Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 apríl 2006

Sjálfstæðisflokkurinn með meirihluta í borginni

Skoðanakönnun í borginni

Nú þegar að 27 dagar eru til sveitarstjórnarkosninga eru allra augu á stöðu mála í Reykjavík þar sem við blasir að komi nýr meirihluti enda heyrir R-listinn sögunni til. Á fimmtudag mættust leiðtogar framboðanna fimm í borginni í spjallþætti á Ríkissjónvarpinu og ræddu málefni kosningabaráttunnar. Var það heilt yfir litlaus umræða en ágætir hápunktar komu inn á milli, einkum hvað varðaði málefni Reykjavíkurflugvallar. Þar fannst mér Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Björn Ingi Hrafnsson koma áberandi best fyrir. Svo er greinilegt að Svandís Svavarsdóttir er að sækja í sig veðrið og hagnast verulega á því að vera eina konan í hópnum. Dagur B. Eggertsson og Ólafur F. Magnússon áttu vondan dag og sérstaklega fór Dagur illa að ráði sínu er hann reyndi að ráðast með afar ósmekklegum hætti að Vilhjálmi. Dagur B. virðist sífellt vera að fjara meira út sem leiðtogi og er ekki að standa sig sem skyldi og hlýtur að valda flokk sínum vonbrigðum.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallups sem birt var fyrir tæpum klukkutíma mælist Sjálfstæðisflokkurinn nú með hreinan meirihluta, 49% - 8 borgarfulltrúa inni. Samfylkingin missir nokkurt fylgi milli kannana Gallups - mælist nú með rétt rúm 30% og hefur misst um fimm prósentustig. VG mælist með 11% og standa í stað. Frjálslyndir bæta við sig, hafa tæp 5% en voru með rúm 3% síðast. Athygli vekur að þrátt fyrir miklar auglýsingaherferð og kynningamaskínu mælist Framsóknarflokkurinn með rétt rúm 3% og ná enn engum manni inn. Þar sem bæði Framsókn og Frjálslyndir mælast ekki með menn inn er Samfylkingin með 5 og VG með 2. Næsti maður inn er níundi maður Sjálfstæðisflokksins á kostnað VG. Það blasir því við skv. þessu að áttundi maður Sjálfstæðisflokksins er mjög öruggur inni og gæti flokknum dugað 44-45% atkvæða til að vinna borgina verði þetta niðurstaðan.

Samfylkingin virðist vera að missa flugið undir forystu Dags B. Eggertssonar. Þessi mæling hlýtur að vera þeim mikið áfall, enda mikið púður lagt á kynningunni á stefnu flokksins og frambjóðendum í fjölmiðlum. Fari kosningarnar með þessum hætti hljóta þau að teljast pólitískt áfall fyrir bæði Dag og Björn Inga Hrafnsson sem leiða flokka sína nú og teljast vera menn nýrrar kynslóðar í forystu stjórnmálanna. Á sama tíma virðist Vilhjálmur Þ. vera að eflast í aðdraganda kosninganna og njóta trausts til forystu. Þessi könnun er mjög merkileg, enda blasir þar við að Samfylkingin missir fylgi til hægri. Breytingin í þessari könnun virðist vera styrkari staða minnihlutaaflanna. Nú þegar að 27 dagar eru í kjördag blasir því við spennandi lokasprettur.

Stærsta spurning kosningabaráttunnar í Reykjavík virðist vera nú hversu traustur meirihluti Sjálfstæðisflokksins verði. Ef marka má þetta er ljóst að vinstrimeirihlutinn missir bráðlega völdin í borginni.

15 ár frá stjórnarmyndun Davíðs Oddssonar

Davíð Oddsson

Í dag eru 15 ár liðin frá því að Davíð Oddsson myndaði fyrstu ríkisstjórn sína. Nokkrum vikum áður hafði hann fellt Þorstein Pálsson af formannsstóli í Sjálfstæðisflokknum og leitt Sjálfstæðisflokkinn í kjölfar þess til kosningasigurs í þingkosningum. Í ríkisstjórn þeirri sem tók við völdum þann 30. apríl 1991 sátu fyrir Sjálfstæðisflokkinn auk Davíðs: Friðrik Sophusson fjármálaráðherra, Þorsteinn Pálsson sjávarútvegs- dóms- og kirkjumálaráðherra, Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra og Halldór Blöndal landbúnaðar- og samgönguráðherra. Samstarfsflokkurinn var Alþýðuflokkurinn undir forystu Jóns Baldvins Hannibalssonar sem varð utanríkisráðherra. Auk hans sátu þar Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra, Jón Sigurðsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Sighvatur Björgvinsson heilbrigðisráðherra, og Eiður Guðnason umhverfisráðherra.

Stjórnin leið undir lok eftir þingkosningarnar 1995 en miklar væringar höfðu orðið innan hennar á árinu 1994 með afsögn Jóhönnu Sigurðardóttur og Guðmundar Árna Stefánssonar. Jóhanna yfirgaf Alþýðuflokkinn eftir tap í formannskjöri og stofnaði eigin flokk en Guðmundur Árni hrökklaðist frá vegna hneykslismála. Stjórnin hélt meirihluta sínum í kosningunum 1995, þvert á margar spár, en Davíð taldi ekki gerlegt að halda samstarfinu áfram vegna fyrri erfiðleika. Mynduð var stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Davíðs. Sú stjórn situr enn rúmum áratug síðar. Davíð gegndi forsæti í ríkisstjórn samfellt í 13 og hálft ár og lét af embættinu 15. september 2004. Davíð sat á 13 ára forsætisráðherraferli í forsæti fjögurra ríkisstjórna. Sátu alls 30 ráðherrar undir hans stjórn í þessum fjórum ríkisstjórnum. Á ferlinum stýrði Davíð alls 960 ríkisstjórnarfundum.

Enginn vafi leikur á því að á 13 ára forsætisráðherraferli Davíðs Oddssonar ávannst margt og breytingar voru miklar á þjóðfélaginu á þessum langa tíma. Þessar breytingar hafa leitt til aukins frelsis handa viðskiptalífinu og almenningi, hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Tekist hefur að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugu atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum. Það tókst að byggja upp traust og farsælt samfélag undir traustri forystu Davíðs Oddssonar og Sjálfstæðisflokksins í samstarfi við þá flokka sem með honum unnu á þessum tíma. Davíð tókst með leiðtogahæfileikum og baráttukrafti forystu Sjálfstæðisflokksins í íslenskum stjórnmálum á þessu skeiði.

Davíð Oddsson varð utanríkisráðherra við hrókeringar innan ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks haustið 2004. Tæpu ári síðar boðaði hann brotthvarf sitt úr íslenskum stjórnmálum á blaðamannafundi í Valhöll og ákvað að láta af formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Þá hafði hann verið formaður flokksins í 5.335 daga. Aðeins Ólafur Thors hafði þá verið lengur formaður flokksins. Það er alveg óhætt að segja það að flestir sjá eftir Davíð Oddssyni úr hringiðu stjórnmálanna hér á Íslandi. Stjórnmálalitrófið varð mun litlausara við brotthvarf hans. Hann var aðalleikari í stjórnmálum hérlendis í aldarfjórðung. Það er ekki laust við að Davíðs sé sárt saknað, ekki bara af stjórnarsinnum heldur og ekki síður stjórnarandstæðingum. Í þann aldarfjórðung sem Davíð Oddsson var í íslenskum stjórnmálum: í borgarstjórnar- og landsmálapólitík var hann lykilmaður og mikil viðbrigði því er hann hætti.

Ég er einn þeirra sem sakna Davíðs úr forystusveit stjórnmála. Mér finnst pólitíkin vera daufari og ekki eins heillandi eftir að hann fór. Það er bara mín tilfinning. Kannski er það vegna þess að ég vann svo lengi í flokknum undir forystu hans og leit upp til hans sem leiðtoga og stjórnmálamanns. Annars finnst mér fleiri tala svona en ég og ekki er það allt sjálfstæðisfólk. Hann var þannig stjórnmálamaður að talaði hann hlustuðu allir og hann átti mjög auðvelt með að tala til fólks og gera það með miklum krafti. Hann var stjórnmálamaður sem talaði í fyrirsögnum eins og einn núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins orðaði það svo skemmtilega á síðasta ári.

En Davíð þorði líka að stuða. Hann var stjórnmálamaður sem eftir var tekið. Stjórnmálamaður sem setti ævarandi svip á íslenska pólitík. Það er við hæfi að minnast hornsteinanna á löngum stjórnmálaferli hans í dag.

29 apríl 2006

Ítalskt vor á Akureyri

Ítalski fáninn

Það hefur verið mikil blíða hér norðan heiða seinustu daga. Sumarið er komið og ánægjulegt að njóta svo góðs upphafs þess. Seinnipartinn í dag fór ég í góðan göngutúr og endaði förina í Amtsbókasafninu. Þar hófst Ítalskt vor á Akureyri, vikulöng dagskrá hér í bænum helgaðri ítalskri menningu og er samstarfsverkefni nokkurra aðila í bænum. Dagskráin hófst með stofnfundi félagsins "Vinir Ítalíu" í AmtsCafé á bókasafninu kl. 16:00 í dag. Þar var góður fjöldi fólks mættur til að taka þátt í upphafi þessa ítalska vors. Hófst dagskráin með því að Elín Margrét Hallgrímsdóttir símenntunarstjóri, fór yfir dagskrá ítalska vorsins og þess sem framundan væri í hinu nýstofnaða félagi. Að því loknu tók sérstakur gestur stofnfundarins, Pétur Björnsson ræðismaður Ítalíu á Íslandi, til máls. Fór hann í máli sínu yfir atriði tengda Ítalíu og ítalska menningu og sögu umfram allt. Pétur talaði með heillandi og góðum hætti og áhugavert að hlusta á lýsingar hans.

Í ræðu sinni minntist Pétur sérstaklega Sigurðar Demetz Franzsonar söngkennara og óperusöngvara, sem lést nýlega. Sigurður Demetz var einn þeirra sem komu hingað til lands frá Ítalíu og auðguðu íslenska tilveru með nærveru sinni. Sigurður var til fjölda ára búsettur hér á Akureyri og kenndi söng við Menntaskólann á Akureyri. Þar eignaðist hann marga vini og kom með ómetanlegt innlegg í sönglistina á staðnum. Varð hann lærimeistari Kristjáns Jóhannssonar í söng og uppgötvaði fyrstur allra mikla snilli hans. Demetz var allt til síðasta dags áhrifamikill í tónlistarlífi landsins og var mikils metinn fyrir sitt framlag. Sigurður auðgaði okkar mannlíf, en með honum fengum við að kynnast ógleymanlegum suðrænum lífskúnsner. Hann er gott dæmi um það hvernig hægt sé að efla menningu og listir einnar þjóðar. Viðstaddir minntust Sigurðar með því að rísa úr sætum og lúta höfði í andartaksþögn.

Ennfremur fluttu ræður við þetta tilefni þau Maurizio Tani og Anna Blöndal sem kynntu nýtt félag vina Ítalíu, sem verður skammstafað VITA. Gerðist ég stofnfélagi á fundinum. Er það mjög ánægjulegt, enda hef ég lengi hrifist mjög af Ítalíu og ítalskri menningu. Að lokinni dagskrá var boðið upp á léttar veitingar: góðar snittur Halldóru á AmtsCafé og úrvalshvítvín. Var þetta gott upphaf ítalska vorsins og þetta var góð stund sem við áttum saman í dag. Líst mér vel á stofnun félagsins og mun sýna því mikinn áhuga á að taka þátt í því sem þar fer fram. Framundan er svo næstu dagskráratriði. Munu ítalskar úrvalsmyndir verða sýndar í Borgarbíói næstu dagana og líst mér sérstaklega vel á að sjá Cinema Paradiso og Amarcord (meistaraverk Fellinis). Ítölsk tónlist mun verða leikin í Ketilhúsinu 3. maí kl. 17:00 og listamenn sem numið hafa á Ítalíu munu sýna í Galleríi Jónasar Viðars 29. og 30. apríl.

Ítalska hefur verið kennd hjá Símenntun Háskólans á Akureyri undanfarin ár. Kennari þar er Maurizio Tani. Áhugi á tungumálinu og menningu landsins hefur því aukist mjög í gegnum þá kennslu. Er það mikið gleðiefni. Leist mér vel á dagskrána í dag og vil hrósa þeim Maurizio, Ellu Möggu og öðrum sem að komu. Okkur sem unnum Ítalíu og því sem þaðan kemur mun hlakka til að vinna saman í þessu félagi og í þeim verkum sem það mun standa fyrir. Fyrst og fremst vil ég hrósa þeim sem að komu í skipulagningu ítalska vorsins fyrir að færa okkur tækifærið til að kynna okkur betur Ítalíu og ítalska menningu.

28 apríl 2006

Sorprit geispar golunni

Skaftahlíð 24

Tilkynnt var í dag um þá ákvörðun 365 miðla að hætta að gefa DV út sem dagblað en það verði þess í stað helgarblað sem út komi á laugardögum. Segja má að sögu DV í þeirri mynd sem við þekkjum hana sé með þessu lokið. Með þessu líður ennfremur undir lok 96 ára ferli þess sem dagblaðs. DV er blað með langa sögu að baki. Vísir, annar af forverum þess, kom fyrst út árið 1910. Árið 1975 varð ósætti innan blaðsins og ákvað hluti starfsmanna að halda á brott og stofnaði Dagblaðið. Eftir harða og óvægna samkeppni Dagblaðsins og Vísis í sex ár var ákveðið að sameina blöðin í Dagblaðið - Vísir, DV. DV varð gjaldþrota árið 2003 en útgáfa þess hélt áfram af hálfu nýrra eigenda allt til þessa dags. Undir lokin var DV slúðurblað að breskri fyrirmynd (Sun t.d.)

Lengstu óslitnu útgáfu dagblaðs á Íslandi, sem staðið hefur í tæpa öld, hefur því runnið sitt skeið á enda. Blaðið í dag er hið seinasta sem kemur út á virkum degi í sögu þess. Svo kaldhæðnislega vill til að það er 96. tölublað 96 árgangs. Ástæðan fyrir því að útgáfu DV er hætt í þessari mynd er léleg afkoma þess. Verulega hefur dregið úr sölu blaðsins og auglýsingatekjum. Páll Baldvin Baldvinsson mun einn stýra helgarblaðinu en Björgvin Guðmundsson, hinn ritstjóri blaðsins, heldur til annarra verkefna. 10 manns er sagt upp hjá blaðinu vegna þessarar ákvörðunar að skera blaðið niður að nær öllu leyti. Nú þegar að slúðurblaðið DV heyrir sögunni til hlýtur það að teljast skellur fyrir Gunnar Smára Egilsson sem mótaði DV að því slúðursorpi sem það var seinustu árin - tilraun sem mistókst.

Í janúar á þessu ári varð upphaf endalokanna hjá DV. Þá hrökkluðust báðir ritstjórar blaðsins, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, frá. Með því lauk miklum umhleypingatímum í samfélaginu - byltingu fólksins gegn DV og vinnubrögðum blaðsins seinustu árin. Hafði blaðið reyndar virkað sem ein tímasprengja allt frá því að gerðar voru breytingar á því árið 2003. Var um að ræða sorpblaðamennsku, hannaða af ritstjórunum Illuga Jökulssyni og Mikael Torfasyni og viðbætt með innkomu Jónasar Kristjánssonar, sem var ritstjóra gamla DV á árunum 1981-2001 og aftur frá 2005. Ekki ætla ég að fara mörgum orðum um það mál sem varð til þess að þjóðinni varð nóg boðið. Sjálfsmorð Gísla Hjartarsonar á Ísafirði þótti mikill harmleikur - það hlaut að slíku að koma eftir "fréttamennsku" DV.

Vinnulag DV í því máli í janúar varð þess valdandi að öllu sómakæru fólki blöskraði. Þjóðfélagið tók við sér og stíflan brast. Fólk fékk algjörlega nóg. Ákveðið var að efna til undirskriftasöfnunar gegn ritstjórnarstefnu DV. Söfnun undirskrifta stóð í nákvæmlega tvo sólarhringa. Alls skráðu 32.044 einstaklingar nafn sitt við áskorun þessara aðila um endurskoðun ritstjórnarstefnunnar. Breið samstaða landsmanna skilaði þeim árangri sem við blasir nú.

Það er mikið fagnaðarefni að lágkúruleg efnistök af þessu tagi hafi nú náð endastöð sinni. Það munu fáir sakna þess sorpsnepils sem DV var undir lokin. Endalok þess eru svo sannarlega gleðitíðindi.

Ljóðasnilli Davíðs frá Fagraskógi

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi

Þessa dagana er ég enn einu sinni að lesa ljóðasafn Davíðs frá Fagraskógi. Davíð hefur mjög lengi verið mitt uppáhaldsljóðskáld. Ljóð hans eru full af tilfinningu og þar er taug beint til þess sem les þau. Fáum íslenskum skáldum tókst betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn. Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Davíð orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar. Hann allavega talar til hjartans míns - þess vegna er hann ávallt í heiðurssessi þessa vefs þegar ljóð eru annarsvegar.

Eitt af hans bestu ljóðum er Mold. Seinni hluti þess hljómar svo:

Fyrst er gleði og svo kemur nótt.
Svartnættið er eins og svalandi veig,
og sál þín drekkur í einum teyg.
Þreytan breytist í þökk og frið,
þögnin í svæfandi lækjarnið,
haustið í vor...

Hafðu þökk fyrir öll þín spor.
Það besta sem fellur öðrum í arf,
er endurminning um göfugt starf.

Moldin er þín.
Moldin er trygg við börnin sín,
sefar alla, söknuð og harm
og svæfir þig við sinn móðurbarm.

Grasið hvíslar sitt ljúfasta ljóð
á leiðinu þínu. Moldin er hljóð
og hvíldin góð.

Kosningaskrifstofa opnuð

Frá opnun kosningaskrifstofunnar

Kosningaskrifstofa okkar sjálfstæðismanna hér á Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar eftir mánuð opnaði í gær kl. 17:00 með pompi og prakt. Fyrr um daginn höfðu efstu sex frambjóðendur lista okkar í kosningunum kynnt helstu stefnumál flokksins í kosningabaráttunni á blaðamannafundi hér í Kaupangi. Var virkilega góð stemmning hér í gær hjá okkur. Mikill fjöldi fólks leit við á skrifstofunni og þáði veitingar. Efstu frambjóðendur og Halldór Blöndal leiðtogi flokksins í Norðausturkjördæmi, fluttu kraftmiklar og góðar ræður ásamt Birni Magnússyni formanni fulltrúaráðs. Við ræddum um málin saman og fórum yfir kosningabaráttuna framundan.

Það var sólríkur og góður dagur í gær og mjög ánægjulegt að hefja lokasprettinn á svo góðum degi. Við finnum mikinn meðbyr með okkur og stefnu okkar og höldum í lokasprettinn hress og glöð. Slagorð okkar er kraftmikið og við erum mjög ánægð með stöðu okkar í skoðanakönnunum. Framundan er lokaspretturinn og hvet ég alla sem vilja vinna með okkur til að mæta til okkar á skrifstofuna og taka þátt.

Á myndinni sem hér fylgir erum við Óli D. Friðbjörnsson að fara yfir stjórnmálin saman. Óli D. var starfsmaður flokksins hér til fjölda ára og gamalreyndur í kosningabransanum. Hann skipar heiðurssætið á framboðslistanum okkar að þessu sinni. Það er alltaf gaman að ræða pólitíkina við Óla.

27 apríl 2006

Svört vika fyrir Blair og Verkamannaflokkinn

Tony Blair

Um þessar mundir eru níu ár liðin frá sögulegum kosningasigri Verkamannaflokksins í Bretlandi. Það var hinn 2. maí 1997 sem að Elísabet II Englandsdrottning fól Tony Blair að mynda nýja ríkisstjórn. Daginn áður hafði ríkisstjórn Íhaldsflokksins fallið með skelli eftir 18 ára valdaferil og John Major lét því af embætti forsætisráðherra. Er Blair kom í Downingstræti 10 sem forsætisráðherra að loknum fundi með drottningu var hann hylltur af mannfjölda sem þar var saman kominn. Blair þótti þá táknmynd heiðarleika og nýs upphafs í breskum stjórnmálum að loknum tveggja áratuga valdaferli hægrimanna. Hann naut mikils fylgis lengi vel og þótti hafa níu líf sem slíkur á valdaferlinum. Nú er öldin önnur. Blair er orðinn gríðarlega óvinsæll og markvisst hefur hallað undan fæti hjá honum frá þingkosningunum í Bretlandi fyrir nákvæmlega ári. Hann hefur enda verið í miklum átökum við andstæðinga sína innan flokksin sem hafa sterkari stöðu nú en áður.

Flestum má ljóst vera að breskir kjósendur hafa fengið nóg af Blair og telja hann núorðið gerspilltan sem ómast í skoðanakönnunum. Skv. þeirri nýjustu telja 70% stjórn Blairs jafnspillta og ríkisstjórn John Major á tíunda áratugnum, þar sem hvert hneykslismálið reið yfir. Blair hefur virkað þreytulegur og úr tengslum við kjarnann, bæði í flokknum og hinn almenna kjósanda, seinustu mánuðina. Í byrjun nóvember 2005 beið hann þó sinn táknrænasta ósigur á ferlinum - þá tapaði hann í fyrsta skipti í atkvæðagreiðslu í breska þinginu. Tekist var þar um það hvort að ákvæði þess efnis að halda mætti mönnum í allt að 90 daga í stað 14 í gæsluvarðhaldi án formlegrar ákæru væru þeir grunaðir um hryðjuverkastarfsemi. Tapið varð nokkuð afgerandi og skaðlegt fyrir hann. Spurningin sem nú blasir við flestum stjórnmálaspekúlöntum í Bretlandi er tvíþætt - í fyrra lagi hversu lengi mun hann vera við völd og mun hann geta komið málum sínum í gegn?

Óhætt er að segja að þessi vika hafi verið sú versta til fjölda ára fyrir Verkamannaflokkinn. Hneykslismálin hrannast upp og þrír reyndir ráðherrar í stjórn flokksins eru í vondum málum og riða til falls. Talað var um gærdaginn sem svarta miðvikudaginn fyrir Verkamannaflokkinn í breskum fjölmiðlum og ekki er það undrunarefni. Charles Clarke innanríkisráðherra, hefur sætt miklu ámæli pólitískra andstæðinga eftir að komst upp um að rúmlega þúsund erlendum föngum hefði ekki verið vísað úr landi eftir að þeir höfðu afplánað dóma sína frá árinu 1999. Meðal þeirra eru nokkrir dæmdir morðingjar, nauðgarar og barnaníðingar. Það er ekki undrunarefni að Clarke riði til falls og hafa andstæðingar Verkamannaflokksins látið vaða gegn honum. Í fyrirspurnartíma í þinginu í gær reyndi Blair að verja Clarke en án nokkurs árangurs. Virkaði forsætisráðherrann mjög vandræðalegur í vonlausri vörninni fyrir hann.

Mörgum að óvörum riðar nú hinn gamalreyndi og harðskeytti sjóarajaxl frá Hull, John Prescott, til falls eftir að upp komst um ástarsamband við ritara hans á árunum 2002-2004. Prescott hefur verið þingmaður Verkamannaflokksins frá 1970 og lengi virkur í innsta kjarna flokksins. Hann varð varaleiðtogi Verkamannaflokksins árið 1994, er Blair var kjörinn leiðtogi og hefur frá kosningasigrinum fyrir níu árum verið aðstoðarforsætisráðherra. Prescott hefur löngum verið þekktur sem harðjaxl og óvæginn í pólitískum verkum en lengi hefur verið orðrómur uppi um að hann hafi haldið framhjá konu sinni. Þessi atburðarás kom þó langflestum Bretum að óvörum. Má nú fullvíst telja að pólitískur ferill hans sé brátt á enda. Prescott, sem er fæddur árið 1938, var talinn á útleið úr breskum stjórnmálum á kjörtímabilinu en það bendir nú flest til að ferlinum ljúki með því að hann fari frá fljótlega. Talið er að hann hafi með framhjáhaldinu farið á svig við ýmsar reglur um opinbera starfsmenn.

Síðast en ekki síst riðar Patricia Hewitt heilbrigðisráðherra Bretlands, til falls. Eftir að hún lýsti því yfir að árið 2005 hefði verið hið besta í sögu bresku heilbrigðisþjónustunnar varð allt galið í samfélaginu. Ekki er það undra sé litið til þeirra staðreynda að gífurlegur fjárskortur er í heilbrigðisþjónustunni og starfsmenn í geiranum kvarta með áberandi hætti um alltof mikið álag, aðstöðuleysi og erfiðleika í greininni. Hæst náðu mótmælin gegn Hewitt er hún mætti á ráðstefnu breska hjúkrunarfræðingasambandsins í Bournemouth, en þar var hún púuð niður og kallað var að henni ókvæðisorð. Það er því óhætt að segja að engin sæla og ánægja ríki innan bresku ríkisstjórnarinnar með stöðu þessara þriggja lykilráðherra stjórnarinnar með þessum hætti. Allt eru þetta ráðherrar sem eru með nánustu samstarfsmönnum forsætisráðherrans - fólk sem hefur stutt hann af krafti.

Forsætisráðherrann hefur reynt með veikum mætti að verja ráðherrana en með litlum árangri, svo vægt sé til orða tekið. Blair þótti eiga sinn versta dag á ferlinum er hann reyndi að verja Clarke í umræðunni í þinginu í gær. Hann var ósannfærandi og hikandi. Það minnti þar ekkert á Blair sem valdið hefur - manninn sem ræður för. Það er alveg greinilegt að Verkamannaflokkurinnr riðar til falls og að forsætisráðherrann sé að missa tökin á valdakjarna sínum innan flokksins. Staða flokksins veikist sífellt í skoðanakönnunum, Blair verður sífellt óvinsælli sem leiðtogi og stjórnin mælist með sögulegt lágmarksfylgi á valdatímanum. Úrslitaþáttur hvað varðar ráðherrana þrjá og stöðu forsætisráðherrans verða sveitarstjórnakosningarnar í landinu eftir rúma viku. Er langlíklegast að vandræðagangur þremenninganna leiði til afhroðs Verkamannaflokksins í kosningunum.

Fari svo mun enginn verja ráðherrana og þeir fjúka hið snarasta. Fari allt á hinn versta veg mun það líka hafa áhrif á stjórnmálaferil Tony Blair, sem hefur leitt Verkamannaflokkinn í tólf ár og verið hefur húsbóndi í Downingstræti 10 í tæpan áratug. Verði afhroð flokksins mikið munu raddir þess efnis að Blair taki pokann sinn fyrir sumarlok aukast til muna. Það bendir flest til þess að þáttaskil séu framundan í breskum stjórnmálum og í forystu Verkamannaflokksins. Ráðherrarnir þrír heyja mjög erfiða baráttu en ekki síðri verður varnarbarátta forsætisráðherrans sem sífellt riðar til falls.

Stefnumál Sjálfstæðisflokksins á Akureyri kynnt

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri

Á blaðamannafundi í Kaupangi kl. 15:00 í dag kynntum við sjálfstæðismenn á Akureyri helstu stefnumál okkar fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Efstu sex frambjóðendur listans kynntu helstu punkta stefnuskrár okkar og svöruðu spurningum fjölmiðlamanna að því loknu. Eftir fréttamannafundinn sendi ég út eftirfarandi fréttatilkynningu til fjölmiðla, sem birtist ennfremur samhliða á vef okkar, www.islendingur.is:


Mjög sterk málefnastaða og metnaðarfull stefnuskrá

Kjörorð okkar sjálfstæðismanna á Akureyri í komandi kosningabaráttu er eitt - og aðeins eitt: ÁFRAM! Þetta er sennilega þekktasta hvatningarorð íslenskrar tungu og engin tilviljun að það varð fyrir valinu. Fyrir 8 árum hétum við Sjálfstæðismenn því að rjúfa þá kyrrstöðu, sem ríkt hafði á Akureyri um langt skeið, ef kjósendur veittu okkur umboð til þess. Það umboð fengum við og höfum síðan látið verkin tala. Forysta okkar í málefnum sveitarfélagsins hefur ekki einungis verið farsæl heldur jafnframt sókndjörf og hefur skilað Akureyrarkaupstað í úrvalsdeild sveitarfélaga.

Stefnuskrá okkar sjálfstæðismanna fyrir næsta kjörtímabil er mjög metnaðarfull og þar er að finna mikinn fjölda góðra verkefna sem við hyggjumst hrinda í framkvæmd næstu fjögur árin.

Meðal nokkurra af helstu stefnumálum okkar má nefna:

· Verndum unga fólkið! Ítarleg stefnuskrá um aukið forvarnastarf.
· Eflum skólana - Þróunarstarf og nýbreytni í skólastarfi.
· Beinskeyttar aðgerðir í atvinnumálum: Skattalækkun á fyrirtæki - rannsóknasjóður og nýsköpunarsjóður.
· Lægstu leikskólagjöldin á landinu.
· Auknar niðurgreiðslur til foreldra barna í íþrótta- og tómstundastarfi

· Frítt í strætó frá og með árinu 2007.
· Efla ferðaþjónustuna og fjölga afþreyingarmöguleikum fyrir íbúa og gesti bæjarins: Fjölskyldugarður - Kláfur í Hlíðarfjall - Glerárlaug opin allt árið - Ný skíðalyfta ofan við Fjarkann í Hlíðarfjalli - Fimleikahús - Reiðhöll.
· Uppbygging miðbæjarins.
· Eyjafjörður verði miðstöð Norðaustur siglingaleiðarinnar.
· Lenging flugbrautar Akureyrarflugvallar og stækkun flugstöðvarinnar - Miðstöð innanlandsflugs verði áfram í Reykjavík.

· Framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng hefjist árið 2007.
· Fjölbreytt rekstrarform bæjarstofnana.
· Forræði öldrunarmála alfarið frá ríkinu yfir til sveitarfélagsins.
· Tryggja fjölbreyttari búsetukosti fyrir 60+
· Aukið íbúalýðræði.
· Háskólinn á Akureyri efldur með auknum stuðningi við Þekkingarvörður ehf og skóla endurnýjanlegra orkugjafa.

Þetta eru einungis örfá af þeim verkefnum sem við munum vinna á komandi kjörtímabili, ef við fáum til þess umboð kjósenda. Við höfum sýnt það í verki að við látum okkur ekki nægja að gefa "kosningaloforð" heldur efnum við þau líka! Við göngum því bjartsýn til kosninga og óskum eftir að fá ÁFRAM umboð kjósenda til þess að veita bæjarstjórn Akureyrar forystu. Við segjum: Höldum ÁFRAM að gera góðan bæ enn betri.


Fréttatilkynning frá D-lista Sjálfstæðisflokks fimmtudaginn 27. apríl 2006.

Opnun kosningaskrifstofu flokksins á Akureyri

XD - áfram!

30 dagar eru í dag til sveitarstjórnarkosninga. Kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri fer á fullt í dag og nú keyrum við á fullu seinustu 30 dagana. Í dag verða meginlínur í stefnumótun flokksins kynntar á blaðamannafundi hér í Kaupangi og í kjölfar þess opnar kosningaskrifstofa flokksins í Kaupangi kl. 17:00. Hér hefur verið líf og fjör seinustu daga. Mikill undirbúningur og langur vinnutími - skemmtileg vinna umfram allt.

Slagorð okkar í þessum kosningum er: XD - áfram! Við sækjumst eftir því að leiða bæjarmálin áfram næstu fjögur árin, sem og þau hin fyrri átta sem við höfum verið hér í forystu undir leiðsögn Kristjáns Þórs Júlíussonar bæjarstjóra. Við leggjum okkar verk í dóm kjósenda glöð og hress. Við getum verið stolt bæði af stefnu okkar í þessum kosningum og ekki síður þeim verkum sem við höfum leitt með farsælli forystu okkar.

Þetta verður lífleg og hressileg kosningabarátta. Fram til sigurs!

26 apríl 2006

Tony Snow ráðinn til starfa í Hvíta húsinu

George W. Bush og Tony Snow

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilkynnti á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag að Tony Snow yrði blaðafulltrúi Hvíta hússins. Snow tekur því við embættinu af Scott McClellan sem verið hefur talsmaður Hvíta hússins frá árinu 2003. Snow verður þriðji maðurinn til að vera talsmaður Bush og ríkisstjórnar hans í forsetatíð hans. Ari Fleischer var talsmaður Hvíta hússins á undan McClellan, á árunum 2001-2003. Tony Snow er þekktur fyrir að vera íhaldsmaður en hefur þó verið gagnrýninn á verk Bush forseta og stjórnar hans. Snow stýrir spjallþætti á einni af útvarpsstöðvum Fox-stöðvarinnar. Sérstaklega hefur Snow óhikað gagnrýnt forsetann í efnahagsmálum og sagt hann vera á villigötum í verkum sínum þar. Hinsvegar hefur Snow oft stutt forsetann í orði og verki og talað máli hans. Snow hefur verið talinn ásamt Rush Limbaugh öflugur hægrimaður í umræðunni þar vestra.

Val forsetans á Snow sem talsmanni sínum kemur mjög á óvart. Bandarískir fjölmiðlar telja valið mikil tímamót. Tek ég undir það. Með þessu er forsetinn að sýna að hann velur ekki bara þá sem styðja öll verk hans til starfa í starfsliði sínu. Engum dylst að það er mikil uppstokkun nú í starfsmannahaldi Hvíta hússins. Nýlega varð Josh Bolten starfsmannastjóri Hvíta hússins í stað Andrew Card og Karl Rove hefur farið í bakvarðasveitina og látið af áhrifamiklu starfi sem yfirmaður stefnumótunar. Óvinsældir forsetans hafa aukist mjög seinustu mánuði og hefur leiðin sífellt legið niður á við. Með uppstokkun í starfsmannaliði forsetaembættisins vill Bush snúa vörn í sókn og telja má öruggt að með valinu á Snow sé Bush að opna á annað andrúmsloft í umræðunni. Þó að Snow hafi oft stutt forsetann fer því fjarri að hann sé gagnrýnislaus á öll embættisverk hans.

Snow vann um skeið í forsetatíð George H. W. Bush, árin 1989-1993, sem einn helsti ræðuritari hans. Framundan eru mikilvægar þingkosningar í nóvember fyrir Repúblikanaflokkinn. Tapist önnur þingdeildin, eða það sem verra er báðar þeirra, skaðast forsetinn verulega og verður sem lamaður leiðtogi lokahluta valdaferilsins, líkt og svo margir fyrri forsetar repúblikana. Þetta vill Bush forðast og sækir fram með uppstokkun í starfsmannaliði forsetaembættisins. Skipun Snow í hið veigamikla embætti talsmanns forsetaembættis markar mjög vel þær áherslur sem Bush stefnir á nú. Þó að talsmaður forsetaembættisins sé auðvitað ekki valdamikill er hann einn mest áberandi fulltrúar stjórnar landsins. Allir sem fylgst hafa með bandarískum stjórnmálum kannast enda við Fleischer og McClellan. Verður reyndar merkilegt að sjá hvernig samstarf fjölmiðlanna sem sitja fundina verða við Snow.

Spurt er: duga þessar uppstokkanir fyrir forsetann? Ef marka má fréttir þessa dagana vilja margir repúblikanaþingmenn að Bush fórni Rumsfeld varnarmálaráðherra og jafnvel Cheney varaforseta. Mikið er talað um það vestanhafs að Condoleezza Rice utanríkisráðherra, sé álitleg sem varaforseti, enda yrði hún fyrst kvenna í embættið og myndi sóma sér vel sem forsetaefni árið 2008 og sé sú eina sem geti stöðvað Hillary Rodham Clinton þá. Allt eru þetta pælingar. Allir vita af óvinsældum Rumsfelds - það blasir enda algjörlega við að tími Rumsfelds er liðinn og hlýtur að vera stutt í að honum verði sparkað. Eins og bent hefur verið á munu hinar minniháttar breytingar í starfsmannahaldi Hvíta hússins litlu breyta fyrir forsetann og ekki ólíklegt að þær raddir verði sífellt háværari að raunhæf uppstokkun verði að eiga sér og haukunum verði að fórna að einhverju leyti.

Það verður fróðlegt að sjá næstu vikurnar hvort það hafi eitthvað að segja fyrir stöðu forsetans og flokk hans er styttist í þingkosningarnar að hafa stokkað svona temmilega eða hvort fara þurfi í harkalegri uppstokkun.

Nýtt sjónvarp

Nýja tækið

Í gær var tekið sig til og keypt nýtt sjónvarp. Græjan sú er hvorki meira né minna en 40 tomma tæki, Samsung að gerð. Er alveg frábært að horfa á sjónvarpið núna og njóta góðra mynda og þátta. Sérstaklega fannst mér alveg unaðslegt í gærkvöldi að setja Lawrence of Arabia í DVD-spilarann og horfa á. Þvílíkt dúndur, segi ég og skrifa. Gamla tækið hafði fylgt mér frá árinu 1998, en þegar að ég keypti það fannst mér það rosalega flott og þá var það hið besta sem gerðist. En nú skilja leiðir okkar. Ég sakna ekki gamla tækisins og tek hinu nýja fagnandi. Það að horfa á Lawrence of Arabia varð allavega upphafið að góðum kynnum hjá okkur. :)

25 apríl 2006

Í minningu Regínu

Regína Thorarensen

Frænka mín, Regína Thorarensen, frá Stuðlum í Reyðarfirði, lést um helgina, 88 ára að aldri. Regína var að mínu mati einstök kjarnakona. Hún varð auðvitað landsþekkt fyrir frábær skrif sín í Morgunblaðið og DV til fjölda ára. Hún var fréttaritari Moggans í mörg herrans ár, fyrst er hún bjó á Ströndum á Vestfjörðum og síðar á Eskifirði. Regína ritaði síðar frábæra pistla í DV, er hún var fréttaritari blaðsins á Selfossi. Regína hafði næmt auga fyrir bæði góðum og eftirtektarverðum fréttum og sagði oft frá hinu smáa í hvunndeginum sem mörgum öðrum fannst ekki fréttnæmt. En ritstíll hennar og skoðanakraftur heillaði marga. Ég man að þegar að ég hitti Regínu fyrst fannst mér hún alveg ótrúlega mikil sagnakona. Hún sagði frá svo eftir var tekið og hún gat líka talað alla í kaf með mergjuðum athugasemdum sínum.

Regína var trú Sjálfstæðisflokknum alla tíð og studdi forystu flokksins með krafti. En hún þorði að láta í sér heyra og var alls ófeimin við að láta rödd sína heyrast væri hún á móti forystu flokksins. Frægir voru pistlar hennar um Þorstein Pálsson í DV er hún var fréttaritari á Selfossi og Þorsteinn fyrsti þingmaður kjördæmisins. Þau voru fjarri því alltaf sammála og Regína var alls ófeimin við að tjá sínar skoðanir á hinum unga leiðtoga flokksins. Ég hafði alltaf gaman af að lesa fréttapistla Regínu. Hún skrifaði í blöðin langt fram á efri ár og ég held að það sé rétt munað hjá mér að innan við fjögur ár séu frá þeim seinasta. Brot af þessum frábæru pistlum má lesa í ævisögu hennar sem kom út árið 1989. Þar nýtur sagnahæfileiki hennar sín.

Sigurlín Kristmundsdóttir, amma mín, og Regína voru miklar vinkonur alla tíð. Þær bjuggu ekki langt frá hvorri annarri á Eskifirði. Vinátta þeirra hélst alla ævi og þó að langt væri á milli þeirra seinustu árin vissu þær vel af hvorri annarri. Er amma lést árið 2000 kom Regína að jarðarförinni á Eskifirði. Þá var Regína nýlega flutt aftur austur og komin á elliheimilið á staðnum. Þó að heilsu hennar væri mjög tekið að hraka þá og hún ætti erfitt með að komast um fór hún í jarðarför ömmu. Það mat ég allavega mjög mikils og var virkilega ánægjulegt að hitta hana þá. Síðasta skiptið sem ég sá hana var í fyrrasumar er ég leit á Hulduhlíð. Regína var þá orðin mjög heilsutæp en ótrúlega brött miðað við allt.

Sykurmolarnir slógu að mínu mati í gegn árið 1989 þegar að þau sömdu til hennar lagið Regína. Kom hljómsveitin heim til hennar á Selfossi og hún bauð þeim í mat. Boðið var að hætti Regínu upp á fulldekkað veisluborð og lambasteik með öllu tilheyrandi. Það eitt er víst að þeir sem komu í heimsókn til Regínu fóru ekki svangir þaðan og nutu sannkallaðrar veislu. Fannst mér það mikill sómi fyrir Björk og þau í hljómsveitinni að þau skyldu semja þetta lag og tileinka það henni.

Regína var kjarnyrt alþýðukona sem var ófeimin að láta til sín taka. Hún var trú sínu veganesti í lífinu og talaði fyrir sinni sjálfstæðisstefnu með sínum hætti. Enginn var þó trúrri flokknum er til kosninga og verkanna kom. Hún var sönn kjarnakona er á hólminn kom. Guð blessi minningu mætrar og stórbrotinnar konu.

Staðan í pólitíkinni í Fjarðabyggð

NFS

Í kvöld horfði ég á borgarafund NFS frá Fjarðabyggð. Þar sátu fyrir svörum leiðtogar framboðanna fjögurra sem nú þegar liggja fyrir og helstu kosningamálin fengu sína kynningu eins og vera ber. Mér finnst NFS vera að standa sig alveg frábærlega með þessum borgarafundum og kynna landsmönnum pólitíkina úti á landi. Þetta er eitthvað sem þeir mega vera stoltir af. Það hefur enda verið svo að borgarpólitíkin hefur fengið langmest rými í fjölmiðlaumræðunni og gott að fá sjónarhorn á stöðuna utan Ártúnshöfðans. Höfum við nú séð ítarlega og vandaða þætti frá Akranesi, Árborg og Akureyri, en ég var viðstaddur þann fund á veitingastaðnum Strikinu fyrir viku og hafði gaman af. Fyrir mig var auðvitað sérstaklega áhugavert að fylgjast með pólitísku umræðunni í Fjarðabyggð. Ég á að hluta ættir mínar að rekja austur og hef alltaf þótt gríðarlega vænt um byggðirnar þar og á taugar til staðanna í gömlu Fjarðabyggð sérstaklega.

Hin gamla Fjarðabyggð var til með sameiningu Neskaupstaðar, Eskifjarðar og Reyðarfjarðar árið 1998. Sú sameining hefur gengið að mörgu leyti vel en að öðru leyti ekki. Var ég reyndar gáttaður er sú sameining fór í gegn enda hef ég verið alinn upp við að heyra sögurnar af rígnum milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar sérstaklega. Þegar að ég fer austur á firði til móðurfjölskyldu minnar á Eskifirði er ávallt svo að menn ræða um þennan ríg og hann er ótrúlega mikið enn til staðar þrátt fyrir sameininguna. Að mörgu leyti er það skoðun fólks að sameiningin frá 1998 hafi aldrei verið fullkláruð, svo eðlileg teljist hún. Að mörgu leyti hverfur þessi rígur með eldri kynslóðunum en að öðru leyti ekki. Hef ég haft lúmskt gaman af þessum ríg sem verið hefur og er oft tvennt ólíkt að heyra t.d. Halldór móðurbróður minn á Eskifirði og Lalla móðurbróður á Norðfirði lýsa lífinu og tilverunni þar.

Það vakti mikla athygli mína og eflaust margra fleiri þegar að aðeins var samþykkt sameiningartillaga um að sameina Austurbyggð, Fjarðabyggð og Mjóafjarðarhrepp í eitt sveitarfélag í sameiningarkosningunum 8. október 2005. Sameiningarkosningin þótti misheppnuð og hún miðaði lítið áfram. En nú er þetta að verða eitt sveitarfélag fyrir austan og ég tel að það styrki byggðirnar þar. Annars mun staða þessa alls verða metið af því hvernig til tekst hjá þeim sem ráða för í nýju sveitarfélagi frá 15. júní. Eitt og annað hefur breyst í pólitíkinni fyrir austan með þessari sameiningu. Auðvitað fækkar þar sveitarstjórnarmönnum til samræmis við þetta og nýir tímar renna upp. Í aðdraganda kosninganna var stillt upp hjá öllum framboðunum fjórum nema Framsóknarflokknum. Reyndar fannst mér merkilegt að sjá stöðuna sem úr því prófkjöri kom en staða sveitarstjórnarfulltrúanna frá Austurbyggð varð þar sterk.

Nýtt sveitarfélag er 4000 manna byggðarlag - sterkt sveitarfélag og þar er mikil uppbygging á öllum sviðum. Í raun hefur verið ævintýralegt að fylgjast með kraftinum þar. Hef ég séð hann vel af ferðum mínum þangað seinustu árin. Nýtt sveitarfélag heitir Fjarðabyggð, rétt eins og sveitarfélagið sem varð til árið 1998. Nýtt pólitískt landslag blasir við í nýju sveitarfélagi og munu nýjir tímar vonandi verða þar með kosningunum eftir rúman mánuð. Í kvöld var kynnt ný skoðanakönnun á fylgi framboðanna í Fjarðabyggð. Þar mælist Fjarðalistinn (sameiginlegt framboð félagshyggjuflokkanna) stærst með 35,6%, næstur kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 31,8% og Framsóknarflokkurinn mælist með 29,7% fylgi. Öll mælast framboðin þrjú með þrjá menn inni. Biðlistinn, sem stofnaður var í aðdraganda kosninganna 2002, mælist aðeins með 1,7% fylgi og missir meginþorra fylgis síns.

Fjarðalistinn er byggður á grunni Alþýðubandalagsins á Norðfirði sem þar réð lögum og lofum í hálfa öld og kjarninn í framboðinu eru vinstrimenn á öllum stöðunum. Þó er Fjarðalistinn ekki borinn upp af neinum flokkum beint en undirstaða listans er þó öllum ljós. Ef marka má þessa skoðanakönnun er Fjarðalistinn að missa mann frá kosningunum 2002 í gömlu Fjarðabyggð. Smári Geirsson sem leiddi Fjarðalistann 1998 og 2002 er svo sannarlega þekktur í sveitarstjórnarpólitík um allt land og var lengi leiðtogi Alþýðubandalagsins á Norðfirði er í fjórða sæti Fjarðalistans að þessu sinni. Hann setur sjálfan sig í oddasæti og leggur allt undir með því að Fjarðalistinn haldist enn stærsta aflið í bæjarmálunum þar. Ef marka má þessa könnun er hann ekki inni en er þó skv. henni næstur inn og þá á kostnað þriðja manns Framsóknarflokksins. Það verður óneitanlega merkilegt að sjá hvort Smári helst inni.

Sjálfstæðisflokkurinn er í mikilli uppsveiflu í Fjarðabyggð í þessari könnun. Þar er öflugur nýr framboðslisti og mikið af öflugu og góðu fólki sem gefur kost á sér - til að leiða flokkinn til sigurs þar. Nýr leiðtogi, Valdimar O. Hermannsson, er kominn til sögunnar. Þar er öflugur og vandaður maður. Hitti ég hann á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrr í mánuðinum og ræddi örlítið við hann um pólitísku stöðuna þar. Tel ég flokkinn eiga mikil sóknarfæri í Fjarðabyggð að þessu sinni. Markmiðið hlýtur að vera að tryggja kjör Jens Garðars Helgasonar og ná því að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn verði stærst framboða í sveitarfélaginu. Listi flokksins í Fjarðabyggð er svo til algjörlega nýr og það er öllum ljóst að með honum er opnað á ný tækifæri og nýtt upphaf í stjórnmálunum í bænum. Ef marka má þessa könnun eru tækifæri Sjálfstæðisflokksins miklir í nýju sveitarfélagi og þriðji maðurinn virðist öruggur inni.

Framsóknarflokkurinn er leiddur af Guðmundi Þorgrímssyni bæjarfulltrúa í Austurbyggð. Prófkjör flokksins þótti skila af sér kostulegum úrslitum og í raun má telja merkilegt hversu sterkir fulltrúar Austurbyggðar urðu þar en kjörnir fulltrúar flokksins í Fjarðabyggð urðu undir. Er reyndar athyglisvert að sjá hversu sterk staða flokksins er í Fjarðabyggð miðað við aðrar kannanir út um landið. Virðist flokkurinn standa sterkar þarna en á mörgum öðrum stöðum. Biðlistinn var stofnaður með krafti fyrir fjórum árum af frænda mínum, Helga Seljan, og vinum hans. Þeir unnu mikinn sigur og náðu að fella kommameirihlutann alræmda, sem var mikið þarfaverk. Segja má að Biðlistinn hafi breytt mjög pólitísku stöðunni þarna. Ef marka má stöðuna nú er á brattann að sækja fyrir listann og Ásmund, sem varð bæjarfulltrúi í stað Helga og leiðir listann að þessu sinni. En væntanlega stefna þeir hátt.

Þessi könnun sýnir nýtt landslag í pólitíkinni fyrir austan. Fyrst og fremst sýnir hún að Sjálfstæðisflokkurinn á öll sóknarfæri í það að verða stærst framboðanna fjögurra í Fjarðabyggð. Ég ætla svo sannarlega að vona það að flokksfélagar mínir leiði flokkinn til glæsilegs sigurs eftir rúman mánuð. Mér finnst listi þeirra góður allt frá þeim sem leiða til þeirra sem með fylgja. Heiðurssæti listans skipar Georg Halldórsson á Eskifirði en við erum systkinabörn. Goggi hefur eins og flest okkar fólk frá Eskifirði fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum. Á móti kemur að allir erum við, ég, Goggi og Helgi Seljan yngri, náskyldir og afkomendur Friðriks Árnasonar, sem var lengi hreppstjóri á Eskifirði. Friðrik afi var sjálfstæðismaður fram í hjartarót og fáum hef ég kynnst á lífsleiðinni sem var gegnheilli hægrimaður.

Ég vona að hægrisigur verði niðurstaðan í Fjarðabyggð eftir mánuð!

24 apríl 2006

Nýtt fjölmiðlafrumvarp kynnt opinberlega

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Um fátt hefur verið deilt meira á vettvangi stjórnmála hérlendis seinustu árin en lagasetningu um eignarhald á fjölmiðlum og ýmsa þætti tengda málinu á árinu 2004. Harkaleg átök áttu sér stað samhliða öllu ferlinu, allt frá því að frumvarp ríkisstjórnarinnar var kynnt í lok aprílmánaðar 2004, í kjölfar þess að Alþingi samþykkti fjölmiðlalögin 24. maí og eftir að forseti Íslands synjaði því staðfestingar 2. júní 2004. Inn í málið blönduðust átök um valdsvið forsetaembættisins og 26. grein stjórnarskrárinnar. Leiddu deilurnar að lokum til þess að Alþingi afturkallaði lögin og var lagafrumvarp um það samþykkt á þingi í júlí 2004. Málið var sett í annan farveg og leitað leiða til þverpólitískra sátta með því að skipa þverpólitíska nefnd til að fara yfir málið. Í apríl 2005 var sameiginleg niðurstaða allra flokka kynnt.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, kynnti á blaðamannafundi í dag nýtt fjölmiðlafrumvarp sem stjórnarflokkarnir hafa nú samþykkt byggða á grunni þessarar skýrslu fjölmiðlanefndar í fyrra. Meginpunktar frumvarpsins eru þeir að fjölmiðlum er gert að setja reglur sem tryggja gagnsæi á eignarhaldi þeirra, einn og sami aðili má ekki eiga meira en 25% hlut í fyrirtæki sem er ráðandi á markaði og að Samkeppnisstofnun geti haft afskipti af samruna fyrirtækja á fjölmiðlamarkaði. Hér birtast því ljóslifandi sú sáttargjörð sem náðist á milli flokkanna. Það sem stefnt var að með því að færa málið í þetta ferli frá þrætupunktunum sumarið 2004 var að landa því sameinað óháð stjórnmálaskoðunum almennt. Er það mjög ánægjulegt og gleðiefni að hægt hafi verið að samtvinna áherslur og skoðanir á þessu mikilvæga málefni þá og lægja hinar gríðarlegu öldur í málinu - byggja nýtt frumvarp á þeim grunni.

Lengst af í hita átakanna sumarið 2004 var staða mála þannig að stjórnarandstaðan skoraðist undan því að gera heyrinkunna efnislega afstöðu sína til lagasetningar um eignarhald á fjölmiðlum. Það eina sem kom frá þeim vorið 2004 og um sumarið er átökin voru sem mest voru pólitísk keiluköst og illmælgi af ótrúlegri sort. Er málið var fært í þennan farveg var fulltrúum ólíkra flokka ekki annað fært en að taka málið efnislega fyrir og ræða það á þeim forsendum. Ég hef ávallt talið það mikilvægt að setja slíkan ramma utan um heildarmynd fjölmiðla á Íslandi og fagna því að nú stefnir allt í að fjölmiðlafrumvarp verði afgreitt á yfirstandandi. Vonandi standa allir aðilar við þá sátt sem áður hefur náðst og bera gæfu til að samþykkja frumvarpið fljótlega. Tekin hefur verið umræða um alla mögulega og ómögulega punkta fjölmiðlalöggjafar og þetta er margrætt.

Athygli vekur að stefnt er að samþykkt þessa máls á yfirstandandi þingi. Það vekur athygli í ljósi þess að rétt rúmur mánuður er til sveitarstjórnarkosninga og stutt í áætluð þinglok. Það er þó ljóst að stjórnarandstöðunni verður að ósk sinni að ræða fjölmiðlafrumvarp saman við frumvarp um Ríkisútvarpið. Það hefur reyndar verið með ólíkindum að hlusta á jagið og blaðrið í stjórnarandstöðunni um það mál og greinilegt að blaður þeirra í þinginu miðast við það eitt að tefja það að meirihluti þingsins samþykki nýtt lagafrumvarp um Ríkisútvarpið. Allir sem muna eftir hitanum í fjölmiðlaumræðunni fyrir tveim árum sakna ekki blaðurs þá um allt og ekki neitt nema efnisleg atriði fjölmiðlalöggjafar. Vonandi höldum við ekki í sama leiðindanagið og illmælgið sem þá einkenndi umræðu um íslensk stjórnmál.

Nú getur reyndar enginn kennt Davíð um nýja löggjöf, enda er hann farinn til annarra starfa og kemur hvergi nærri nú. Það er þó kaldhæðnislegt (og kannski með ráðum gert) að kynna nýtt fjölmiðlafrumvarp nákvæmlega tveim árum eftir að hið fyrra og umdeilda var kynnt fyrst, en það var 26. apríl 2004. Það verður fróðlegt að sjá hvort átök verði um þessi mál af einhverjum hætti eða funinn í kringum það muni með einhverjum hætti minna á sumarhitann í þjóðmálaumræðunni sumarið 2004 - sumarið þegar að stjórnmálaáhugamenn fóru aldrei í frí.

Skemmtileg leikhúsferð til Dalvíkur

Blessað barnalán

Síðdegis hélt ég út á Dalvík. Mér hafði verið boðið í kvöldmat hjá góðvinum mínum og ennfremur var stefnt á leikhúsferð. Nokkuð langur tími var liðinn frá því að ég hafði farið úteftir síðast og var ánægjulegt að skella sér aftur. Þegar úteftir var komið blasti við mikill snjór en þar hefur snjóað mun meira seinustu vikur og ekki mikil merki um að sumarið sé gengið í garð. Að loknu góðu spjalli yfir góðum mat héldum við í leikhúsið Ungó á Dalvík. Hitti ég mikið af góðum vinum á sýningunni en ég bjó um nokkuð skeið á Dalvík og eignaðist þar marga vini og kunningja. Þau vináttubönd skipta alltaf miklu máli en ég var lengstan hluta grunnskólatímabilsins þar. Gleymdi ég mér í spjalli við einn gamlan og góðan kennara minn fyrir sýninguna en það var orðið mjög langt síðan að leiðir okkar höfðu legið saman. Viðkomandi kennari vildi vita hvað ég væri að gera og spurningar um pólitísk verk mín komu þar við sögu.

Sýningin sem ég fór að sjá var Blessað barnalán eftir Kjartan Ragnarsson. Leikfélag Dalvíkur frumsýndi sýninguna föstudaginn 7. apríl og var þetta tíunda sýning leikfélagsins á verkinu. Stefnt er að minnsta kosti fimm til viðbótar og fleirum ef aðsókn helst góð. Salurinn var troðfullur í kvöld og góð stemmning, enda er leikverkið ærslafullur og sprenghlægilegur farsi. Þarna var fólk af öllum aldurshópum og skemmtu sér konunglega saman. Leikstjóri uppfærslunnar er leikkonan landskunna Sunna Borg. Sunnu þekkja flestir fyrir störf sín hér hjá Leikfélagi Akureyrar, en þar hefur hún leikið fjölda eftirminnilegra hlutverka, haldið námskeið og leikstýrt. Sunna var einnig um tíma formaður Leikfélags Akureyrar. Ekki er hægt að segja annað en að Sunna hafi unnið gott starf útfrá með uppsetningu á Blessuðu barnaláni og hópurinn gert saman mjög góða sýningu.

Eins og flestir vita sem hafa séð verkið segir þar frá aldraðri konu, Þorgerði, sem býr með dóttur sinni, Ingu, austur á landi. Sú gamla á reyndar fleiri börn, en þau búa víðs fjarri og eru afar löt við að heimsækja móður sína. Dóttirin bregður á það ráð að sviðsetja dauða móðurinnar, til að fá systkinin heim. Þau birtast svo til að vera við jarðarför móðurinnar, þess albúin að gera það sem mestu skiptir í þeirra augum að skipta á milli sín arfinum og öllu því sem gamla konan skilur eftir sig. Presturinn á staðnum er nauðbeygður til að taka þátt í látalátunum og prestsfrúin kemur við sögu, líka læknirinn í þorpinu, heimilisaðstoðin og meira að segja ferðamaður sem kemur þarna til styttri dvalar. Úr verður sprenghlægileg atburðarás sem hittir alltaf í mark. Verkið var fyrst tekið til sýninga hjá Leikfélagi Reykjavíkur árið 1977 og síðan verið sýnt víða um land við miklar vinsældir.

Hafði ég ætlað mér í nokkrar vikur að skella mér á verkið en loksins gafst góður tími til þess í kvöld. Var þetta svo sannarlega frábær skemmtun í leikhúsinu útfrá og mjög gaman að hlæja að öllum látunum. 11 leikarar eru í sýningunni og þess ber að geta að fimm þeirra eru með þessari sýningu að stíga sín fyrstu skref sem leikarar á sviðinu útfrá. Öll stóðu þau sig mjög vel en senuþjófarnir voru að mínu mati Arnar Símonarson í hlutverki prestsins, Dagbjört Sigurpálsdóttir í hlutverki Ingu, Dana Jóna Sveinsdóttir í hlutverki Þorgerðar og Sólveig Rögnvaldsdóttir í hlutverki Bínu. Addi Sím hefur margoft farið á kostum á leiksviði útfrá og hann er svo sannarlega fæddur leikari. Taktar hans í hlutverki prestsins voru alveg frábærir. Dana Jóna var svo alveg bráðfyndin sem Þorgerður.

Eftir sýninguna fór ég í kaffispjall heim til vinafólks míns. Haldið var heim eftir miðnættið. Stoppaði ég upp við Háls, ofan við Dalvík, við minnismerkið um Friðrik Friðriksson æskulýðsprest, skamma stund og naut kyrrðar kvöldsins og roðans og fegurðarinnar sem blasti við út fjörðinn áður en heim var haldið til Akureyrar að loknum góðum degi. Kvöldroðinn var góð áminning til mín um það að sumarið er komið og að birtan er að sigrast hægt en örugglega á myrkrinu. Það minnti mig svo vel á það að slappa vel af í sumar og njóta lífsins.

23 apríl 2006

Umræða um flugvöll á höfuðborgarsvæðinu

Ég hef lengi haft mikinn áhuga á málefnum flugvallar á höfuðborgarsvæðinu og alla tíð verið talsmaður þess að hann verði áfram þar. Fyrir ári stefndi allt í að Reykjavíkurflugvöllur yrði einmitt aðalmál þessarar kosningabaráttu en það hefur orðið rólegra yfir því tali seinustu mánuðina. Athygli vakti þó í prófkjörsslag sjálfstæðismanna að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson skipti skyndilega um skoðun á vellinum og vildi hann burt helst sem fyrst og yfirbauð þar keppinaut sinn Gísla Martein Baldursson. Ekki fannst mér margt gott við þær pælingar og fannst mörgum þær vera stuðandi miðað við fyrri rólegheit og yfirvegun Vilhjálms. Í aðdraganda landsfundar hafði Vilhjálmur aftur skipt um skoðun og orðinn meira inni á þeirri línu að halda í völlinn en leita nýrra leiða. Ef marka má tal flokksfélaga minna í borginni hafa þeir enga afgerandi skoðun um hvað eigi um völlinn að verða. Finnst mér það með ólíkindum og ætla að vona að þeir þori að láta vaða í þá átt að tala fyrir velli beint á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og fyrr segir hefur Framsóknarflokkurinn í Reykjavík nú skotist fram með afgerandi stefnu í þessum málum sem vekur athygli og ekki síður auglýsingarnar sem kortleggja stefnuna með verulega afgerandi hætti. Verð ég að viðurkenna að ég verð sífellt meira skotinn í hugmynd framsóknarmanna eftir því sem ég sé hana betur útfærða á teikniborði þeirra. Það góða við þessar auglýsingar er einkum það að þar kemur fram skýr og afgerandi stefna á því hvert skuli stefna en ekki tal næstu árin. Það er því miður svo að margir hafa flaskað á sér í borgarmálunum hvað varðar þessi mál varðar með því að hafa ekki neina afgerandi og skýra stefnu. Að mínu mati eru valkostirnir ekki nema þrír: flugvöllur þar sem hann er nú, flugvöllur á Lönguskerjum og að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur. Sjái borgaryfirvöld sér ekki fært að hafa hann áfram í Vatnsmýrinni tel ég vænlegast að horfa á Löngusker sem staðsetningu. Ég er algjörlega mótfallinn því að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur.

Eitthvað segir mér svo hugur að Framsóknarflokkurinn í Reykjavík eigi eftir að græða á því að hafa skýra stefnu í þessum málum. Þessi auglýsing innrammar þá stefnu mjög vel. Þessi auglýsing er enda mjög afgerandi um hvað þeir vilja og hún sýnir framtíðarsýn þeirra ljóslifandi. Skoðun mín fellur því saman við þá sem framsóknarmenn tala fyrir. Það verð ég fúslega að viðurkenna. Það hefur enda þegar vakið athygli hversu ferskar auglýsingar framsóknarmanna eru. Þar er sótt í smiðju Trausta Valssonar, sem kom fyrstur með hana á áttunda áratugnum, og Hrafns Gunnlaugssonar sem færði hana í glæsilegan myndrænan búning í mynd sinni, Reykjavík í öðru ljósi, á árinu 2001. Er það jákvætt að tekin sé upp umræða um þann kost í málinu finnst mér og þessi auglýsing framsóknarmanna bætir miklu púðri í þennan kost. Þessi umræða er því aftur hafin sýnist mér og þessi auglýsing verða mikið rædd á næstunni spái ég, enda ferskt innlegg í umræðuna.

Það er mjög stutt síðan að öll umræða hljóðaði á þann veg að flugvöllurinn skyldi fara úr Vatnsmýrinni en svo væri það annarra að finna út úr hvað taka ætti við. Það sáu allir að við svo búið gat umræðan ekki einvörðungu verið stödd. Það þurfti að útfæra aðra möguleika og annan status í málið. Þessi hlið málsins, einhliða blaður sunnanmanna gat ekki gengið. Umræðan var ekki málefnaleg áður, það var ráðist að okkur úti á landi fyrir að verja þennan mikilvæga samgöngupunkt okkar og fundið að því að við værum að tjá okkur um mál sem að mati sunnanmanna væri aðeins þeirra mál. Mér persónulega fannst sérstaklega leitt að heyra tal sumra sem töluðu um aðkomu okkar að flugvellinum, sem er samgöngulegur miðpunktur allra landsmanna, og því að okkur var liggur við brigslað um að vera að skipta okkur af annarra manna málum. Flutningur innanlandsflugsins til Keflavíkur er og verður óásættanlegur kostur í mínum huga og okkar allra úti á landi. Finna þarf ásættanlega staðsetningu á höfuðborgarsvæðinu fyrir flugvöll. Þessi fyrrnefnda tillaga opnar á góða lausn.

Það er vissulega mál Reykvíkinga hvort þeir vilja hafa flugvöll innan borgarmarkanna eða ekki og önnur sveitarfélög hafa ekkert um það að segja. En á meðan Reykjavík er höfuðborg landsins og sinnir ýmsum þeim þáttum sem þeim sess fylgir geta þeir ekki lokað umræðuna á afmörkuðum bletti sinna skoðana. Það er bara þannig. Ég lít svo á að höfuðborgin sé mín rétt eins og borgarbúa að þessu leyti. Um er að ræða málefni sem skiptir því ekki bara borgarbúa máli að því leyti. Ekki veitir af umræðu um þessi mál. Hef ég talið mikilvægt varðandi Reykjavíkurflugvöll að í samfélaginu öllu verði frjó og góð umræða, þar sem teknir yrðu fyrir kostir og gallar flugvallar í Vatnsmýrinni og farið yfir málið frá víðu sjónarhorni. Samgöngulegar tengingar skipta máli hvað mig snertir, einkum í ljósi þess að ég bý á landsbyggðinni. Ég vil því fagna að þetta mál komist aftur á dagskrá.

Hugmyndin um flugvöll á Lönguskerjum er mjög góður kostur. Kanna verður þó alla þætti málsins og hvort hún sé raunhæf að því leyti að hún geti gengið upp - átt sér líf utan teikniborðsins og myndar Hrafns og auglýsingar framsóknarmannanna. Grunnpunktur af minni hálfu er að flugvöllur sé á höfuðborgarsvæðinu. Það er innri ákvörðun yfirvalda í sveitarfélaginu hvar hann sé ætli Reykjavík og svæðið þar í kring að standa undir nafni sem höfuðborg og vera áfram sá miðpunktur sem hann hefur verið til fjölda ára. En megi umræðan um þetta mál blómstra og jákvætt er að hver tjái sig og sínar skoðanir með ákveðnum hætti. Það er eðlilegt að menn tali hreint út og segi sínar skoðanir óhikað.

Líf færist í kosningabaráttuna í borginni

Það styttist óðum í sveitarstjórnarkosningar. Í morgun birtist ný skoðanakönnun á stöðu mála í Reykjavík. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn með 8 borgarfulltrúa inni en mælist með innan við helming atkvæða eða rúm 47%. Forskot Sjálfstæðisflokksins á R-listaflokkana minnkar því örlítið. Í heildina eru tíðindin í þessari könnun þau að fylgi stóru flokkanna tveggja minnkar en þeir hinir minni eru að styrkjast. Það blasir við að þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi forskot er engan veginn öruggt að flokkurinn vinni þann góða sigur sem stefnt hefur í um langt skeið. Nú þegar að styttist í kjördag mun þeim óákveðnu sífellt fækka og er auðvitað mikilvægt að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík geti höfðað til hinna óákveðnu. Gott útspil í þá átt var kynnt á blaðamannafundi í dag er flokkurinn kynnti fjölskyldustefnu sína, sem m.a. innheldur að lækka gjaldskrá í leikskólum borgarinnar um 25% í haust.

Staða Sjálfstæðisflokksins hefur lengi verið mjög sterk í könnunum, eða allt frá því að R-listinn geispaði golunni vegna átaka með stólaskiptingu flokkanna. Þá reyndu sumir snillingar að skipta átta borgarfulltrúasætum jafnt milli þriggja aðila með litlum sýnilegum árangri og áður en málefnin urðu að umræðuefni þar sprakk allt á stólabitlingum. Annars þekkja allir þessi endalok R-listans og óþarfi að þreyta fólk með því að tala um of um framboð sem er gufað upp, þó að það stjórni vissulega enn borginni fram til kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn hefur auðvitað búið við það að margir hafa talið sigur hans öruggan. Slíkt andrúmsloft getur bæði skapað tækifæri en líka doða. Mér sýnist á kraftinum í félögum mínum í borginni að þau séu kraftmikil og geri sér grein fyrir því hvað þau þurfi að gera til að keyra þessu beint heim í höfn og tryggja sterkan hægrimeirihluta næstu fjögur árin. Þau eru enda mjög öflug í allri kynningu.

Það er mjög athyglisvert að Samfylkingin hefur ekki markað sér neitt nýtt síðan að Dagur B. Eggertsson varð borgarstjóraefni og leiðtogi flokksins eftir rándýrt prófkjör í febrúar. Ef marka má kannanir er Samfylkingin ekki að skora neitt hærra en var fyrir þetta prófkjör þeirra. Er reyndar merkilegt að sjá um allt að flokkurinn virðist ekki standa fyrir neinu sérstöku. Ekkert nýtt er í áherslum þeirra og tali. Dagur B. kemur með minni ferskleika inn í borgarpólitíkina með forystu sinni en ég hafði áður talið að myndi verða. Sennilega hefði það verið þeim farsælla að Steinunn Valdís hefði leitt þá, enda er hún sitjandi borgarstjóri og hefur notið trausts allra afla innan R-listans sáluga sem slík, merkilegt nokk. Eflaust er það vegna þess að hún hefur verið órjúfanlegur hluti R-listans alla tíð og verið borgarfulltrúi hans alla tíð. Svo er greinilegt að Stefán Jón leggur ekkert á sig og virðist farinn úr borgarmálum óháð úrslitum.

Hvíslað hefur verið um það að bæði Steinunn Valdís og Stefán Jón horfi löngunaraugum í þingframboð fari allt á versta veg og þau láti Dag að mestu um að taka á sig borgarmálin. Verði þar skellur geti þau farið frá því með þeim orðum að þeim hafi verið hafnað fyrir nýliðann í flokknum og árangurinn orðið með þeim hætti sem við væri að búast. Lukkist eitthvað hjá Degi geti þau notað það sem stökkpall inn í landsmálin og sagt að þau hafi lagt af mörkum inn í málefnagrunn flokksins í borginni. Það heyrist reyndar víða að Samfylkingin sé eins og míníútgáfa af R-listanum sáluga. Þar er enda hin fyrrum vinstri græna Björk Vilhelmsdóttir og hinn óháði lærisveinn Ingibjargar Sólrúnar, Dagur B, sem lyft var til skýjanna með samþykki ISG og liðssveitar hennar, Stefáni Jóni og Steinunni Valdísi báðum til mikillar gremju. Þetta framboð gæti skilað þeim árangri en líka skelli. Verður fróðlegt að sjá hvort það muni verða.

Vinstri grænir sækja fram með auglýsingum á leiðtoganum Svandísi Svavarsdóttur og greinilegt að henni er teflt fram sem borgarstjóraefni og framtíðarhöfðingja á þessum væng borgarmálanna. Hún er enginn bráðabirgðaleiðtogi eða hver annar efsti maður, henni eru ætlaðir stórir hlutir á þessu sviði. Eflaust er spútnikkynning VG á Svandísi sönnun þess að VG sleit R-listanum sáluga með því að byggja leiðtoga úr Svandísi. Þess ber einmitt að geta að það var hin sama Svandís sem leiddi borgarmálafélag VG og lagði fram tillöguna um slit R-listans. Enginn vafi leikur á því að Svavar Gestsson fyrrum ráðherra og formaður Alþýðubandalagsins, er einn af lykilmönnum VG, þó að hann sé staddur í Kaupmannahöfn sem sendiherra okkar allra. Hans áhrif innan VG eru ráðandi og engum dylst lykilstaða afkomenda hans innan VG. Svandís hefur sem leiðtogi sótt í þennan grunn og eru ætluð áhrif vegna ætternis síns.

Það er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn sækir á ný mið núna undir forystu Björns Inga Hrafnssonar og byggir annan grunn undir flokkinn í borgarmálunum en var undir leiðsögn Alfreðs Þorsteinssonar. Framboðið er það ferskt að það byggir ekki á flokksgrunninum og spilar allt með lógóinu exbé. Þetta lógó hannað í Reykjavík er notað um allt land, enda er Framsóknarflokkurinn jafnóvinsæll sem flokkur úti á landsbyggðinni sem og í borginni - það eru óneitanlega stór tíðindi. Björn Ingi er ungur maður og byggir á því að hann sé nýr maður nýrra tíma í borgarmálum. Það er því ekki auðvelt fyrir hann að hafa grunn byggðan á umdeildum verkum Alfreðs innan Orkuveitu Reykjavíkur. Ein leið Framsóknar til að sækja fram er að boða flugvöll á Lönguskerjum. Hefur flokkurinn gert mjög góðar auglýsingar að mínu mati sem sækja fram og sýna hvað flokkurinn vill gera í þessum málum.

Ef marka má könnunina í dag á Frjálslyndi flokkurinn meira fylgis að fagna. Þar tel ég margt spila inn í. Tilkoma Guðrúnar Ásmundsdóttur, vinsællar og virtrar leikkonu í forystusveit flokksins, hefur vakið athygli og hefur flokkurinn grætt á því - á því leikur enginn vafi. En hvort að það að fá Guðrúnu dugar skal ósagt látið. En það er enginn vafi að með hana í framboði getur flokkurinn betur höfðað til eldri borgara en áður var. En það er þó alveg ljóst að Ólafur F. er verulega litlaus en gæti húrrast inn á kjörþokka Guðrúnar og Margrétar Sverrisdóttur. Annars er það skondið að sjá leiðtoga flokksins barma sér í dag yfir auglýsingum í þessari kosningabaráttu, en eins og allir vita hafa Frjálslyndir verið iðnir við þann kola að undanförnu. Hvað varðar möguleika þessara örflokka að komast inn ræðst allt á auglýsingum. Við eigum því eftir að sjá alla þessa spekinga sem andmæla auglýsingum eyða á kafi. Sjáið bara VG sem dæmi.

Línur í þessum kosningum virðast skýrar. Falli meirihluti vinstriaflanna mun Sjálfstæðisflokkurinn komast til valda væntanlega einn. Ég sé það reyndar ekki fyrir mér að Vilhjálmur Þ. og Sjálfstæðisflokkurinn fari í meirihluta með ráðandi stöðu nema að hafa borgarstjórann komi til meirihlutaviðræðna ef flokkurinn nær ekki einn meirihluta. Eðlilegur fyrsti kostur haldi R-listaflokkarnir velli er að þeir reyni fyrir sér. Þar eru flokkar og forystumenn sem allir kynna sig sem borgarstjóraefni. Það sjáum við best á kynningum á Svandísi og Birni Inga. Þetta eru allt materíal í borgarstjórastól eða presentera sig sem slíka. R-listaflokkarnir hafa oftar en einu sinni á líðandi kjörtímabili barist um hver eigi að verða borgarstjóri og hvernig skipta skal bitlingum. Það yrði fyrst spennandi að sjá kattaslaginn þeirra ef svo ólíklega vildi til að þetta ósamstíga lið héldi fulltrúafjölda sínum sem heild.

Fyrst og fremst stendur valið um það hvort að fólk vill sterkan Sjálfstæðisflokk til valda eða ósamstíga félagshyggjuöfl í framboði. Þessi könnun í dag er eins og aðrar vísbending - að mínu mati er hún skýr skilaboð til flokksfélaga minna í borginni um það að passa upp á að landa góðum og afgerandi sigri eftir fimm vikur.

Leyniskyttumorðin í Washington árið 2002

Lee Boyd Malvo og John Allan Muhammad

Tæp fjögur ár eru liðin frá því að íbúar Washington-borgar í Bandaríkjunum óttuðust svo um líf sitt að þeir lokuðu sig inni að mestu og héldu kyrru fyrir. Í október 2002 var skelfing og ótti yfir borginni og íbúarnir vissu vart hvaðan á þá stóð veðrið. Leyniskytta hélt öllum í borginni í raun í gíslingu. Morðin fóru þannig fram að skotið var úr skotti bifreiðar, þar sem borað hafði verið gat á farangursgeymsluna og var því fólk algjörlega grunlaust og átti sér einskis ills von. Áður en yfir lauk féllu tíu manneskjur í valinn. Fyrsta morðið var framið að kvöldi 2. október 2002 er 55 ára karlmaður var skotinn til bana fyrir utan stórmarkað í Maryland. Daginn eftir voru fimm manneskjur drepnar, þar af fjórar þeirra á tveggja klukkustunda bili. Skelfingin var undir lok orðin slík að Washington minnti að mestu á draugaborg þar sem fáir voru á ferli.

Ég gleymi aldrei fréttaflutningi af þessu máli. Það var skelfilegt að sjá hversu útpæld þessi fjöldamorð voru og þeim var ekki beint að minnihlutahópum frekar en öðrum. Fólk af öllum kynþáttum og uppruna féllu í valinn. Strax í upphafi var því hægt að gleyma því að kortleggja þessi fjöldamorð sem árás á minnihlutahópa, enda var hvítt fólk alveg eins fellt og blökkufólk. Um fátt var meira fjallað í bandarískum fjölmiðlum um miðjan október en þetta mál og skelfing íbúanna í Washington vakti athygli fólks um allan heim. Charles A. Moose lögregluforingi í Montgomery-umdæmi í Maryland, varð heimsfrægur á einni nóttu en hann varð talsmaður rannsóknar málsins og tákngervingur leitarinnar að morðingjanum. Undir lokin hélt hann orðið marga blaðamannafundi á dag og fólk fylgdist skelfingu lostið, jafnt í Washington sem hér á Íslandi, með rannsókninni - og sífellt færðist Moose og hans fólk nær lausninni.

Það var svo loksins þann 24. október 2002 sem skelfingunni lauk. Þann dag voru John Allen Muhammad, 42 ára, og Lee Boyd Malvo, 17 ára, handteknir þar sem þeir voru sofandi í bíl sínum á borgarsvæðinu. Við leit í bílnum fannst skotvopn, veiðiriffill, og borað gat á skott bílsins þar sem þeir gátu skriðið inn í að innanverðu til að skjóta um lítið gat sem þeir höfðu útbúið. Hafði bíllinn því verið útbúinn með þeim hætti að hægt var að skjóta á fólk án þess að á nokkru myndi bera. Muhammad var talinn hafa myrt alla tíu einstaklingana en ekki lék vafi á því að Malvo hafði tekið fullan þátt í þeim og orðið heilaþveginn af Muhammad sem hann leit upp til sem föðurímyndar. Hann hafði um skeið búið með móður Malvos og náð til hans með slíkum hætti að þeir urðu sem einn maður. Fóru þeir fyrir dóm og lauk málaferlum með þeim hætti að Muhammad var dæmdur til dauða en Malvo í lífstíðarfangelsi.

Muhammad hefur enn ekki verið líflátinn fyrir morðin tíu, enda bíður hann dóms fyrir morðtilræði og morð í öðrum ríkjum Bandaríkjanna. Muhammad var dæmdur beint til dauða upphaflega fyrir morðið á blökkumanninum Dean Harold Meyers við bensínstöð í Virginíu. Malvo, byggði vörn sína upp á því að hann hefði orðið saklaust peð í leik Muhammad og hann hafi dýrkað hann og orðið blindaður af bæði persónulegri ást á honum og ekki síður markmiðum hans. Það hefur enda blasað við að Muhammad hafi fyllt Malvo af lyfjum og haft tangarhald á honum. Malvo bíður enn dóms í öðru fylki fyrir morðtilræði en hann var sakfelldur upphaflega fyrir að hafa þann 14. október 2002 myrt að yfirlögðu ráði alríkislögreglukonuna Lindu Franklin fyrir utan verslun í Virginíu. Þeir bíða enn báðir þess að dómsniðurstöður verði skýrar í málum þeirra en talið er líklegt að Muhammad verði líflátinn fyrir lok ársins.

Í gærkvöldi var sýnd mjög fróðleg og vönduð leikin kvikmynd, D.C. Sniper: 23 Days of Fear, á Stöð 2 um þessa atburði. Var að mörgu mjög athyglisvert að sjá uppsetningu þessara voðaverknaða setta upp í kvikmyndaform. Myndin var vel leikin og sérstaklega fannst mér Charles S. Dutton fara vel með hlutverk Moose lögregluforingja, en kænska hans og útsjónarsemi leiddu til þess að morðingjarnir fundust mun fyrr en ella hefði væntanlega orðið. Vissulega er sagan af þessum voðaverkum á höfuðborgarsvæðinu í Maryland-fylki skelfileg en hún er þó gott dæmi um það hvernig að vitfirring getur leitt til voðaverka og ógnvænlegra viðburða. Þeir sem upplifðu fréttir af þessu máli fyrir fjórum árum hafa væntanlega orðið sammála mér í því að þessi mynd sé mjög sagnfræðilega rétt uppbyggð og vel gerð að öllu leyti.

Eftir lausn málsins skrifðu Moose og Charles Marshall vandaða bók og samantekt um þetta mál allt. Ber bókin nafnið Three Weeks in October. Ég keypti mér hana nýlega og las og hvet alla aðra til að gera það. Það er enda engu líkt að lesa sjónarhorn Moose á málinu og kemur grunnur þeirrar sögu fram í þessari kvikmynd sem fyrr er nefnd.

Samantekt um málið

22 apríl 2006

Saving Private Ryan

Saving Private Ryan

Ég hef lengi verið mikill aðdáandi kvikmynda sem sýna tilveruna í stríði og átökum. Einkum er það vegna þess að þær sýna tilfinningaskalann allan og sýna mannlega reisn og tilveru í skugga hörmunga. Þó að oft á tíðum sé sjónarsviðið dökkt býður kvikmyndaramminn upp á svo margt stórfenglegt. Að mínu mati er ein besta stríðsmynd seinustu ára stórmyndin Saving Private Ryan eftir Steven Spielberg. Þegar að hún var frumsýnd árið 1998 hlaut hún fádæma lof allra gagnrýnenda og áhorfenda og hafði afgerandi áhrif á kvikmyndaunnendur. Myndin var tilnefnd til 11 Óskarsverðlauna og hlaut fimm, fyrir leikstjórn, kvikmyndatöku, klippingu, hljóð og hljóðklippingu.

Sagan, sem sögð er frá sjónarhóli lítillar bandarískrar hersveitar, hefst á landgöngunni á "Omaha"-ströndinni í Normandí þar sem um 2.400 bandarískir hermenn og 1.200 Þjóðverjar féllu, en gerist eftir það inni í landinu þar sem nokkrum mönnum hefur verið falið hættulegt sérverkefni. Kafteinn John Miller verður að fara með menn sína inn fyrir víglínuna til að hafa uppi á óbreyttum James Ryan, en komið hefur í ljós að þrír bræður hans hafa fallið í átökunum. Andspænis þessu vonlausa verkefni spyrja þessir menn sig að því hvers vegna verið sé að tefla lífi 8 manna í tvísýnu til að bjarga lífi eins. Umkringdir af hinum grimma raunveruleika stríðsins verða þeir hver fyrir sig að finna svar við þessari spurningu - og styrk til að takast á við framtíð sína með heiðri, æðruleysi og hugrekki.

Tom Hanks sýnir sannkallaðan stórleik í hlutverki hetjunnar John Miller, og hefur ekki leikið betur á sínum ferli, að mínu mati. Saving Private Ryan hafði mikil áhrif á mig fyrst þegar að ég sá hana. Hún heillaði alla helstu kvikmyndaunnendur og er margverðlaunuð. Steven Spielberg hlaut fyrir hana æðstu viðurkenningu sem bandaríski herinn veitir almennum borgurum. Saving Private Ryan fór inn á 160 bandaríska Topp-10 lista yfir bestu myndir ársins 1998, hlaut Golden Globe-verðlaunin sem besta dramamynd ársins og fyrir bestu leikstjórn, verðlaun framleiðenda í Bandaríkjunum og tíu tilnefningar til bresku kvikmyndaverðlaunanna BAFTA. Saving Private Ryan var mest sótta bandaríska myndin í heiminum 1998.

Ég horfði á þessa gæðamynd enn og aftur á þessum laugardegi og hvet alla sanna kvikmyndaunnendur til að rifja upp kynnin af henni. Upphafsatriðið eitt er það vel gert og ógleymanlegt að hver einasti áhugamaður um kvikmyndaformið verður orðlaus. Og tónlist meistara John Williams er rúsínan í pylsuendanum. Enn og aftur skapar hann tónlist sem passar svo undurljúft við atburðarásina. Stórfengleg kvikmynd sem vekur marga til umhugsunar um hrylling stríðsátaka og ekki síður mannlega virðingu í skugga erfiðleika og innri átaka.

Hu Jintao og stjórn hans mótmælt í Washington

Hu Jintao

Hu Jintao forseti Kína, leiðtogi einræðisstjórnarinnar í Peking, er nú í sinni fyrstu opinberu heimsókn í Bandaríkjunum. Á fimmtudaginn tók George W. Bush forseti Bandaríkjanna, á móti Jintao við athöfn á suðurflöt Hvíta hússins. Til tíðinda dró þar vegna mótmælaaðgerða fólks sem þar var komið til að mótmæla mannréttindabrotum yfirvalda í Kína. Hæst náðu þau er kona að nafni Wang Wenyi sem var í hópi fréttaljósmyndara, og að auki félagi í samtökum Falun Gong, gerði hróp að Hu. Kallaði Wang upphátt svo vel heyrðist að Falun Dafa væri góð. Wenyi var með fréttapassa fyrir Epoch Times, blað sem Falun Gong stofnaði í Bandaríkjunum. Hún er meinafræðingur að mennt og hefur t.d. rannsakað fullyrðingar Falun Gong um að þúsundir félaga í samtökunum hafi látið lífið í fangabúðum í Kína og líffæri úr þeim hafi verið seld - kínversk stjórnvöld vísa því á bug.

Er mikið gleðiefni að þessi rödd hafi komið fram í þessari heimsókn leiðtoga einræðisaflanna í Kína til Bandaríkjanna. Það er enda mikilvægt að talað sé máli mannréttinda og sérstaklega á það við hvað varðar Kína þar sem mannréttindi eru virt að vettugi æ ofan í æ. Það var einmitt það sem við ungliðar í öllum flokkum gerðum fyrir nokkrum árum þegar að leiðtogar þessarar stjórnar mætti hingað til landsins. Það var nauðsynlegt að láta rödd mannréttinda heyrast er bæði Li Peng og Jiang Zemin komu hingað. Það voru kraftmikil mótmæli sem eftir var tekið. Það er enda ekki óeðlilegt þó að mannréttindasinnar láti hug sinn á verkum kommúnistastjórnarinnar í Peking í ljós. Fyrst og fremst vorum við að tjá andstöðu okkar á þessum mönnum vegna þess hvernig komið var fram þann 4. júní 1989 þegar að kommúnistastjórnin í Peking murkaði lífið úr stúdentum.

Við metum öll að ég tel mikils að njóta mannréttinda og vildum mótmæla þeim sem slátruðu stúdentunum þennan júnídag - fólk á okkar aldri sem var að berjast fyrir mannréttindum og frelsi. Það vildi eflaust eins og við öll hafa kosningarétt - rétt á því að segja skoðanir sínar. Það ákall þeirra var barið niður. Við vorum fyrst og fremst að tala gegn meðferð þessara einræðisherra á ungu fólki í Peking árið 1989. Ég hef alltaf fundið til með því fólki sem var drepið þennan júnídag fyrir sautján árum. Það er ekki annað hægt. Þetta var ungt fólk sem vildi hafa kosningarétt - rétt til að segja sínar skoðanir og vera frjálst. Það frelsistal þeirra og ákall á breytingar var barið niður - traðkað á þeim með skriðdrekum. Persónulega met ég kosningaréttinn allra hluta mest í tilverunni. Með honum getum við haft svo gríðarleg áhrif. Ég skil vel afstöðu stúdentanna í Kína og ég held að við öllum skiljum fyrir hverju þau voru að berjast.

Hvernig það ákall þeirra var barið niður er okkur öllum umhugsunarefni. Það er enda engin tilviljun að ungt áhugafólk um stjórnmál og frjáls skoðanaskipti tjáði andstöðu gegn bæði Peng og Zemin. Við sem tilheyrum ólíkum flokkum sýndum samstöðu í að tala gegn þessum einræðisherrum frá Kína og fórum samhent í mótmæli í Reykjavík gegn þeim. Ég er fyrst og fremst að mótmæla því auðvitað að það er ekki kosningaréttur í Kína - þar er ekki skoðanafrelsi. Fólk er barið niður sýni það vilja til að tjá sínar skoðanir. Staðan í Kína er auðvitað skelfileg og hefur því miður ekki mikið batnað frá árinu 1989. Það er skylda okkar að tala gegn þeim sem traðka á sjálfsögðum kosningarétti fólks. Þar sem ekki er kosningaréttur er einræði. Gegn því var ég auðvitað að tala og við öll sem mótmæltum fyrir sex og fjórum árum svo eftir var tekið.

Ég er talsmaður skoðanafrelsis. Við sem tilheyrum ólíkum flokkum sýndum samstöðu í að tala gegn þessum einræðisherrum frá Kína - það var styrkleikamerki fyrir okkur öll. Með þessu sýndum við enda vel þessum leiðtogum hver hugur ungra Íslendinga var á þeim og stjórninni sem þeir tilheyrðu - stjórn sem drap stúdenta fyrir það eitt að kalla á sjálfsagðan kosningarétt og frelsi til að tjá eigin skoðanir. Því er auðvitað ekki annað hægt en að fagna því að sama rödd sé Jintao sýnileg í Bandaríkjaför hans.

Alfreð gerir upp endalok R-listans sáluga

Alfreð Þorsteinsson

Það leikur enginn vafi á því að Alfreð Þorsteinsson er einn af umdeildustu stjórnmálamönnum seinustu áratuga hérlendis. Deilt hefur verið um verk hans í pólitík og hann hefur algjörlega án þess að hika varið verk sín af krafti og beitt til þess öllum brögðum. Alfreð hefur verið áberandi til fjölda ára í forystu Framsóknarflokksins í Reykjavík. Þó lengi hafi verið deilt um verk hans í stjórnmálum leikur enginn vafi á því að mest hefur verið deilt um verk hans innan flokksins í R-listanum, sameiginlegu framboði félagshyggjuflokkanna í Reykjavík seinustu 12 árin. Alfreð var einn af lykilmönnunum innan R-listans allan valdatíma hans og var valdamikill í nefndum og ráðum á þeim tíma. Hæst náðu völd hans og áhrif seinustu fjögur árin af valdatímanum en þá var hann leiðtogi flokksins í borginni og fór óhikað sínar leiðir, andstæðingum sem stuðningsmönnum R-listans oft til armæðu.

En nú er komið að leiðarlokum á pólitískum ferli Alfreðs. Eftir 35 daga lýkur ferli hans sem forystumanns flokksins í borgarstjórn og hann lætur af öllum pólitískum störfum fyrir Reykjavíkurborg. Hann er enda ekki í framboði í vor og víkur af hinu pólitíska sviði. Í dag fer hann yfir þennan feril í viðtali við Björn Þór Sigbjörnsson í Fréttablaðinu. Það er að mörgu leyti mjög athyglisvert að lesa það viðtal og fara yfir það sem þar kemur fram. Nú er ferlinum lýkur er hann forseti borgarstjórnar Reykjavíkur og leiðir flokk sinn. Hann hefur auk þess gegnt stjórnarformennsku veitufyrirtækis borgarinnar, Orkuveitu Reykjavíkur, allan valdatíma R-listans. Mjög hefur verið deilt um verk hans innan Orkuveitunnar þessi tólf ár og meginþungi átakanna um Alfreð og verk hans í borgarmálum hafa enda snúist hvort hann hafi unnið til góðs eða ills innan Orkuveitunnar.

Að mínu mati hefur verið með ólíkindum að fylgjast með óráðsíunni innan Orkuveitu Reykjavíkur. Öll höfum við orðið vitni að því hvernig henni hefur verið stjórnað undanfarinn áratug af Alfreð, af hálfu allra flokkanna sem myndað hafa R-listann. Nægir þar að nefna ákvörðun OR um að reisa sumarhúsabyggð við Úlfljótsvatn, undarlegar fjárfestingar í risarækjueldi og fyrirtækjarekstur á sviði gagnamiðlunar sem vakið hefur mikla athygli fyrir sukk og óráðsíu. Ekki er hægt að sjá að verk af þessu tagi tengist að nokkru leyti rekstri Orkuveitu Reykjavíkur og því auðvitað mjög undarlegt að borgarbúum hafi verið gert að taka þátt í honum. Alfreð hefur vegna þessa verið af mörgum talinn einn spilltasti stjórnmálamaður landsins og hefur farið sínu fram undanfarinn áratug í umboði hinna ýmsu vinstriflokka sem hafa myndað regnhlífarvaldabandalag gegn Sjálfstæðisflokknum seinasta áratug.

Síðastliðið sumar leið R-listinn formlega undir lok en hann stjórnar eins og vofa í Reykjavík til loka kjörtímabilsins. Sem betur er styttist í að valdatíma R-listans ljúki og eru 35 dagar þar til að breytingar verða á stjórn borgarinnar. Í þessu viðtali kemur mjög vel fram sú skoðun Alfreðs að upphaf endaloka R-listans hafi verið sú ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sameiginlegs borgarstjóraefnis flokkanna, að gefa kost á sér í þingframboð fyrir einn flokkinn. Þá hafi hún misst stuðning Framsóknarflokksins til verka. Flestir vita hvernig þeim hráskinnaleik lauk öllum en Ingibjörg Sólrún sagði af sér embætti borgarstjóra í kastljósi fjölmiðlanna og fór í þingframboð. Hún situr enn sem fulltrúi flokkanna allra í borgarstjórn en er orðin formaður eins þeirra. Alfreð fer vel völdum orðum um viðskilnað ISG við R-listann og telur að glappaskot hennar hafi leitt til þess að R-listinn veðraðist upp mjög hratt.

Allt frá því að Ingibjörg Sólrún var sett af sem borgarstjóri um jólin 2002 hefur Alfreð Þorsteinsson verið valdamesti maðurinn í borgarkerfinu og eflaust hefur hann verið lykilmaður þar mun lengur en svo. Frá þeim tíma hafa verið skýr átök þar um leiðir í verkum og forystuna en þó bundist böndum um að klára kjörtímabilið, þó oft hafi það orðið þeim brösugt með ISG áfram sem borgarfulltrúa og hornkellingu innan meirihlutans. Alfreð kemur með það athyglisverða innlegg að í raun hafi meirihlutaviðræður Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks verið við það að hefjast er Ingibjörg Sólrún sagði loksins af sér. Eina ástæða þess að hún sagði af sér var enda til að vernda R-listann. Síðan hefur hann hvorki verið fugl né fiskur og sprakk svo endanlega í fyrra þegar að tekist var á um stólaskiptingar milli flokka en ekki áhersluatriði um borgarmálin sem slík. Athyglisverð endalok á pólitísku hagsmunabandalagi.

Alfreð Þorsteinsson staðfestir í þessu viðtali allt tal andstæðinga R-listans sáluga um að í raun hafi samstarfinu verið lokið í árslok 2002 þegar að ISG hrökklaðist frá völdum í borginni. Síðan var þetta sem stjórnlaust rekald sem stjórnaðist af hagsmunum flokkanna og bitlingum umfram pólitískar hugsjónir og ástríðu á Reykjavíkurborg sem slíkri. Alfreð fer yfir þessi mál í viðtalinu og greinileg undirliggjandi biturð liggur í orðunum um viðskilnað R-listans sem hefur nú sagt sitt síðasta og heldur með Alfreð Þorsteinssyni inn í pólitískar sögubókur Reykjavíkurborgar með kosningunum eftir 35 daga. Það verða ánægjuleg þáttaskil sem þá verða.

21 apríl 2006

Elísabet II Englandsdrottning áttræð

Akureyri

Elísabet II Englandsdrottning er áttræð í dag. Enginn vafi leikur á því að hún sé ein valdamesta konan í sögu mannkyns og sú kona sem mestan svip hefur sett á mannlífið á 20. öld um víða veröld. Margt hefur verið rætt og ritað um þessa merku konu og valdaferil hennar. Ungri var henni falið það lykilverkefni að leiða enska heimsveldið og tók við bresku krúnunni við erfiðar aðstæður, aðeins 25 ára gömul. Til fjölda ára hefur hún leitt England af krafti og verið táknmynd landsins og fulltrúi þeirra. Á þeim tíma hefur verið deilt um konungsveldið og hvort það sé á fallanda fæti eða hafi styrkst í tíð hennar. Um það deilir þó enginn að drottningin hefur helgað ævi sinni í verk í þágu lands síns og lagt mikla elju í að leiða þjóðina af krafti, enda hefur hún notið virðingar hennar og stuðnings í öllu því sem skekið hefur fjölskyldu hennar.

Elizabeth II Englandsdrottning fæddist þann 21. apríl 1926. Þá hefði fáum órað fyrir að hún ætti eftir að verða drottning Englands. Föðurbróðir hennar, Edward, var enda ríkisarfi og þótti allt stefna í að ekki kæmi til þess að Albert bróðir hans og afkomendur hans tækju við krúnunni. Er Elísabet var tíu ára að aldri lést afi hennar, George konungur, og Edward varð konungur í hans stað. Áður en árið 1936 var liðið hafði hann beðist lausnar frá krúnunni. Hann gat ekki gifst konunni sem hann vildi, hinni tvífráskildu Wallis Warfield Simpson, og haldið embættinu um leið. Hann valdi Wallis við mikla gremju móður hans og nánustu ættingja. Í desember 1936 varð því Albert bróðir hans konungur í hans stað og Elizabeth varð krónprinsessa Englands. Albert tók sér titilinn George eins og faðir hans og tók við krúnunni með eiginkonu sína, Elizabeth Bowes-Lyon (sem hann giftist árið 1923), sér við hlið.

George og Elizabeth öðluðust virðingu allrar þjóðarinnar með framgöngu sinni í seinni heimsstyrjöldinni og samhent fjölskyldulíf þeirra og dætra þeirra, Elizabeth og Margaret, var virt af öllum landsmönnum. Hinsvegar voru Edward og kona hans Wallis hötuð af landsmönnum og þeim var að mestu úthýst í fjölskyldunni meðan bæði lifðu, þó svo að þau yrðu bæði grafin í Windsor er yfir lauk. Langt um aldur fram brast heilsa George konungs og hann greindist með krabbamein (sem var haldið leyndu allt þar til yfir lauk og lengur en það í raun). Svo fór undir lok ársins 1951 að hann var allverulega farinn að láta á sjá og ekki varð lengur dulið heilsuleysi hans. Fráfall hans kom þó fyrr en mörgum óraði fyrir. Hann varð bráðkvaddur í Sandringham-höll í janúar 1952. Þá voru Elizabeth og maður hennar, Philip hertogi (sem hún giftist árið 1947) stödd í opinberri heimsókn í Kenía.

25 ára gömul varð Elizabeth drottning Englands og tókst á við hið áhrifamikla embætti með sínum hætti. Þau hjón eignuðust fjögur börn: Charles, Anne, Andrew og Edward. Hún hefur nú setið á valdastóli á Englandi í 54 ár og vantar aðeins 10 ár upp á að slá valdamet formóður sinnar, Victoriu drottningar, sem ríkti í 64 ár og var það tímabil nefnt Viktoríutíminn. Þeim fer auðvitað fækkandi þeim Bretum sem muna aðra tíma en þá að drottning sé handhafi krúnunnar og hennar valdatímabil er auðvitað fyrir löngu orðið sögulegt. Krúnan hefur breyst mikið á valdatímabilinu en að mörgu leyti ennfremur orðið litríkari. Tíðarandinn er enda allt annar nú en þegar að hin 25 ára gamla drottning tók við völdum árið 1952. Drottningin hefur þó erft góða heilsu móður sinnar, er lifði í hálfa öld lengur en eiginmaður hennar, sem lést í marsmánuði 2002.

Til fjölda ára hefur verið rætt um það opinberlega á Bretlandseyjum hvenær að drottningin myndi láta af embætti og Karl sonur hennar taka við krúnunni. Ef marka má stöðu mála er það ekki að fara að gerast strax að Karl verði konungur Englands. Sumir hafa þó leitt líkum að því að William sonur hans verði konungur er amma hans víkur af valdastóli. Svo er það auðvitað inni í myndinni að drottningin sitji til dauðadags. Ef marka má góða heilsu móður hennar og hversu ern drottningin er á áttræðisafmælinu blasir við að hún ríki í Englandi lengi enn og muni því jafnvel verða við völd í meira en sex áratugi.

Umfjöllun BBC um afmæli drottningar

20 apríl 2006

Fallegur sumardagur á Akureyri

Akureyri

Það var fallegur sumardagur hér á Akureyri í dag - sumarið heilsaði okkur með sólarbrosi og notalegu veðri. Ég fór á fætur snemma í morgun og fékk mér kaffi og ristað brauð og hlustaði á umræðuþátt á NFS á meðan. Að því loknu hélt ég í góðan og hressilegan göngutúr. Labbaði fyrst upp í Kaupang til að senda SMS-boðun á alla flokksmenn um að mæta í vöfflukaffið okkar á Kaffi Akureyri eftir hádegið. Það var auðvelt og notalegt verkefni og hélt ég göngunni áfram að því loknu. Ég labbaði áleiðis Mýrarveginn og hitti á leiðinni góðan vin og fórum við að ræða niðurstöður skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar fyrir NFS í vikunni. Var áhugavert að skiptast á punktum um stöðu mála nú þegar að aðeins rúmur mánuður er í kjördag.

Labbaði ég niður Mímisbraut og hélt Þórunnarstrætið á enda áleiðis að kirkjugarðinum, sem er rétt við hið nýja Naustahverfi. Þar átti ég stund með sjálfum mér. Þar hvíla ástvinir og ættingjar sem mér eru kærir. Þegar ég vil styrkja sjálfan mig og íhuga ýmis mál fer ég þangað uppeftir og á stund með sjálfum mér og hugsa um þá sem mér hefur þótt vænt um - en hafa kvatt þessa jarðvist, sumir alltof snemma. Nokkrir mánuðir eru síðan að kær frændi minn, Kristján Stefánsson, lést og fór ég fyrst að gröf hans. Eftir nokkra stund þar hélt ganga mín áfram. Ég hélt niður í Aðalstræti og labbaði hana áleiðis inn í miðbæ. Að mínu mati er Aðalstræti einstök gata í sögu Akureyrar - þar angar enda allt af sögu og gömlu húsin þar hafa mikinn sjarma og þokka. Heila sögu mætti segja í langri bók um gömlu húsin og þetta elsta hverfi bæjarins. Það er alltaf virkilega gaman að labba Aðalstrætið og kynna sér söguna.

Eftir að heim kom úr þessari löngu göngu tók ég mig til og fór í jakkafötin. Haldið var um hálfþrjú leytið á Kaffi Akureyri. Þar komum við sjálfstæðisfólk saman og fögnuðum sumarkomu með vöfflukaffi. Það var mikið fjölmenni í vöfflukaffinu. Þar skemmtum okkur saman, hittumst og ræddum málin, bæði í kjölfar skoðanakönnunarinnar sem fyrr er nefnd og mörkuðum upphaf hinnar formlegu kosningabaráttu. Pólitíkin var eins og gefur að skilja mikið rædd og greinilegt að við erum komin í kosningagírinn og mikil stemmning hjá okkur. Bökuðu frambjóðendur vöfflur og þáði mikið fjölmenni vöfflur með sultu og rjóma. Var þar mikill fjöldi er hæst lét og mikil stemmning. Var einnig greinilegt að fólk sem var á göngutúr um bæinn leit við með börnin sín og þetta því sannkölluð fjölskylduskemmtun á góðum sumardegi í miðbænum. Við sem tökum þátt í kosningabaráttunni erum bjartsýn á gott gengi og vorum ánægð með daginn.

Eftir góða stund í vöfflukaffinu komst ég að því að ég hafði misst af tímanum og var orðinn of seinn á Vorkomuna í Ketilhúsinu. Ákvað ég því þess í stað að halda inn í minjasafn. Þar hafði verið dagskrá og boðið var upp á kakó og lummur. Notaleg stemmning var í Minjasafnsgarðinum. Þar var nýlokið brúðkaupsathöfn er ég kom að og mikil gleði þar vegna þess. Leit ég á safnið og fékk mér kakóbolla og hélt svo yfir í Nonnahús sem var opið í tilefni dagsins. Það er alltaf gaman að fara í Nonnahús - hús sem er fallegur minnisvarði um heiðursborgara okkar Akureyringa, Jón Sveinsson. Saga Jóns er um margt einstök og alltaf gaman að lesa hana. Nonni ritaði sögu sína af mikilli list og eru þær bækur minnisvarði um ritsnilld hans. Var ánægjulegt að labba um húsið og hitti ég þar góðan vin og ræddum við heillengi saman.

Eftir þetta hélt ég heim eftir góðan og notalegan dag. Sumardagurinn fyrsti hefur hér á Akureyri bæði verið sólríkur og kuldalegur í gegnum árin. Að þessu sinni heilsaði sumarið okkur Akureyringum með sólarbrosi og það metum við öll mikils. Við erum öll með sól í hjarta í dag og markast kosningabaráttan fyrir sveitarstjórnarkosningar með þessu sólarbrosi - framundan er mikil og skemmtileg vinna og sérstaklega ánægjulegt að lykilvinna seinustu viknanna hefjist á svo fögrum og notalegum degi sem þessi dagur var.

Gleðilegt sumar

Sumarblóm

Ég vil óska lesendum vefsins gleðilegs sumars og þakka fyrir góð samskipti á liðnum vetri. Mikið hefur verið skrifað hér í vetur og margar heimsóknir verið hér inn. Ég vil þakka ykkur kærlega fyrir að lesa skrifin. Nýlega fór tala heimsókna (frá janúar 2004) yfir 300.000 stykki. Það er mér mikið gleðiefni og sérstaklega gott að sjá hversu mikið hefur verið litið hér á skrifin seinustu vikurnar eftir útlitsbreytinguna. Ég er að skrifa um skoðanir mínar fyrst og fremst fyrir mig og ég er ánægður ef aðrir hafa gaman af þessum skrifum. Við eigum vonandi samleið í sumar og næstu vikurnar fram að sveitarstjórnarkosningum eftir 37 daga.

bestu kveðjur frá Akureyri
Stefán Friðrik Stefánsson

Vöfflukaffi Sjálfstæðisflokksins á Kaffi Akureyri

8 efstu

Í dag, sumardaginn fyrsta, munum við stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fagna sumarkomu með vöfflukaffi á Kaffi Akureyri í miðbænum. Munu frambjóðendur flokksins baka vöfflur og ræða við bæjarbúa um bæjarmálin. Ég hvet sem flesta til að mæta, fá sér kaffi og vöfflu og ræða um bæjarmálin við sumarkomu.

19 apríl 2006

Uppstokkun í Hvíta húsinu

Hvíta húsið

Það er óhætt að segja að mikil uppstokkun sé þessar vikurnar í starfsmannaliði Hvíta hússins og innsta kjarna George W. Bush forseta Bandaríkjanna, í forsetabústaðnum. Nýlega tók Joshua B. Bolten við embætti starfsmannastjóra í Hvíta húsinu af Andrew Card, sem setið hafði á þeim stóli í rúmlega fimm ár. Brotthvarf hans var rakið til sífellt vaxandi óvinsælda forsetans. Það var til marks um stöðu mála að Card, sem verið hafði einn nánasti samstarfsmaður forsetans, myndi hætta störfum og breyting verða á forystu starfsmannahaldsins. Í dag hélt uppstokkunin áfram. Þá tilkynnti Scott McClellan talsmaður forsetans, um afsögn sína. McClellan hefur verið talsmaður Bush forseta allt frá sumrinu 2003, er Ari Fleischer lét af störfum. Hann hafði verið umdeildur alla tíð sem blaðafulltrúi og talsmaður forsetans en tímasetningin þykir merkileg.

Það eru aðeins örfáir dagar síðan að Bolten tók við af Card og greinilegt á þessu að hann vill stokka upp starfsmannakjarnann og hefur til þess stuðning forsetans, sem berst í bökkum vegna aukinna óvinsælda. Fleiri tíðindi urðu í dag er þá tilkynnti Karl Rove, einn af aðalhugmyndafræðingum og PR-mönnum forsetans um afsögn sína sem yfirmaður stefnumótunar í Hvíta húsinu. Við þeim starfa tekur Joel Kaplan. Rove hefur verið einn af helstu mönnunum á bakvið pólitíska velgengni forsetans og má telja herkænsku hans og strategíu einn meginþátt þess að Bush vann forsetakosningarnar í nóvember 2000 og hélt velli í kosningunum í nóvember 2004. Nú þegar að líða tekur á seinna kjörtímabil forsetans hefur fallið verulega á Rove og greinilega þykir kominn tími til að hann verði minna áberandi í forystukjarna forsetans.

Greinilegt er að forsetinn og nýr starfsmannastjóri hans ætla nú að snúa vörn í sókn. Framundan eru mikilvægar þingkosningar í nóvember fyrir Repúblikanaflokkinn. Tapist önnur þingdeildin, eða það sem verra er báðar þeirra, skaðast forsetinn verulega og verður sem lamaður leiðtogi lokahluta valdaferilsins, líkt og svo margir fyrri forsetar repúblikana. Gott dæmi eru enda Bush eldri og Reagan, sem áttu við erfiða stöðu að glíma undir lokin með þingið á móti sér. Þingmenn repúblikana eru óhræddir nú orðið við að gagnrýna Bush og stjórn hans, enda fer Bush ekki í aðrar kosningar. En Repúblikanar óttast greinilega kosningarnar í nóvember og telja ástæðu til að stokka upp og fer sú uppstokkun nú fram í lykilkjarnanum í Hvíta húsinu.

Það verður fróðlegt að sjá næstu vikurnar hvort það hafi eitthvað að segja fyrir stöðu forsetans og flokk hans er styttist í þingkosningarnar. Eitt er þó ljóst: Rove er ekki farinn úr lykilliði forsetans en heldur nú í bakvarðarsveitina í aðdraganda þingkosninganna. Hvort það dugar Bush og repúblikönum að Rove fari í þær stellingar skal ósagt látið.

Gísli S. Einarsson yfirgefur Samfylkinguna

Gísli S. Einarsson

Það eru svo sannarlega stórtíðindi að Gísli S. Einarsson fyrrum alþingismaður Alþýðuflokksins og Samfylkingarinnar, hafi ákveðið að segja skilið við Samfylkinguna og ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn á Akranesi. Mun hann verða bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins á Akranesi í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Gísli er þekktur og vinsæll á Skaganum, enda verið viðloðandi margt í sínum heimabæ og notið virðingar og stuðnings íbúanna þar. Það er í senn klókt og flott hjá Gunnari Sigurðssyni bakara og leiðtoga Sjálfstæðisflokksins á Skaganum, að óska eftir liðsinni Gísla við að sigra kosningarnar á Skaganum í vor - landa öflugum bæjarstjórnarmeirihluta og leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs og gera Gísla að bæjarstjóra í sínum heimabæ.

Gísli hefur lengi verið í pólitíkinni. Hann varð þingmaður Alþýðuflokksins í Vesturlandskjördæmi sumarið 1993 er Eiður Guðnason varð sendiherra og sat á þingi allt til ársins 2003, seinasta kjörtímabilið fyrir Samfylkinguna. Hann náði ekki kjöri í seinustu kosningum á lista flokksins í hinu nýja Norðvesturkjördæmi. Það hefur blasað við um nokkuð skeið að leiðir Gísla og forystu Samfylkingarinnar höfðu skilið. Hann var ekki sáttur við uppstillingu framboðslista Samfylkingarinnar fyrir þingkosningarnar 2003 og taldi sína stöðu ekki góða. Það fór með Gísla eins og svo marga krata í Samfylkingunni að þeir leituðu annað og horfðu þá til Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum. Það er mikil blóðtaka fyrir Samfylkinguna á Akranesi að sjá á bak Gísla Einarssyni, þingmanni sínum og forystumanni til fjölda ára.

En um leið er það styrkleiki fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akranesi að fá Gísla í sínar raðir - vonandi verður hann bæjarstjóri á Skaganum eftir næstu kosningar. Það verður sterk og öflug forysta sem leiðir Sjálfstæðisflokkinn á Skaganum í kosningunum í vor - breiður og góður hópur fólks. Kannast örlítið við Gísla og veit að þar fer kjarnamaður. Ég fagna því að hann hafi gengið til liðs við okkur sjálfstæðismenn og um leið sagt skilið við Samfylkinguna undir forystu Ingibjargar Sólrúnar.

18 apríl 2006

Ný könnun á Akureyri - borgarafundur á NFS

Akureyri

Í kvöld fór ég á veitingahúsið Strikið, betur þekktur sem gamli og góði Fiðlarinn, hér í miðbæ Akureyrar á borgarafund NFS vegna komandi sveitarstjórnarkosninga. 39 dagar eru nú þar til við göngum að kjörborðinu og veljum fulltrúa okkar í bæjarstjórn Akureyrar næsta kjörtímabilið og tökum afstöðu til framboðanna sem í boði eru. Á borgarafundinum var auk forystumanna framboðanna mætt ýmislegt lykilfólk tengt framboðunum fimm sem þegar liggja fyrir. Eftirvænting ríkti enda tilkynnt um niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir NFS á fylgi framboðanna fimm sem þegar liggja fyrir. Aðeins hafði ein skoðanakönnun birst á fylgi framboðanna á árinu er kom að þessari og því var spenna í loftinu eftir að sjá nýja mælingu og stærra úrtak en í fyrri könnun. Var mjög athyglisvert að heyra niðurstöður könnunarinnar.

Úrtakið í könnuninni er 800 manns og svarhlutfallið er 68%. Skv. könnuninni er meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fallinn en naumlega þó. Við í Sjálfstæðisflokknum bætum við okkur nákvæmlega prósenti frá kosningunum 2002 - mælumst með 36,5% fylgi og höldum okkar fjórum mönnum inni. Fylgi Framsóknarflokksins minnkar verulega og mælist nú 14,3% og hefur fallið úr 24,1% úr kosningunum 2002 - flokkurinn hefur aðeins einn bæjarfulltrúa í könnuninni og tapar tveim. Samfylkingin bætir við sig nokkru fylgi og mælist með 22,2% en fékk 13,9% síðast - er með 3 bæjarfulltrúa í könnuninni en fékk einn kjörinn árið 2002. VG bætir við sig nokkru fylgi - mælist með 18,4% en fékk 8,7% í kosningunum 2002 og bætir við sig manni, fengi 2 núna. Listi fólksins missir verulegt fylgi - mælist með 7,9% nú en fékk 17,8 árið 2002 og missir annan mann sinn.

Þessi könnun er að mæla mjög svipað landslag og var í könnun RHA fyrr í mánuðinum. Stærsta breytingin er sú að styrkleikahlutföll VG og Samfylkingarinnar breytist örlítið. Samfylkingin mælist með þrjá og VG tvo - öfugt við fyrrnefnda könnun. Enn vekur mikla athygli fylgishrun Framsóknarflokksins á Akureyri - einu af lykilvígi flokksins á landsbyggðinni. Löngum mældist flokkurinn hér með fjóra til fimm bæjarfulltrúa. Tólf ár eru liðin síðan að flokkurinn vann afgerandi sigur og fékk fimm menn kjörna og Jakob Björnsson þáv. leiðtogi flokksins, varð bæjarstjóri. Fjórum árum seinna klauf Oddur Helgi, bæjarfulltrúi flokksins, sig frá Framsókn og stofnaði Lista fólksins. Fékk Framsókn þrjá menn kjörna bæði 1998 og 2002. Það er merkilegt að sjá mælinguna á Framsókn tvær kannanir í röð og greinilegt áfall þeirra. Er staða mála þeim væntanlega mikið áfall.

Staða Sjálfstæðisflokksins mælist mjög góð. Flokkurinn hefur leitt bæjarmálin samfellt í átta ár og Kristján Þór hefur verið bæjarstjóri allan þann tíma. Nýleg könnun staðfesti að hans staða er sterk og flokkurinn heldur öflugur í þessar kosningar og nýtur stuðnings bæjarbúa. Það er gott að finna þessa góðu mælingu. Það er greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur sannmælis vegna góðrar stöðu bæjarins en athygli vekur hversu illa Framsókn verður úti almennt um allt land, ekki bara hér. VG er að bæta nokkru við sig undir forystu Baldvins og Samfylkingin réttir úr kútnum undir forystu Hermanns. Listi fólksins er í mikilli niðursveiflu og virðist vera að tapa fyrir það að hafa ekkert frumkvæði sýnt á kjörtímabilinu. L-listinn hefur enga einustu tillögu lagt fram sjálft á tímabilinu og ævinlega setið hjá og maldað neikvætt í móinn og bókað sérálit með hjásetu svo eftir hefur verið tekið.

Á borgarafundinum ræddu Kristján Þór, Jói Bjarna, Baldvin Sig, Hermann T. og Víðir Ben um stöðu bæjarmálanna og niðurstöður könnunarinnar. Var þar birt ítarleg samantekt Glúms Baldvinssonar á stöðu bæjarins og sannast þar vel sterk og góð staða Akureyrarbæjar. Enda sást það vel á umræðunum að minnihlutaöflin hafa engin alvöru skotfæri á meirihlutann og gagnrýni þeirra hljómaði sem og hin holasta tóma tunna. Fannst mér þetta felast best í því að leiðtogi VG fannst allt hér mjög slæmt og ekkert hefði verið gert en sú gagnrýni hljómar ótrúverðug eftir umfjöllun Glúms. Heilt yfir fannst mér þetta litlausar umræður og upp úr stóð sterk staða Sjálfstæðisflokksins og meirihlutans, enda voru minnihlutaleiðtogarnir mjög bitlausir og gátu mjög fátt sem ekkert bent á sem aflaga hefði farið. Í heildina voru þetta litlausar umræður

Í heildina var þetta lífleg og góð kvöldstund á Strikinu og áhugavert að fylgjast með umræðunum og spjalla við góða félaga eftir fundinn. Sérstaklega ánægjulegt að hitta Helga frænda, sem var að vinna auðvitað í þessari góðu umfjöllun NFS. Það sem helst stendur eftir kvöldið er málefnasnauður minnihluti - sérstaklega er athyglisvert að sjá endalausar rugltillögur vinstri græna, sem virðast ekki alveg í takt við raunveruleikann. Í kvöld fékk ég reyndar gott komment frá einum vini mínum sem hingað er nýfluttur og sagðist aðspurður um fundinn hafa séð á þessum umræðufundi að minnihlutinn væri litlaus með öllu og Kristján Þór verið eini afgerandi leiðtoginn. Sá sagði með brosi á vör að bæjarpólitíkin væri skrautleg og nefndi undarleg komment Baldvins í því samhengi.

Annars er þessi könnun auðvitað eins og allar aðrar vísbendingar um stöðu mála. Annars er kosningabaráttan nú að fara af stað af krafti - verður snörp og öflug eins og ávallt. Við blasir hressilegur lokasprettur í kosningabaráttunni næstu fimm vikurnar. Það verður fjör hér næstu 39 dagana.