannssonar, forvera Halldórs á formannstóli Framsóknarflokksins. Það er á fáa stjórnmálamenn hallað þegar að fullyrt er að Steingrímur hafi verið einn helsti áhrifamaður íslenskra stjórnmála á níunda áratug 20. aldar, enda var hann forsætisráðherra 1983-1987 og 1988-1991. Hann leiddi Framsóknarflokkinn samfellt í einn og hálfan áratug, árin 1979-1994. Aðeins faðir hans, Hermann Jónasson, leiddi lengur flokkinn.

Ég á öll þrjú bindi ævisögu Steingríms. Þær lýsa merkilegum manni sem var áberandi í stjórnmálum landsins til fjölda ára og í innsta hring mikilvægrar ákvarðanatöku um forystu landsins. Bækurnar voru ritaðar árin 1998-2000 af Degi B. Eggertssyni, síðar borgarfulltrúa og leiðtoga Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur. Það þóttu mikil tíðindi er Dagur B. var valinn til ævisöguritunar Steingríms, enda hann auðvitað aldrei við Framsóknarflokkinn kenndur. Hann er hinsvegar góðvinur Guðmundar, yngsta sonar Steingríms, en þeir voru saman í háskólapólitíkinni fyrir Röskvu fyrir rúmum áratug. Enginn vafi leikur á því að Steingrímur var mjög umdeildur sem stjórnmálamaður og mörg verk hans á hinu pólitíska sviði ennfremur. Hann var rétt eins og t.d. Davíð Oddsson iðulega vinsælasti og óvinsælasti stjórnmálamaður landsins og hafði því vinsældum að fagna nokkuð út fyrir sinn flokk.

Ævisaga Steingríms er auðvitað nokkur veisla fyrir þá sem áhuga hafa á stjórnmálum. Í öðru bindinu er t.d. mjög athyglisvert að lesa söguna á bakvið stjórnarmyndun dr. Gunnars Thoroddsens í febrúar 1980, en með henni var Sjálfstæðisflokkurinn klofinn og lítill hluti þingflokks hans í stjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi. Fjallaði ég um þá sögulegu stjórnarmyndun og aðrar á forsetaferli dr. Kristjáns Eldjárns í ítarlegum pistli á vef SUS í nóvember 2005. Steingrímur sem formaður Framsóknarflokksins leiddi viðræður um þá stjórnarmyndun og var því aðalleikari í þeirri atburðarás. Fer hann yfir meginþætti þeirrar atburðarásar í öðru bindi og bendir þar á að Ólafur Jóhannesson, forveri hans á formannsstóli, hafi verið mikilvægur í þeirri stjórnarmyndun, en hann varð utanríkisráðherra í stjórn dr. Gunnars og hætti við forsetaframboð sitt, en hávær orðrómur var um að hann hyggði á forsetaframboð árið 1980.

Í þriðju og síðustu bók Steingríms er fjallað um forsætisráðherraárin hans, en þau voru auðvitað hápunkturinn á hans pólitíska ferli. Árin 1983-1991 var hann í mjög öflugri stöðu í stjórnmálum og í raun ráðandi forystumaður allan þann tíma og í raun lengur ef má segja, í rauninni allt frá formannskjöri sínu árið 1979. Þó að hann væri utanríkisráðherra í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar 1987-1988 var hann í lykilstöðu. Er stjórn Þorsteins sprakk haustið 1988 var hann í oddastöðu og myndaði þá vinstristjórn með A-flokkunum undir forsæti sínu. Hann missti valdastöðu sína að loknum kosningum 1991 og má í raun segja að hann hafi aldrei fundið sig í stjórnarandstöðu eftir að Davíð Oddsson og Jón Baldvin tóku höndum saman um stjórnarmyndun í Viðey að loknum kosningum 1991. Hann varð seðlabankastjóri í apríllok 1994 og baðst lausnar frá formennsku Framsóknarflokksins og vék af hinu pólitíska sviði.

Steingrímur rekur vel undir lok þriðja bindisins atburðarásina sem leiddi til þess að hann ákvað að hætta í stjórnmálum. Þar réði úrslitum óeiningin innan Framsóknarflokksins vegna EES-málsins í upphafi tíunda áratugarins. Þá klauf viss hluti flokksins sig frá skoðun Steingríms um að leggjast gegn EES-samningnum og sat hjá við kosninguna á þingi í janúar 1993. Áberandi andstaða við vilja Steingríms kom fram og eftir það var aðeins tímaspursmál hvenær að hann myndi hætta. Fram að því hafði Steingrímur verið nær óskoraður forystumaður allra framsóknarmanna og hann hlotið afgerandi umboð til formennsku á öllum flokksþingum. Greinilegt var ennfremur að Halldór Ásgrímsson var orðinn óþreyjufullur í biðinni eftir formennsku flokksins en hann hafði verið varaformaður frá 1980 og talinn krónprins flokksins. Hann leiddi þann arm sem var jákvæður fyrir því að EES-aðild yrði að veruleika.

Halldórsarmurinn hafði myndast fljótlega eftir kosningarnar 1991, enda töldu margir fylgismanna Halldórs hans tíma vera kominn og vildu að Steingrímur hliðraði til fyrir honum. Þessi armur var harðasti stuðningskjarni Halldórs og minnti á styrkleika sinn í átökunum um EES. Steingrímur lýsir þessum átökum innan þingflokksins með góðum hætti og bendir t.d. á að hann rétt naumlega tókst að hafa stærri fylkingu innan þingflokksins með sér í málinu. Honum fylgdu: Páll Pétursson, Guðni Ágústsson, Guðmundur Bjarnason, Ólafur Þ. Þórðarson, Jón Helgason og Stefán Guðmundsson. Með Halldóri voru Valgerður Sverrisdóttir, Finnur Ingólfsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Jón Kristjánsson og Ingibjörg Pálmadóttir. Það varð öllum ljóst í þessum málum að síðarnefndi hópurinn væri að taka yfir forystu flokksins. Það gerði hann með því að Steingrímur vék burt af sviðinu fljótlega eftir klofninginn um EES.

Valdahlutföll voru jöfnuð með þeim hætti að einn nánasti samstarfsmaður Steingríms, Guðmundur Bjarnason, varð varaformaður flokksins á flokksþingi haustið 1994 er Halldór var fyrsta sinni kjörinn formaður. Nánir samstarfsmenn Halldórs sem fyrr er lýst komust allir til valda og áhrifa innan flokksins og urðu öll ráðherrar af hálfu flokksins í formannstíð Halldórs, nema Jóhannes Geir, sem reyndar varð stjórnarformaður Landsvirkjunar. Valgerður Sverrisdóttir er nú sú eina eftir af þessum hópi sem enn er í ríkisstjórn en hún tók sæti Halldórs í lykilráðuneyti við brotthvarf hans síðar meir, en hún varð eins og kunnugt er utanríkisráðherra. Mörgum kom sú vegtylla hennar á óvart en ekki mér, ég hafði spáð því nokkru áður en hún var valin til starfsins að það yrði hún sem myndi taka sess Halldórs við brotthvarf hans. Það vekur mikla athygli nú að henni er augljóslega ætlað að leiða mál til formannsskipta.

Í ævisögu Steingríms Hermannssonar fer hann yfir litríkan stjórnmálaferil - bæði hápunkta og lægri punktana á ferlinum. Merkilegast af öllu er að kynnast valdablokkum innan Framsóknarflokksins sem til urðu undir lok valdaferils Steingríms. Þær valdablokkir eru enn til í flokknum en með öðrum formerkjum. Nú þegar að þáttaskil blasa við Framsóknarflokknum í skugga brotthvarfs Halldórs Ásgrímssonar úr stjórnmálum verður fróðlegt að sjá hvort að átök verði um leiðtogastól flokksins. Margir sjá formannstakta þessa dagana á Guðna Ágústssyni og margir vilja leiða Jón Sigurðsson, fyrsta utanþingsráðherrann í tvo áratugi, til æðstu metorða. Greinilegar blokkamyndanir má sjá í því að Steingrímur hefur opinberlega talið Guðna vænlegan til forystu, en hann studdi Steingrím mjög í öllu sem gekk á hjá honum, sérstaklega undir lokin í erjunum í ársbyrjun 1993.

Það var áhugavert að rifja upp kynnin af þessu æviminningum Steingríms Hermannssonar - sérstaklega þar sem lýst er hápunkti ferils hans með forsæti í ríkisstjórn og endalokum ferilsins í skugga innanflokksátaka um miðjan tíunda áratuginn. Með því má sjá valdablokkir sem til staðar eru. Merkilegt verður að sjá hvort þær gangi í endurnýjun lífdaga við formannskjör í Framsóknarflokknum eftir tvo mánuði þegar að valinn verður sá forystumaður sem leiða mun flokkinn í gegnum þingkosningar eftir ellefu mánuði - inn í nýja pólitíska tíma.