Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 september 2006

Kveðjustund

Stefán Friðrik Stefánsson

Það er óhætt að segja að nokkur tímamót verði í vefmálum mínum frá og með deginum í dag. Komið er að leiðarlokum á þessum vef, stebbifr.blogspot.com, en nú hætti ég formlega að uppfæra hann og mun þess í stað blogga á nýjum vef, stebbifr.blog.is. Þetta eru já nokkur tímamót fyrir mig, enda hef ég skrifað hér í nákvæmlega fjögur ár. En allt á sinn tíma og nú er kominn tími til að breyta til og yfirgefa þennan vettvang.

Nýr vefur á enn eftir að taka nokkrum útlitsbreytingum, en í þeim verður nú unnið í næstu dagana og klárað svo fljótt sem mögulegt má vera. Góðir menn á tæknideild Morgunblaðsins hafa unnið í því í dag og í gær að flytja yfir á nýja vefinn allar bloggfærslur mínar frá því í október 2002 er ég byrjaði að blogga, svo að ég held áfram þar eins og ekkert hafi í skorist. Þannig að ég byrja ekki frá grunni á bloggvef Moggans. Ég ætla að vera duglegur að blogga á þessum kosningavetri.

Ég vil þakka öllum þeim sem hafa lesið þennan vef í gegnum þau fjögur ár sem hann hefur verið til og vonast eftir að þið lítið á nýja vefinn minn.

með kveðju frá Akureyri
Stefán Friðrik Stefánsson


17 september 2006

Tekur Össur við formennsku af Margréti?

Össur SkarphéðinssonMargrét Frímannsdóttir

Eins og flestir vita hefur Margrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, ákveðið að gefa ekki kost á sér í þingkosningunum að vori. Það ber flestum saman um það að ákvörðun Margrétar er mikið áfall fyrir Samfylkinguna, enda hefur Margrét verið einn öflugasti forystumaður flokksins og ein þeirra sem mest lögðu að mörkum til stofnunar hans. Persónufylgi hennar hefur tryggt flokknum mikið fylgi á Suðurlandi og það virðist vera framundan erfitt prófkjör í Suðurkjördæmi þar sem eftirmaður hennar verður valinn og allir aðrir þingmenn flokksins í kjördæminu munu væntanlega gefa kost á sér til að leiða framboðslistann að vori. Það er ekki ofsögum sagt að mikil uppstokkun sé að verða í Samfylkingunni og greinilegt að það er áfall fyrir flokkinn að missa mjög marga reynda þingmenn á einu kjörtímabili.

Ég heyrði þá kjaftasögu nú í kvöld að þetta myndi sjálfkrafa þýða að Margrét myndi samhliða þessari ákvörðun láta af formennsku í þingflokki Samfylkingarinnar nú á allra næstu dögum. Hún telji nú rétt að láta af öllum forystustörfum fyrir flokkinn, en gegnir þingmennskunni sjálfri út kjörtímabilið. Margrét hefur verið þingflokksformaður Samfylkingarinnar í rúm tvö ár, en áður hafði hún verið varaformaður flokksins, en allt að því neyðst til að afsala sér varaformennskunni til að finna pólitískt hlutverk fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur eftir að henni mistókst að komast á þing í síðustu þingkosningum. ISG var þá án hlutverks en MF mun hafa við svo búið fórnað sinni stöðu til að halda friðinn innan flokksins. Það er greinilegt að mikil átök þeirra á milli hafa haft mikið um það að segja að hún nennir ekki að taka þátt í stjórnmálunum lengur og telur rétt að stokka upp.

Það verður fróðlegast að sjá hver tekur við formennsku þingflokks Samfylkingarinnar á þessum kosningavetri. 12 dagar eru þar til að Alþingi kemur saman og veturinn hefst fyrir alvöru í pólitíkinni. Þegar að kemur að vali þingflokksformanns Samfylkingarinnar er ekki óeðlilegt að litið sé til varaformanns þingflokksins, Kristjáns L. Möller. Æ líklegra er þó að mínu mati að Össuri Skarphéðinssyni, fyrrum formanni flokksins, verði falin formennskan til að finna honum hlutverk að nýju í forystu flokksins. Össur hefur verið ótrúlega duglegur og fullur elju og máttar eftir að hann missti formennsku yfir til svilkonu sinnar í fyrravor. Hann hefur bloggað af miklum krafti og vefur hans er orðinn langöflugasti bloggvettvangur Samfylkingarinnar. Á sama tíma og Össur herti sig við skrifin lokaði formaður flokksins sínum vef með kostulegum hætti.

Það verður fróðlegt að sjá hvort þetta er rétt og að Össuri verði fundið hlutverk nú þegar að flokkurinn hefur orðið fyrir því gríðarlega áfalli að missa Möggu Frímanns.

Göran Persson víkur úr stjórnmálum

Göran Persson

Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar og leiðtogi sænska Jafnaðarmannaflokksins, játaði ósigur sinn í sænsku þingkosningunum nú í kvöld með ræðu í höfuðstöðvum flokksins í Stokkhólmi. Það var tilfinningarík ræða og öflug að mjög mörgu leyti. Það er ekki hægt að segja annað en að Persson hafi átt nokkuð glæsilegan stjórnmálaferil og kraftmikinn. Endalokin eru ekki í samræmi við það. Tap jafnaðarmanna og vinstriblokkarinnar í kosningunum í dag blasir við og það er ljóst að Persson fer sneyptur af valdastóli. Hann hefur verið forsætisráðherra og leiðtogi kratanna í tíu ár og verið einn af sterkustu stjórnmálamönnum Norðurlandanna á þessum tíma. En hann skilur við flokk sinn í sárum og þar er framundan harðvítugt og erfitt leiðtogakjör.

Það blasir við öllum að stjórnmálaferli Persson er nú lokið. Endalokin eru beisk fyrir hann. Persson tók mikla áhættu með því að fara fram aftur og reyna að sigra þriðju kosningarnar í röð. En það var verkefni sem hann gat ekki landað og það verður erfiðir tímar fyrir Jafnaðarmannaflokkinn að fara í stjórnarandstöðu nú og með leiðtogakjör yfirvofandi. Nýr leiðtogi jafnaðarmanna verður kjörinn væntanlega á flokksþingi í mars. Vandamál jafnaðarmanna nú er það að enginn afgerandi eftirmaður er til staðar. Þar hefur Persson gnæft yfir alla forystumenn og í raun hefur allt snúist um forystu hans, sem var lengi mjög öflug og traust fyrir flokkinn. Segja má að síðasta kjörtímabil hafi alla tíð verið gríðarlega erfitt fyrir hann, það einkenndist af áföllum og hneykslismálum sem sliguðu flokkinn.

Göran Persson og Anna Lindh

Morðið á Önnu Lindh í september 2003 var gríðarlegt áfall fyrir Jafnaðarmannaflokkinn. Flokkurinn er enn í sárum eftir að hún hvarf svo snögglega og sorglega af hinu pólitíska sviði. Henni var í raun ætlað að leiða þessar kosningar og allir vissu að Persson vildu að hún tæki við. Pólitíska staðan innan flokksins er hún lést var erfið og Persson tók þá ákvörðun að halda í enn einar kosningarnar og reyna að sigra þær. Lindh hafði mikinn kjörþokka og stjörnuútlit sem stjórnmálamaður en var líka stjórnmálamaður innihalds, forystumaður sem tekið var eftir. Tómarúmið sem varð er hún var myrt er enn til staðar og það varð stingandi fyrir Jafnaðarmannaflokkinn. Eftir að hún hvarf virtist hvert hneykslismálið og vandræðin reka annað uns komið var á endastöð nú og hægrimenn náðu að sigra kratana.

Það er mjög erfitt í að spá hver taki við þessum öfluga valdaflokki Svía síðustu áratugina sem hefur upplifað sínar verstu kosningar og þungbærustu. Tapið er gríðarlegt áfall fyrir allar valdastofnanir Jafnaðarmannaflokksins og þar mun væntanlega hefjast gríðarlegt uppbyggingarstarf. Persson fer með hreinlega allt í rúst. Það er ryðguð arfleifð sem þar stendur eftir, hreint út sagt. Ég held að Anna Lindh hefði unnið þessar kosningar ef hún hefði leitt Jafnaðarmannaflokkinn. Lát hennar var eins og fyrr sagði lamandi áfall fyrir Jafnaðarmannaflokkinn, sem hann hefur ekki enn jafnað sig á. Þar fór framtíðarleiðtogi flokksins og Persson hefði ekki farið í þessar kosningar hefði hún lifað.

Anna Lindh

Hneykslismálin eftir lát Önnu Lindh höfðu úrslitaáhrif og t.d. hefði Persson átt að taka eftirmann Lindh sem utanríkisráðherra, Lailu Freivalds, fyrr úr ráðuneytinu en hún gerði hver mistökin á fætur öðrum. Persson klúðraði málum já herfilega ásamt Freivalds eftir flóðin í Asíu. En nú hefur Persson stigið af sviðinu, hefur misst völdin og pínlegt uppgjör er framundan. Það verður fróðlegt að sjá hverjum verði að lokum falið það hlutskipti að draga sænska jafnaðarmannaflokkinn upp úr þessum táradal sem hann heldur nú í. Sá leiðtogi mun þó alltaf lifa í skugga þess hvað hefði getað gerst ef Lindh hefði lifað. Þetta verða erfiðir tímar fyrir sænsku kratana.

Kratar missa völdin í Svíþjóð

Leiðtogar borgaraflokkanna

Skv. útgönguspám og fyrstu kosningatölum í Svíþjóð er ljóst að borgaraflokkarnir hafa sigrað sænsku þingkosningarnar sem fram fóru í dag. Það er því ljóst að vinstristjórnin undir forsæti Göran Persson er fallin. Persson hefur verið forsætisráðherra Svíþjóðar í áratug, frá árinu 1996. Þetta verður væntanlega lakasta útkoma krata í Svíþjóð og markar væntanlega endapunkt stjórnmálaferils Perssons, sem hefur verið langur og litríkur, en hann hefur verið einn forystumanna flokksins alla tíð frá valdaferli Olof Palme, sem var forsætisráðherra Svíþjóðar samtals í rúman áratug, allt þar til að hann féll fyrir morðingjahendi árið 1986.

Það blasir því við að Fredrik Reinfeldt, leiðtogi íhaldsflokksins Moderata, verður næsti forsætisráðherra landsins og borgaraflokkarnir komast til valda, en þeir stjórnuðu síðast undir forystu Carl Bildt árin 1991-1994. Það hefur verið vinstristjórn í Svíþjóð frá árinu 1994, en í raun hafa kratar ráðið þar meira og minna í áratugi. Væntanlega hefur mesta áfall kratanna í Svíþjóð orðið þegar að Anna Lindh var myrt fyrir þrem árum, en henni var í raun ætlað að leiða jafnaðarmenn í þessum kosningum. Dauði hennar veikti flokkinn gríðarlega, enda hafði hún verið krónprinsessa flokksins alla valdatíð Perssons.

Að Önnu Lindh látinni var enginn afgerandi eftirmaður og væntanlega hefur Persson skaðast af þeirri ákvörðun að fara fram aftur, en ekki láta nýtt leiðtogakjör fara fram. Það verður fróðlegt að sjá hver taki við af Persson sem leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, en með honum hverfur af hinu pólitíska sviði einn af öflugustu leiðtogum sænskra stjórnmála síðustu áratugina.

Margrét Frímannsdóttir hættir í stjórnmálum

Margrét Frímannsdóttir

Margrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar og síðasti formaður Alþýðubandalagsins, tilkynnti á kjördæmisþingi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi í dag um þá ákvörðun sína að gefa ekki kost á sér í alþingiskosningunum að vori. Það eru stórtíðindi að Margrét hætti í stjórnmálum. Margrét Frímannsdóttir hefur setið á þingi frá árinu 1987. Hún hefur verið einn helsti leiðtogi vinstrimanna hérlendis í tæpa tvo áratugi og verið öflug í sinni stjórnmálabaráttu. Hún var þingflokksformaður Alþýðubandalagsins 1988-1992, formaður Alþýðubandalagsins 1995-2000, varaformaður Samfylkingarinnar 2000-2003 og þingflokksformaður Samfylkingarinnar frá 2004. Hún hefur leitt framboðslista í öllum kosningum frá árinu 1987 á Suðurlandi.

Margrét Frímannsdóttir var fyrsta konan sem leiddi einn af gömlu fjórflokkunum og sigur hennar yfir Steingrími J. Sigfússyni í hörðu formannskjöri í Alþýðubandalaginu er Ólafur Ragnar Grímsson lét af formennsku árið 1995 var nokkuð sögulegur. Án hennar hefði Alþýðubandalagið aldrei farið í sameiningarviðræður við kratana og Kvennalistakonur. Hún stýrði málinu og var óneitanlega ljósmóðir Samfylkingarinnar. Það mæddi oft gríðarlega á henni undir lokin í Alþýðubandalaginu er Steingrímur J. og hans fylgismenn klufu sig frá og stofnuðu eigin flokk. Ennfremur var hún talsmaður Samfylkingarinnar í alþingiskosningunum 1999, en það voru fyrstu kosningar flokksins. Sennilega voru alþingiskosningarnar 1999 þær kosningar sem mest reyndu á hana, en hún leiddi Samfylkinguna fyrstu skrefin.

Ég held að það sé ekki ofmælt að brotthvarf Margrétar Frímannsdóttur veiki Samfylkinguna. Hún var sannkölluð ljósmóðir flokksins og tryggði að flokkurinn komst í raun á koppinn. Það hefur öllum verið ljóst að Margrét Frímannsdóttir hefur verið gríðarlega öflugur leiðtogi á Suðurlandi og átti sér persónufylgi langt út fyrir flokkinn. Hún kom enda úr grasrótinni og hefur verið í pólitík síðan að hún var ung. Sennilega má segja að hún hafi byrjað í pólitík í hreppspólitíkinni, enda var hún lengi oddviti í heimabæ sínum, Stokkseyri, og varð svo þingmaður 33 ára og var alla tíð í forystusveitinni á vinstrivængnum. Það vekur verulega athygli að Margrét ákveði að hætta. Hún er jafngömul Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar. Báðar eru þær fæddar árið 1954.

Margrét Frímannsdóttir

Margrét greindist með krabbamein skömmu eftir prófkjörssigur sinn í Suðurkjördæmi í ársbyrjun 2003. Meginhluta kosningabaráttunnar var hún í meðferð við því meini en tók þátt í kosningabaráttunni undir lokin. Rétt eins og Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, gerði í veikindum sínum, vafði hún túrban um höfuðið til að hylja hárleysið. Hún stóð sig gríðarlega vel við erfiðar aðstæður. Hvernig hún tókst á við erfiða kosningabaráttu í skugga veikinda árið 2003 var mikill persónulegur sigur hennar. Það er öllum ljóst að Margrét hefur verið gríðarlegt akkeri Samfylkingarinnar. Þó hefur öllum verið ljóst að samstarf hennar og Ingibjargar Sólrúnar hefur verið mjög stirt, frá kjöri ISG í formannsstólinn og þeim tíma er hún eiginlega allt að því neyddist til að fórna varaformennsku flokksins fyrir ISG eftir að hún var hrakin úr borgarstjórastól.

Reyndar eru miklar breytingar nú að eiga sér stað innan flokksins. Margrét er að hætta. Einnig hafa Jóhann Ársælsson og Rannveig Guðmundsdóttir tilkynnt að þau gefi ekki kost á sér aftur í þingkosningum. Á kjörtímabilinu hættu auk þess bæði Guðmundur Árni Stefánsson og Bryndís Hlöðversdóttir þingmennsku. Það leikur enginn vafi á því að það veikir verulega Samfylkinguna að missa svona marga forystumenn á einu bretti, enda voru þetta allt leiðtogar innan flokksins með miklar sögulegar tengingar fyrir þennan unga flokk.

En ákvörðun Margrétar er áfall fyrir Samfylkinguna, sem sannar sig best í því að landsþing UJ samþykkti í dag áskorun á Margréti um að fara aftur fram og minnt á að ef hún hætti hefði það veruleg áhrif á stöðu flokksins t.d. í Suðurkjördæmi.

16 september 2006

Sögupistill - söguleg stjórnarslit 1988

Steingrímur og Jón Baldvin

Í langri sögu sinni hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið kjölfestan í íslenskum stjórnmálum, stýrt málum af krafti og verið leiðandi stjórnmálaafl. Það hefur verið einn helsti aðall flokksins að geta farið fyrir sterkum tveggja flokka stjórnum og jafnan leitast eftir að fá umboð til að leiða slíkar stjórnir. Við ungliðar í flokknum þekkjum t.d. fátt annað en tveggja flokka stjórnir með þátttöku Sjálfstæðisflokksins sl. 15 ár. Sjaldan hefur það gerst að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tekið þátt í myndun þriggja flokka ríkisstjórnar. Í kjölfar þingkosninganna 1987 var Sjálfstæðisflokkurinn ekki í aðstöðu til að mynda tveggja flokka stjórn. Svo fór að flokkurinn myndaði þá ríkisstjórn með Alþýðuflokki og Framsóknarflokki undir forsæti Þorsteins Pálssonar.

Í sögupistli mínum á sus.is í dag er fjallað um þetta stormasama stjórnarsamstarf og söguleg endalok þess í kastljósi fjölmiðla haustið 1988. Um helgina eru 18 ár liðin frá endalokunum og því er það mjög viðeigandi að skrifa þessa sögu nú. Eftir viku mun ég í sögupistli fjalla um formannskjörið í Sjálfstæðisflokknum árið 1991, þegar að Davíð Oddsson, þáv. borgarstjóri og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, felldi Þorstein Pálsson af formannsstóli Sjálfstæðisflokksins með mjög sögulegum hætti.

15 september 2006

Verður NFS slegin af?

NFS

Sá orðrómur hefur farið eins og eldur í sinu síðustu klukkutímana í fjölmiðla- og viðskiptaheiminum að NFS-fréttastöð 365-ljósvakamiðla verði slegin af og það muni verða tilkynnt formlega á morgun. Fréttin birtist fyrst á bloggvef Steingríms Ólafssonar, fyrrum fréttamanns og almannatengslaráðgjafa Halldórs Ásgrímssonar í forsætisráðherratíð hans, síðdegis í dag og síðan hefur umræðan aukist og um fátt verið meira rætt á netinu nú í kvöld. Séu þessar fregnir sannar blasir endanlega við öllum hversu gríðarlega hriktir nú í stoðum 365 - fjölmiðlaveldisins og greinilegt að það á að höggva allt það af sem Gunnar Smári kom á fót í fyrirtækinu á sínum tíma. Vangaveltur eru um hversu miklar uppsagnir verði sé rétt að stöðinni verði lokað. Við öllum blasir að morgundagurinn verði blóðugur í íslenskri fjölmiðlasögu enda ljóst að fjöldauppsagnir taki við.

Það er ekki enn liðið ár frá fyrsta útsendingardegi NFS. Hún hóf göngu sína 18. nóvember 2005 með miklu pomp og prakt. Í aðdragandanum hafði fréttastofa Stöðvar 2, sem starfað hafði þá í 19 ár eða allt frá stofnun Stöðvar 2 árið 1986, verið slegin af og fréttastarfsemi ljósvakamiðlanna færð frá Lynghálsi í Skaftahlíð á jarðhæð húsnæðis Fréttablaðsins og þar innréttað stúdíó og vegleg fréttastofa sem var í baksýn stúdíósins. Í öllum útsendingum sáust því fréttamenn í baksýn útsendingarinnar og þótti stöðin hafa á sér blæ stóru erlendu fréttastöðvanna og öllum ljóst hvaðan fyrirmyndirnar kæmu. Allt frá fyrsta degi hefur verið áhugaverð dagskrárgerð á stöðinni og í raun ekkert til sparað, mikið verið af beinum útsendingum og tekið á öllum helstu álitaefnum þjóðmálaumræðunnar í umfjöllun.

Vandi stöðvarinnar var þó allt frá upphafi einn - og hann nokkuð stór, að flestra mati. Áhorf og auglýsingatekjur brugðust, það sem átti að vera eldsneyti stöðvarinnar inn í framtíðina gaf sig fljótt og hefur skuldahali stöðvarinnar því sífellt aukist eftir því sem liðið hefur á þetta fyrsta útsendingarár NFS. Það mistókst að gera stöðina að hringamiðju tilveru landsmanna og henni hefur aldrei tekist að halda markvissum auglýsingatekjum til að kynda undir allan kostnað, sem hefur verið gríðarlegur. Dælt hefur verið peningum gegndarlaust í allar áttir og því er nú væntanlega komið að því að velta verði því fyrir sér hvort stöðin sé orðin eldsneytislaus á tíunda útsendingarmánuðinum. Margir landsmenn hafa hlustað á dagskrána í útvarpinu og eða í tölvunni sinni en hún hefur aldrei orðið sterk sjónvarpsstöð sem slík.

Það var um miðjan júlímánuð 2005 sem Gunnar Smári og fólkið í kringum hann innan 365 ákvað að koma á fréttastöð í sjónvarpi. Í upphafi er hugmyndin var kynnt var á teikniborðinu 16 tíma sjónvarpsstöð sem yrði fréttaveita til landsmanna í gegnum daginn. Hugmyndir urðu um að samnýta undir einn hatt alla fréttaþjónustu 365 ljósvakamiðla og var fréttavefur Vísis gerður að miðju þess á netinu og stöðin send út á sjónvarpstíðni og ennfremur á útvarpsrás þeirri sem talmálsstöðin Talstöðin hafði áður yfir að ráða. Þetta var því allt í einu orðin samtengt afl í fréttaþjónustu. Hugmyndin fæddist hægt og rólega og unnið með hana með þessum grunnhætti allt til fyrsta útsendingardags í nóvember 2005. Í ítarlegum pistli á vefritinu íhald.is sumarið 2005 tók ég orðrétt svo til orða um nýju fréttastöðina:

"Óneitanlega tel ég að 365 skjóti boltanum mjög hátt með því að starta þessari fréttastöð. Það má deila um hvort pakkinn muni ganga eða þá hvort að menn séu að tefla á vöð sem halda ekki. En tillagan er djörf og ef hún gengur er kominn fjölmiðill sem mun byggjast upp sem öflug fréttaveita til allra landsmanna, í gegnum sjónvarpið, netið og útvarpið - allt í senn." Þegar að þessi orð voru rituð var ég fullur efasemda um að þessi stöð gæti gengið, eins og sjá má af orðalaginu. Ég verð þó að viðurkenna að ég taldi mig hafa rangt fyrir mér er kom að fyrsta útsendingardegi og eftir því sem leið á fyrstu mánuðina töldu flestir að smágallar á NFS við byrjun væru smávægilegir en myndu slípast af og önnur augljós vandræði myndu hverfa. Það hefur ekki gerst og því væntanlega komið að örlagadegi hjá stöðinni.

Mörgum þótti hugmyndin djörf er hún var kynnt fyrst sumarið 2005 og ekki voru allir á eitt sáttir. Einn þeirra sem ekki var sáttur við hugmyndina var Páll Magnússon, þáv. fréttastjóri Stöðvar 2. Hann tók ákvörðun um að yfirgefa frekar skútu 365 en halda í verkefnið og munu átök hafa orðið á æðstu stöðum þegar að Páll sagði við yfirmenn 365 að þessi hugmynd myndi aldrei ganga og yrði myllusteinn um háls fyrirtækisins. Við svo búið sagði Páll upp og sótti um lausa útvarpsstjórastöðu hjá Ríkisútvarpinu í kjölfarið. Hann var ráðinn til starfans og tók til starfa 1. september 2005. Eftir að hann kom til RÚV stokkaði hann upp ímynd fréttastofu Sjónvarps og tók Kastljósið og fleygði því og startaði nýjum og ferskum dægurmálaþætti sem hefur gengið mjög vel og eflst með hverjum mánuðinum.

Í viðtali í sumar við tímaritið Mannlíf sagði Páll að þessi hugmynd um NFS hefði verið glapræði og ástæða þess að hann ákvað að vera ekki áfram hjá 365. Það er greinilegt að varnaðarorð Páls Magnússonar, útvarpsstjóra, sumarið 2005 vegna stofnunar fréttastöðvar 365 í sjónvarpi hafa að öllu leyti gengið eftir. Það hlýtur að hlakka í keppinautum NFS þegar að við blasir að stöðin sé að renna sitt skeið og hverfi með manni og mús. Um leið og þessi yfirvofandi endalok kóróna erfiðleika fjölmiðlaveldisins má telja hætt við að það hrikti víða í mörgum stoðum á þessum föstudegi og á næstunni. Ef fréttastofa NFS verður slegin af má velta fyrir sér stöðu forystumanna fréttastofunnar. Hún getur varla talist sterk.

14 september 2006

"Nú segjum við stopp!"

Minningarkrossinn í Kirkjugarði Akureyrar

Það er ekki hægt að segja annað en að árið 2006 hafi verið skelfilegt í umferðinni. Nú þegar hafa 19 einstaklingar látið lífið í umferðinni á árinu. Staðan er mjög svört og gríðarlega sorgleg. Fjöldi þessara einstaklinga hafa látið lífið í blóma lífs síns. Það er alltof algeng sjón að sjá eða heyra andlátsfréttir ungs fólks sem hafa kvatt þessa jarðnesku tilveru í sorglegum slysum. Þetta er sorgleg þróun, sem okkur öllum ber skylda til að reyna að snúa við. Nú er kominn tími til að gera það. Í dag sjáum við í dagblöðunum auglýsingar með myndum af þeim sem látið hafa lífið og kynningu á borgarafundum sem haldnir voru um allt land nú síðdegis: undir yfirskriftinni: "Nú segjum við stopp!".

Síðustu daga hafa Jóhanna Vilhjálmsdóttir og Sigmar Guðmundsson stjórnað umfjöllun í Kastljósi Sjónvarpsins um umferðarmál í ljósi þessa sorglega ástands í málaflokknum. Þar hefur verið farið yfir fjölda þátta tengdu því sem gerst hafi í umferðinni. Ljóst er af þeirri umfjöllun að mörg umferðarslysanna á þessu ári megi rekja til áhættuhegðunar ökumanna. Það er því algjörlega ljóst að þörf er á róttækri hugarfarsbreytingu í umferðinni. Ég tel að þessi umfjöllun í Kastljósi veki fólk til umhugsunar. Það getur enda varla annað verið. Sérstaklega var dapurlegast að heyra af rosalegum ofsaakstri og hversu gríðarlega algengt sé að ökumenn keyri í umferðinni á yfir 140 km. hraða. Það er hreinn manndrápsakstur og blasir við að taka verður þessi mál til umræðu og vekja fólk til meðvitundar um að breyta þessari stöðu.

Nú er komið að því að þjóðarvakning verði í umferðarmálum. Það er alveg einfalt mál, miðað við stöðuna sem uppi er. Markmið þess sem gert var í dag var einkum að hvetja almenning í landinu til þess að hugleiða þær fórnir sem umferðin krefst og drúpa um leið höfði í virðingu við þá sem látið hafa lífið í umferðarslysum á árinu. Fundirnir voru allir með sambærilegu yfirbragði. Á þeim voru flutt stutt erindi fólks sem hefur upplifað það áfall og þá sorg sem fylgir alvarlegum slysum í umferðinni. Ennfremur lýstu lögreglu- eða sjúkraflutningamenn reynslu sinni af vettvangi auk þess sem samgönguráðherra flutti við athöfnina í Reykjavík ræðu og kynnti þar aðgerðaráætlun stjórnvalda gegn umferðarslysum. Stutt tónlistaratriði voru svo flutt á milli erinda og öllum fundunum lauk með bæn.

Nú hefur verið opnuð vefsíða, www.stopp.is, þar sem að landsmenn geta undirritað áheit um bætta hegðun og ábyrgð í umferðinni. Ég hvet alla til að rita nafn sitt þar inn. Í grunninn séð vekja þessi sorglegu umferðarslys okkur vonandi öll til lífsins í þessum efnum, eða ég ætla rétt að vona það. Dapurleg umferðarslys seinustu vikna og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða - það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Það er lykilverkefni að mínu mati.

Hentistefna Samfylkingarinnar í stóriðjumálum

ISG

Það hefur ekki farið framhjá neinum stjórnmálaáhugamanni í landinu að fylgi Samfylkingarinnar hefur dalað mjög á kjörtímabilinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gaf kost á sér til formennsku í Samfylkingunni á síðasta ári til að leiða flokkinn til nýrra pólitískra sigra og ráðandi stöðu í íslenskum stjórnmálum. Allir sem kynna sér fylgi Samfylkingarinnar frá landsfundi Samfylkingarinnar í fyrra er Ingibjörg Sólrún tók við formennsku sjá að fylgi flokksins minnkar sífellt. Samfylkingin hefur misst fylgi jafnt og þétt og er nú svo komið að Samfylkingin og Vinstrihreyfingin - grænt framboð standa á pari í skoðanakönnunum Gallups. Það hlýtur að jafnast á við martröð fyrir stuðningsmenn Samfylkingarinnar að vakna upp við svona fylgistap, enda ekki beint draumsýn þeirra sem studdu Ingibjörgu Sólrúnu til forystu í flokknum.

Það blasir við að Samfylkingin hefur misst mikið fylgi til vinstri og reyndar víðar en það, enda hafa margir hægrikratar yfirgefið flokkinn og gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Samfylkingin virðist því vera í mikilli krísu, þrátt fyrir vist í stjórnarandstöðu alla sína tíð. Ekki hagnast flokkurinn á stjórnarandstöðutali sínu allavega. Nú virðist eiga að gera tilraun innan flokksins að snúa vörn í sókn. Í gær kynntu Ingibjörg Sólrún og nokkrir þingmenn flokksins áherslur flokksins í umhverfismálum. Þar kemur fram að flokkurinn vill fresta þeim stóriðjukostum sem eru nú á borðinu og hafa verið ræddir seinustu árin. Það væri reyndar fróðlegt að heyra hvernig Samfylkingarfólki í Þingeyjarsýslu líði með þessa afstöðu. Varaþingmaður flokksins hér, Örlygur Hnefill Jónsson, hefur verið baráttumaður fyrir álveri við Húsavík og staðið fyrir álgöngu til stuðnings við hana. Honum er varla mikið skemmt yfir þessari nýju ásýnd flokksins.

Það er greinilegt þegar að litið er yfir tillögur Samfylkingarinnar að þar á að snúa við blaðinu og reyna nú að ná einhverju af því vinstrafylgi sem þeir hafa misst yfir til VG og fá það aftur til sín. Þessi stefnuáhersla Samfylkingarinnar kemur mörgum spánskt fyrir sjónir þegar að litið er á þá staðreynd að Samfylkingin var mjög afgerandi í stuðningi sínum við Kárahnjúkavirkjun og álver á Austurlandi fyrir nokkrum árum. Sérstaklega voru þingmenn flokksins í Norðausturkjördæmi, þeir Kristján L. Möller og Einar Már Sigurðarson, afgerandi stuðningsmenn þess og sagði Kristján í viðtali að loknum blaðamannafundinum að hann væri enn þeirrar skoðunar að álver hafi verið réttur kostur austur við Kárahnjúka. Enn merkilegra var að heyra tal formanns flokksins við að kynna þessa stefnu enda studdi hún virkjun og álver fyrir austan í borgarstjórn á sínum tíma.

Allir þeir sem kynna sér tal Samfylkingarinnar í stóriðjumálum nú og bera saman við það sem áður hefur þaðan komið í þeim efnum sjá vandræðagang og tækifærismennsku. Samfylkingin hefur lengst af verið dyggur stuðningsaðili stóriðjuframkvæmdanna á Austurlandi, þó vissulega ekki verið eindrægni um þann stuðning á öllum stöðum. En hann var engu að síður mjög ráðandi innan flokksins. Allir þeir sem telja sér trú um annað eru á villigötum. Samfylkingin hefur verið þekktust allra flokka hérlendis fyrir að skipta um skoðanir í takt við vindáttir stjórnmálanna. Hún brást ekki þeirri grundvallarreglu í þessu máli frekar en öðrum. Fyrst í stað var flokkurinn á móti virkjun og álveri fyrir austan. Kaflaskil urðu á árinu 2002 þegar kannanir hófu að sýna að meirihluti landsmanna studdi framkvæmdina. Þá snerist Samfylkingin!

Í kosningu um virkjunina á þingi í apríl 2002 studdu flestir þingmenn Samfylkingarinnar málið, en nokkrir þingmenn voru andvígir vissulega, t.d. Þórunn Sveinbjarnardóttir. Skömmu síðar snerist forysta flokksins algjörlega til stuðnings við helstu þætti málsins. Dyggustu málsvarar þess allan tímann voru þó forystumenn Samfylkingarinnar í gamla Austurlandskjördæmi, og var afstaða þeirra lengi vel algjörlega andsnúin því sem Samfylkingin á landsvísu hafði um málið að segja. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði sem borgarstjóri tjáð mikla andstöðu sína og R-listans við virkjun og álver á Austurlandi. Í kjölfar þess að hún varð forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í ársbyrjun 2003 snerist hún til fylgilags við málið, allt að því með óbragð í munni, enda hafði hún sem stuðningskona Kvennalistans verið andsnúin öllum meginhugmyndum um stóriðju.

Mjög frægt varð þegar að Ingibjörg Sólrún, sem lengi vel var einbeitt baráttukona gegn stóriðjuuppbyggingu, snerist eins og laufblað í vindi í borgarstjórn í janúar 2003 til fylgilags við virkjunina. Það voru merkileg þáttaskil en augljóslega vegna tækifærismennsku vegna landsmálaframboðs síns þar sem að hún þurfti stuðning landsbyggðarfólks. Í alþingiskosningunum 2003 tjáði Samfylkingin einarðlega stuðning við álverið, einkum í Norðausturkjördæmi, þar sem helstu málsvarar framboðsins voru eitt sinn hluti af óánægjuhópnum sem börðust fyrir málinu frá upphafi, t.d. Einar Már Sigurðarson, alþingismaður frá Neskaupstað. Frægt varð þegar Samfylkingarforystan var á kosningaferðalagi á Austurlandi og hélt eins og ekkert væri sjálfsagðara að skilti við væntanlegt framkvæmdasvæði og lét mynda sig við það og notuðu í kosningabaráttunni.

Það var óneitanlega athyglisvert að sjá helsta málsvara gegn stóriðju til fjölda ára, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem aldrei studdi hugmyndir um stóriðju meðan Kvennalistinn sálugi var til, gera sig að málsvara stóriðju á Austurlandi sem hún neyddist til að lýsa yfir stuðningi við til að friða öfl innan Samfylkingarinnar á landsbyggðinni. Enginn vafi er á því að stuðningur Samfylkingarinnar var alla tíð tengdur vinsældapólitík, ekkert annað lá þar að baki. Andstaða við málið lengst framanaf hjá forystunni og snögg umskipti vegna stuðnings landsmanna við málið blasa við öllum þegar fjallað verður um allt málið af sagnfræðingum framtíðarinnar. Ólíkt Samfylkingunni var Vinstrihreyfingin - grænt framboð heiðarleg í málinu allt frá upphafi og afstaða þeirra öllum ljós frá því fyrst var farið að tala um álver á Austurlandi seinnihluta tíunda áratugarins.

VG var frá upphafi andsnúinn öllum hugmyndum um þessar framkvæmdir fyrir austan og flokkurinn í Norðausturkjördæmi hugsaði þá frekar um öll umhverfissjónarmið málsins, en hagsmuni almennings, fólksins á Austfjörðum sem barðist fyrir málinu. Það var til marks um stjórnmálabaráttu VG sem hugsaði frekar um gæsirnar til fjalla en fólkið í byggð. Það er öllum hollt að rifja upp sagnfræðina í þessum stóriðjumálum og ekki er hún forystufólki Samfylkingarinnar í hag, þó að reynt sé nú af sumum forystumönnum flokksins að sá fræjum efasemdar um þessa framkvæmd sem meginþorri þingflokks og forystuhóps flokksins studdi einarðlega í atkvæðagreiðslu á þingi og á ögurstundu er gengið var síðast til alþingiskosninga. Sama fólk og studdi virkjun og álver fyrir austan þá talar um að álver sé ekki rétt nú. Undarleg afstaða sé litið til þess sem áður hefur gerst.

Það er því óneitanlega nokkuð skondið að sjá Samfylkinguna stíga nú í sviðsljósið og lýsa yfir að vænlegast til pólitískra afreka sé að spila vinstri grænu aðferðina í stóriðjumálum. Síðast spilaði hún sig sem talsmann stóriðju en skiptir um plötur eftir því hvernig árar í kringum flokkinn. Kannski fara forystumenn flokksins að fylgja ráði Ögmundar Jónassonar og skella hurðum á nefndafundum þingsins? Tja, hver veit? Það er Ekki kemur það neinum að óvörum þó að Þórunn Sveinbjarnardóttir sé ánægð með þennan nýja kosningabúning flokksins á meðan að Kristján Möller, félaga hennar í þingflokknum, er lítið skemmt. Það sáu það allir að hann var að tala sér þvert um hug við að verja nýja afstöðu formanns flokksins og hersveitar hennar í áróðurspólitík.

Samfylkingin hefur verið þekktust fyrir það í formannstíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að eiga verulega erfitt með að staðsetja pólitískar áherslur sínar og baráttumál. Þar hefur eitt verið sagt í dag og annað gert á morgun. Þessi tækifærismennska blasir við öllum og hún er lykilástæða þess hvernig flokknum hefur gengið. Þar hefur hvorki gengið né rekið í formannstíð Ingibjargar Sólrúnar. Nú á í aðdraganda kosninga að flýja undan fyrri merkjum og skreyta sig með nýjum táknum í takt við VG, enda skynjar forysta Samfylkingarinnar að þangað leitar fylgið sem lekur af Samfylkingunni eins og grýlukerti í vorvindunum.

Það er erfitt að skipta um skoðanir og áherslur á einni nóttu án þess að verða að athlægi. Það er enda ekki furða að fjölmiðlamenn hafi í viðtölum gærdagsins minnt þingmennina á þessi vandræðalegu vistaskipti skoðana og pólitískra leikjabragða sem þarna sjást með afgerandi hætti. Samfylkingin spilar sig klárlega til vinstri og reynir að slá inn í stuðningskjarna VG með því að skipta um stefnu í miðri siglingu. Þessi breytta afstaða Samfylkingarinnar hlýtur að leiða til þess að þau verði að gera upp fyrri baráttu sína fyrir stóriðju og verja sinnaskiptin. Það er að tala fyrir einu í dag og gera svo allt annað á morgun.

Vandræðagangur Samfylkingarinnar í stefnumótun hefur verið rómaður og það er sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með þessu brölti þeirra á milli átta. Það heitir á góðri íslensku vinsældabrölt í stefnumótun. Þeir sem alltaf elta kannanir og einhverja vinda í kringum sig enda hlægilegir fyrir rest. Það er því varla furða að Samfylkingin sé með blæ vindhana á öllum póstum þessar vikurnar. Við fylgjumst öll spennt með þessu kapphlaupi Samfylkingarinnar við að elta pópúlismann uppi.

13 september 2006

Rannveig hættir - uppstokkun hjá SF í kraganum

ISG

Ég var að sjá það á einum fréttavefnum að Rannveig Guðmundsdóttir, alþingismaður og fyrrum ráðherra, hefur nú lýst því yfir að hún ætlar ekki að gefa kost á sér í næstu alþingiskosningum. Rannveig hefur setið lengst allra á Alþingi af núverandi þingmönnum Samfylkingarinnar, að undanskildum Margréti Frímannsdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur (en hún er nú nýlega orðin starfsaldursforseti Alþingis). Rannveig hefur setið á þingi frá árinu 1989, eða frá því að Kjartan Jóhannsson, fyrrum formaður Alþýðuflokksins, hætti þingmennsku og varð sendiherra. Rannveig var varaformaður Alþýðuflokksins 1993-1994 eftir fræga afsögn Jóhönnu af varaformannsstóli. Hún varð félagsmálaráðherra þann 12. nóvember 1994 fyrir Alþýðuflokkinn í kjölfar afsagnar Guðmundar Árna Stefánssonar úr ríkisstjórn vegna hneykslismála, og sat á þeim stóli til vorsins 1995.

Rannveig var kjörin leiðtogi Alþýðuflokksins í Reykjaneskjördæmi í janúar 1995 og sigraði þá forvera sinn á ráðherrastóli, Guðmund Árna. Í kosningunum þar á undan hafði Jón Sigurðsson, þáv. viðskiptaráðherra og síðar bankastjóri, leitt flokkinn og Rannveig og Guðmundur Árni skipað þriðja og fjórða sætið. Það var ekki fyrsta og eina leiðtogarimma þeirra og ríkti valdabarátta þeirra lengi í kjördæminu. Tókust þau aftur á í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir kosningarnar 1999. Enn og aftur sigraði Rannveig og leiddi lista flokksins. Í prófkjöri 2002 tókust þau að nýju á um leiðtogastólinn. Þá tókst Guðmundi Árna að sigra Rannveigu og leiddi þá listann. Við afsögn Guðmundar Árna af þingi fyrir ári varð Rannveig að nýju leiðtogi flokksins í kjördæminu. Síðustu mánuði hefur Rannveig átt við nokkur veikindi að stríða, en hefur jafnan sig af þeim að mestu.

Hafði verið talið líklegast síðustu vikur að Rannveig myndi hætta og kemur þessi yfirlýsing hennar því varla að óvörum. Búast má við miklum breytingum hjá Samfylkingarfólki í Suðvesturkjördæmi við brotthvarf Rannveigar Guðmundsdóttur úr stjórnmálum. Þegar hefur Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem skipaði þriðja sæti flokksins í kjördæminu í kosningunum 2003, lýst yfir framboði í fyrsta sæti á lista flokksins í kjördæminu. Á kjördæmisfundi Samfylkingar í kvöld mun Gunnar Svavarsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og formaður framkvæmdastjórnar flokksins, hafa lýst yfir leiðtogaframboði. Ekki er óeðlilegt að hafnfirskir samfylkingarmenn vilji fá leiðtogastólinn, enda hafa þeir ekki átt þingmann frá því að Guðmundur Árni hætti, þó að þeir hafi hreinan meirihluta í helsta vígi flokksins í kjördæminu, Hafnarfirði.

Ef marka má fréttir á að halda prófkjör hjá flokknum í kjördæminu fyrstu helgina í nóvember. Búast má við að Katrín Júlíusdóttir, sem var í fjórða sætinu síðast, stefni nú á fyrsta eða annað sætið, enda hlýtur hún að telja sig sterkasta fulltrúa Kópavogs til framboðs í efstu sæti nú er Rannveig er hætt. Valdimar Leó Friðriksson, sem tók sæti Guðmundar Árna á þingi, og skipaði sjötti sæti listans í kosningunum 2003 hefur gefið kost á sér þegar í þriðja sætið. Tryggvi Harðarson, fyrrum bæjarstjóri á Seyðisfirði og bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, sem gaf kost á sér til formennsku í flokknum gegn Össuri Skarphéðinssyni árið 2000, hefur þegar tilkynnt um framboð sitt í prófkjörinu.

Það stefnir því í spennandi prófkjör þarna og einhverjar sviptingar. Þó að Guðmundur Árni og Rannveig hafi bæði hætt á kjörtímabilinu má búast við gamalkunnum erjum Hafnfirðinga og Kópavogsbúa um leiðtogastólinn eða áhrif í framvarðarsveit flokksins í kjördæminu, en átök Rannveigar og Guðmundar Árna snerust um þær erjur umfram allt annað.

Stefnir í spennandi prófkjör í borginni

Geir H. Haarde

Stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, samþykkti á fundi sínum í gær að gera tillögu um að haldið verði prófkjör í Reykjavík vegna þingkosninga að vori dagana 27. og 28. október. Verður þessi tillaga lögð fyrir fund fulltrúaráðsins 19. september nk. Nær sjálfgefið er að sú tillaga verði samþykkt. Það er því nokkuð ljóst að prófkjör muni fara fram. Sjálfstæðisflokkurinn á níu þingsæti í Reykjavík, fjögur í Reykjavík norður og fimm í Reykjavík suður (kjördæmi formannsins), og fyrirséð að tekist verður á af krafti um efstu sæti beggja lista flokksins. Þingmenn flokksins í borginni eru, fyrir RN: Björn Bjarnason, Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson og Ásta Möller, og fyrir RS: Geir H. Haarde, Pétur H. Blöndal, Sólveig Pétursdóttir, Guðmundur Hallvarðsson og Birgir Ármannsson.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, gefur kost á sér í fyrsta sæti flokksins í Reykjavík. Er alveg ljóst að hann mun einn gefa kost á sér í það sæti og hljóta glæsilega kosningu. Geir hefur setið á Alþingi frá því í þingkosningunum 1987 og hefur aðeins Halldór Blöndal setið lengur á þingi af hálfu flokksins en hann. Geir var þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins 1991-1998, fjármálaráðherra 1998-2005, utanríkisráðherra 2005-2006 og varð forsætisráðherra þann 15. júní sl. Geir var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi í október 2005 og var varaformaður flokksins 1999-2005. Í síðasta prófkjöri flokksins í nóvember 2002 varð Geir í öðru sæti en sækist nú eftir fyrsta sætinu eftir brotthvarf Davíðs Oddssonar úr stjórnmálum.

Björn BjarnasonPétur H. Blöndal

Þegar að Davíð Oddsson lét af þingmennsku fyrir ári varð Björn Bjarnason leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður. Má búast við að tekist verði á um leiðtogastólinn í öðru kjördæmanna. Þegar hefur Björn tilkynnt að hann gefi kost á sér í annað sætið. Björn hefur verið á Alþingi allt frá árinu 1991, var menntamálaráðherra 1995-2002 og setið sem dómsmálaráðherra frá árinu 2003. Hann vann glæsilegan sigur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins haustið 1990 og náði þá þriðja sætinu. Hann hélt því sæti í prófkjöri árið 1994 og færðist upp í annað sætið í uppstillingu árið 1999 er Friðrik Sophusson hætti. Björn varð í þriðja sætinu í þriðja prófkjöri sínu í nóvember 2002 og sigraði þá í baráttu við tvo þingmenn um sætið, þau Pétur H. Blöndal og Sólveigu Pétursdóttur, og hlaut fleiri atkvæði en þau til samans, þrátt fyrir slæmt gengi flokksins í borgarmálum um vorið.

Pétur H. Blöndal komst inn í þingmannahóp Sjálfstæðisflokksins við alþingiskosningarnar 1995 og hafði náð góðum árangri í prófkjörinu 1994 og hlotið áttunda sætið. Við uppstillingu við kosningarnar 1999 færðist hann eins og aðrir þingmenn upp um eitt sæti á eftir Davíð Oddssyni og skipaði þá hið sjöunda. Í prófkjörinu 2002 sóttist hann eftir þriðja sætinu. Hann varð í fjórða sæti, næstur á eftir Birni Bjarnasyni og sæti á undan Sólveigu Pétursdóttur. Pétur hefur því eftir brotthvarf Davíðs í raun færst upp í þriðja sætið og hefur hann þegar lýst því yfir að hann muni ekki stefna á sæti neðar en það. Það blasir því við að annaðhvort muni hann takast á við Björn um annað sætið eða taka slag um það þriðja. Pétur hefur verið óhræddur við að fara eigin leiðir í stjórnmálum. Hann sannaði vel í prófkjörinu 2002 styrk sinn innan flokksins.

Guðlaugur Þór ÞórðarsonSigurður Kári Kristjánsson

Guðlaugur Þór Þórðarson og Sigurður Kári Kristjánsson voru helstu sigurvegarar prófkjörsins 2002 auk Björns og Péturs. Báðir eru þeir fyrrum formenn SUS og tefldu á rétt vöð í slagnum þá og fengu þau sæti sem þeir sóttust eftir. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur verið lengi í stjórnmálum. Hann varð formaður SUS við afsögn Davíðs Stefánssonar, fyrrum formanns Varðar, af formannsstóli árið 1993 og sat á þeim stóli til ársins 1997. Hann er einn forvera minna hér í formennsku Varðar, enda var hann í MA á sínum tíma. Guðlaugur Þór var varaþingmaður fyrir Vesturlandskjördæmi 1995-1999 og varð svo borgarfulltrúi í Reykjavík árið 1998. Hann fór í þingframboð haustið 2002 og gaf kost á sér í sjötta sætið og fékk mjög glimrandi kosningu í það sæti og flaug því inn á þing. Guðlaugur Þór hætti í borgarstjórn í kosningunum í vor, til að helga sig landsmálunum.

Samkvæmt því sem kjaftasögur hafa sagt í blöðum stefnir Guðlaugur Þór á annaðhvort annað eða þriðja sætið í þessu prófkjöri nú og hafa sömu sögur hermt að hann hafi hætt í borgarmálunum til að ná meiri frama í landsmálunum. Allir vita að Guðlaugur Þór hefur mikinn metnað í stjórnmálum og stefnir altént nokkuð hærra en síðast, þegar að honum gekk mjög vel í prófkjöri. Sigurði Kára Kristjánssyni gekk líka vel í prófkjörinu árið 2002 og hlaut hann sjöunda sætið, sem hann gaf kost á sér í, með nokkuð glæsilegum hætti. Sigurður Kári var formaður SUS tímabilið 1999-2001 og hafði gegnt fjölda trúnaðarstarfa að auki fyrir flokkinn þegar að hann fór fram í fyrsta sinni þá og hlaut þessa góðu kosningu. Hann hefur lýst því yfir að hann stefni nú á fjórða sætið, sem er annað sætið í öðru kjördæma borgarinnar.

Sólveig PétursdóttirÁsta Möller

Mikið verður væntanlega rætt um stöðu kvenna innan flokksins í aðdraganda þessa prófkjörs. Í prófkjörinu 2002 biðu konur nokkurt afhroð og náðu aðeins tvær konur þá inn á topp tíu, þær Sólveig Pétursdóttir og Ásta Möller. Sólveig varð í fimmta sæti og féll um sæti, en hún gaf eins og fyrr sagði kost á sér í það þriðja, og Ásta lenti í níunda sæti, því sama og hún skipaði á framboðslistanum árið 1999, en hún hafði stefnt í 4.-5. sætið. Sólveig var þá dómsmálaráðherra og varð nokkuð ljóst eftir prófkjörið að erfitt yrði fyrir hana að halda því. Svo fór að hún missti ráðherrastólinn að lokinni stjórnarmyndun vorið 2003 og ákveðið var að hún tæki við embætti forseta Alþingis, þann 1. október 2005, á miðju kjörtímabili af Halldóri Blöndal. Mikið hefur verið rætt um pólitíska stöðu Sólveigar, en hún þykir hafa veikst mjög pólitískt eftir prófkjörið árið 2002.

Ásta Möller hefur tekið af skarið nú og tilkynnt að hún gefi kost á sér í þriðja sætið. Ásta var þingmaður árin 1999-2003 en féll í þingkosningunum 2003. Hún tók svo aftur sæti á Alþingi sem aðalmaður er Davíð Oddsson hætti í stjórnmálum fyrir ári. Svo fór í kosningunum 2003 að Birgir Ármannsson, sem varð í tíunda sæti í prófkjörinu 2002, náði kjöri á Alþingi fyrir Reykjavík suður (enda hlaut flokkurinn þar fimm þingmenn) en Ásta sem varð í því níunda náði ekki kjöri (enda flokkurinn með fjóra í Reykjavík norður). Það munaði reyndar sáralitlu á að Ásta hefði náð kjöri þá, en flokkurinn náði ekki oddastöðu í kjördæminu. Það vekur athygli að Ásta tekur af skarið á undan Sólveigu, sem vekur margar spurningar um hvort að Sólveig ætli aftur fram, en hún hefur ekki takið af skarið í þeim efnum enn.

Guðmundur HallvarðssonBirgir Ármannsson

Guðmundur Hallvarðsson var kjörinn á Alþingi fyrst í kosningunum 1991, og var því einn þrettán nýrra þingmanna sem þá tóku sæti. Alla tíð hefur Guðmundur verið fulltrúi verkalýðsarmsins á lista flokksins í borginni, enda var hann lengi sjómaður og forystumaður innan Sjómannasambands Íslands og áhrifamaður innan hreyfingar sjómanna alla tíð. Guðmundur varð í áttunda sæti í prófkjörinu árið 2002 og munaði mjög litlu á honum og Ástu Möller í baráttunni hvort þeirra fengi öruggt þingsæti. Það sannaðist vel í kosningunum síðast að það er ekkert afgerandi öruggt sæti þó að einhver sé í níunda sæti og ofan við þann tíunda. Mikið er rætt um hvað Guðmundur muni gera nú. Þykir líklegra en ekki að hann muni ekki gefa kost á sér aftur, enda verið lengi á þingi fyrir flokkinn. Er mikið rætt um hver gæti orðið fulltrúi verkalýðsarmsins muni hann draga sig í hlé.

Birgir Ármannsson varð eins og fyrr segir í tíunda sæti prófkjörsins árið 2002 og hlaut kjör á þing í kosningunum um vorið, en mjög naumlega þó. Birgir gaf kost á sér í sjötta sæti listans í síðasta prófkjöri og er öruggt að hann muni stefna hærra og nú í algjörlega öruggt þingsæti. Birgir hefur verið nokkuð áberandi t.d. í spjallþáttunum. Hann hefur verið mikið að fjalla um stjórnarskrármálin, enda situr hann í stjórnarskrárnefndinni af hálfu flokksins. Góður árangur ungu mannanna í flokknum í prófkjörinu 2002 var mikill sigur fyrir ungliðahreyfingu flokksins, enda voru þessir þrír þá allir í SUS. Konur fengu aftur á móti skell og féllu þingkonurnar Lára Margrét Ragnarsdóttir og Katrín Fjeldsted úr öruggum sætum og Ásta náði svo að auki ekki kjöri. Varð vond staða kvenna andstæðingum flokksins að umtalsefni og veikti væntanlega listann til muna.

Davíð Oddsson og Illugi Gunnarsson

Mikið er rætt um hvaða nýju frambjóðendur muni koma til sögunnar að þessu sinni. Öllum ber saman um að mest sé talað um pólitíska innkomu Illuga Gunnarssonar, pólitísks aðstoðarmanns Davíðs Oddssonar í utanríkis- og forsætisráðherratíð hans. Illugi er vaxandi pólitísk stjarna að mínu mati. Það leikur enginn vafi á því í mínum huga að Illugi sé efnilegt þingmannsefni fyrir flokkinn í þessum kosningum. Það yrði mikill fengur að því fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hann myndi gefa kost á sér fyrir væntanlegar alþingiskosningar og ég vona að hann muni gera það. Hann stóð sig virkilega vel sem aðstoðarmaður Davíðs og hefur verið mjög áberandi í stjórnmálaumræðunni. Við blasir nú að hann muni fara fram í prófkjörinu í Reykjavík og stefna ofarlega á lista.

Rætt er um mörg fleiri framboðsefni og víst er að ekki verða nein vandræði fyrir sjálfstæðismenn að velja vel á lista sína í borginni fyrir komandi þingkosningar. Hvernig sem allt mun að lokum fara í prófkjöri flokksins í Reykjavík má búast við spennandi kosningu og þar verði athyglisverð kosning milli góðra frambjóðenda. Þar getur auðvitað dregið til mikilla tíðinda, enda stefnir nær allir þingmenn flokksins ofarlega á listann og viðbúið að fram komi svo öflugir nýliðar sem gætu sett strik í reikninginn fyrir suma af sitjandi þingmönnum flokksins. Allavega það eru spennandi vikur framundan innan Sjálfstæðisflokksins og gleðiefni að það stefnir í að prófkjör verði í öllum kjördæmum að þessu sinni.

12 september 2006

...svona viljum við varla hafa það

Orkuveita Reykjavíkur

Skrautleg auglýsing Orkuveitu Reykjavíkur vakti mikla athygli í sumar fyrir bruðl og óhóf að öllu leyti. Segja má að þar hafi öll mörk um eyðslu og óráðsíu Orkuveitunnar í formannstíð Alfreðs Þorsteinssonar verið slegið endanlega út, en þessi auglýsing fór í loftið á svipuðum tíma og borgarbúar losnuðu við Alfreð úr formennsku fyrirtækisins. Auglýsingin, sem var rúm ein og hálf mínúta að lengd, kostaði á bilinu fimmtán til átján milljónir króna. Auglýsingin fer þar með í flokk með dýrustu auglýsingum sem framleiddar hafa verið hér á landi fyrir íslenskt fyrirtæki.

Tilgangur auglýsingarinnar var að sögn stjórnenda fyrirtækisins að "að bregðast við samkeppni". Kostulegt orðalag. Spyrja hefði enda mátt sig að því hvort ekki hefði verið frekar hægt að lækka verðið á orkunni til neytenda. Það hefði allavega verið metið betur en þetta peningaflóð í slappa auglýsingu sem virkaði algjörlega út í hött að öllu leyti. Mun auglýsingin hafa verið gerð til að marka upphaf samkeppni á raforkumarkaði um almenna notendur. Ég held að það sé óhætt að segja að þessi auglýsing hafi verið dæmd mistök, enda sést hún varla orðið neinsstaðar.

Miðað við verðskrá auglýsingadeilda ljósvakamiðlanna má reikna með að það kosti Orkuveituna, án afsláttar, yfir 300.000 krónur í hvert skipti að birta auglýsinguna í fullri lengd. Það var Íslenska auglýsingastofan sem sá um hönnun auglýsingarinnar. Um þrjátíu manns tóku þátt í gerð hennar, tónlistarmaðurinn Benni Hemm Hemm samdi tónlistina og rithöfundurinn Hallgrímur Helgason samdi texta lagsins. Segja má með sanni að ljóðið í auglýsingunni sé eitthvað það mesta torf sem almenningur hefur orðið vitni að.

Í gær samþykkti svo Mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar ályktun þar sem hún telur sjónvarpsauglýsinguna stangast á við mannréttindastefnu borgarinnar. Í bókun nefndarinnar segir að í auglýsingunni komi fram ýktar staðalmyndir kynjanna; fullklæddir karlar velti fyrir sér undrum vísindanna á meðan léttklæddar konur dansi um sem skrautmunir.

Það er kostulegt að fulltrúar innan gamla R-listans sem stjórnuðu Orkuveitunni í 12 ár og réðu þar er auglýsingin var gerð skv. beiðni yfirstjórnar fyrirtækisins finni að henni. Það er svosem ekki furða að enginn vilji kannast við þessa hrákasmíð sem auglýsingin er.

Ingibjörg Sólrún horfir hikandi til vinstri

ISG

Mikið hefur verið rætt að undanförnu um möguleikann á því að stjórnarandstöðuflokkarnir myndi kosningabandalag fyrir þingkosningarnar að vori. Stjórnarandstaðan er orðin frekar örvæntingarfull, svo vægt sé til orða tekið, við að reyna að ná völdum eftir langa eyðimerkurgöngu sína. Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, biðlaði innilega til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, og flokks hennar í ræðu sinni nýlega og í kjölfarið bauð ISG honum og formanni Frjálslynda flokksins heim til sín á Nesveg í Reykjavík í kaffispjall. Var undir eins farið að tala um kaffibandalagið en Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sló svo sannarlega í gegn með því að kalla þetta hræðslubandalagið.

Í reynd var það athyglisvert að formaður Framsóknarflokksins skyldi taka svona til orða í ljósi þess að kosningabandalag Alþýðuflokks og Framsóknarflokks við kosningarnar 1956 hlaut sama nafn. Gekk því ekki sem skyldi og komst ekki til valda eftir þær kosningar nema með því að halla sér upp að Alþýðubandalaginu undir forystu Hannibals Valdimarssonar. En það er svosem önnur saga, en ein af söguhliðunum sem alltaf er vert að fara yfir. Hræðslubandalagið 1956 er eina alvöru kosningabandalagið sem stofnað hefur verið til hérlendis. Reynslan af því varð ekki til góðs og svo mikið er víst að ekki reyndi Framsóknarflokkurinn að stofna til samstarfs af þessu tagi aftur með þessum hætti, þótt að þeir ættu nokkrum árum síðar eftir að vera í heil þrjú kjörtímabil í stjórnarandstöðu á viðreisnartímabilinu.

En aftur til nútímans. Það er skemmst frá því að segja að niðurstaða kaffifundarins var sú að ekkert yrði hræðslubandalag vinstriflokkanna fyrir kosningar. Hinsvegar tóku formennirnir svo til orða að myndu stjórnarandstöðuflokkarnir fella meirihluta stjórnarflokkanna ættu þeir allt að því nokkurskonar forkaupsrétt hver á öðrum eftir kosningarnar. Með öðrum orðum: flokkarnir þora ekki að stíga skrefið til fulls en gefa hitt og þetta í skyn með mjög óljósum hætti. Það er greinilegt að Samfylkingin vill ekki binda sig VG um of og vill geta rásað til að eigin vild. Enn þáttur þessa er svo auðvitað sú staðreynd að Samfylkingin og VG standa á pari í nýjustu könnunum Gallups og hræðist forysta Samfylkingarinnar það greinilega mjög að samstarf umfram þetta yrði valdahnútukast milli flokkanna tveggja.

Um helgina kom Ingibjörg Sólrún norður á Skjólbrekku þar sem samfylkingarfólk í Norðausturkjördæmi hélt kjördæmisþing sitt. Þar fór hún yfir pólitíska andrúmsloftið svona rétt áður en að flokksmenn í kjördæminu tókust á um hvort ætti að fara prófkjörsleið Bensa Sig og sumra Akureyringanna í flokknum eða einhverja allt aðra og hógværari leið. Í máli hennar kom fram að hún horfir greinilega til vinstri en virðist ekki þora að leggja í að setja vinstriflokkanna alla undir með afgerandi hætti í kosningabandalagi heldur talar með óljósum hætti til vinstri. Það er enginn vafi á því í huga mér eftir yfirlýsingar formanns Samfylkingarinnar um helgina að hún vill vinstristjórn en telur ekki viðeigandi að festa sig VG meðan að þeir standa sig svona vel í skoðanakönnunum og nú er.

Það mun styrkja Sjálfstæðisflokkinn verulega ef að vinstrimenn munu fylkja liði með þessum hætti og allir fundu af tali formanns Samfylkingarinnar um helgina. Með þessu forkaupsréttartali vinstrimanna á hvor öðrum fækkar mjög kostum til stjórnarmyndunar og valkostirnir verða æ skýrari. Ég tel að landsmenn vilji ekki vinstristjórn og vinstristefnu til valda. Fari svo að vinstriöflin stemmi sig saman tökum við því brosandi, vitandi það að kjósendur vita hvað þeir hafa nú í góðri stöðu þjóðfélagsins heilt yfir. Það hefur enda sést vel að landsmenn vita hvað stendur á bakvið vinstristjórnir: það er óeining, valdabarátta og hnútuköst um allar hliðar stjórnmálanna. Þetta sjáum við öll með því að kynna okkur sögu vinstristjórna á Íslandi, þær hafa allar gefist upp á limminu að lokum.

Það blasir við öllum að formaður Samfylkingarinnar vill mynda vinstristjórn að vori. En hún vill ekki loka á neitt. Það er skiljanlegt hafandi séð Samfylkinguna taka þá miklu skyssu í borgarmálunum í vor að allt að því loka á Sjálfstæðisflokkinn sem kost til meirihlutamyndunar. Niðurstaðan varð enda sú eftir kosningarnar er ljóst varð að R-listaflokkarnir náðu ekki meirihluta að Samfylkingin stóð hnípin eftir á lestarpallinum og horfði á hana fara framhjá sér. Viðræðurnar eftir kosningarnar snerust í raun um það hvaða flokkur myndi vinna með Sjálfstæðisflokknum, sem var með pálmann í höndunum. Samfylkingin vill ekki brenna sig með sama hætti og hún markaði framboði Dags B. Eggertssonar í vor og vill halda öllu opnu.

...en hún horfir samt til vinstri, en þorir þó ekki að viðurkenna það - af mjög skiljanlegum ástæðum.

11 september 2006

Dagurinn sem breytti heimsmyndinni

9/11

Fimm ár eru í dag liðin frá hryðjuverkaárásunum á New York og Washington sem kostuðu um þrjú þúsund manns lífið - árás sem er hiklaust með eftirminnilegustu augnablikum mannkynssögunnar. Víst er að fólk mun aldrei gleyma svipmyndunum af World Trade Center, miðstöð alþjóðaviðskipta, í rjúkandi rúst og svo hinni svipmiklu en um leið táknrænu sjón er tvíburaturnarnir hrundu til jarðar á örfáum sekúndum. Þetta eru svipmyndir sem eru greyptar í minni allra þeirra sem upplifðu þessar hörmungar, á sinn hátt um allan heim, enda gerðust þær í beinni útsendingu fjölmiðla og heimsbyggðin sá atburðina gerast á rauntíma í sjónvarpinu sínu.

Allir þeir sem muna þennan dag muna glögglega hvar þeir voru staddir þegar þeir heyrðu fréttirnar af árásinni, á svipaðan hátt og fyrri kynslóðir minnast föstudagsins 22. nóvember 1963 þegar John Fitzgerald Kennedy, forseti Bandaríkjanna, var myrtur í Dallas í Texas. Á því leikur enginn vafi að 11. september 2001 verður í sögubókum ávallt metinn dagurinn þegar að heimurinn breyttist. Síðan hafa gerst atburðir sem hafa með afgerandi hætti mótað alla heimsbyggðina og breytt henni. Ég tel að allir hafi gert sér grein fyrir því horfandi á bandarískar fréttastöðvar í beinni útsendingu hér heima á þessum örlagaríka þriðjudegi fyrir fimm árum að ekkert yrði í raun samt.

Þetta var árás bæði af slíku kalíberi og táknræn að öllu leyti að áhrifin yrðu gríðarleg. Sú varð raunin, jafnvel með enn örlagaríkari hætti en mörgum óraði fyrir. Síðan hafa staðið tvennar styrjaldir og hræðsla og tortryggni hafa ríkt. Hættan hefur vofið yfir heimsbyggðinni um frekari hryðjuverkaárásir gegn óbreyttum borgurum um allan heim og nægir að nefna hina örlagaríku ógn sem vofði yfir Madrid í mars 2004 og í London í júlí 2005. Þar féllu óbreyttir borgarar í valinn í ógnvænlegum hryðjuverkaárásum.

Ég fjalla nánar um þennan sögulega dag í ítarlegum pistli á vef SUS í dag.

09 september 2006

Hjaðningavíg á báða bóga í átakasápuóperu

Tony Blair

Á fimmtudag greip Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, til sinna ráða til að reyna að binda endi á innri átök og valdabaráttu innan Verkamannaflokksins með yfirlýsingu sinni um að hann myndi víkja af valdastóli innan árs, væntanlega skömmu eftir 10 ára valdaafmæli flokksins. Um miðja vikuna stefndi enda orðið í mjög svipuð átök innan Verkamannaflokksins og voru innan Íhaldsflokksins síðla árs 1990 og leiddu til falls Margaret Thatcher af valdastóli eftir 11 ára forsætisráðherraferil. Með yfirlýsingu sinni reyndi hann að ná tökum á valdaerjunum og að stilla saman strengi svo að hann gæti haldið embætti það lengi að hann gæti ráðið síðustu tímasetningum málsins. Það eina sem Blair hugsar um núna er að geta ráðið endalokunum og farið með sóma - um leið skilið eftir starfhæfan stjórnarflokk við völd.

Það er öllum ljóst að Verkamannaflokkurinn logar og það af meiri valdaheift en nokkru sinni síðan að hann komst til valda í maíbyrjun 1997. Þar standa átök um völd og virðast þau þegar hafin - völdin þegar að Tony Blair hverfur af hinu pólitíska sviði. Blair veit enda mjög að haldi átökin áfram með sama brag og voru um miðja vikuna mun hann hrökklast frá völdum með sama grimmilega hættinum og Margaret Thatcher upplifði í nóvember 1990. Tilraunir Blairs að róa niður andrúmsloftið tókust ekki. Eftir yfirlýsingar Blairs tóku við harðvítug ummæli Charles Clarke, fyrrum innanríkisráðherra, í fjölmiðlum í gær þar sem hann réðst af mikilli hörku að Gordon Brown, fjármálaráðherra. Clarke sagði þar að Brown væri ekki þess verðugur að leiða flokkinn og skorti alla hæfileika til að stjórna sem forsætisráðherra.

Gordon Brown

Harkalegar yfirlýsingar Clarke hófust þegar í gærmorgun. Þar sagði hann það hafa verið heimskulegan verknað hjá Brown að hafa glottandi yfirgefið kvöldfund sinn með forsætisráðherranum á miðvikudaginn. Á þeim fundi ræddu þeir um stöðu mála og hefur verið haft á orði að þar hafi náðst samkomulag um hvenær Blair færi frá völdum í raun. Clarke notaði orðið "stupid" um framkomu Browns og endurtók það æ ofan í æ. Sagði hann fjármálaráðherrann ekki vera neitt annað en valdagráðugan mann sem þyrsti í völd án þess að geta farið rétt með þau. Í kjölfar þess reyndu bæði forsætisráðherrann og lykilráðgjafar hans að fá Clarke til að hætta yfirlýsingum, af ótta við að sama ástand tæki við og var áður. Mun Gordon Brown persónulega hafa hringt í Charles Clarke eftir hádegið í gær og farið yfir þessi mál með honum.

Höfðu símtöl og spjöll innan Verkamannaflokksins engin áhrif. Síðdegis í gær hóf Clarke aðra árás á fjármálaráðherrann, mun harkalegri og óvægnari þó að í raun væri hin nógu erfið fyrir Verkamannaflokkinn. Þar sagði hann að Brown væri galinn valdafíkill sem hugsaði aðeins um sig og eigin frama í stjórnmálum. Þessi seinni árás mun hafa leitt til þess að Gordon Brown muni hafa allt að því skipað forsætisráðherranum að hafa stjórn á sínu fólki, ella myndi hann og stuðningsmenn hans gefast upp á armi hans að fullu. Mun armurinn jafnvel hafa krafist að forsætisráðherrann ætti ella að gefa upp stuðning við Brown opinberlega til að slökkva á tali innan arms hans. Tony Blair mun frekar hafa tekið þann kostinn að reyna að róa hóp sinn og það gerði hann svo í ræðu í dag skömmu áður en hann hélt í vinnuferð til Ísraels.

John Major og Tony Blair

Fyrir áratug sat ríkisstjórn John Major, þáverandi leiðtoga breska Íhaldsflokksins, við völd í Bretlandi. Hún hafði naumlega sigrað þingkosningarnar 1992 og hafði undir lok kjörtímabilsins aðeins nokkurra sæta meirihluta á þingi. Tony Blair, sem tók við leiðtogastöðu Verkamannaflokksins árið 1994, hafði á orði oftar en einu sinni í þingsölum á því tímabili að stjórn Majors væri við völd, en hefði hvorki stjórn á landinu né stöðunni innan stjórnarinnar. Þetta urðu fleyg orð og urðu sérstaklega merkingarfull í kosningabaráttunni 1997 þegar að alla tíð var ljóst að stjórn íhaldsmanna var að renna sitt skeið við stjórn landsins. Blair sló í gegn og markaði úlfúðina innan Íhaldsflokksins með skörpum þingræðum undir lok valdatíma Íhaldsflokksins, sem var orðinn stjórnlaus við stjórn landsins.

Það er mjög kaldhæðnislegt að Tony Blair er nú kominn í nær sömu stöðu John Major var í fyrir áratug, þegar að stjórnartíð Íhaldsflokksins var í andaslitrunum. Major varð seinustu ár valdaferils síns að lifa sínu pólitíska lífi í skugga andstæðinganna innan flokksins sem höfðu hreðjatak á honum og verkum hans - jafnvel öllum lykilákvörðunum. Major, sem margir vilja kalla því miður fagra heiti lame-duck leader, hefur enda sagt í ævisögu sinni frá því að valdaár sín hafi verið beisk og mörkuð því að hann gat oft ekki farið sínu fram. Það blasir við öllum sem fylgjast með breskum stjórnmálum að völd Tony Blair eru á hverfanda hveli. Hann hefur hvorki stjórn á flokknum né landsstjórninni vegna úlfúðar innan Verkamannaflokksins, sem er eins og stjórn John Major fyrir áratug við völd en hefur ekki stjórn á málum.

David Cameron og Tony Blair

Það er orðið eiginlega átakanlegt að fylgjast með átakasápuóperunni innan breska Verkamannaflokksins. Það er með ólíkindum hvernig staðan er þar orðin innan flokks sem hefur meirihluta atkvæða á þingi en sundurskorinn af átökum. Það er nákvæmlega engin stjórn lengur á málum. Við stjórnvölinn eru aðeins hjaðningavíg á báða bóga, önnur mál eru hætt að skipta nokkru og átökin ein standa eftir. Hvernig sem fer virðist David Cameron vera að styrkjast mest á þessum hjaðningavígum. Það er mikið gleðiefni að breskir kratar séu að færa Cameron völdin með þessum afgerandi hætti.

Sögupistill - fjölmiðlamálið anno 2004

Davíð Oddsson

Í sögupistli mínum á sus.is í dag fjalla ég um fjölmiðlamálið anno 2004. Óhætt er að fullyrða að fáum hafi órað fyrir við upphaf ársins 2004 að það yrði eitt heitasta pólitíska ár seinni tíma, en sú varð raunin. Við lok ársins 2003 mátti sjá upphaf þess máls sem síðar varð umdeildasta mál ársins og er jafnframt eitt umdeildasta mál stjórnmálasögu landsins á seinustu áratugum. Tekist var á um fjölmiðlamálið á Alþingi og í samfélaginu á árinu 2004 og átökin náðu hápunkti þegar að forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögum um staðfestingu sína í júníbyrjun 2004. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins voru áberandi í málinu og tekist var á milli forseta og ríkisstjórnar bæði fyrir opnum tjöldum og enn meir á bakvið tjöldin.

Eftir stendur að fjölmiðlamálið er sögulega séð eftirminnilegt mál. Þar var synjunarvaldi forseta Íslands beitt í fyrsta skipti og sögulegar deilur urðu milli þingsins og forsetans. Þetta mál verður væntanlega lengi í minnum haft og hver hefur sína skoðun á öllum hliðum þess. Það verður væntanlega heitasta pólitíska deilumál þessa áratugar og svo mikið er víst að allir sem upplifðu sumarið 2004 í íslenskum stjórnmálum fundu hita og átök, þetta var hitasumar í stjórnmálum sem seint gleymist. Þar var tekist á af hörku sem á sér fá fordæmi í lýðveldissögunni og aðeins EES-málið hefur verið lengur rætt í þingsölum. Þetta var hitamál svo sannarlega. Bendi fólki á að lesa pistilinn á vef SUS.

Eftir viku verður fjallað um stjórnarslitin 1988 þegar að slitnaði upp úr ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, þáv. formanns Sjálfstæðisflokksins, en í henni voru Sjálfstæðisflokkur, Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur. Endalok stjórnarinnar voru söguleg og verður áhugavert að fara yfir það mál.

07 september 2006

Tony Blair hættir í stjórnmálum innan árs

Tony Blair

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í dag að hann myndi láta af embætti og yfirgefa stjórnmálin innan árs. Sagði hann flokksþing Verkamannaflokksins eftir hálfan mánuð verða það síðasta sem hann myndi sitja sem leiðtogi flokksins. Tony Blair hefur verið leiðtogi Verkamannaflokksins frá því í júlí 1994, er hann var kjörinn eftirmaður John Smith, sem látist hafði tveim mánuðum áður af völdum hjartaáfalls. Blair byggði flokkinn upp eftir eins og hálfs áratugs stjórnarandstöðu til kosningasigurs í maí 1997 með sögulegum hætti. Mjög hefur verið þrýst á forsætisráðherrann að tilgreina tímasetningu brotthvarfs síns, en jafnharðan neitað því. Harkaleg átök á opinberum vettvangi innan flokksins í gær neyddu hann til að skipta um skoðun og koma með vísbendingar í þá átt.

Athygli vakti að bein dagsetning var ekki nefnd en yfirlýsingin er mjög skýr. Stjórnmálaferli Tony Blair er að ljúka og hann er með yfirlýsingunni í raun að biðja flokksmenn vinsamlegast um að leyfa sér að yfirgefa stjórnmálin með sínum hætti úr því sem komið sé. Hann er í raun að biðja um vopnahlé innan flokksins en jafnframt að fastsetja að hann verði farinn fyrir flokksþing Verkamannaflokksins í september 2007. Líklegast er að hann ætli sér að láta af völdum fljótlega eftir tíu ára valdaafmæli Verkamannaflokksins í maí 2007. Hann vill væntanlega verða við völd er þeim áfanga er náð en telji svo vænlegt að fara frá völdum. Það hefur verið harkalega að honum sótt og í raun var enginn vafi eftir afsagnir undirráðherranna í gær og bréfaflóð þingmanna um beiðni um afsögn að til þessa myndi koma.

Tony Blair og Gordon Brown

Einn forvera Tony Blair á leiðtogastóli breska Verkamannaflokksins, hinn sigursæli, Harold Wilson, fyrrum forsætisráðherra, sagði með eftirminnilegum hætti einu sinni að vika væri langur tími í pólitík. Það eru orð að sönnu. Það má fullyrða að eitt ár er langur tími í stjórnmálum. Nú verður að ráðast hvort að Tony Blair hafi kraft og stuðning til að sitja við völd í forsæti ríkisstjórnar Bretlands og leiða stærsta flokk landsins í þá mánuði sem hann vill sitja úr þessu. Hvort hann nái að sitja við völd fram að valdaafmælinu er í raun stóra spurningin. Það hefur löngum verið sagt að stór yfirlýsing á borð við þessa lami allt valdsvið sterks leiðtoga hratt, sé eitthvað vald í raun eftir.

Nú verður það að ráðast hvort Blair geti setið í þann tíma sem hann vill. Stóra spurningin er nú hvort hann geti í raun stýrt atburðarásinni allt til enda eða hvort að hann verði að lokum ein af sögupersónunum í plottinu sem verða undir og verði undir í þeirri öldu sem hefur stefnt í áttina til hans. Jafnframt verður fróðlegt að sjá hvort að fylkingabarátta um forsætisráðherrastólinn fari ekki jafnharðan af stað núna þegar að öllum er ljóst að endalokin eru svo nærri sem raun ber vitni.

Tony Blair

Það eru mörg óvissumerki yfir Verkamannaflokknum og stjórn ríkisstjórnar Bretlands eftir svona yfirlýsingu og í raun fróðlegt að sjá hver nær yfirhöndinni í þessu valdatafli er á hólminn kemur.

Árni M. Mathiesen fer fram í Suðurkjördæmi

Árni M. Mathiesen

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, hefur ákveðið að gefa kost á sér í leiðtogasæti flokksins í Suðurkjördæmi. Ein lífseigasta pólitíska sagan í sumar hefur verið hvort að Árni myndi færa sig til og gefa með því eftir í raun leiðtogastólinn í kraganum til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, sem þegar hefur lýst yfir áhuga sínum á að leiða flokkinn í kjördæminu. Árni, sem hefur setið á Alþingi í 15 ár og leitt framboðslista af hálfu flokksins í landsmálum allt frá alþingiskosningunum 1999, hlýtur að teljast öruggt ráðherraefni áfram nái hann að tryggja áhrif sín með leiðtogasetu í öðru kjördæmi. Hann hefur mikinn styrkleika og stuðning æðstu forystumanna flokksins til að vera í ríkisstjórn.

Það er ekki undarlegt að Árni sækist eftir því að fara í Suðurkjördæmið. Þar er enda enginn áberandi leiðtogi og ekki virðist heldur leiðtogi sem hefði styrkleika til ráðherrasetu í sjónmáli. Fylgi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi ætti að vera það mikið í kosningunum að vori að leiðtogi listans ætti að hafa styrkleika og stuðning til að verða ráðherra. Svo hefur ekki verið frá árinu 1999, er Þorsteinn Pálsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins, hætti í stjórnmálum. Árni Ragnar Árnason leiddi framboðslista flokksins í kjördæminu í þingkosningunum 2003. Árni Ragnar hafði verið veikur af krabbameini nokkurn tíma áður en hann var valinn leiðtogi og virtist hafa náð sér að fullu. Hann veiktist aftur í kosningabaráttunni og varð frá að hverfa. Hann lést fyrir nákvæmlega tveim árum, í ágúst 2004, eftir hetjulega baráttu sína.

Frá andláti Árna Ragnars hefur Drífa Hjartardóttir leitt flokkinn í Suðurkjördæmi en þá öðru sinni tókst hún á hendur það verkefni að leiða flokkinn á erfiðum tímamótum. Hún varð leiðtogi flokksins í gamla Suðurlandskjördæmi er Árni Johnsen varð að segja af sér þingmennsku sumarið 2001 vegna hneykslismála sinna. Drífa hefur staðið sig vel að mínu mati og leitt flokkinn í gegnum erfiða tíma á þessum slóðum. Fylgi flokksins í Suðurkjördæmi er mikið og það sást vel í sveitarstjórnarkosningunum í vor en flokkurinn er í forystu nær allra sveitarfélaga í kjördæminu. Það er því auðvitað með ólíkindum að flokkurinn þar hafi ekki ráðherrastól og hlýtur það að vera markmið þeirra sem velja framboðslista flokksins í kjördæminu fyrir næstu kosningar að tryggja að sá sem leiði listann sé í þeirri stöðu að teljast öruggt ráðherraefni.

Árni M. Mathiesen hefur verið ráðherra í sjö ár og leitt sjávarútvegsmálin og fjármálin af hálfu flokksins. Það er hægt að fullyrða með nokkurri vissu að hann sé öruggt ráðherraefni að vori. Það verður að ráðast hvort flokksmenn vilja fá Árna til forystu í kjördæminu. Væntanlega verður þar prófkjör, enda virðist mér á flestum sem ég þekki úr kjördæminu að þeir vilji fá uppstokkun á þingmannahópi kjördæmisins og mæla styrkleika frambjóðenda. Er það enda eðlilegast að prófkjör sé í öllum kjördæmum hjá flokknum nú, eins og ég hef áður bent á. Er mikið rætt um hvort að Árni Johnsen fari fram í Suðurkjördæmi, eftir að hann hlaut uppreist æru frá handhöfum forsetavalds.

Það stefnir í spennandi tíma hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi. Það verður fróðlegt að sjá hverja flokksmenn þar velja til forystu hjá sér. Að mörgu leyti hlýtur að verða spurt hvort sjálfstæðismenn hafi sterkt og vænlegt ráðherraefni í forystu framboðslista síns. Það hlýtur að teljast sterkt fyrir þá að hafa Árna M. Mathiesen í forystu framboðslista síns, enda fer þar ráðherra í sjö ár og leiðtogi kjördæmis allan þann tíma. En nú verður svo auðvitað að ráðast hvort Árni sæki sér stuðning flokksmanna til forystu og nái kjöri í það verkefni. Það verður fróðlegt að sjá.

06 september 2006

Blair gefur eftir - átakafundur Blair & Brown

Gordon Brown og Tony Blair

Það var tilkynnt á Sky News nú er líða tók á kvöldið að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Verkamannaflokksins, muni tilkynna á morgun um allar megintímasetningar endaloka stjórnmálaferils síns. Hann neyddist að lokum til að beygja sig undir vilja fjölda flokksmanna, sumra mjög holla honum í áraraðir, um að gefa upp hvenær hann muni láta af embætti og hætta þátttöku í stjórnmálum. Aðeins fyrir nokkrum dögum þótti slíkt óhugsandi. Dagurinn í dag markaði þáttaskil fyrir Blair, hann gat eftir atburði dagsins ekki haldið áfram með sama hætti. Pólitískur ferill hans var á einu augabragði kominn í verulega hættu og við blasti svipuð grimmileg örlög honum og Margaret Thatcher er henni var án miskunnar steypt af stóli innan breska Íhaldsflokksins í nóvember 1990. Fall Thatcher er lexía fyrir alla stjórnmálamenn.

Í níu ár hefur Tony Blair verið stjórnmálamaður sem hefur viljað forðast að láta aðra ráða sinni för. Hann var lengst af sigursæll og afgerandi leiðtogi, sterkur og afgerandi leiðtogi sem mótaði stefnuna og aðrir fylgdu honum án hiks á þeirri vegferð. Þeim tíma er nú einfaldlega lokið. Eftir að Blair hafði náð sama markmiði og Margaret Thatcher að sigra þrennar þingkosningar var honum umhugað um aðeins eitt: hann vildi ekki falla í sömu dimmu gryfjuna og Margaret Thatcher féll í þegar að hún missti yfirsjón á flokki sínum og vilja landsmanna. Hún sagðist ætla að halda áfram eins lengi og stætt væri og taldi fjarstæðu að aðrir ættu að ráða örlögum sínum. Blair hefur séð það á atburðarás seinustu daga að sömu örlög voru í sjónmáli að óbreyttu. Hann hefur nú sætt sig við að hann er algjörlega upp á náð og miskunn flokksmanna kominn.

Tony Blair og Gordon Brown

Það hefur nú verið staðfest að samskipti Tony Blair og Gordon Brown hafa í raun hrunið vegna atburða seinustu daga. Hafi þau verið slæm fyrir hafa þau náð algjörum botni nú. Blair lítur svo á að stuðningsmenn Gordon Brown hafi hafið þessa styrjöld innan flokksins og þar ráði persónulegur metnaður hans. Á fundi þeirra undir kvöld krafðist Brown þess að forsætisráðherrann myndi hætta þátttöku í stjórnmálum fyrir jól og stíga niður af sviðinu sem fyrst. Það væri komið nóg. Um var að ræða mikinn átakafund og er lýsingu af því sem þar fór fram og vísbendingar um annað sem gerst hefur í dag að finna á vef Guardian. Það er greinilegt að veruleg krísa er orðin innan Verkamannaflokksins. Lykilforystumenn talast vart orðið við og heift er á milli þeirra sem þó talast við í þeim örmum sem tekist hafa á seinustu árin.

Það er fyrir löngu orðið ljóst að samkomulag var gert á milli Brown og Blair um skiptingu valda eftir valdatöku flokksins árið 1997, sem gerði ráð fyrir að Blair viki fyrir Brown þegar að liði undir lok annars tímabilsins, ríkti flokkurinn það lengi. Blair sveik það samkomulag með eftirminnilegum hætti og síðan hafa samskipti þeirra verið aðallega sýndarmennska á yfirborðinu fyrir fjölmiðla og flokkskjarnann. Nú er allt slíkt tal greinilega liðið undir lok og Brown telur nú vera kominn tíma til að Blair víki. Hann hefur sett fram afgerandi kröfur um að þau valdaskipti verði innan 16 vikna en ekki fjölda mánaða eins og Blair hefur gefið í skyn af yfirlýsingum í blöðum eyrnamerktum Rupert Murdoch, velgjörðarvins hans og flokksins í valdatíð hans. Blair lítur svo á að Brown sé að kúga sig út í afsögn og telur hann standa að baki því sem gerst hefur.

Tony Blair og Gordon Brown

Á morgun er semsagt komið að örlagastund og Blair tekur af skarið með hvernig hann vill skilja við forsætisráðherrastólinn og leiðtogastöðu Verkamannaflokksins, með því í raun binda enda á aldarfjórðungslangan stjórnmálaferil sinn. Búast má því við stórtíðindum á morgun og verður mjög spennandi að sjá hver viðbrögðin verða við yfirlýsingu forsætisráðherrans. Það er greinilegt að í mesta lagi mánuðir lifa enn af valdaferli Tony Blair, eða Teflon Tony eins og hann hefur jafnan verið nefndur. Búast má við að eftir það sem á undan er gengið að Blair vilji reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að Brown fái rósagöngu í leiðtogastólinn.

Það eru spennandi tímar framundan í breskum stjórnmálum, sama hvert stefnir úr þessu. Tony Blair berst nú opinberlega fyrir því að ná að yfirgefa Downingstræti hnarreistur eftir tæpan áratug á valdastóli en ekki leiddur burt af vettvangi valdanna af þeim sem annaðhvort hafa svikið hann innan flokksins eða gefið í skyn að tími hans sé einfaldlega liðinn.

Margaret Thatcher og Tony Blair

Örlög Margaret Thatcher fyrir 16 árum hafa nú þröngvað hann til að gefa út tímaplan endalokanna. Hvort þau endalok verða með þeim hætti sem hann vill er stóra spurningin nú. Verða pólitísk endalok hans þau sömu og Thatcher hlaut?

Tony Blair að missa tökin á stöðunni

Tony Blair

Tony Blair hefur nú verið forsætisráðherra Bretlands í 112 mánuði, allt frá föstudeginum 2. maí 1997. Þá kom hann til valda í Downingstræti 10 á bylgju stuðnings og velvildar meginþorra breskra kjósenda. Þó að margir Bretar hefðu ekki stutt hann til valda fannst þeim hann vera táknmynd nýrra tíma, heiðarleika og trausts. Nú þegar að vel er komið á tíunda ár valdaferilsins virðist vera að styttast í endalokin. Tony Blair er nú táknmynd óvinsælda í hugum Breta og hann er farinn að missa stuðning innan valdakjarna síns í breska Verkamannaflokknum. Undanfarna daga hefur ólgan innan flokksins aukist til mikilla muna. Ólgan hefur nú farið það langt að fjöldi þingmanna hefur sent honum opið bréf til að þrýsta á afsögn hans og nokkrir undirráðherrar hafa sagt af sér til að sýna í verki að hann hafi ekki lengur stuðning þeirra.

Það sem er að gerast núna er farið að minna illilega á endalok stjórnmálaferils járnfrúarinnar Margaret Thatcher. Eftir ellefu og hálft ár við völd árið 1990 hrundi valdakerfi hennar og hún missti stuðning flokkskjarnans til að halda áfram og fara í fjórðu þingkosningarnar með Íhaldsflokkinn. Þá horfðu Bretar á hana missa fótana á aðeins þrem vikum. Það sem Tony Blair berst nú við minnir mjög á sama ástand og þá skapaðist. Blair hefur nú þegar orðið að gefa frá sér allar fyrri yfirlýsingar um að tímasetja ekki brotthvarf sitt úr stjórnmálum. Það varð hann að gera vegna þrýstings allt í kringum sig þegar að við blasti að allt að 80 þingmenn flokksins vildu setja af stað ferli við leiðtogakjör flokksins, en 71 þingmaður flokksins gefur krafist leiðtogakjörs. Það vildi Blair ekki hætta á og gaf út í gegnum dagblaðið The Sun að hann færi innan árs.

Ekki virðist hafa róast mikið yfir við það. Greinilegt er í stöðunni að Tony Blair vill úr þessu fyrst og fremst ná að sitja við völd í Downingstræti þann 2. maí nk. þegar að Verkamannaflokkurinn hefur ríkt samfellt í áratug. Tilkynnt var í The Sun að Blair hefði í hyggju að biðjast lausnar sem leiðtogi Verkamannaflokksins þann 31. maí og hefði í hyggju að hætta sem forsætisráðherra þann 26. júlí 2007. Þá hefði hann ríkt í 10 ár og 10 vikur samfellt. Þessu var komið fram með viljandi hætti og sumir nánustu ráðherrar Blairs tjáðu sig í sjónvarpi með þeim hætti að hann yrði farinn innan árs og yrði ekki við völd á flokksþingi Verkamannaflokksins í september 2007. Þessar yfirlýsingar virðast ekki nægja Gordon Brown, fjármálaráðherra, og stuðningsmönnum hans. Þeir vilja að Blair lýsi þessu opinberlega yfir sjálfur.

Tony Blair

Blair hefur forðast það eins og heitan eldinn að gefa yfirlýsingar í eigin persónu um dagsetningu eða beina staðsetningu þess hvenær hann ætli sér að hætta, af ótta við að það yrði notað gegn sér til að hrekja hann út sem fyrst. Greinilegt er að Blair og Brown talast vart orðið við og átök þeirra á milli hafa náð enn einum hápunktinum. Brown hefur verið til hliðar til fjölda ára og beðið síns færis á að taka við völdum. Það er greinilegt á tali og verkum Blairs og stuðningsmanna hans að hann er að reyna að kaupa sér tíma til að leggja í Brown. Það er ekki sýnilegur vilji Blairs að Brown taki við völdum og hann hefur til þessa frekar viljað byggja upp Alan Johnson, menntamálaráðherra, eða John Reid, innanríkisráðherra, til þess verks. Það hefur sést á tali nánustu manna Blairs að þeir vilja sem minnst gera úr Brown nú.

Þetta skynja Brown og hans menn og sjá að það er ekki til setunnar boðið og vilja að Blair negli sig niður á dag hið fyrsta til að útkljá málið og í raun fastsetja hann sem fráfarandi leiðtoga sem allra fyrst, þessu eigi hann að lýsa opinberlega yfir en ekki með hálfkáki í The Sun. Hann veit að geri hann það er öllu lokið. Þá eru veiðileyfin fyrst orðin ódýr í kringum hann. En Brown vill einmitt fá botn í þetta tal og fá skýra dagsetningu. Mikið hefur verið pískrað um það að ástæðan fyrir því að Gordon Brown sóttist ekki eftir leiðtogastöðu flokksins við snögglegt andlát John Smith árið 1994 hafi verið sú að þeir Blair hafi gert með sér samning um að skipta völdum. Blair hafi í raun átt að ríkja í áratug og hætta fyrir þingkosningarnar 2005. Blair stóð ekki við þann samning en hefur haldið áfram og haldið Brown volgum.

Það er að opinberast sífellt betur það sem í raun flestir vildu að Brown hefur með rólegheitum tryggt Blair nokkuð gott veður við flokksforystuna lengur en hann hefur í raun viljað. Nú er það greinilega mat þessa arms að mál sé að linni og tímabært að Brown fái að taka við. Það hleypti urg í þennan arm þegar að lykilmenn Blairs allt að því gerðu lítið úr honum og orðrómurinn að Blair sé að bíða til að slá á framavonir Browns, sem verið hefur eftirmaður hans á yfirborðinu í raun alveg síðan að hann varð fjármálaráðherra árið 1997, gerðu hann æfan. Það varð svo endanlega til að gera allt vitlaust þegar að kostulegt minnisblað spunameistara forsætisráðherrans lak út en það þótti í senn úr takti við allan raunveruleikann og ofmeta alla stöðu forsætisráðherrans. Minnisblaðið sýndi að spunamenn Blairs væru ekki í neinu sambandi við raunveruleikann.

Tony Blair

Mitt í átökunum innan Verkamannaflokksins birtist ný skoðanakönnun sem sýnir Verkamannaflokkinn enn og aftur á fallanda fæti með lægsta fylgi sitt í könnunum í fjórtán ár, frá árinu 1992, árið sem John Smith varð leiðtogi flokksins eftir tapið í kosningunum það ár sem leiddi til falls Neil Kinnock. Á sama tíma er svo David Cameron með meira fylgi er spurt er hver eigi að verða forsætisráðherra en Tony Blair og Gordon Brown. Það má búast við að taktar Blairs séu settir fram nú til að reyna að slá á erfiða stöðu hans og reyna líka að róa andstæðingana innan flokksins en ekki bundið enda á óróleikann. Það er öllum ljóst að Blair er að missa tökin á flokknum og stöðu mála og ekki vitað hvort honum mun takast að yfirgefa bresk stjórnmál með sóma eftir langan valdaferil.

Það er greinilegt að flokkurinn logar í óeiningu og samstaðan þar innanborðs á hverfanda hveli. Það er svo spurningin hvort að hlustað verði á ákall Tony Blair til flokksfélaga um að horfa til verkefnanna framundan en ekki valdabaráttu um áhrif og forystusæti flokksins síðar meir, eftir að hann hefur reynt að gefa út tímaplan uppstokkunar. Það ræðst fljótlega hvort hann hefur stjórn á flokki sínum eður ei. Fipist honum sú stjórn meir en nú er orðið má búast við miklum pólitískum tíðindum í Bretlandi þegar í haust.


Ég fjallaði nánar um endalok stjórnmálaferils Margaret Thatcher í ítarlegum pistli um hana í október 2005, þegar að hún varð áttræð. Allir sem kynna sér atburðarás endaloka valdaferils hennar sjá sömu merki þess sem er að gerast í Downingstræti einmitt núna. Það eru merki þess að stjórnmálamenn ofmetnast af valdi sínu og telja sig geta setið endalaust við völd.

05 september 2006

Halldór segir af sér þingmennsku

Halldór Ásgrímsson

Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði af sér þingmennsku í dag. Það eru mikil þáttaskil sem fylgja því að þingmannsferli Halldórs Ásgrímssonar sé nú lokið. Hann var starfsaldursforseti Alþingis nú við lok stjórnmálaferils síns. Hann var fyrst kjörinn á Alþingi sumarið 1974 í hinum umdeildu og sögulegu alþingiskosningum, sem boðað var til eftir að Ólafur Jóhannesson rauf þing með eftirminnilegum hætti með atbeina dr. Kristjáns Eldjárns, forseta, við fall vinstristjórnarinnar. Halldór var þá í þriðja sæti Framsóknarflokksins í Austurlandskjördæmi og aðeins 27 ára að aldri. Halldór var þó ekki ókunnur stjórnmálum, enda sonarsonur Halldórs Ásgrímssonar sem lengi var þingmaður Austfirðinga, og unnið fyrir flokkinn í öllum kosningum frá árinu 1956, eins og hann sagði sjálfur frá í kveðjuræðu sinni á flokksþingi í síðasta mánuði.

Halldór var áfram í þriðja sæti flokksins í Austurlandskjördæmi árið 1978, á eftir þeim félögum Vilhjálmi Hjálmarssyni, þáv. menntamálaráðherra, og Tómasi Árnasyni, síðar viðskiptaráðherra. Framsóknarflokkurinn tapaði verulegu fylgi í alþingiskosningunum 1978 og missti heil fimm þingsæti eins og samstarfsflokkur sinn í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkurinn. Halldór missti þingsæti sitt í kosningunum enda hlaut flokkurinn aðeins tvo menn kjörna í Austurlandskjördæmi. Í kjölfar kosninganna var mynduð vinstristjórn undir forsæti Ólafs Jóhannessonar, þó að flokkur hans hefði beðið afhroð í kosningunum. Leiddi hann stjórn með sigurvegurum kosninganna, A-flokkunum, sem hvor um sig hlutu 14 þingsæti og tæpan hreinan meirihluta. Þetta voru sögulegir tímar í íslenskum stjórnmálum.

Halldór var þó ekki lengi utan þings. Svo fór að vinstristjórnin gafst upp eftir stormasama samvist í októberbyrjun 1979. Alþýðuflokkurinn sprengdi stjórn Ólafs með miklum hvelli og gekk á dyr. Það rúma ár sem hún sat hafði hún gengið í gegnum mikinn og erfiðan öldugang. Í kjölfar þessa var boðað til þingkosninga í desemberbyrjun 1979, með mjög skömmum fyrirvara. Halldór fór fram að nýju í Austurlandskjördæmi. Vilhjálmur Hjálmarsson ákvað að hætta þátttöku í stjórnmálum eftir sinn litríka feril, að mörgu leyti nokkuð óvænt. Almennt hefur verið álitið sem svo að Vilhjálmur hafi verið að hliðra til fyrir Halldóri Ásgrímssyni og tryggja að hann næði kjöri í kosningunum. Tómas leiddi listann og Halldór varð í öðru sæti. Halldór náði kjöri í þeim kosningum, enda bætti Framsókn nokkru fylgi við sig fyrir austan.

Halldór Ásgrímsson

Halldór Ásgrímsson var kjörinn varaformaður Framsóknarflokksins árið 1980, þá aðeins 33 ára að aldri. Með því var staða hans innan flokksins mörkuð og eftir það mátti segja að hann væri krónprins flokksins. Halldór sótti eftir það fast að leiða Framsóknarflokkinn í sínu kjördæmi sem varaformaður flokksins. Svo fór að Tómas Árnason gaf ekki eftir leiðtogastöðuna og fór Halldór fram gegn honum. Var prófkjörsbarátta millum þeirra hörð og svo fór að Halldór sigraði Tómas í prófkjörinu eystra síðla árs 1982. Tómas tók þó annað sætið en var ósáttur við sinn hlut, enda þá ráðherra. Að þingkosningunum 1983 loknum var mynduð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Steingríms Hermannssonar. Halldór varð sjávarútvegsráðherra, en Tómas missti sinn stól og varð svo seðlabankastjóri árið 1984.

Halldór var 36 ára er hann varð sjávarútvegsráðherra. Í ráðherratíð hans var kvótakerfinu komið á með sögulegum hætti og ýmis önnur merkileg verkefni komu til sögunnar. Hann var auk þessa dóms- og kirkjumálaráðherra 1988-1989 í öðru ráðuneyti Steingríms Hermannssonar. Halldór sat á sjávarútvegsráðherrastóli allt til ársins 1991. Að þeim kosningum loknum mynduðu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur ríkisstjórn undir forsæti Davíðs Oddssonar. Framsóknarflokkurinn var utan stjórnar eftir tveggja áratuga nær samfellda setu í ríkisstjórn, ef undan eru skildir fimm mánuðir minnihlutastjórnar Alþýðuflokksins undir forsæti Benedikts Gröndal 1979-1980. Halldór tók mjög að ókyrrast eftir að Steingrímur missti forsætið og taldi sinn tíma kominn. Átök innan flokksins um EES leiddu til fallandi gengis Steingríms.

Steingrímur Hermannsson varð seðlabankastjóri í apríllok 1994 og sagði af sér formennsku flokksins eftir 15 ára setu. Samhliða því varð Halldór formaður Framsóknarflokksins. Halldór tók við forystu stjórnarandstöðunnar og vann af krafti í aðdraganda alþingiskosninganna 1995 að byggja upp flokkinn og fór um landið og vann af miklum krafti. Framsóknarflokkurinn hlaut nokkuð góða kosningu, miðað við sögulegar aðstæður árin á undan, í kosningunum 1995. Hann hlaut 15 alþingismenn kjörna í stað 13 þingmanna árin 1987 og 1991. Í kjölfar kosninganna hófust stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem sátu í stjórn, en stjórnin hélt velli. Svo fór að upp úr þeim viðræðum slitnaði og hófu Davíð og Halldór viðræður sem luku með stjórnarmyndun flokkanna.

Halldór Ásgrímsson

Til fjölda ára var það álit flestra að aðeins hefði reynt á þessi tvö stjórnarmynstur vorið 1995, áframhaldandi stjórn eða þá sem tók við. Í kveðjuræðu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins nú í ágúst kom það hinsvegar fram í máli Halldórs að strax eftir kosningar hefði hann leitast eftir viðræðum um vinstristjórn undir sinni forystu. Svo fór að Alþýðuflokkurinn vildi frekar samstarf með Sjálfstæðisflokki og því varð ekki meira úr þeim viðræðum, en þó var rætt saman um þann kost. Fram að þessu hafði verið talið að Halldór hefði ekki viljað þann kost vegna ólgunnar sem kom upp á milli Framsóknar og Alþýðubandalags eftir að Ólafur Ragnar Grímsson hafði frumkvæði rétt fyrir kosningar um að kortleggja grunn að stjórnarsáttmála flokkanna. Halldór reiddist því mjög og hafnaði honum með þjósti.

Í fyrrnefndri kveðjuræðu sinni sagðist Halldór telja merkasta verk sitt í stjórnmálum það að hafa stuðlað að stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 1995. Það samstarf er enda enn við völd og hefur unnið af krafti í þrjú kjörtímabil. Halldór var utanríkisráðherra í samstarfinu árin 1995-2004 og sat því lengur á utanríkisráðherrastóli en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður. Að loknum alþingiskosningunum 2003 sömdu flokkarnir um að Halldór tæki við forsæti ríkisstjórnarinnar af Davíð Oddssyni þann 15. september 2004 og fór það svo. Halldór sat á forsætisráðherrastóli í heilan 21 mánuð og lét af embætti 15. júní sl. eftir að hafa boðað endalok stjórnmálaferils síns á eftirminnilegum blaðamannafundi við embættisbústað forsætisráðuneytisins á Þingvöllum 10 dögum áður.

Hvaða skoðun svo sem íslenskir stjórnmálaáhugamenn hafa á persónu og stjórnmálastörfum Halldórs Ásgrímssonar verður ekki deilt um það að hann markaði spor í íslenska stjórnmálasögu. Hann var lengi virkur þátttakandi í stjórnmálum og helgaði þessum bransa ævistarf sitt. Það var merkilegt framlag sem hann lagði að mörkum og persónulega met ég mjög mikils persónu Halldórs Ásgrímssonar. Hann á að mínu mati heiður skilið fyrir gott verk sitt, sérstaklega á ellefu árum sínum sem ráðherra og leiðtogi Framsóknarflokksins í ríkisstjórn hans með Sjálfstæðisflokki. Það eru nokkur þáttaskil þegar að hann afsalar sér þingmennsku og hverfur úr virkri stjórnmálaforystu. Það er skemmtilega kaldhæðnislegt að sæti Halldórs erfist til ungrar forystukonu flokksins, Sæunnar Stefánsdóttur, sem er aðeins 27 ára gömul.

Halldór Ásgrímsson og Sólveig Pétursdóttir

Allra augu hljóta nú að beinast að því hvað taki við hjá Halldóri Ásgrímssyni, sem stendur á krossgötum rétt eins og flokkurinn sem hann hefur staðið í fylkingarbrjósti fyrir í heilan aldarfjórðung.

04 september 2006

Sterk nærvera Davíðs Oddssonar

Davíð Oddsson

Um fátt hefur verið meira rætt í dag en gott viðtal við Davíð Oddsson, seðlabankastjóra og fyrrum forsætisráðherra, í Sunnudagskastljósi Evu Maríu Jónsdóttur hjá RÚV í gærkvöldi. Mér fannst notalegt að sjá Davíð aftur í hlutverki viðmælanda í dægurmálaþætti. Ég verð fúslega að viðurkenna að ég hef saknað Davíðs úr umræðunni. Það var verulegur sjónarsviptir af Davíð úr stjórnmálunum og hefur verið tómarúm í pólitísku umræðunni alla tíð frá því að hann tilkynnti um ákvörðun sína um að hætta á sögulegum blaðamannafundi í Valhöll fyrir ári, 7. september 2005. Hann var aðalleikari í stjórnmálum hérlendis í aldarfjórðung. Það er ekki laust við að Davíðs sé sárt saknað, ekki bara af stjórnarsinnum heldur og ekki síður stjórnarandstæðingum.

Það var áhugavert að sjá viðtal Evu Maríu við Davíð. Mér líst reyndar vel á Sunnudagskastljósið hennar. Það á greinilega að vera notalegt og gott sunnudagskvöld með einum viðmælanda, innihaldsríkt og gott viðtal. Eva María er lagin að stýra góðum viðtölum, enda bæði mannlegur og beittur spyrill, skemmtileg blanda í raun. Það er gleðiefni að Eva María sé komin aftur með spjallþátt á prime time sjónvarpstíma. Hún á hvergi annarsstaðar heima en með alvöru þátt á alvöru tíma. Viðtalið við Davíð Oddsson var já áhugavert. Hann hefur alltaf talað í fyrirsögnum, á auðvelt með að láta skoðanir sínar í ljósi með áberandi hætti og var umdeildur stjórnmálamaður allan sinn litríka feril. Það eru of fáar svona afgerandi týpur í stjórnmálum í dag að mínu mati, það eru of margir litlausir karakterar á þingi - þetta segi ég sem stjórnmálaáhugamaður.

Það var aldrei leiðinlegt að spá í stjórnmálunum meðan að Davíð Oddsson var áberandi á þeim vettvangi. Það er reyndar áhyggjuefni að mikið af yngra fólki í stjórnmálum velur sér annan starfsvettvang vegna þess að það er meiri snerpa og kraftur í atvinnulífinu, kannski líka meiri tækifæri og það er betur borgað. Mér finnst stjórnmálin hafa verið litlaus eftir að Davíð fór og fagnaði því að sjá hann aftur, hann er í essinu sínu þegar að hann talar um þjóðmál, þetta skipti var engin undantekning á því. Davíð hefur þá náðargáfu að hafa mikla nærveru, sem slíkur getur hann fangað athygli fólks víða að sama hvað hann er að tala um. Þar ræður miklu sterkur húmor hans og frásagnargáfa. Honum hefur enda meira að segja tekist að gera tal um stýrivaxti og verðbólgu áhugaverða í augum MeðalJóns eins og mín.

Davíð Oddsson

Mér finnst aðallega skemmtilegt að sjá hversu rosalega sterk viðbrögð pólitískra andstæðinga sinna gegnum tíðina Davíð Oddsson getur vakið, þó að hann gegni engum trúnaðarstörfum í íslenskum stjórnmálum nú. Það er enginn sem hefur eins sterka nærveru og getur stuðað jafnmarga og hann. Þetta er alveg einstaklega skemmtilegt að sjá. Davíð Oddsson var engum líkur að ná að vekja umræðu í samfélaginu og var lykilmaður í pólitíkinni hérna svo lengi að fáir ná hans töktum. Gaman af þessu, segi ég bara. Ég sé að margir vinstrimenn eru stuðandi argir eftir viðtalið og reyna að ná sér niður með því að tala um Davíð og segja hann kominn aftur í stjórnmálin. Sérstaklega athyglisvert fannst mér að sjá Ingibjörgu Sólrúnu talandi í þessa átt, en hún hefur verið eins og vængbrotinn fugl eftir að Davíð hætti.

Það hefur alltaf verið erfitt fyrir vinstrimenn að sætta sig við að Davíð Oddsson hefur málfrelsi eins og ég og þú - svo og allir aðrir í þessu landi. Þegar hann var í stjórnmálum gat hann stuðað andstæðinga sína svo mjög að þeir alveg umpóluðust og urðu rauðir af illsku. Þetta er náðargáfa og Davíð hefur hana enn ef marka má viðbrögðin við spjallinu. Hann var þarna enn og aftur í essinu sínu. Væntanlega hefði hann gengið lengra ef hann væri enn stjórnmálamaður. En ég verð alveg að viðurkenna að mér finnst ekkert óeðlilegt að hann hafi skoðanir, það var verið að sumu leyti að ræða mál úr valdatíð hans og stöðu þeirra núna og farið yfir ýmis atriði að auki. En það hefur reyndar alltaf verið með Davíð að hann er umdeildur. Það mun verða svo lengi sem hann lifir, sama þó hann væri í öðru starfi eða sestur í helgan stein.

Það var snjallt hjá Evu Maríu og Þórhalli Gunnarssyni, ritstjóra Kastljóss, að opna Sunnudagskastljós vetrarins með því að fá Davíð til viðtals. Það er eðlilegt að Kastljós velji sér viðmælendur sem tryggt er að fólk vilji horfa og hlusta á. Það er alveg greinilegt að þeim tókst það með vali á Davíð sem fyrsta gestinum í Sunnudagskastljós Evu Maríu, enda vart um annað rætt í dag en þetta viðtal í gærkvöldi. Það er svo sannarlega mál málanna og enn og aftur minnir Davíð Oddsson á sig og hversu auðveldlega hann getur snúið stjórnarandstöðunni um fingur sér og spunnið fyrir hana umræðuvefinn.

Davíð Oddsson

Það er enda enginn vafi á því að seðlabankastjórinn Davíð Oddsson stuðar enn pólitíska andstæðinga sína í gegnum tíðina þó að hann hafi skipt um vettvang og yfirgefið stjórnmálin. Hann hefur alltaf verið þekktur fyrir að kalla fram sterk viðbrögð en ávallt athygli þeirra sem fylgjast með þjóðmálum. Svo er enn, það er svo sannarlega vel.