Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 júlí 2006

Sumarsæla í Aðaldal - eðalmyndir - stefnuleysi SF

Laxá í Aðaldal

Var að koma heim eftir yndislega helgi í bústað okkar í fjölskyldunni í Aðaldalnum. Það er alltaf frábært að halda í Núpakot. Þar er alltaf eðalblíða og frábært að vera. Ákvað að fara í gær ásamt fleira fólki til að sleikja sólina og hafa það gott. Það var sól og blíða allan tímann og yndislegt veður - fórum í gott sólbað við bústaðinn skömmu eftir komuna. Fórum svo í góðan göngutúr niður að ánni - ákváð nú ekkert að veiða í þetta skiptið, þó að eflaust hefði verið gott tækifæri til að veiða eitthvað í kvöldmatinn. Hefði verið gott að grilla silung eða lax, ef vel hefði fiskast. Eftir stutta ferð til Húsavíkur, þar sem ég fór að versla í kvöldmatinn, grilluðum við í góðu veðri við bústaðinn.

Var svo gott veður að við borðuðum að sjálfsögðu úti á palli. Grillaði ég svínahnakka og hafði með gott meðlæti. Veðurblíðan var yndisleg og alveg frábært að sitja á pallinum og borða góðan mat í geislum sólarinnar og góða veðursins. Seinna um kvöldið var nóg fjör í hópnum og við spjölluðum langt fram á nótt um ýmsa hluti. Sem betur fer voru stjórnmálin algjörlega geymd heima þessa helgina og lítið yfir þau farið, enda veðrið of gott fyrir stjórnmálatal. Var sofið vel út í morgun og eftir góðan hádegismat voru gestirnir kvaddir. Áður en haldið var heim til Akureyrar bar ég viðarolíu á pallinn, enda nauðsynlegt að leggja í það verkefni.

Þegar heim til Akureyrar var komið var þar þoka og lítið spennandi veður miðað við blíðuna austur í Aðaldal. Ég held að ég hafi gert rétt við það að halda austur í gær - þetta var yndisleg helgi. Maður kemur endurnærður heim úr rólegheitunum þar. :D


Audrey Hepburn í Roman Holiday

Eins og ég sagði á föstudag horfði ég á On the Waterfront það kvöldið. Eins og ég hafði minnst á var Roman Holiday með Audrey Hepburn og Gregory Peck sett í tækið þar á eftir. Alla þá tíð sem ég hef metið kvikmyndir hefur Roman Holiday verið hátt skrifuð hjá mér. Þar er um að ræða ljúflétta kvikmynd frá árinu 1953 sem segir sögu Ann prinsessu, sem er á ferð um nokkrar borgir Evrópu. Er hún er stödd í Róm hefur hún fengið nóg af skyldum sínum og þunganum sem fylgir á ferðinni og ákveður að halda út og kynna sér borgina eins og hún er í raun og veru, en ekki bara þeim hliðum sem hún sér í vel skipulagðri dagskrá. Kynnist hún blaðamanninum Joe Bradley og hann sýnir henni Róm eins og hún gerist best. Myndin sýnir Rómarborg þokkafyllri en nokkru sinni á ferð þeirra.

Audrey Hepburn hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Ann prinsessu. Var þetta fyrsta stórhlutverk hennar í Hollywood. Fór hún á kostum í myndinni ásamt Gregory Peck. Audrey hlaut óskarinn fyrir leik sinn sem var rómaður af gagnrýnendum um allan heim. Stjarna var þar með fædd. Á næstu áratugum lék Audrey í fjölda ógleymanlegra kvikmynda sem halda minningu hennar hátt á lofti. Hún lést úr krabbameini í janúar 1993, en skömmu fyrir lát sitt hafði hún helgað sig barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og var velgjörðarsendiherra í nafni þeirra víða um heim. Gregory Peck var einn af vinsælustu leikurum heims og hlaut óskarinn fyrir túlkun sína í To Kill a Mockingbird árið 1962. Hann lést árið 2003. Roman Holiday er yndisleg mynd í alla staði og alltaf notalegt að horfa á hana. Mæli með henni.

Í kvöld ætla ég að horfa á hina yndislegu From Here to Eternity með Burt Lancaster, Deborah Kerr, Montgomery Clift, Frank Sinatra, Donnu Reed og Jack Warden. Frábær leikarahópur í kvikmynd sem hlaut átta óskarsverðlaun og er enn í dag talin ein besta kvikmynd síns tíma. Talandi um Jack Warden. Sá frábæri leikari, sem setti svip sinn á fjölda ógleymanlegra kvikmynda, lést í vikunni, 85 ára að aldri. Warden var frábær leikari og enginn gleymir honum sem sá hann brillera í All the President´s Men, From Here to Eternity, Heaven Can Wait og Twelve Angry Men. Ætla að skrifa um hann á morgun. Ennfremur ætla ég að horfa á Syriana með George Clooney, en ég var að kaupa hana á DVD í dag. Frábær og spennandi mynd - Clooney hlaut óskarinn fyrr á árinu fyrir leik sinn í henni.


ISG

Skömmu eftir komuna heim til Akureyrar smellti ég mér inn á visir.is og horfði á þáttinn Pressuna sem var í hádeginu í dag á NFS. Sá þar athyglisvert spjall Borgars Þórs Einarssonar, Guðmundar Ólafssonar og Margrétar S. Björnsdóttur um mögulegt samstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins. Horfði á af miklum áhuga. Fínasta spjall. Sá svo undir lok þáttarins merkilegt viðtal Helga Seljan, frænda míns, við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar. Farið yfir margt spennandi, enda hefur svosem nóg verið að gerast í sumar og alltaf eru næg pólitísk verkefni framundan. Kosningavetur er að fara að hefjast og ber allt tal stjórnmálanna keim af því þessar vikurnar.

Heldur fannst mér Ingibjörg Sólrún þó tafsast allverulega yfir stóriðjutalinu, einkum hvað varðar stóriðju við Húsavík. Talar aðra stundina gegn stóriðju en reynir svo að komast hjá því er talað er um Húsavík í stöðunni. Algjört stefnuleysi. Vil gjarnan fá að vita hvar Samfylkingin stendur í því máli - sem og reyndar svo mörgum öðrum málum þessar vikur, t.d. varnarmálunum en í utanríkismálum virðist Samfylkingin vera algjörlega stefnuflaktandi frá degi til dags.

Það verður að segjast eins og er að ISG talar úr og í um málin svo að margir standa gapandi hissa yfir tíðindalausu stefnublaðrinu. Það er ekki furða þó að Samfylkingin sé með allt niðrum sig þessar vikurnar á hásumri og eftir langa eyðimerkurgöngu í stjórnarandstöðu - svo mikið er nú algjörlega víst.