Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 júlí 2006

Helga Jónsdóttir ráðin bæjarstjóri í Fjarðabyggð

Helga Jónsdóttir

Helga Jónsdóttir, borgarritari í Reykjavík, hefur nú verið ráðin bæjarstjóri í Fjarðabyggð, úr hópi 20 umsækjenda um stöðuna. Helga mun taka við bæjarstjóraembættinu af Guðmundi Bjarnasyni þann 1. september nk. Guðmundur hefur verið bæjarstjóri á Austfjörðum í tæp sextán ár. Hann tók við bæjarstjóraembættinu í Neskaupstað í desember 1990 er Ásgeir Magnússon flutti hingað til Akureyrar og varð framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Guðmundur var bæjarstjóri í Neskaupstað til ársins 1998 er sveitarfélagið sameinaðist Reyðarfirði og Eskifirði í Fjarðabyggð og varð hann þá fyrsti bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Í aðdraganda kosninganna í vor sameinaðist gamla Fjarðabyggð, Mjóafirði og Austurbyggð. Hlaut sveitarfélagið nafnið Fjarðabyggð, eins og eitt hið eldra.

Enginn vafi lék á því að Helga var hæfasti umsækjandinn um bæjarstjóraembættið í Fjarðabyggð og ég tel að það sé sterkur leikur fyrir meirihlutann í sveitarfélaginu að ráða hana til starfa. Helga er vissulega mjög reyndur kandidat og hefur á að skipa löngum starfsferli hjá hinu opinbera. Helga hefur verið borgarritari í Reykjavík frá árinu 1995 og verið sviðsstjóri Stjórnsýslu- og starfsmannasviðs Reykjavíkurborgar frá árinu 2005. Áður en Helga varð borgarritari var hún aðstoðarmaður Steingríms Hermannssonar sem utanríkis- og forsætisráðherra og um skeið skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu. Hún hefur auk þess verið varafastafulltrúi hjá Alþjóðabankanum og varð fyrsta kvenna stjórnarformaður Landsvirkjunar.

Það er eflaust hægt að telja lengi upp verk Helgu Jónsdóttur. Það er þó alveg ljóst að það markar mikil tíðindi að hún hafi sótt um bæjarstjóraembættið fyrir austan og verið svo valin til starfans. Með því losnar valdamikið embætti í Ráðhúsinu, embætti borgarritara og forstöðumanns stjórnsýslusviðs borgarinnar. Það verður fróðlegt að sjá hver verður valinn í hennar stað í Ráðhúsinu.