Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 ágúst 2006

Arnbjörg gefur kost á sér í 1. sætið

Arnbjörg Sveinsdóttir

Haft var eftir Arnbjörgu Sveinsdóttur, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, í kvöldfréttatíma sjónvarpsstöðvarinnar N4 hér á Akureyri nú í kvöld að hún myndi gefa kost á sér í fyrsta sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi í komandi alþingiskosningum. Arnbjörg Sveinsdóttir var alþingismaður fyrir Austurlandskjördæmi árin 1995-2003 og hefur setið á þingi fyrir Norðausturkjördæmi frá 1. janúar 2004 er Tómas Ingi Olrich, fyrrum menntamálaráðherra, sagði af sér þingmennsku eftir að hafa látið af ráðherraembætti. Arnbjörg var leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Austurlandskjördæmi 1999-2003 og sigraði í prófkjöri flokksins þá og tók við leiðtogatigninni af Agli Jónssyni frá Seljavöllum. Arnbjörg varð með því fyrsta (og enn sú eina) konan sem hefur leitt framboðslista af hálfu Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum.

Arnbjörg hefur verið þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins frá síðasta þingsetningardegi, laugardaginn 1. október 2005, í kjölfar þess að Einar Kristinn Guðfinnsson varð sjávarútvegsráðherra. Hún hafði árið áður tekið við varaformennsku þingflokksins af Sigríði Önnu Þórðardóttur, þegar að hún varð umhverfisráðherra. Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga var ákveðið hjá Sjálfstæðisflokknum hér í kjördæminu að stilla upp á lista. Tillaga kjörnefndar var sú að Halldór Blöndal yrði í fyrsta sætinu, Tómas Ingi í því öðru og Arnbjörg í þriðja sætinu. Arnbjörg gaf við svo búið kost á sér í annað sætið og var kosið á milli þeirra um sætið. Tómas Ingi Olrich vann þá kosningu með 2/3 greiddra atkvæða. Arnbjörg missti þingsæti sitt í kosningunum en tók síðar sæti við brotthvarf Tómasar Inga.

Hávær orðrómur er um það að Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri hér á Akureyri, ætli að gefa kost á sér í fyrsta sæti framboðslistans en talað hefur verið um það alla tíð frá því að Tómas Ingi lét af þingmennsku að rödd Akureyrar þurfi að vera sterk á framboðslista næst. Þegar er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hér á Akureyri hefur ekki embætti bæjarstjóra út kjörtímabilið og því öruggt að breytingar á pólitískum högum bæjarstjórans verða á kjörtímabilinu og mjög litlar líkur á því að hann gefi kost á sér til endurkjörs í næstu bæjarstjórnarkosningum sem leiðtogi listans og eða sem bæjarfulltrúi yfir höfuð. Kristján Þór hefur sýnt á sér skýrt fararsnið og gat t.d. eftir myndun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hér í júníbyrjun ekki tilkynnt með afgerandi hætti hvort hann yrði bæjarstjóri til ársins 2009, þann tíma sem samið er um að flokkurinn hafi embættið.

Í fyrrnefndum fréttatíma N4 var haft eftir Þorvaldi Ingvarssyni, lækni og formanni Sjálfstæðisfélags Akureyrar, að hann stefni að framboði í efstu sæti framboðslista flokksins í kjördæminu og hann útilokar ekki að takast á við Arnbjörgu og Kristján Þór um leiðtogastöðuna. Það má því eiga von á spennandi mánuðum innan Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi. Enn hefur Halldór Blöndal, alþingismaður og leiðtogi flokksins í kjördæminu, ekki tekið ákvörðun um hvað hann gerir en ef marka má staðarblaðið Vikudag hér í dag mun hann tilkynna um ákvörðun sína á kjördæmisþingi í Mývatnssveit í október. Heimildir N4 og blaðsins gefa til kynna að hann muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs.

Á kjördæmisþinginu í október verður tekin afstaða til þess hvort að fram eigi að fara prófkjör eða stillt upp á listann að tillögu kjörnefndar. Ég hef oft tekið það fram, skýrast í pistli mínum hér á vefnum þann 26. júlí sl, að mín skoðun sé að prófkjör eigi að fara fram. Það er hið eina rétta að frambjóðendur flokksins að vori verði valdir af öllum flokksbundnum sjálfstæðismönnum í kjördæminu.

Það er kominn tími til að gefa nýju fólki tækifæri til að gefa kost á sér og það er rétt að flokksmenn allir velji forystu flokksins í komandi kosningum og í þeim verkum sem við blasa á nýju kjörtímabili.