Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 júlí 2006

Skipað í stöður bæjarstjóra

Siglufjörður

Í dag var gengið frá ráðningu Þóris K. Þórissonar í embætti bæjarstjóra í Fjallabyggð, nýju sameinuðu sveitarfélagi Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Frétt um ráðningu hans lak út áður en hún var formlega samþykkt í bæjarstjórn. Þórir er ekki þekktur maður í pólitíkinni hér norðan heiða og verður fróðlegt að fylgjast með verkum hans. Það blasa mörg stór verkefni við Þóri sem nýjum bæjarstjóra í Fjallabyggð. Að auki hefur nú nýlega verið gengið frá ráðningu Sigbjörns Gunnarssonar, fyrrum alþingismanns og sveitarstjóra í Mývatnssveit, sem sveitarstjóra Þingeyjarsveitar. Sigbjörn sat á þingi árin 1991-1995 og var sveitarstjóri í Mývatnssveit 1997-2005. Sigbjörn skipaði eins og flestir vita væntanlega sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri í sveitarstjórnarkosningunum í vor.

Í dag var tilkynnt hverjir hefðu sótt um bæjarstjórastarfið í Norðurþingi, sameinuðu sveitarfélagi í N-Þingeyjarsýslu. Þar sóttu tólf um. Meðal þeirra sem sækja um embættið eru Friðfinnur Hermannsson framkvæmdastjóri, Róbert Trausti Árnason fyrrum sendiherra, og Sigríður Hrönn Elíasdóttir fyrrum sveitarstjóri. Sýnist mér á öllu líklegast að Friðfinnur Hermannsson verði ráðinn bæjarstjóri. Hann er öllum hnútum kunnugur í sveitarfélaginu og var leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á Húsavík á liðnu kjörtímabili. Það er alveg ljóst á umsækjendum að vart koma nema þrír til fjórir til greina og væntanlega stendur Friðfinnur þar sterkast að vígi. Hann hlýtur altént að teljast langsterkastur af þessum tólf ásamt Róberti Trausta.

Framundan er að ganga frá ráðningu bæjarstjóra í Fjarðabyggð. Ef marka má lista 20 umsækjenda er Helga Jónsdóttir, borgarritari, væntanlega hæfasti umsækjandinn. Það verður fróðlegt að sjá hver verður ráðinn til starfa. Sögusagnir hafa gengið um að Björn S. Lárusson sé talinn líklegastur, enda greinilega vel tengdur inn í flokkskjarna framsóknarmanna í sveitarfélaginu. Varla koma margir til greina úr þessum hópi umsækjenda. Verður fróðlegast að sjá hvort að Samfylkingin eða Framsóknarflokkurinn fær bæjarstjórann og hvor aðilinn fær nýstofnað embætti sérlegs aðstoðarmanns bæjarstjórans. Þar liggja væntanlega skiptingarnar í bitlingaskiptunum í Fjarðabyggð.