Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 júlí 2006

Framboðsmál Sjálfstæðisflokksins í NA

Halldór, Arnbjörg og Kristján Þór

Um þessar mundir eru tíu mánuðir til alþingiskosninga. Spenna er því tekin að aukast vegna þess hvernig framboðslistar verða skipaðir í kjördæmunum að vori. Víða er því velt fyrir sér hvaða þingmenn muni gefa kost á sér til endurkjörs og hverjir muni taka þá ákvörðun að hætta. Það má fyrirfram búast við nokkrum breytingum á flestum framboðslistum hér í Norðausturkjördæmi. Er það ætlun mín að fara yfir framboðsmál þeirra stjórnmálaflokka sem eiga þingmenn kjörna í Norðausturkjördæmi næstu vikurnar. Er eflaust rétt að líta fyrst á framboðsmál Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi hlaut 5.544 atkvæði, eða 23,5%, í alþingiskosningunum þann 10. maí 2003 og tvo menn kjörna. Óhætt er að segja að úrslitin hafi valdið flokksmönnum í kjördæminu miklum vonbrigðum og útkoman verulega undir væntingum. Í sex efstu sætum framboðslistans í kosningunum árið 2003 voru Halldór Blöndal, Tómas Ingi Olrich, Arnbjörg Sveinsdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir, Hilmar Gunnlaugsson og Þorvaldur Ingvarsson. Halldór og Tómas Ingi hlutu því kjör en Arnbjörg Sveinsdóttir féll af þingi eftir átta ára þingsetu. Í aðdraganda kosninganna höfðu Tómas Ingi og Arnbjörg tekist á um að skipa annað sætið. Uppstillingarnefnd gerði tillögu um Tómas í annað sætið en við það sættu Austfirðingar sig ekki og kosið var á milli þeirra á þinginu og sigraði Tómas með yfirburðum.

Í aðdraganda þingkosninganna 2003 hafði Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi mikil áhrif í forystu flokksins, enda var Halldór forseti Alþingis og Tómas Ingi var menntamálaráðherra og hafði gegnt því embætti frá afsögn Björns Bjarnasonar í marsbyrjun 2002. Kosningabaráttan var erfið og rétt eins og hjá mörgum flokkum gekk ekki sem skyldi að sameina kjördæmahlutana og ekki bætti átök um annað sætið á kjördæmisþinginu úr skák. Úrslitin ollu sem fyrr segir miklum vonbrigðum og var mikið rætt að kosningum loknum um útkomuna. Það olli flokksmönnum í kjördæminu verulegum vonbrigðum þegar að forysta flokksins ákvað við myndun ríkisstjórnar að Tómas léti af ráðherraembætti við árslok 2003 og Halldór af forsetaembætti þingsins við upphaf þinghalds haustið 2005.

Halldór Blöndal

Halldór Blöndal hefur verið lykilmaður í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins hér á Norðurlandi allt frá námsárum sínum í MA og hefur setið þingflokksfundi nær samfleytt frá árinu 1961, sem starfsmaður flokksins og þingfréttaritari Morgunblaðsins áður. Halldór hefur verið alþingismaður frá desemberkosningunum sögufrægu árið 1979 og varð leiðtogi flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra við afsögn Lárusar Jónssonar af þingi árið 1984. Hann sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra árið 1987 og hefur síðan verið óskoraður leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í þeim kjördæmum sem hann hefur verið í stjórnmálaforystu í, Norðurlandi eystra og Norðausturkjördæmi. Halldór var landbúnaðarráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1991-1999.

Halldór varð forseti Alþingis sumarið 1999 og gegndi því embætti í sex ár, allt til haustsins 2005 eins og fyrr hefur verið sagt frá. Síðan hefur hann verið formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Nú þegar að Halldór hefur setið á Alþingi í tæpa þrjá áratugi og nálgast sjötugt eru uppi miklar vangaveltur um hvort að hann muni draga sig í hlé eða gefa kost á sér að nýju. Kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi hefur verið ákveðið dagana 14. og 15. október nk. Þar mun verða formlega ákveðið hvort framboðslistinn verði valinn með prófkjöri eða uppstillingu. Þar mun Halldór væntanlega tilkynna hvort að hann hyggi á framboð í væntanlegum kosningum. Þrátt fyrir að Halldór hafi ekki tilkynnt ákvörðun sína eru margar kjaftasögur í gangi varðandi framboðsmálin.

Kristján Þór

Alla tíð frá alþingiskosningunum 2003 hefur verið uppi þrálátur orðrómur um að Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, muni gefa kost á sér í alþingiskosningum að ári. Hann hefur verið forystumaður sveitarfélaga nær samfleytt í tvo áratugi og hefur verið bæjarstjóri á Akureyri allt frá árinu 1998. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna í vor var um fátt meira spurt en hvort að Kristján Þór ætlaði í þingframboð. Sigmundur Ernir Rúnarsson og Eyrún Magnúsdóttir þráspurðu bæjarstjórann um þingframboð í kosningabaráttunni og fræg var rimma Kristjáns og Eyrúnar í Kastljósþætti örfáum dögum fyrir kosningarnar í maí. Í þeim þætti gaf Kristján Þór út þá yfirlýsingu að hann myndi verða bæjarstjóri næstu fjögur árin veittu bæjarbúar honum umboð til þess. Sendi hann öllum bæjarbúum póstkort daginn fyrir kjördag með þeim skilaboðum.

Úrslit kosninganna voru nokkur vonbrigði fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri, en örfáum atkvæðum munaði að flokkurinn missti fjórða mann sinn í ellefu manna bæjarstjórn. Þó mátti væntanlega túlka úrslitin sem varnarsigur fyrir flokkinn miðað við skoðanakönnun birta nokkrum dögum fyrir kjördag sem benti til afhroðs flokksins og að hann fengi aðeins þrjá menn kjörna. Í kjölfar kosninganna lauk meirihlutaviðræðum með þeim hætti að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur mynduðu meirihluta. Þar lá fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn fengi bæjarstjórann í þrjú fyrstu ár kjörtímabilsins en Samfylkingin hið fjórða. Með því varð strax ljóst að Kristján Þór yrði ekki bæjarstjóri til loka kjörtímabilsins. Allt frá þeim tíma hefur Kristján Þór talað mun óskýrar um pólitíska framtíð sína og lokar engum dyrum á þingframboð.

Hávær orðrómur hefur verið uppi um það á Akureyri að þrír bæjarstjórar verði hér í bæ á þessum fjórum árum. Væntanlega er það rétt, nú þegar að flestallt bendir til þess að Kristján Þór fari í þingframboð. Mikið hefur verið talað um að Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar, sem nú er starfandi bæjarstjóri í sumarleyfi Kristjáns verði eftirmaður hans og sitji í embættinu til ársins 2009 er Hermann Jón Tómasson verður bæjarstjóri. Ennfremur er hávær orðrómur um það í bænum að skammt sé í það að formleg bæjarstjóraskipti verði. Vænta má líklega niðurstöðu í þessar vangaveltur innan skamms, en bæjarstjórinn íhugar næstu skref sín nú í sumarleyfi. Telja má allar líkur á að Kristján Þór gefi kost á sér í fyrsta sæti framboðslista flokksins í kjördæminu, sem muni leiða til bæjarstjóraskipta innan skamms.

Arnbjörg Sveinsdóttir

Miklar vangaveltur eru uppi um pólitíska framtíð Arnbjargar Sveinsdóttur. Hún missti, eins og fyrr segir, þingsæti sitt í alþingiskosningunum 2003 en tók sæti að nýju á Alþingi þann 1. janúar 2004 er Tómas Ingi Olrich sagði af sér þingmennsku í kjölfar þess að hann lét af embætti menntamálaráðherra og varð sendiherra. Arnbjörg var lítið áberandi fyrstu mánuðina eftir að hún tók sæti á þingi að nýju. Hún varð varaformaður þingflokksins haustið 2004 er Davíð Oddsson lét af embætti forsætisráðherra og Sigríður Anna Þórðardóttir varð ráðherra. Við hrókeringar innan Sjálfstæðisflokksins við lok stjórnmálaferils Davíðs ári síðar varð Arnbjörg þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og samhliða því mun meira áberandi í fjölmiðlaumræðunni.

Pólitísk staða Arnbjargar er nokkuð óljós. Má þó telja mjög líklegt að hún vilji færast ofar á framboðslistann og muni sækjast eftir því að leiða listann eða skipa annað sætið. Fullyrða má að hún njóti nokkuð óskoraðs stuðnings Austfirðinga til forystu. Staða hennar sem stjórnmálamanns veiktist mjög við að falla af þingi fyrir þrem árum en hefur styrkst nokkuð eftir því sem liðið hefur á kjörtímabilið. Það var til marks um álit Davíðs Oddssonar á Arnbjörgu að hún skyldi vera valin til að vera varaformaður þingflokksins fyrir tveim árum og svo valin þingflokksformaður að tillögu Davíðs skömmu áður en hann lét af trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í forystu hans fyrir tæpu ári. Arnbjörg hefur mikið verið áberandi fyrir norðan seinustu mánuði sem bendir til þess að hún muni sækjast eftir forystu á framboðslistanum.


Varaþingmenn flokksins í kjördæminu nú eru Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrum alþingismaður, og Hilmar Gunnlaugsson, lögmaður. Hefur Sigríður verið lítið áberandi í kjördæmastarfi flokksins frá seinustu þingkosningum og því talið ólíklegt að hún gefi kost á sér í kjördæminu í væntanlegum kosningum. Hilmar hefur verið áberandi í sínum verkum fyrir austan og jafnframt fróðlegt að sjá hvort að hann gefur kost á sér í ljósi mikilla anna í öðrum verkefnum. Nú þegar hefur Þorvaldur Ingvarsson, læknir, sem skipaði sjötta sæti listans síðast, tilkynnt um framboð sitt í væntanlegum kosningum. Það gerði hann í viðtali við blaðið Vikudag hér á Akureyri í júníbyrjun. Sagðist hann þar stefna á 1. - 3. sæti listans og taldi ólíklegt að það myndi skipta máli þó að Kristján Þór Júlíusson gæfi kost á sér.

Það er því ljóst að margir eru komnir í startholurnar, hafa annaðhvort þegar ákveðið framboð eða hugleiða það þessar vikurnar. Auk þeirra sem fyrr eru nefnd heyrast hér nöfn Davíðs Stefánssonar, fyrrum formanns Varðar og SUS, sem lengi var áberandi í stjórnmálum hér á svæðinu, Illuga Gunnarssonar, sem fæddur er og uppalinn á Siglufirði og hefur verið áberandi í pólitískum verkum fyrir og eftir að hann var aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar, Soffíu Lárusdóttur, forseta bæjarstjórnar á Fljótsdalshéraði, og margra fleiri. Staðan mun væntanlega skýrast fyrr en seinna hvað varðar framboðsmál almennt.

Jafnframt verður væntanlega horft til þess hvort ungliðar gefi kost á sér til verka með áberandi hætti. Eins og flestir vita hlutu ungliðar mikinn skell í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrr á þessu ári og hlýtur niðurstaða þess, í stærsta sveitarfélagi kjördæmisins, að vera ungliðum og eldri flokksmönnum mikilvægt veganesti til þeirra verkefna sem framundan eru, enda skiptir máli eigi flokkurinn að ná árangri að geta höfðað með góðum hætti til allra aldurshópa. Enginn vafi leikur á að staða flokksins á Akureyri hefði verið sterkari í kosningunum í vor hefði ungliðum verið treyst til verka.


Vangaveltur um gengi einstakra frambjóðenda ræðst mjög af því hvort að um prófkjör eða uppstillingu verði að ræða. Bendir flest til þess að prófkjör verði ofan á, enda eðlilegast í stöðunni. Prófkjör hefur ekki verið í norðurhluta kjördæmisins frá árinu 1987 er Halldór Blöndal varð leiðtogi í NE. Prófkjör var reyndar í Austurlandskjördæmi fyrir kosningarnar 1999, sem Arnbjörg Sveinsdóttir sigraði, en með því varð hún fyrsta konan sem leiddi framboðslista flokksins á landsvísu. Ákveðið var að hafa ekki prófkjör í aðdraganda kosninganna 2003, sem eftir á að hyggja hefði verið eðlilegast í stöðunni og hefði styrkt flokkinn í nýju kjördæmi.

Það verður eins og fyrr segir ákveðið á kjördæmisþingi í október hvert skuli stefna við val á framboðslistanum. Þá munu væntanlega línur hafa skýrst verulega um það hverjir gefi kost á sér til verka: annaðhvort þau sem fyrr eru nefnd eða aðrir sem ekki hafa verið áberandi í umræðunni né voru í framboði síðast. Verði efnt til prófkjörs má væntanlega búast við hressilegum og kraftmiklum átökum um forystusess flokksins í Norðausturkjördæmi.