Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 ágúst 2006

Arnbjörg gefur kost á sér í 1. sætið

Arnbjörg Sveinsdóttir

Haft var eftir Arnbjörgu Sveinsdóttur, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, í kvöldfréttatíma sjónvarpsstöðvarinnar N4 hér á Akureyri nú í kvöld að hún myndi gefa kost á sér í fyrsta sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi í komandi alþingiskosningum. Arnbjörg Sveinsdóttir var alþingismaður fyrir Austurlandskjördæmi árin 1995-2003 og hefur setið á þingi fyrir Norðausturkjördæmi frá 1. janúar 2004 er Tómas Ingi Olrich, fyrrum menntamálaráðherra, sagði af sér þingmennsku eftir að hafa látið af ráðherraembætti. Arnbjörg var leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Austurlandskjördæmi 1999-2003 og sigraði í prófkjöri flokksins þá og tók við leiðtogatigninni af Agli Jónssyni frá Seljavöllum. Arnbjörg varð með því fyrsta (og enn sú eina) konan sem hefur leitt framboðslista af hálfu Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum.

Arnbjörg hefur verið þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins frá síðasta þingsetningardegi, laugardaginn 1. október 2005, í kjölfar þess að Einar Kristinn Guðfinnsson varð sjávarútvegsráðherra. Hún hafði árið áður tekið við varaformennsku þingflokksins af Sigríði Önnu Þórðardóttur, þegar að hún varð umhverfisráðherra. Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga var ákveðið hjá Sjálfstæðisflokknum hér í kjördæminu að stilla upp á lista. Tillaga kjörnefndar var sú að Halldór Blöndal yrði í fyrsta sætinu, Tómas Ingi í því öðru og Arnbjörg í þriðja sætinu. Arnbjörg gaf við svo búið kost á sér í annað sætið og var kosið á milli þeirra um sætið. Tómas Ingi Olrich vann þá kosningu með 2/3 greiddra atkvæða. Arnbjörg missti þingsæti sitt í kosningunum en tók síðar sæti við brotthvarf Tómasar Inga.

Hávær orðrómur er um það að Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri hér á Akureyri, ætli að gefa kost á sér í fyrsta sæti framboðslistans en talað hefur verið um það alla tíð frá því að Tómas Ingi lét af þingmennsku að rödd Akureyrar þurfi að vera sterk á framboðslista næst. Þegar er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hér á Akureyri hefur ekki embætti bæjarstjóra út kjörtímabilið og því öruggt að breytingar á pólitískum högum bæjarstjórans verða á kjörtímabilinu og mjög litlar líkur á því að hann gefi kost á sér til endurkjörs í næstu bæjarstjórnarkosningum sem leiðtogi listans og eða sem bæjarfulltrúi yfir höfuð. Kristján Þór hefur sýnt á sér skýrt fararsnið og gat t.d. eftir myndun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hér í júníbyrjun ekki tilkynnt með afgerandi hætti hvort hann yrði bæjarstjóri til ársins 2009, þann tíma sem samið er um að flokkurinn hafi embættið.

Í fyrrnefndum fréttatíma N4 var haft eftir Þorvaldi Ingvarssyni, lækni og formanni Sjálfstæðisfélags Akureyrar, að hann stefni að framboði í efstu sæti framboðslista flokksins í kjördæminu og hann útilokar ekki að takast á við Arnbjörgu og Kristján Þór um leiðtogastöðuna. Það má því eiga von á spennandi mánuðum innan Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi. Enn hefur Halldór Blöndal, alþingismaður og leiðtogi flokksins í kjördæminu, ekki tekið ákvörðun um hvað hann gerir en ef marka má staðarblaðið Vikudag hér í dag mun hann tilkynna um ákvörðun sína á kjördæmisþingi í Mývatnssveit í október. Heimildir N4 og blaðsins gefa til kynna að hann muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs.

Á kjördæmisþinginu í október verður tekin afstaða til þess hvort að fram eigi að fara prófkjör eða stillt upp á listann að tillögu kjörnefndar. Ég hef oft tekið það fram, skýrast í pistli mínum hér á vefnum þann 26. júlí sl, að mín skoðun sé að prófkjör eigi að fara fram. Það er hið eina rétta að frambjóðendur flokksins að vori verði valdir af öllum flokksbundnum sjálfstæðismönnum í kjördæminu.

Það er kominn tími til að gefa nýju fólki tækifæri til að gefa kost á sér og það er rétt að flokksmenn allir velji forystu flokksins í komandi kosningum og í þeim verkum sem við blasa á nýju kjörtímabili.

30 ágúst 2006

Flakkað á milli fjölmiðlanna

ISG

Ég sá um daginn á netinu umfjöllun um fund Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, með Styrmi Gunnarssyni, ritstjóra Morgunblaðsins. Sat Ingibjörg Sólrún fundinn með Skúla Helgasyni, framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar. Kom þessi fundur mörgum að óvörum, enda hefur ritstjórn Morgunblaðsins ekki beinlínis verið að ausa forystu Samfylkingarinnar lofi í ritstjórnargreinum á borð við leiðara og Staksteina. Hvarflaði því að mér að þessi fundur væri haldinn undir því yfirskini að formaður Samfylkingarinnar vildi ná sáttum við Styrmi og tala saman um þau. Eins og gefur að skilja hafa stuðningsmenn Samfylkingarinnar ekki mikið verið að flagga þessum fundi, og eða að gera hann mikið að umtalsefni, enda þeim varla til geðs að formaðurinn sé að friðmælast við Styrmi.

Ég verð að viðurkenna að það hvarflaði að mér hvort að Jón Baldvin Hannibalsson, ráðgjafi og pólitískur trúnaðarmaður Ingibjargar Sólrúnar, hafi komið fundinum á. Eins og flestir vita er Jón Baldvin æskuvinur Styrmis, en tengdafaðir Styrmis, Finnbogi Rútur Valdimarsson, var föðurbróðir Jóns Baldvins, bróðir Hannibals Valdimarssonar, fyrrum formanns Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna. Allir sem lesa ævisögu Jóns Baldvins sjá að Styrmir er mikill félagi Jóns Baldvins, þó að þeir hafi oft verið ósammála í stjórnmálum. Styrmir hefur verið ófeiminn að gagnrýna Samfylkinguna undir forystu Ingibjargar Sólrúnar og þótti því nokkur tíðindi að þau skyldu ákveða að hittast og fara yfir málin. Þótti mörgum sem að þarna væri kominn sannkallaður sáttafundur.

Nú er hinsvegar komið upp úr dúrnum að ekki er um að ræða einn fund sérstakan fyrir formann Samfylkingarinnar að ræða við fjölmiðlamenn. Um virðist að ræða, skv. umfjöllun á netinu, að hér sé fundaferð formannsins með fjölmiðlamönnum almennt. Eru því formaður og framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar á ferð milli fjölmiðla til að ræða málin. Er þetta eiginlega kómískt finnst mér. Mér finnst ótrúlega lítið fjallað um þetta verklag formannsins að fara til fjölmiðlamanna og ræða við þá. Hvaða boðskap hefur formaðurinn til fjölmiðlamanna er líður að kosningavetri? Mér þætti forvitnilegt hvað yrði sagt um það ef að Geir Hilmar Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, færu á milli fjölmiðla til að ræða við yfirmenn og millistjórnendur þar.

Eitthvað hljóð myndi heyrast úr horni á "vissum" stöðum ef að Geir og Kjartan vildu fara milli staða og tala um fjölmiðlaumfjöllun pressunnar og verklag þeirra í byrjun kosningavetrar. Kannski eru Ingibjörg Sólrún og Skúli bara talin svona léttvæg að það er ekki rætt um þetta. Ég veit ekki hvað veldur. En þetta er kómískt engu að síður, lesandi góður. Veltum því fyrir okkur hvað stjórnarandstaðan myndi segja ef að fréttist af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins í svona ferðalagi og eða t.d. bara af þeim á svona fundi með Þorsteini Pálssyni, ritstjóra Fréttablaðsins, en mér skilst reyndar að Ingibjörg Sólrún fari þangað líka. Þau hafa svosem um nóg að tala, enda voru þau saman í stjórnarskrárnefndinni.

Það er eiginlega merkilegast að vita hver boðskapur forystufólks Samfylkingarinnar er á þessum kostulegu fundum. Er þetta bara tespjall með léttu yfirbragði um settlega pólitík og stöðu mála eða hart pólitískt spjall og aðfinnsluhjal formannsins? Það segir mér allavega svo hugur að spjall Ingibjargar Sólrúnar og Styrmis hafi ekki bara verið dútlspjall, enda sjá allir sem fylgjast með að enginn hlýhugur hefur verið í garð Samfylkingarinnar frá Morgunblaðinu í ritstjórnarskrifum. Það er því ólíklegt að spjall þeirra hafi verið rólegt og án stjórnmálabrags.

En já þetta er kostulegt ferðalag flokksforystu sem hefur ekkert veganesti í stjórnmálabaráttu, það er ekki hægt að segja annað.

Óheppileg ákvörðun

Árni Johnsen

Yfir morgunmatnum mínum í morgun las ég þá frétt í Fréttablaðinu að Árna Johnsen, fyrrum alþingismanni, hefði verið veitt uppreisn æru og því veitt í raun kjörgengi fyrir næstu alþingiskosningar. Ég hef hingað til staðið í þeirri trú að það þurfi að líða a.m.k. fimm ár frá því að viðkomandi fær það þungan dóm að hann hefur áhrif á kjörgengi þar til að ræða megi möguleikann á því að hann fái kjörgengi. Rúm þrjú ár eru liðin frá því að Árni var dæmdur í tveggja ára fangelsi, fyrra árið óskilorðsbundið. Hann sat af sér sinn tíma og tók út sína refsingu. Hægt er að veita undanþágu og það er það sem gerst hafði, enda fimm árin auðvitað ekki liðin. Finnst mér eiginlega með ólíkindum að Árni Johnsen skuli ekki ganga í gegnum nákvæmlega sömu viðmið og allir aðrir í hans stöðu. Einfalt mál, hreint út sagt.

Ég er ekki sammála því að veita skuli Árna Johnsen uppreisn æru, það er bara svo afskaplega einfalt. Það er að mér finnst með ólíkindum hvernig þessa ákvörðun ber að og að það séu handhafar forsetavalds sem undirriti þessa undanþágu. Ég hef jafnan talist nokkuð trúr og tryggur Sjálfstæðisflokknum og lagt honum lið. Ég mun hinsvegar aldrei tala máli svona ákvörðunar og ég undrast hana mjög, í ljósi þess að alþingiskosningar eru framundan. Heiftin meðal landsmanna í garð Árna Johnsen vegna afbrota hans eru enn til staðar, einkum í ljósi þess að hann hefur enga iðrun sýnt. Það er mjög undarlegt að Árni skuli ekki fara nákvæmlega sömu leið og gangast undir það sama og annað fólk í sömu stöðu. Mér finnst það afleitt að fólk geti fengið einhverja undanþágu frá því sem almennt telst. Í ljósi aðstæðna er þetta mjög óheppilegt.

Þetta er því að mínu mati afskaplega slæm ákvörðun sem ég get allavega ekki talað fyrir eða stutt. Hafði ég í skrifum á fjölda staða á netinu farið vel yfir skoðanir mínar hvað varðaði kjörgengi Árna Johnsen. Allir þeir sem kynna sér þau skrif sjá að ég vildi ekki að Árna yrði veitt uppreisn æru eða að honum yrði tryggt kjörgengi í næstu alþingiskosningum. Í ljósi þessa get ég ekki annað en talið þessa ákvörðun til mikilla vansa og tel hana slæma. Fátt meira um það hægt að segja.

29 ágúst 2006

Afmæli Akureyrarbæjar

Akureyri

Í dag eru 144 ár frá því að Akureyrarbær öðlaðist kaupstaðarnafnbót, reyndar öðru sinni, en árið 1836 missti bærinn kaupstaðarnafnbótina en endurheimti hana að nýju á árinu 1862. Saga Akureyrar er stórbrotin - á þessum 144 árum hefur Akureyri breyst úr dönskuskotnum smábæ í stærsta kaupstað landsbyggðarinnar sem má ennfremur teljast til helstu útgerðarstaða landsins þar sem eru höfuðstöðvar tveggja af stærstu útgerðarfyrirtækjum Íslendinga. Eins og Jón Hjaltason segir í Sögu Akureyrar dregur Akureyrarbær nafn sitt af kornakri sem talið var að hafi verið í einu af giljum bæjarins. Ekki er það óeðlilegt, enda hefur Akureyri löngum verið þekkt áhuga bæjarbúa á garðyrkju og segja má að bærinn sé annálaður fyrir gróðursæld.

Það voru danskir verslunarmenn sem innleiddu þennan mikla áhuga á garðrækt og er það til marks um hin miklu dönsku áhrif í öllu bæjarlífinu fyrr og nú. Á seinustu árum hefur mikið átak verið unnið í að fegra bæinn og hefur það verk tekist með eindæmum vel. Öll umgjörð bæjarins er með því sem best verður á kosið. Gott dæmi í þeim efnum er Strandgatan sem hefur verið færð í glæsilegan búning, ástand miðbæjarins hefur tekið miklum framförum þótt betur megi ef duga skal, ennfremur hefur mikið verk verið unnið við að hreinsa og fegra umhverfið. Mér hefur alla tíð þótt virkilega vænt um Strandgötuna, þar byggði langafi sér hús í árdaga 20. aldarinnar og settist að með fjölskyldu sinni. Það er svo með föðurfólkið mitt að við erum nær öll hér, hér viljum við enda vera.

Akureyrarbær hefur í þessi tæplega 150 ár verið þekktur fyrir verslun, iðnað, sjávarútveg og síðast en ekki síst veðursæld. Bærinn er barna- og fjölskylduvænn og þar er nálægðin mikil við náttúruna og þar er góð íþrótta- og útivistaraðstaða. Á Akureyri er gott menningarlíf, þar eru afburðargóðir skólar og það er stutt frá heimili til vinnu og skóla. Þar eru öll lífsins gæði í boði. Ég sem Akureyringur frá fornu fari hef alltaf haft sterkar taugar til staðarins. Það er alltaf eitthvað sem togar mann aftur þangað, bærinn er í mínum huga einstakur í sinni röð. Ég sem Akureyringur fagna þeim merka áfanga sem felast í deginum í dag. Megi Akureyri vaxa og dafna um ókomin ár.

Björn heldur áfram í stjórnmálum

Björn Bjarnason

Það hefur aldrei farið leynt, held ég, meðal þeirra sem þekkja mig og mína pólitík, að ég hef dáðst mjög af Birni Bjarnasyni sem stjórnmálamanni. Það er mér því mikið gleðiefni að sjá í nýjasta pistli á vef hans skýr skilaboð í þá átt að hann ætli að gefa kost á sér í alþingiskosningunum eftir rúma átta mánuði. Það hafa margar sögur gengið seinustu vikur um það hvert hugur Björns stefnir og ég get ekki betur séð af skrifum hans en að hann sé ákveðinn í að fara fram í næstu kosningar og sækjast eftir umboði flokksmanna í Reykjavík til áframhaldandi verka. Ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir yfirgripsmikilli þekkingu Björns á utanríkis- og varnarmálum og segja má með sanni að hann sé sá þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem mest þekkir þann málaflokk.

Björn hefur verið fyrirmynd fyrir mig og fleiri í vefmálum. Hann byrjaði með heimasíðu fyrstur íslenskra stjórnmálamanna og hefur haldið henni úti með mikilli elju og vinnusemi allan þann tíma. Hann hefur þar tjáð af miklum krafti skoðanir sínar og skrifað um pólitík og fleiri þætti þjóðmálaumræðunnar, birt þar dagbók og ennfremur allar ræður og greinar sínar. Var Björn brautryðjandi í vefskrifum stjórnmálamanna á netinu og er fyrirmynd margra í netvinnslu og í því að skrifa á vefnum. Á vef hans er hægt að fylgjast með verkum og skrifum Björns allan feril hans sem ráðherra, þingmanns og borgarfulltrúa. Í kjölfar vefs hans hafa margir stjórnmálamenn ákveðið að feta í fótspor Björns og nota sér þennan miðil til að vera í góðum tengslum við umbjóðendur sína.

Það hefur alla tíð verið hvetjandi að fylgjast með störfum hans í gegnum vefinn og lesa skrif hans. Eins og hann hefur oft bent á er mikið verkefni að halda úti vef með reglulegum skrifum og krefst aga og því að verkefninu sé sinnt af alúð. Þessu hef ég kynnst eftir að ég opnaði þennan vef. Sú vinna er mjög ánægjuleg og gagnleg þeim sem leggja á þá braut að tjá sig um málin. Það veitir mörg tækifæri að fara á slíkan opinn vettvang og leyfa öðrum að fylgjast með því sem maður er að pæla í dagsins önn, um stjórnmál og margt fleira. Það hefur sést vel að vefur Björns er víðlesinn og hann hefur orð á sér fyrir að svara hratt pósti sínum og nota sér tæknina vel til að hafa samband við landsmenn. Hann hefur verið einn vinnusamasti stjórnmálamaður landsins.

Framlag Björns í stjórnmálum og þá einkum forysta hans í netmálum hefur skipt mjög miklu máli. Ég lýsi yfir ánægju minni með þá ákvörðun hans að halda áfram í stjórnmálum. Ég hef aldrei farið leynt með stuðning minn við hann og ég t.d. er honum eilíflega þakklátur fyrir að hafa á vef sínum tengil á heimasíðu mína. Það mun ég alla tíð meta mjög mikils, svo og persónuleg tengsl okkar.

Smárinn floginn

Gunnar Smári

Þær fréttir bárust í dag að Gunnar Smári hefði verið settur af sem forstjóri Dagsbrúnar og forstjóri Og Vodafone settur einnig yfir Dagsbrún. Já, þetta gat varla úr því sem komið var endað öðruvísi. Gunnar Smári fékk mikinn séns á sínum tíma þegar að Sigurði G. Guðjónssyni var hent út fyrir hann eftir að Norðurljósum var slátrað og eignirnar færðar annað og undir merki 365. Hallinn var orðinn mjög mikill og fyrirtækið gat varla staðið undir óbreyttri forystu lengur. En já nú fer Gunnar Smári til Danmerkur, sem verður varla flokkað öðruvísi en sem stöðulækkun. Það sjá allavega allir hvernig í pottinn er búið.

Þetta hljóta að teljast nokkur þáttaskil að Gunnar Smári sé settur af forstjórastóli, enda hefur hann verið áberandi innan þessarar fjölmiðlasamsteypu hérlendis alveg síðan að hann ritstýrði Fréttablaðinu. Alla tíð voru honum færð meiri völd og áhrif innan fjölmiðlasamsteypu Baugs en margir botnuðu í, með tilliti til sögu hans á íslenskum fjölmiðlamarkaði áður en hann tók við Fréttablaðinu. Hann var mjög hvass og ákveðinn meðan að hann stýrði Fréttablaðinu og beitti því miskunnarlaust til undarlegra verka.

Virtist hann vera keyrður áfram (með tryggðu fjármagni) til að reyna að höggva í einn flokk og einn stjórnmálamann. Hann varð svo eldsneytislaus á íslenskum blaðamarkaði þegar að viðkomandi stjórnmálamaður fór úr Stjórnarráðinu. Það er svosem varla orðum á þetta komandi en það er ekki fjarri því að margir fagni því að hann sé farinn úr rekstri hér á Íslandi. Væntanlega eru eigendur Dagsbrúnar þar ánægðastir, enda var fjölmiðlaveldi Baugs hérlendis allt að riða til falls vegna stjórnunar hans og hallinn orðinn yfirgengilegur og virtist risi fjölmiðlunar hér farinn að tafsa undir hans leiðsögn.

Gangi honum sem best að berjast í Danmörku, enda sýnist honum varla veita af góðum óskum í erfiðu stríði þar.

28 ágúst 2006

Bylgjan 20 ára

Bylgjan

Í dag, 28. ágúst, er stórdagur í sögu íslenskrar fjölmiðlunar. Þann dag árið 1986 hóf fyrsti frjálsi ljósvakamiðillinn, Bylgjan, formlega útsendingar, þegar að Davíð Oddsson, þáv. borgarstjóri, opnaði útvarpsstöðina með ræðu sinni. Í dag er Bylgjan því 20 ára gömul - þetta er sannur hátíðisdagur fyrir alla sanna talsmenn frelsis á Íslandi. Afmælisins hefur verið minnst með ýmsum hætti í dag og dagskrá seinustu daga verið lögð undir afmælið og hafa fyrrum þáttastjórnendur snúið aftur til að heiðra stöðina. Í dag hafa fyrrum fréttamenn Bylgjunnar lesið fréttir þar. Vakti mikla athygli að þrír fyrrum fréttastjórar Bylgjunnar, þau Páll Magnússon, útvarpsstjóri, Elín Hirst, fréttastjóri Sjónvarpsins, og Karl Garðarsson ákváðu að snúa aftur í tilefni dagsins og lesa fréttir. Elín og Karl voru í fyrsta fréttamannahópi Bylgjunnar árið 1986.

Tilkoma Bylgjunnar í ágústlok 1986 markaði þáttaskil í fjölmiðlun hérlendis og markaði endalok ríkiseinokunar í ljósvakafjölmiðlun. Í 56 ár rak ríkið eitt ljósvakafjölmiðla og var einokun þeirra fest í lög. Árið 1930 hóf ríkið rekstur fyrstu útvarpsstöðvarinnar, Rásar 1. Allt til 1983 var hún eina útvarpsstöðin á öldum ljósvakans. Á níunda áratugnum átti fólk erfiðara með að sætta sig við þetta og 1983 kom til sögunnar önnur útvarpsstöð ríkisins, Rás 2, sem var léttari að flestu leyti, hönnuð fyrir yngri markhóp en gamla gufan og starfshættir aðrir. 1966 hafði svo fyrsta sjónvarpsstöðin komið til sögunnar, Ríkissjónvarpið. Allan þennan tíma var aðeins ríkinu leyft að reka útvarps- og sjónvarpsstöðvar. Til fjölda ára hafði frjálslyndasti armur Sjálfstæðisflokksins barist gegn þessu og talaði lengi fyrir daufum eyrum, enda ekki meirihluti á þingi fyrir breytingum.

Ragnhildur Helgadóttir

Það breyttist í einu vetfangi árið 1984. Í verkfalli opinberra starfsmanna það ár lokuðust þessar stöðvar ríkisins. Það leiddi til þess að einkaaðilar stigu fram í verkfallinu og settu upp eigin stöðvar í trássi við lög til að sýna fram á að tímaskekkja væri að með lögum væri einkaaðilum bannað að senda frá sér efni á öldum ljósvakans. Mitt í látum verkfallsins haustið 1984 tók sjálfstæðiskonan Ragnhildur Helgadóttir (sem þá sat á stóli menntamálaráðherra) af skarið og boðaði á þingi frumvarp til nýrra útvarpslaga sem gerði ráð fyrir afnámi einokunar ríkisins á ljósvakamarkaði. Það markaði viss þáttaskil í sögu fjölmiðlunar á Íslandi að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks skyldi þá taka af skarið með þessum hætti. Frumvarpið var samþykkt ári síðar af stjórnarmeirihlutanum. Ragnhildur á heiður skilið fyrir að hafa látið vaða í þessa átt af krafti árið 1984!

Aðeins þingflokkur Sjálfstæðisflokksins var heill í stuðningi við málið. Nú, tveim áratugum síðar, þykir eflaust flestum með ólíkindum að einkaaðilum hafi ekki verið heimilt fyrr en 1985 að reka sjónvarps- eða útvarpsstöðvar. Margir töldu á þessum tíma ólíklegt að einkastöðvar gætu borið sig í samkeppni við ríkisfjölmiðla en sagan hefur sýnt að það voru óþarfa áhyggjur. Í dag þykir ekki stórfrétt að ný stöð á ljósvakamarkaðnum hefji útsendingar. Það er ekki úr vegi að rifja upp hverjir voru á móti þessu frelsi í atkvæðagreiðslu á þingi vorið 1985. Þar voru á ferð vinstriflokkarnir. Enginn vinstrimaður á Alþingi (Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Kvennalisti) studdu breytinguna, enda löngum verið þekktir fyrir að vilja sem mest ríkisafskipti!

Bylgjan

Það hefur lengi verið persónuleg skoðun mín að ríkið eigi að fara af fjölmiðlamarkaði og láta einkaaðilum eftir að eiga fjölmiðla og reka þá. Mér hefur alla tíð þótt tímaskekkja að ríkið standi í þessum rekstri, þegar sýnt er að einkaaðilar sé fullfærir um slíkan rekstur. Ég hef alla tíð metið Bylgjuna mjög mikils og hlusta mikið á stöðina. Hún var sem ferskur vindblær í útvarpsmenninguna og auðgaði fjölmiðlaflóruna og hóf bylgju sem leiddi til þess að ríkisrisinn varð að lækka á sér risið og mæta samkeppni með krafti. Samkeppnin gerði þeim aðeins gott og sýndi og sannaði betur hversu staðnað ríkisbáknið er. Það ætti með réttu að verða lagt af og er kominn tími á algjöra uppstokkun þessa staðnaða bákns.

Ég vil óska Bylgjunni innilega til hamingju með daginn. Hún verður alla tíð glæsilegur fulltrúi frelsisins á fjölmiðlamarkaði og hefur sannað vel seinustu tvo áratugi að hún markaði þáttaskil og er enn ferskur fulltrúi líflegra þáttaskila. Megi hún lengi lifa!

Vandræðaleg barátta virkjunarandstæðinga

Kárahnjúkastífla

Í ítarlegum pistli á vef SUS í dag fjalla ég um virkjun og álver á Austurlandi, andstöðu vissra afla gegn framkvæmdunum og sögu málsins. Það er kunnara en frá þurfi að segja að virkjun og álver á Austurlandi eru umdeild. Það eru skiptar skoðanir um þær framkvæmdir sem eiga sér stað á Austurlandi. Hinsvegar hefur það birst í skoðanakönnunum og í umræðu á lýðræðislega kjörnu Alþingi Íslendinga að meirihluti landsmanna styður þessar framkvæmdir og hefur lagt þeim lið. Baráttan fyrir því að tryggja þessar framkvæmdir á Austurlandi hefur verið í senn löng og tekið á. Í mörg ár biðu Austfirðingar eftir því að þessi framkvæmd yrði að veruleika og það hefur sannast að Austfirðingar hafa stutt framkvæmdina með mjög áberandi hætti.

Átök voru um þetta mál milli fylkinga í síðustu þingkosningum og reyndi þá á stjórnmálamennina sem leiddu málið á öllum stigum þess. Þeir höfðu sigur á meðan að andstæðingarnir fóru mjög sneyptir frá sinni baráttu. Mér hefur fundist barátta andstæðinga þessarar framkvæmdar hafa gengið fram með mun meira offorsi og hörku þetta sumarið en hin fyrri, þó áður hafi verið beitt ýmsum meðölum til að valta yfir lýðræðislega kjörinn meirihluta Alþingis og stuðningsmenn málsins. Það helgast væntanlega af því að nú styttist í verklok, það sér fyrir endann á vinnu við álverið og virkjunina og því er barátta mótmælendanna að verða nær vonlaus, hafi hún einhverntímann verið með vonarglampa af þeirra hálfu.

Nú blasir raunveruleikinn við mótmælendunum og það eru að verða góð ráð dýr fyrir þetta fólk. Það má því sennilega skilja hörkuna og offorsið þegar tillit er tekið til stöðu verksins nú. Eftir ár verður allt komið á fullt fyrir austan í álverinu og virkjunin verður þá löngu orðinn veruleiki. Nú þegar flest ef ekki öll sund eru lokuð fyrir mótmælendurna stíga sumir þeirra fram á sviðið og reyna að sá fræjum illgirni og efasemdar í garð framkvæmdarinnar.

Bendi lesendum á að lesa greinina alla.

Flokkafylgi - sterk staða Sjálfstæðisflokksins

Flokkarnir

Í gær birtist könnun Fréttablaðsins á fylgi stjórnmálaflokkanna, fyrsta könnun blaðsins frá því í júní, skömmu eftir sveitarstjórnarkosningar. Þessi könnun er eins og allar aðrar vísbending á stöðu mála og athyglisvert innlegg í umræðuna. Ríkisstjórnin mælist með meirihluta í þessari könnun, þó naumur sé. Það hlýtur að vera áfall fyrir stjórnarandstöðuna, enda hefur hún hamast eins og hún frekast getur við að vekja athygli á sér og reyna að sýna hvað í henni getur búið, að ná ekki að höggva í stjórnina meira en þetta. Staða Samfylkingarinnar er mjög merkileg af stjórnarandstöðuflokki að vera og það gleður mig allavega ef að stuðningsmenn flokksins eru ánægðir með þessar tölur.

Eftir margra ára stjórnarandstöðu er Samfylkingin undir kjörfylginu árið 2003 og það hlýtur að valda þeim verulegum vonbrigðum, enda var jú ekki skipt um formann á þeim bænum til að lulla í því sama eða minna en þá fékkst upp úr kössunum. Sjálfstæðisflokkurinn er þarna að mælast vel yfir kjörfylginu árið 2003 og við getum litið vongóð til vetrarins. Það er vinna að standa í verkunum á kosningavetri og við erum tilbúin til þeirra verka sem framundan eru. Við erum með nýja forystu tilbúna til að leiða flokkinn og miklar breytingar hafa átt sér stað innan flokksins á þessu kjörtímabili. Staða flokksins mælist góð, sé mið tekið af því að flokkurinn hefur verið í ríkisstjórn samfellt í 15 ár.

Staða Framsóknarflokksins breytist lítið frá fyrri könnun. Vekur það athygli, enda hefur flokkurinn skipt um forystu. Væntanlega er það rétt sem fram hefur komið að það taki þessa nýju forystu tíma að ávinna sér traust og stuðning. Framsóknarflokkurinn hefur reyndar oft áður upplifað slæma tíma og t.d. í aðdraganda síðustu kosninga var flokkurinn ekki að mælast með neinn mann inni í Reykjavík en fékk þrjá er á hólminn kom, sem var það mesta í borginni fram að því. Það komu margar kannanir fyrir síðustu kosningar sem sýndi stjórnina fallna en hún hélt velli. Auk þessa vekur mikla athygli að sjá hrun Frjálslynda flokksins, en væntanlega ræður þar hvað flokkurinn hengur utan í Samfylkingunni.

Í dag birtist svo könnun á því hvernig mynstur af stjórn landsmenn vilja fá. Þar kemur fram með afgerandi hætti að meirihluti landsmanna vill að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í ríkisstjórn. Það eru virkilega áberandi tíðindi, enda hefur flokkurinn verið í ríkisstjórn í 15 ár og leitt ríkisstjórnina nær samfellt frá árinu 1991, ef undan eru skildir 21 mánuðir á árunum 2004-2006. Framundan er spennandi kosningavetur og mikið fjör fyrir stjórnmálaáhugamenn. Verður fróðlegt að sjá næstu könnun hjá Gallup á föstudaginn.

27 ágúst 2006

Sunnudagspistill - 27. ágúst 2006

Stefán Friðrik

Þrjú mál eru í brennidepli í sunnudagspistlinum:

- Í kveðjuræðu sinni sem stjórnmálamaður sagðist Halldór Ásgrímsson telja það hafa verið eitt merkasta verk sitt sem stjórnmálamanns að hafa stuðlað að stjórnarmyndun Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 1995. Í ræðunni kom fram í fyrsta skipti með afgerandi hætti að vinstriflokkarnir hefðu rætt stjórnarmyndun eftir kosningarnar og reynt hefði því á það mynstur en í ellefu ár höfðu flestir talið að aldrei hefði reynt á viðræður um það. Fjalla ég um ellefu ára stjórnarsamstarf flokkanna en það hefur verið mjög farsælt.

- Enn berjast mótmælendur virkjunar við Kárahnjúka á hæl og hnakka gegn henni og draga allt mögulegt sem og ómögulegt til í þeim glataða slag, reynt er nú að veitast að fyrrum iðnaðarráðherra með kostulegu smáatriðatali. Nú þegar líður að verklokum fyrir austan hefur verklag mótmælendanna orðið sífellt örvæntingarfyllra. Nú þegar baráttan virðist nær töpuð er seinustu kröftunum beint að stíflunni við Kárahnjúka og reynt að sá fræjum illinda og efasemda gegn henni með mjög athyglisverðum hætti.

- Akureyrarvaka, menningarhátíð okkar bæjarbúa, fór fram um helgina. Fjalla ég um menningarhátíðina og glæsilega tónleika við lok hátíðarinnar í Listagilinu þar sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands spilaði fræg meistaraverk tónlistarsögunnar og fimm söngvarar fóru á kostum með flutningi sínum.

Akureyrarvaka - tónlistarveisla í Listagilinu

Akureyrarvaka (ljósmynd: Helgi Vilberg)

Það var yndisleg stemmning í miðbænum hér á Akureyri í kvöld. Það var notalegt og ástríðufullt að helga sig menningunni á Akureyrarvöku, hátíð menningar og lista, hér í bænum í dag. Naut ég þess að labba um miðbæinn og eiga þar góða stund langt fram eftir kvöldi. Hitti marga vini og ættingja á svæðinu og var þetta sannkölluð unaðsstund. Þetta var kvöld menningar - ég hef alltaf verið mikill menningarvinur og met mikils hversu vel er haldið utan um þau mál hér. Við getum litið til okkar framlags í menningarmálum hér með miklu stolti - enda hefur Akureyrarvakan aldrei verið jafnglæsileg, lifandi og fersk eins og einmitt núna. Af þessu getum við öll verið stolt! Þetta er veisla sem við metum öll mikils.

Hápunktur Akureyrarvikunnar að þessu sinni voru óperutónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands sem haldnir voru neðarlega í Listagilinu, á milli Hamborgar og Bautans, kl. 20:00 í kvöld. Þetta er einn fremsti menningarviðburður hér í bænum hin síðustu ár. Þetta var hvalreki í menningarmálum. Alveg unaðslegir tónleikar sem við munum öll minnast sem vorum þar stödd. Tónleikarnir voru haldnir í boði BM Vallár, en fyrirtækið er 60 ára á þessu ári, og voru þeir einnig sendir út í beinni útsendingu á Rás 1. Staðsetning tónleikanna hafði mikið að segja um hversu vel þeir tókust. Hljóðburður var mjög góður og það var notalegt að vera þarna er rökkva tók og hlusta á þessi meistaraverk í sögu óperutónlistar.

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er fyrsta flokks og perla í menningarlífi okkar. Það hefur sannast vel seinustu árin. Um síðustu helgi var hljómsveitin með glæsilega tónleika á borð við þessa á Klambratúni í Reykjavík. Með hljómsveitinni sungu þau: Kristinn Sigmundsson, Ólafur Kjartan Sigurðarson, Arndís Halla Ásgeirsdóttir, Kolbeinn Ketilsson og Sigríður Aðalsteinsdóttir. Stjórnandi hljómsveitarinnar er Guðmundur Óli Gunnarsson. Kynnir á tónleikunum var Akureyringurinn Arnar Jónsson, leikari. Tónleikar hljómsveitarinnar eru sannkallaður hvalreki fyrir okkur sem njótum menningar og lista og minnist ég með gleði í hjarta tónleika hljómsveitarinnar með Diddú og Jóhanni Friðgeir sem ég fór á í íþróttahús Síðuskóla á páskum 2005.

Einn af helstu kostum Akureyrar er blómlegt og öflugt menningarlíf. Það er alveg óhætt að fullyrða að menningarlífið hér norðan heiða sé engu líkt, í raun, sé miðað við íbúafjölda og framboð menningarviðburða. Akureyri hefur brag stórborgar hvað menningarlíf varðar. Hér er hægt að velja úr glæsilegum listviðburðum og njóta þeirrar sömu listaflóru og í raun og er í boði á höfuðborgarsvæðinu. Þegar ég ræði við sumt vinafólk mitt á suðurhluta landsins, sem sumt álítur mig vera staddan á hjara veraldar, bendi ég þeim á vef bæjarins og svo vefi listasafnsins og menningarvefi og þá verður þeim ljóst að hér er allt í boði sem lista- og menningarvinir þurfa á að halda.

Leikhúsið okkar er fyrsta flokks, listasafnið er stórfenglegt og fullt er af skemmtilegum viðburðum í Listagilinu okkar og sköpuð þar litrík og góð list. Við eigum öflugan Myndlistaskóla, Tónlistaskóla og svona má lengi telja. Menning og listir er fyrsta flokks hér. Marga þekki ég sem farið hafa norður síðustu árin og litið í leiðinni á verkin sem eru til sýningar í gamla og notalega leikhúsinu okkar og heillast algjörlega af vönduðum og vel gerðum sýningum. Með ráðningu Magnúsar Geirs Þórðarsonar í stöðu leikhússtjóra var stefnt að öflugu starfi og því að tryggja undirstöður leikhússins og sækja fram. Það hefur svo sannarlega tekist. Er það mikið gleðiefni að mati okkar sem unnum leikhúsinu og leiklistinni.

Nú seinustu mánuði hafa svo að auki verið mjög spennandi sýningar á Listasafninu - metnaðarfull dagskrá eins og ávallt. Nýlega var þar sýning á verkum Louisu Matthíasdóttur sem var svo sannarlega sólargeisli í hjarta listaunnenda á góðu sumri. Við hér fyrir norðan getum verið stolt af góðu orðspori Akureyrarbæjar sem menningarbæjar - miðstöðvar lista og menningar. Það er mikilvægt að við stöndum vörð um þetta orðspor og vinnum alltaf að því að treysta undirstöður þeirra lista sem við viljum að blómstri með þeim öfluga hætti og verið hefur á seinustu árum.

Við sjáum á Akureyrarvöku hversu mikill kraftur er í listalífinu okkar og við erum stolt af því og gleðjumst mjög yfir þessari miklu menningarveislu. Sérstaklega þökkum við kærlega fyrir þessa óperutónleika sem skilja eftir sig gleðitilfinningu í huga og sál okkar Akureyringa. Hvet lesendur til að smella á tengilinn hér fyrir neðan og hlusta á útendingu Rásar 1 frá tónleikunum. Yndislegt að hlusta á tónleikana og hafa það notalegt og gott.


Útsending Rásar 1 frá óperutónleikunum í Listagilinu

26 ágúst 2006

Akureyrarvaka

Akureyrarvaka

Um helgina mun menningarlífið á Akureyri blómstra - eins og ávallt er menningarhátíð bæjarins, Akureyrarvaka, haldin þessa seinustu helgi ágústmánaðar. Hátíðin hófst formlega í gærkvöldi í Lystigarðinum í gærkvöldi með ávarpi Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, forseta bæjarstjórnar. Veitt voru verðlaun fyrir fallegustu garðana í bænum, Lystigarðurinn var upplýstur og fjölbreytt dagskrá víðsvegar um garðinn og hljómsveit Ingu Eydal flutti fjölda laga. Það er jafnan notaleg og rómantísk stemmning í garðinum þetta kvöld í sumarrökkrinu.

Í dag er svo menningardagskrá um bæinn allan og skemmtileg stemmning í miðbænum, naut verður heilgrillað á Ráðhústorgi sem hefur tyrft í tilefni dagsins. Menningarviðburðir verða um allt. Hápunktur Menningarvökunnar eru hiklaust tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í miðbænum kl. 20:00 í kvöld. Þeir fara fram á risasviði sem hefur verið komið upp á milli Hamborgar og Bautans. Þar munu frægir söngvarar flytja með hljómsveitinni frægar óperuaríur og klassísk meistaraverk. Sannkölluð menningarveisla sem ég ætla ekki að missa af.

Miðbærinn mun blómstra af menningu í dag. Akureyrarvakan er frábært framtak sem komið er til að vera - óviðjafnanlegur óður til menningar í bænum. Vona ég að aðrir Akureyringar njóti menningar og skemmtilegrar hátíðar um helgina.

Dagskrá Akureyrarvöku 2006

Casablanca

Humphrey Bogart og Ingrid Bergman í Casablanca

Horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina Casablanca sem hlotið hefur sæmdartitilinn besta kvikmynd 20. aldarinnar. Í henni er sögð sagan af kaffihúsaeigandanum Rick Blaine í Casablanca í Marokkó í seinni heimsstyrjöldinni og ævintýrum hans. Af öllum búllum í öllum heiminum verður gamla kærastan hans endilega að stíga fæti sínum inn á staðinn hans með ástvini sínum, foringja í frönsku andspyrnuhreyfingunni sem er á flótta undan nasistum, og þá hefst óvænt og stórskemmtileg atburðarás. Humphrey Bogart er hér í sínu frægasta hlutverki og Ingrid Bergman fer einnig á kostum í hlutverki Ilsu. Claude Rains á stórleik í hlutverki Louis Renault og fléttar húmor vel saman við alvöruna og Paul Henreid skilar sínu vel á lágstemmdum nótum.

Casablanca er sú kvikmynd sem ég met mest. Hún verður alltaf meira heillandi eftir því sem árin líða og atriðin í henni þess þá meira heillandi. Mörg þeirra eru og verða alla tíð klassísk. Ég hvet alla sem ekki hafa séð þessa úrvalsmynd að drífa í því hið snarasta. Allir verða nefnilega að sjá þetta meistarastykki kvikmyndasögunnar a.m.k. einu sinni. Gæti orðið "upphafið að fallegri og einstakri vináttu". Það var það svo sannarlega í mínu tilfelli.

Í kvikmyndinni Casablanca er eitt af fallegustu kvikmyndalögum sögunnar, As Time Goes By, einfalt og fallegt lag um tilfinningar og ástríðu sem hitti í mark á sínum tíma og heillaði kvikmyndaunnendur um allan heim. Þeir sem vilja hlusta á lagið geta farið á plássið mitt á MySpace.

25 ágúst 2006

"Álitsgjafinn"

Birgir Guðmundsson

Það hefur verið full vinna fyrir nokkra stjórnmálaáhugamenn og pólitíska analísera að birtast í fjölmiðlum upp á síðkastið og greina Framsóknarflokkinn, með sama hætti og læknir á stóru sjúkrahúsi greinir stöðuna á sjúklingi sem þar liggur fárveikur. Flestir stjórnmálaspekúlantar meta væntanlega seinustu 23 mánuði í sögu flokksins (eftir að Halldór Ásgrímsson varð forsætisráðherra) með orðunum vandræðagangur og erfiðleikar. Einn er sá maður sem virðist orðinn jafnhelgaður Framsóknarflokknum í stúdíu og Hildur Helga Sigurðardóttir er bresku konungsfjölskyldunni. Það er Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur og fyrrum fréttastjóri framsóknarblaðsins Tímans, sem rann saman við Dag í Dag-Tímann hérna einhverntímann í denn. Það er svolítið merkilegt að sjá hvernig að hann er ævinlega sóttur til að greina flokkinn um leið og eitthvað hið minnsta gerist.

Um tíma í fyrra, sem var eina heila ár Halldórs Ásgrímssonar á forsætisráðherrastóli og einkenndist af pólitískum erfiðleikum hans og vandræðum, fannst mér sem að framsóknarmaður mætti vart ropa nema að það þætti það fréttnæmt að Birgir væri beðinn um að greina þá hina minnstu breytingu. Sá sem gerði Birgi öðrum fremur að þessum álitsgjafa um Framsóknarflokkinn er Björn Þorláksson, fyrrum undirmaður Birgis á Degi-Tímanum. Ég verð að viðurkenna að mér finnst alveg kostulegt að sjá Björn og Birgi skeggræða málefni Framsóknarflokksins, enda er oflofið sem Björn hefur ausið yfir Birgi áður en þeir fara að ræða þessi mál í viðtölunum að undanförnu á NFS svo mikið að það hvarflar að manni hvort að þetta sé háð. Altént verður seint sagt að kynningarnar séu hógværar.

Hápunkti fannst mér þetta ná í hádegisviðtalinu á NFS á mánudag þar sem þeir ræddu saman um Framsókn, nema hvað. Kynningin var fyrir það kostuleg, svo mikið oflof að meira að segja Birgi varð nóg um, og viðtalið mjög merkilegt líka. Þar kom það fram í upphafi að Birgir væri einn mesti sérfræðingurinn um sögu flokksins og bestur að meta um stöðu mála þar. Reyndar tók Björn það fram í kjölfarið að "sérfræðingurinn og álitsgjafinn" hefði spáð að Siv myndi vinna formannskjörið daginn fyrir flokksþingið og það með örlitlum mun. Það fór ekki alveg svo og var kostulegt að sjá Birgi svara fyrir þennan spádóm. Sagði hann að það væri jafnan á svona flokksþingum að staðan gæti almennt rokkast upp á svona eins og 10% þegar þangað væri komið. Fannst mér þetta nokkuð vegleg tala, en hún hentaði vissulega fyrir hann.

Nú ætla ég að taka fram að mér finnst Birgir Guðmundsson ekki leiðinlegur stjórnmálaáhugamaður en ég verð hinsvegar að viðurkenna að mér þykir þetta álitsgjafahlutverk hans hafa farið nokkuð úr böndunum. Oftar en ekki hafa spádómar Birgis reynst skjóta yfir markið. Gott dæmi var þegar að hann spáði eftir að Halldór hætti að nú myndi sennilega Valgerður hætta bráðlega í stjórnmálum. Nokkrum dögum síðar varð Valgerður utanríkisráðherra, fyrst kvenna. Nokkru síðar lýsti Valgerður yfir að hún ætlaði ekki í formannsframboð í flokknum og aftur kom sami spádómur Birgis. Reyndar var það skondið enda fylgdi það með yfirlýsingu Valgerðar að hún væri einmitt að ákveða að fara ekki í formannsframboð til að sinna betur kjördæmi sínu samhliða ábyrgðarmiklu ráðuneyti.

Það er gömul saga að álitsgjafar í stjórnmálum koma og fara. Ekki veit ég hvort að Framsóknarflokkurinn verði að falla fyrir ætternisstapann til að Birgir Guðmundsson hætti að vera álitinn sérfræðingur um hann. Ég veit að þeir félagar Birgir og Björn eru gamlir og góðir vinnufélagar sem hafa haft gaman að diskútera Framsóknarflokkinn einhverntímann í kaffihléum á framsóknarblaðinu hér í gamla daga en er til of mikils mælst að NFS reyni einhversstaðar að grafa upp annan "álitsgjafa og sérfræðing" um Framsóknarflokkinn svona áður en að Birgir fer að hljóma eins og samviska flokks sem hann hefur sjálfur yfirgefið?

23 ágúst 2006

...um hræðsluáróður og rökfimi

Friðrik Sophusson

Skólarnir eru byrjaðir hér á Akureyri sem og annarsstaðar, það er farið að rökkva frekar snemma á kvöldin og atvinnumótmælendurnir virðast vera farnir frá Austfjörðum, enda heyrast ekki lengur fréttir af kostulega lélegu verklagi þeirra. Það hlýtur því að fara að líða að hausti, ekki satt, lesandi góður? Ég verð að viðurkenna að ég hef fylgst nokkuð með fréttum og tali um ágreining þann sem virðist uppi núna enn eina ferðina vegna Kárahnjúkastíflu, en nú styttist óðum í framkvæmdum fyrir austan ljúki og lónið verður fyllt í næsta mánuði. Það var vel gert hjá ráðherrum og forystumönnum Sjálfstæðisflokksins að halda með Ómari Ragnarssyni austur og kynna sér stöðu mála, eflaust var það fræðandi og góð ferð. Hún breytir þó auðvitað, eins og ég sagði hér í síðustu viku, engu um þær ákvarðanir sem liggja fyrir í málinu.

Ég verð að viðurkenna að hjartað í mér tók aukaslag yfir lestri frétta í Morgunblaðinu og fréttaflutningi NFS-sjónvarpsstöðvarinnar fyrir nokkrum dögum vegna Kárahnjúkastíflu. Var þar vitnað í bandaríska konu, sem titluð var prófessor í vatnafræðum, sem kom með sannkallaðar dómsdagsspár um stífluna og sennilega hræddi með því landsmenn alla sem og þá sem hafa komið að þessari framkvæmd fyrir austan. Nú virðist hafa verið afhjúpað að þarna var á ferð enn einn mótmælandinn, sem hafa seinustu mánuði reynt að hrella Austfirðinga og þröngva sér upp á þeirra rausnarlegu og höfðinglegu gestrisni, nú reyndar voru mótmælin pökkuð inn í frekar höfðinglegar umbúðir sem voru er á hólminn kom litlu höfðinglegri en nýju fötin keisarans sem lýst var í ævintýrinu forðum með svo eftirminnilegum hætti. Að fjölmiðlar skuli gleypa svona tal hrátt!

Atli Rúnar Halldórsson fer yfir alla vitleysuna í málflutningi sínum í góðum skrifum á bloggvef sínum. Mæli með þeim skrifum. Ekki má heldur gleyma yfirlýsingu forystumanna Verkfræðingafélags Íslands, sem afvopnar að fullu málflutning hinnar bandarísku fræðikonu, sem flokkast ekki undir neitt annað en einn mótmælandanna enn sem reynir að hrella Austfirðinga, að þessu sinni með dómsdagsspám sem eiga ekki neitt skylt við fræðimennsku heldur áróður. Það er reyndar með algjörum ólíkindum hvað er reynt í því skyni að skaða þessar framkvæmdir fyrir austan og hræða fólkið sem þar býr. Þessi nýjasti málflutningur er sínu verstur, enda er þar reynt að hræða almenning fyrir austan um að algjör eyðilegging gæti orðið þar. Það er gustukaverk að það tókst að afvopna þann áróður áður en lengra var haldið.

Í kvöld mættust Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, og Guðmundur Páll Ólafsson, náttúrufræðingur og þekktur bókahöfundur um náttúrumál, í Kastljósi í spjalli undir stjórn Kristjáns Kristjánssonar. Það var fróðlegt spjall og athyglisvert að mjög mörgu leyti. Þar fannst mér Friðrik algjörlega brillera í því að tala af yfirvegun útfrá rökum um staðreyndir þessa máls alls. Þar reif hann niður gagnrýni Guðmundar Páls lið fyrir lið og algjörlega fór á kostum. Hann var gríðarlega rólegur en samt mjög ákveðinn. Það er ekki undrunarefni að Friðrik skyldi komast ungur til áhrifa í stjórnmálum, enda gríðarlega rökfastur og fimur í því að svara fyrir sig. Friðrik var þarna í toppformi og afvopnaði allt tal Guðmundar Páls með rökfimi og einbeitni sinni, sem hann var svo þekktur fyrir á stjórnmálaferli sínum.

Aumingja Guðmundur sat þarna frekar lúpulegur og nuddaði saman höndunum meðan Friðrik flysjaði tal hans niður eins og góður kokkur í eldhúsi á fimm stjörnu hóteli afhýðir hinn vænsta lauk. Friðrik er sjóaður eftir ólgusjó stjórnmálanna og átti ekki í erfiðleikum með þetta. Mér finnst reyndar gríðarleg örvænting komin í andstæðinga virkjunarinnar nú þegar að sumrinu er tekið að halla og styttist óðum í að lónið verði fyllt. Það er ekki óeðlilegt, best af öllu sést örvæntingin í því að flytja hingað inn útlendinga til að reyna að hrella og hræða landsmenn með gerviðblaðri sem ekki stenst.

Já mikil er örvænting þín maður minn, sagði frægur stjórnmálamaður eitt sinn við andstæðing sinn sem fór halloka með eftirminnilegum hætti og tapaði baráttu sinni með lélegum rökum. Mér dettur það einna helst í hug, í fullri einlægni og í sannleika sagt lesandi góður, þegar að ég hugsa til þessarar glötuðu baráttu þeirra sem reyna að hrella Austfirðinga núna, með þessum líka lélega árangri.

Uppstokkun í nefndum Framsóknar

Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, er sextugur í dag. Á sama degi og nýr formaður Framsóknarflokksins fagnar sextugsafmæli sínu er kynnt ný skipan Framsóknarflokksins í nefndakapal Alþingis Íslendinga eftir þær miklu sviptingar sem hafa átt sér stað innan flokksins seinustu mánuði. Þingflokksfundurinn var reyndar nokkuð sögulegur, einkum fyrir þær sakir að hann er sá síðasti sem Halldór Ásgrímsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, mun sitja og mun hann hafa verið kvaddur sérstaklega á fundinum. Nú á næstu dögum mun svo Halldór Ásgrímsson formlega segja af sér þingmennsku eftir rúmlega þriggja áratuga setu og Sæunn Stefánsdóttir, nýkjörinn ritari Framsóknarflokksins, sem er 27 ára gömul, taka sæti hans á þingi og verða með því 11. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður.

Það kemur fátt sérstaklega á óvart í nýjum nefndakapal Framsóknarflokksins. Helstu tíðindin hljóta væntanlega að teljast þau að Birkir Jón Jónsson, alþingismaður hér fyrir Norðausturkjördæmi, mun taka við formennsku í fjárlaganefnd af Magnúsi Stefánssyni, félagsmálaráðherra. Magnús varð formaður fjárlaganefndar eftir síðustu alþingiskosningar og hafa gárungarnir sagt að Magnús hafi orðið gráhærður af því að taka við nefndinni og elst við það um fjöldamörg ár. Skal hér ósagt um þá gamanspeki, þó fyndinn sé brandarinn. Frá því að Magnús varð ráðherra í júní hefur Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður nefndarinnar, verið starfandi formaður og vakið mikla athygli fyrir að tala hreint út um málin að vestfirðinga sið. Birkir Jón er yngsti þingmaðurinn á Alþingi og kemur þessi vegtylla hans mér ekki að óvörum.

Birkir Jón Jónsson

Birkir Jón náði kjöri á Alþingi í þingkosningunum 2003, þvert á allar spár, eftir tvísýna baráttu við Láru Stefánsdóttur, frambjóðanda Samfylkingarinnar, um þingsæti á kosninganótt. Birkir Jón var þá 24 ára og er næstyngsti maðurinn sem hefur náð kjöri á þing í stjórnmálasögu landsins, aðeins Gunnar Thoroddsen var yngri, en hann var yngri en Birkir Jón í árinu er hann var kjörinn á þing árið 1934. Birkir Jón hefur þótt styrkjast mikið af verkum sínum í stjórnmálum og vera áberandi. Sem dæmi um það má nefna að hann gaf kost á sér í kosningunum í vor fyrir flokkinn í sveitarfélagi sínu, Fjallabyggð, og náði kjöri og er t.d. formaður atvinnu- og ferðamálanefndar Fjallabyggðar. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Birkir Jón getur samræmt þá formennsku og bæjarfulltrúasetu saman við formennsku í þingnefnd og þingsetu.

Það hlýtur að hafa verið verulegt áfall fyrir Birki Jón að þurfa að hætta við framboð sitt til ritaraembættis Framsóknarflokksins og láta af pólitískum metnaði sínum í þá áttina til að tryggja að kona hlyti embættið á flokksþinginu. Væntanlega má líta á formennsku fjárlaganefndar sem nokkra sárabót fyrir hann að hætta við ritaraframboðið, en öllum var ljóst að hann fór í það af alvöru og ætlaði sér sigur. Það heyrast margar sögur af framboðsmálum Framsóknarflokksins hér í kjördæminu. Sumar segja að Dagný Jónsdóttir ætli að hætta, aðrir að hún haldi áfram, sagt er að Birkir Jón vilji annað sætið og pískrað um að Jakob Björnsson ætli fram. Framsóknarmenn fá varla meira en tvö sæti hér næst í stað sinna fjögurra nú, enda blasir við þeim afhroð hér í öllum könnunum. Það verður án vafa harður slagur um efstu sæti þeirra hér.

Forysta Framsóknarflokks

Það er ekki hægt annað að segja en að verulegar breytingar hafi orðið í Framsóknarflokknum síðustu mánuði. Halldór Ásgrímsson og Árni Magnússon eru hættir í stjórnmálum, Jón Kristjánsson er hættur sem ráðherra og í þeirra stað komin í stjórn (auk flokksformannsins Jóns Sigurðssonar) þau Jónína Bjartmarz og Magnús Stefánsson. Það er t.d. mjög merkilegt að nú allt í einu eru báðir varaþingmenn Framsóknarflokksins í Reykjavík norður komnir á þing, þau Guðjón Ólafur Jónsson og Sæunn Stefánsdóttir. Það hljómar t.d. nokkuð kostulegt að Guðjón Ólafur sé orðinn leiðtogi flokksins í kjördæminu, en hafi fram til marsmánaðar verið varaþingmaður tveggja þingmanna. Merkileg tíðindi auk þessa telst væntanlega það að Jón Kristjánsson mun klára kjörtímabilið sem óbreyttur þingmaður.

Guðjón Ólafur Jónsson er nú eini leiðtogi Framsóknarflokksins í kjördæmi sem ekki er ráðherra. Hann verður formaður heilbrigðisnefndar Alþingis í stað Jónínu Bjartmarz og verður auk þess varaformaður allsherjarnefndar. Hjálmar Árnason verður formaður iðnaðarnefndar. Dagný Jónsdóttir verður áfram formaður félagsmálanefndar, en hún tók við formennskunni þegar að Siv Friðleifsdóttir varð heilbrigðisráðherra. Sæunn Stefánsdóttir mun verða varaformaður efnahags og viðskiptanefndar. Jón Kristjánsson, fyrrum heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, verður varaformaður utanríkismálanefndar og ennfremur 2. varaforseti Alþingis í stað Jónínu Bjartmarz og Kristinn H. Gunnarsson tekur við varaformennsku í landbúnaðarnefnd og er auk þess varaformaður í sjávarútvegs- og umhverfisnefnd.

Kristinn H.

Mesta athygli í hrókeringunum vekur að Kristinn H. Gunnarsson fær enga nefndarformennsku þrátt fyrir að hafa verið formaður þingnefndar áður og hafa svo auðvitað mun lengri þingsetu að baki innan flokksins en t.d. Guðjón Ólafur Jónsson, svo dæmi sé tekið. Reyndar er auðvitað Guðjón orðinn leiðtogi flokksins í borginni. Kristinn var rekinn úr öllum þingnefndum haustið 2004, t.d. missti hann þá formennsku í iðnaðarnefnd þingsins. Síðar var hann tekinn í sátt og fékk að fara í tvær nefndir. Lítur hann á niðurstöðu mála sem svik við sig ef marka má fréttir RÚV í dag.

Þegar að Jón Sigurðsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins var sáttahljóð í honum og greinilegt að hann vildi lægja öldur innan flokksins. Sumir töldu eftir það að með því yrði Kristinn H. tekinn að fullu aftur í sátt. Svo er ekki og sennilega eimir þar eftir af því þegar að þeir voru í Byggðastofnun. Það má allavega búast við því að Kristinn H. verði við sama heygarðshornið í vetur og mun leika sóló eins og hann er þekktastur fyrir. Kannski er sáttatónninn í flokknum ekki kominn á það stig að hann teljist varanlegur ef marka má þetta allt.

22 ágúst 2006

Ein með öllu

Ólafur Ragnar hesthúsar í sig pylsu

Þeir eru fáir Íslendingarnir sem unna ekki pylsu, sem er að flestra mati besti skyndibitinn og passar ávallt vel við. Flestir Íslendingar eiga sér sína útgáfu af því hvernig pylsan skal vera. Ég vil alltaf pylsu með öllu og nýt þess t.d. að fá mér þennan skyndibita, sem er klassískur. Ég held að það sé ekki á neinn stað hallað þó að ég fullyrði að bestu pylsurnar hérlendis séu í pylsuvagninum Bæjarins bestu í Tryggvagötu í Reykjavík. Oftast þegar að ég fer suður held ég þangað til að fá mér pylsu, enda eru þær alveg sérlega góðar þar. Oftar en ekki er þar löng biðröð, enda vinsæll "matsölustaður".

Nú hefur frægð þessa litla pylsuvagns borist víða. Frægt var fyrir nákvæmlega tveim árum þegar að Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, fékk sér eina með sinnepi, svonefnda pjúristapylsu. Fjölmiðlar gerðu heimsókninni skil og SS pylsur auglýstu lengi vel á eftir þessa frægu heimsókn, og Mæja pylsuafgreiðslukona í Bæjarins besta varð landsfræg enda afgreiddi hún forsetann fyrrverandi. Reyndar vildi svo kaldhæðnislega til að Clinton greyið fékk kransæðakast nokkrum vikum síðar en okkur sem dýrkum SS pylsur dettum ekki í hug að samhengi sé þar á milli.

SS-pylsa

Nú berast þær fréttir að pylsuvagninn hafi orðið í öðru sæti í úttekt breska dagblaðsins The Guardian yfir bestu matsöluturna í Evrópu, hvorki meira né minna. Í ferðablaði sem fylgdi The Guardian á laugardaginn var enda listi yfir fimm bestu matsöluturnana og mæla dómararnir með einni með öllu og eru hrifnastir af remúlaðinu. Í fyrsta sæti var skoskur hafragrautsstandur sem ferðast um markaði og viðburði í Skotlandi og selur hafragraut með margskonar meðlæti. Þriðja sætið hreppti lúga á bakaríi í Aþenu sem selur brauðsnúða (Koulouri) með sesamfræjum.

Í fjórða sætinu var pönnukökusala á blómamarkaði í miðbæ Nice í Suður-Frakklandi þar sem hægt er að fá þunnar og dásamlegar pönnukökur. Í fimmta sætinu varð svo Ortakoy söluturnarnir í Istanbúl í Tyrklandi sem bjóða upp á samlokur með steiktum skelfiski og þá er að finna víða um borg. Skemmtilega ólík matarsala þarna á ferð. En hitt veit ég að þegar að ég fer suður til Reykjavíkur í næstu viku lít ég til Mæju pylsusala og fæ mér eina með öllu. Ég veit ekki hvað er gert við pylsuna eða sósurnar í pylsunum þarna en hitt veit ég að þær eru betri þarna en á flestum stöðum.

Ætla ekki að reyna að komast að því hvað er öðruvísi þarna en annarsstaðar en svo sannarlega á Bæjarins bestu athyglina skilið og það er svo sannarlega öllum ljóst að þeir sem þarna fara til að borða fara sælir þaðan.

Uppstokkun framundan á Morgunblaðinu

Mogginn

Samkvæmt fréttum nú undir kvöld verður veruleg uppstokkun á útliti og efnistökum Morgunblaðsins frá og með næsta föstudegi, 25. ágúst nk. Stefnt er að því að hætta tímaritaútgáfu blaðsins að efni tímaritanna verði að öllu leyti fellt inn í blaðið sem verði með því efnismeira og viðameira. Búast má því við útlitsbreytingum og að önnur efnistök verði meira ráðandi, með þessu ætti Morgunblaðið að færast inn í aðra tíma og jafnvel taka á sig annan brag. Jafnframt þessu verður Einar Sigurðsson, fyrrum framkvæmdastjóri Flugleiða, ráðinn framkvæmdastjóri Árvakurs í stað Hallgríms Geirssonar, sem verið hefur framkvæmdastjóri þar um árabil, en hann óskaði eftir starfslokum fyrir nokkrum mánuðum.

Segja má að þær breytingar sem framundan eru séu þær viðamestu í 93 ára sögu þessa merka dagblaðs. Þáttaskil urðu á Morgunblaðinu í upphafi ársins 2003 þegar að blaðið hóf mánudagsútgáfu eftir 84 ára hlé. Þáttaskil urðu í íslenskum fjölmiðlaheimi með þessari útgáfu enda kom þá blaðið út alla daga vikunnar, sem var nýmæli fram að því. Morgunblaðið hefur í þá tæpu öld sem það hefur komið út verið táknmynd íhaldseminnar. Það hefur löngum verið íhaldsamt, bæði þegar kemur að útgáfumálum og útliti sem lítið hefur breyst í áranna rás. Nokkrum vikum fyrir upphaf mánudagsútgáfunnar var sú róttæka breyting á blaðinu að forsíða þess varð blönduð af erlendum og innlendum fréttum.

Í rúmlega þrjá áratugi voru einungis erlendar fréttir á forsíðu Morgunblaðsins og því orðið tímabært að stokka þetta upp, enda var þessu áður breytt í öðrum fjölmiðlaheimi en við blasti í upphafi 21. aldarinnar. Mikið hafði breyst. Breytingar á fjölmiðlum halda sífellt áfram. Morgunblaðið er útbreiddasti prentmiðill landsins sem stendur undir sér með áskrift og hefur alla tíð notið mikilla vinsælda og virðingar almennings.

Morgunblaðið er í mínum huga frábært blað og þarfur vettvangur sem ég vildi ekki vera án. Með þessari ákvörðun mun blaðið styrkjast enn meira en nú er, að mínu mati. Í mínum huga er fréttamennska Morgunblaðsins fyrsta flokks og traust í alla staði, eins og kannanir hafa sýnt. Morgunblaðið er allavega blað sem ég get ekki án verið.

21 ágúst 2006

Ný söguleg hlið á farsælu samstarfi

Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson

Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, lauk stjórnmálaferli sínum á föstudag með því að minnast sérstaklega á það að myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 1995 hefði verið merkasta verk sitt í stjórnmálum. Það kom mér í sjálfu sér ekki á óvart, enda blasir við öllum að um er að ræða mjög farsælt og gott stjórnarsamstarf. Flestir þekkja sögu þess. Það hefur nú staðið samfellt í 11 ár og er það öðru fremur til marks um hversu farsællega flokkarnir hafa starfað saman að þjóðarheill og leitt farsæl mál til lykta með samstöðu og kraft að leiðarljósi. Í Íslandssögunni hefur aðeins viðreisnarstjórnin svokallaða, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, setið lengur. Hún sat í 12 ár, á tímabilinu 1959-1971. Það er því ljóst að starfi stjórnin til loka kjörtímabilsins næsta vor muni hún slá met viðreisnar.

Lengi vel hefur það verið mat sagnfræðinga og stjórnmálaáhugamanna að stjórnin hafi verið mynduð sem fyrsti kostur eftir að slitnaði upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem sat við völd á árunum 1991-1995, eftir kosningarnar 1995 og því aldrei reynt á möguleika á vinstristjórnarmynstri. Í kveðjuræðu Halldórs á föstudag kom það fram í fyrsta skipti, með afgerandi hætti, að Framsóknarflokkurinn hefði eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir, en ríkisstjórnin hélt velli, boðist til að mynda vinstristjórn undir sínu forsæti með Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi. Það hefði Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins, ekki ljáð máls á og valið Sjálfstæðisflokkinn sem sinn fyrsta kost rétt eins og eftir kosningarnar 1991. Með öðrum orðum: rætt var um vinstristjórn og Framsóknarflokkurinn stóð fyrir viðræðum um þann möguleika.

Allir vita hvað tók við: Jón Baldvin fór í viðræður við Davíð Oddsson, þáverandi formann Sjálfstæðisflokksins, um að halda samstarfinu áfram. Davíð mat það svo ekki starfhæft samstarf enda höfðu flokkarnir naumasta mögulega meirihluta, 32 þingsæti. Eins og hlutirnir höfðu spilast innan Alþýðuflokksins kjörtímabilið á undan var það rétt mat, en flokkurinn logaði eins og Róm stafnanna milli á þeim tíma. Við tóku viðræður sjálfstæðismanna við framsókn og náðust samningar fljótt og vel. Aldrei eftir það reyndi á vinstristjórnarsamstarf en þegar þarna var komið sögu var auðvitað Jón Baldvin flúinn á vit Halldórs sem vildi ekki við hann tala frekar en Ólaf Ragnar, síðar forseta lýðveldisins. Niðurstaðan varð þessi. Lengi vel var hin einfalda söguskýring að þessi tvö mynstur (D+A og D+B) hefðu verið á borðinu en nú vita menn að rætt var um vinstrisamstarf.

Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson

Það hefði verið fróðlegt hvernig íslensk stjórnmálasaga undir lok 20. aldarinnar og byrjun þeirrar 21. hefði orðið ef mynduð hefði verið vinstristjórn. Aldrei hefði Kárahnjúkavirkjun verið sett á teikniborðið, aldrei hefði verið einkavætt og frjálsræðið víða orðið mun minna. Flest af okkur sem viljum frjálsræði og farsælt þjóðfélag hefðum ekki viljað slíka pólitíska sögu og það er því í senn gleðiefni og farsælt að svona hafi farið og þessi stjórn hafi verið mynduð. Hún hefur verið farsæl. 11 ár samstarfs flokkanna hefur verið mjög öflugt tímabil. Það er t.d. enginn vafi á því í mínum huga að þegar saga ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Davíðs og Halldórs verður gerð upp í sögubókum framtíðarinnar mun þeirra verða minnst fyrst og fremst fyrir glæsilegan árangur á vettvangi efnahagsmála.

Í tíð ríkisstjórna þessara tveggja flokka, á þessu tímabili, unnu þeir að því að tryggja glæsilegan grundvöll að margvíslegum framfaramálum á flestum sviðum þjóðlífsins. Styrk staða ríkisfjármála á þessu tímabili hefur leitt í senn til hagsældar einstaklinga og fjölskyldna og styrkt stoðir atvinnulífsins okkar. Margt hefur áunnist og breytingar á þjóðfélaginu verið miklar á þessum tíma. Þessar breytingar hafa leitt til aukins frelsis handa viðskiptalífinu og almenningi, hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Tekist hefur að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugu atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum.

Tekist hefur að byggja upp traust og farsælt samfélag undir traustri forystu þessara tveggja flokka. Uppstokkun á fjármálamarkaði og innleiðing frjálsra fjármagnshreyfinga sköpuðu nauðsynlegar forsendur fyrir einkavæðingu banka- og fjármálakerfisins. Þessar breytingar, ásamt aðild að EES hafa verið veigamikill hluti þess að tekist hefur auka hagvöxt umfram það sem þekkist í nágrannaríkjum okkar. Til fjölda ára höfðu íslensk stjórnvöld leitað eftir samstarfi við erlend fyrirtæki um uppbyggingu orkufreks iðnaðar hérlendis. Nú er staðan sú að erlend stórfyrirtæki í iðngeiranum bíða í röðum hreinlega eftir því að setja hér upp verksmiðjur sínar, sem telst ekkert annað en mikið gleðiefni. Nú þegar stendur fyrir dyrum uppbygging iðnaðar á Austurlandi, sem mun styrkja austfirskar byggðir til muna.

Þorgerður og Geir
Þorgerður og Geir

Þetta samstarf byggðist mjög lengi upp á farsælu samstarfi Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar í forystusveit. Nú hafa þeir báðir hætt þátttöku í stjórnmálum. Í stað þeirra leiða nú Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, samstarfið. Ég tel að kjör Jóns hafi styrkt þetta stjórnarsamstarf og tel mjög vænlegt að hugsa til þess að það muni halda áfram að loknum næstu kosningum. Það verður fróðlegt að sjá hvort að samstarf flokkanna muni halda áfram muni stjórnarsamstarf flokkanna halda velli í þingkosningum næsta vor, en það er ekki útilokað sé miðað við skoðanakannanir sem sýna að staða stjórnarinnar hafi styrkst seinustu mánuði að nýju.

Átök um forystu Samfylkingarinnar í NA

Kristján MöllerEinar Már Sigurðarson

Það er greinilegt að það er komið líf í framboðsmál Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Þegar virðist nokkuð ljóst að þingmenn flokksins í kjördæminu, þeir Kristján L. Möller og Einar Már Sigurðarson, hefðu áhuga á að halda sínum sess á framboðslistanum fyrir komandi kosningar og liggur t.d. algjörlega fyrir að Kristján vill halda leiðtogastól sínum. Fyrirfram þótti mér líklegt að einhverjir hefðu áhuga á að leggja í hann, en hann vann stólinn nokkuð auðveldlega í prófkjöri flokksins í október 2002 eftir að Svanfríður Jónasdóttir, þáv. alþingismaður og síðar bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, ákvað að hætta þingmennsku og sinna öðrum verkefnum. Einar Már keppti reyndar við Kristján um að leiða listann en Kristján naut yfirburðarstuðnings og þurfti lítið fyrir sigrinum að hafa í raun.

Síðustu mánuði hefur mikið verið rætt hvað Lára Stefánsdóttir, varaþingmaður flokksins í kjördæminu, hyggðist fyrir. Lengi vel taldi ég að hún myndi jafnvel vilja fara alla leið og mynda leggja í Möllerinn af fullum þunga, berjast fyrir því að Akureyringur leiddi lista Samfylkingarinnar. Lára þykir hafa margt til brunns að bera og kom t.d. inn með nokkrum krafti (og óvænt) í prófkjörinu fyrrnefnda og náði fjórða sætinu og varð á eftir Örlygi Hnefli Jónssyni. Svo þegar að því kom að leggja listann fram á kjördæmisþingi var ákveðið af uppstillingarnefnd að hækka Láru upp á kostnað Þingeyingsins Örlygs Hnefils við litla gleði stuðningsmanna hans. Svo fór því að Lára varð þriðja og munaði litlu er á hólminn kom að hún næði kjöri á þing. Lengi vel kosninganætur í maí 2003 var Lára inni en undir lokin felldi Birkir Jón hana út.

Lára Stefánsdóttir

Fyrir nokkrum dögum tilkynnti Lára um þá ákvörðun sína að gefa kost á sér í annað sæti framboðslista flokksins í komandi kosningum, en ekki leggja í leiðtogaframboð. Það stefnir því flest í að hún og Norðfirðingurinn Einar Már berjist um annað sætið. Reyndar má fullyrða að austfirskir samfylkingarmenn séu vart sáttir við að láta eftir þingsæti sitt, enda verður að teljast óraunhæft að Samfylkingin fái þrjá þingmenn hér næst ef marka má sorgarsögu þeirra í skoðanakönnunum eftir að Ingibjörg Sólrún var kjörin formaður flokksins fyrir rúmu ári. Þar hefur lítið sem ekkert gengið um verulega langt skeið og eiginlega með ólíkindum að ekki hafi verið meira rætt um sorgarsögu Ingibjargar Sólrúnar en mikið mætti analísa sjálfsagt um mikið fall pólitísks ferils hennar. Pressan á flokksforystuna eykst væntanlega núna þegar að Framsókn hefur klárað sín mál.

Mikið er rætt um Smára Geirsson, sem til fjölda ára var aðalmaðurinn í sveitarstjórnarpólitíkinni í Norðfirði og Fjarðabyggð, en hann er nú ekki lengur leiðtogi Fjarðalistans. Reyndar hefur Fjarðalistinn reynt að fjarlægja sig eins mikið Samfylkingunni og þeir geta. Margoft í kosningabaráttunni í Fjarðabyggð í vor strikaði leiðtogi (og ekki síður frambjóðendurnir allir) Fjarðalistans yfir tengsl við flokka og reyndi með því að tryggja Smára kosningu, en hann var í fjórða sæti og hafðist með herkjum inn. Spurning er hvort Smári sjálfur vilji fara á þing og fari í prófkjör Samfylkingarinnar. Þegar stefnir allavega í slag milli Láru og Einars Más um annað sætið að öllu óbreyttu. Væntanlega mun Lára benda á ágæta stöðu flokksins á Akureyri og benda á mikilvægi þess að Samfylkingin á Akureyri eigi sér fulltrúa í forystusveit.

Benedikt Sigurðarson

En það horfa fleiri Akureyringar til framboðs fyrir Samfylkinguna. Það vakti athygli mína að heyra af því í gær að Benedikt Sigurðarson, fyrrum stjórnarformaður KEA og skólastjóri í Brekkuskóla, sem var mikið í fréttum á síðasta ári vegna starfsloka Andra Teitssonar, þáv. kaupfélagsstjóra, vegna deilna um fæðingarorlof, hafi áhuga á fyrsta sæti flokksins í kjördæminu. Sagði hann í fréttum RÚVAK að skorað hefði verið á sig og hann að hugleiða málin. Benedikt fer væntanlega því í þingframboð fyrst svona yfirlýsingar eru gefnar. Benedikt er mágur Sigríðar Stefánsdóttur, fyrrum bæjarfulltrúa á Akureyri og formannsframbjóðanda í Alþýðubandalaginu árið 1987 sem tapaði nokkuð stórt fyrir Ólafi Ragnari Grímssyni, síðar forseta Íslands, en Sigríður er nú deildarstjóri hjá Akureyrarbæ. Telur Benedikt þingframboð vænlegt nú, enda ekki lengur stjórnarformaður KEA.

Það má búast við hörðum slag hjá Samfylkingunni og væntanlega hafi fleiri en þessi hug á að fara fram í prófkjöri Samfylkingarinnar sem verður væntanlega fyrir jól, sennilega á svipuðum tíma og prófkjör Samfylkingarinnar hér á Akureyri var haldið í fyrra, en mig minnir að það hafi verið í nóvemberbyrjun. Væntanlega er Samfylkingin bara að spila um tvö þingsæti, sé staða mála flokksins á landsvísu metin sem heild, svo að væntanlega verður baráttan hörð og sýnt að sótt verður að þingmönnunum tveim úr nokkuð mörgum áttum og þegar t.d. ljóst að tekist verður á um leiðtogasætið.

20 ágúst 2006

Er Hillary farin að horfa til ársins 2008?

Hillary Rodham Clinton

Um fátt er meira rætt í Bandaríkjunum þessa dagana en að Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmaður og fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, ætli í forsetaframboð á árinu 2008. Nýleg skoðanakönnun meðal demókrata gefur sterklega til kynna að gefi þessi miðaldra kona með lögheimili í borg háhýsanna, New York, formlega kost á sér sé útnefning flokksins næstum gulltryggð fyrir hana. Þó svo að enn séu rúm tvö ár til næstu forsetakosninga í Bandaríkjunum eru fréttamiðlar vestanhafs þegar farnir að spá í þeim kosningum. Ekki síst er þar talað um hverjir séu möguleg forsetaefni af hálfu repúblikana og demókrata. Enginn vafi leikur á að kapphlaupið innan beggja flokka séu nær galopin og allt geti þar svosem gerst. Við blasir þó að Hillary er talin svo sterk fyrirfram að fari hún fram fái hún útnefninguna nærri á silfurfati.

Næstu forsetakosningar verða reyndar mjög sögulegar, hvernig sem þær munu fara, enda er ljóst nú þegar að þær verða hinar fyrstu frá árinu 1952 þar sem hvorki forseti eða varaforseti Bandaríkjanna verða í kjöri. George Walker Bush forseti, situr sitt seinna kjörtímabil og má skv. lögum ekki bjóða sig fram aftur og mun því halda heim til Texas er hann lætur af embætti þann 20. janúar 2009. Dick Cheney varaforseti, hefur lýst því yfir að hann hafi engan áhuga á forsetaframboði og ætli að sinna sínum verkefnum út kjörtímabilið og njóta að því loknu lífsins með konu sinni og fjölskyldu, fjarri Washington, eins og hann hefur orðað það sjálfur. Innan Repúblikanaflokksins má segja að umræðan um frambjóðanda flokksins árið 2008 hafi vaknað um leið og fyrir lá að Bush hefði náð endurkjöri, og vald forsetans með því þegar tekið að þverra.

Völd og áhrif Bush forseta ráðast reyndar nú umfram allt á því hvernig þingkosningarnar fara í nóvember. Missi repúblikanar völdin í annarri eða báðum deildum Bandaríkjaþings mun hann verða nær vængstýfður heima fyrir það sem eftir lifir forsetaferilsins. Þó að repúblikanar haldi völdum má búast við að hann lendi í vandræðum, enda er það almennt svo með forseta sem er að ljúka seinna tímabilinu að þeir eru veikir, enda ljóst að hvorki þurfa þeir að fara aftur í kosningar né heldur þurfa þingmennirnir á forsetanum að halda og hópast að baki þeim sem fara fram í næsta forsetakjöri. Nákvæmlega þetta gerðist með Bill Clinton, sem reyndar hafði þingið á móti sér meginhluta síns forsetaferils. Bush forseti mun altént leggja allt í sölurnar að halda þinginu sín megin og koma í veg fyrir að Íraksstríðið skaði flokkinn.

Við blasir að margir séu farnir að undirbúa framboð innan Repúblikanaflokksins. Nægir þar að nefna George Pataki, ríkisstjóra New York, Rudolph Giuliani, fyrrum borgarstjóra í New York og öldungadeildarþingmennina Bill Frist og John McCain. Margir fleiri eru nefndir. Enginn skortur verður á repúblikönum í kosningaslaginn þegar að Bush og Cheney hætta. Búast má við að allsherjar uppstokkun verði á Repúblikanaflokknum í aðdraganda forsetakosninganna 2008. Eins og fyrr segir getur Bush ekki farið fram aftur og því líklegt að frambjóðandi með aðrar áherslur en forsetinn leiði flokkinn og í raun muni flokkurinn stokka sig og því verði í reynd ekki kosið um valdatíma forsetans. Það er reyndar greinilegt að repúblikanar reyna að fjarlægja sig forsetanum nokkuð en passa sig þó á að styggja hann ekki og nota því mikla reynslu hans.

Hillary Rodham Clinton og Bill Clinton

En aftur að Hillary og demókrötum. Það er ekkert hernaðarleyndarmál að Hillary Rodham Clinton harmaði ekki ósigur John Kerry í síðustu forsetakosningum. Aðeins eru fimm og hálft ár síðan hún flutti úr Hvíta húsinu, en hún hafði fylgt eiginmanni sínum, Bill Clinton 42. forseta Bandaríkjanna, í gegnum þykkt og þunnt á átta ára forsetaferli hans. Meðan að hneykslismálin geisuðu vegna Monicu Lewinsky sat hún á sér, vitandi það að færi hún frá forsetanum myndi það skaða hana ekki síður en hann. Hillary var kjörin öldungadeildarþingmaður í New York í kosningunum árið 2000 og var bæði forsetafrú og þingmaður í öldungadeildinni í 17 daga í ársbyrjun 2001. Það þótti mikil pólitísk dirfska fyrir hana að leggja í framboð árið 2000 og hún leggja mikið undir. En hún tefldi rétt og henni tókst að byggja upp eigin feril er ferli makans lauk.

Hillary Rodham Clinton er að flestra mati manneskjan á bakvið sigur eiginmanns síns í forsetakjörinu 1992 - hefur aukinheldur lengi verið útsjónarsamur stjórnmálaplottari með mikla yfirsýn yfir pólitískt landslag og stöðumat hinnar réttu strategíu. Hún hefur allt frá lokum forsetatíðar eiginmannsins markað sér sinn eigin stjórnmálaferil og gert það mjög vel. Hún hefur um nokkurn tíma haft verulegan áhuga á forsetaembættinu, en veit að það gæti orðið erfitt fyrir hana að leggja í slaginn, enda í húfi bæði pólitísk arfleifð eiginmanns hennar og hennar einnig. Framboð gæti reynst rétt en einnig verið alvarleg mistök fyrir þau bæði. Það hlýtur að kitla hana að verða fyrsta konan á forsetastóli í Bandaríkjunum og aukinheldur fyrsta forsetafrú landsins sem hlýtur embættið. Greinilegt er að maður hennar vill að hún fari fram og leggji í slaginn.

Skorað var á Hillary að gefa kost á sér þegar árið 2004. Þá fór hún ekki fram, vitandi að framboð þá hefði að öllum líkindum skaðað hana verulega. Hún lofaði enda New York-búum að vinna fyrir þá í sex ár samfellt í öldungadeildinni ef þeir treystu sér fyrir þingsæti hins vinsæla Daniel Patrick Moynihan á sínum tíma. Hún vann og það með yfirburðum, hún heillaði New York-búa þrátt fyrir að hafa haft lögheimili þar aðeins í innan við ár er hún náði kjöri. Ein skemmtilegasta pólitíska auglýsing seinni tíma var reyndar í kosningunum 2000 í NY, af hálfu Rick Lazio, keppinautar hennar. Þar var mynd af Hillary skælbrosandi og svo barni í vöggu. Fyrir neðan kom hinn kaldhæðnislegi texti: "This baby has lived longer in New York than Hillary Clinton". Alveg mergjuð auglýsing en kom þó engan veginn í veg fyrir öruggan sigur Hillary í NY.

Enginn vafi leikur á því að Hillary verður endurkjörinn öldungadeildarþingmaður í New York. Hennar bíður lítil keppni í kosningunum og hún hlýtur þegar að vera farin að hugsa handan janúarmánaðar þegar að næsta kjörtímabil öldungadeildarinnar hefst formlega. Reyndar má búast við því að bráðlega eftir svokallaðar MidTerm election í nóvember hefjist keppnin um Hvíta húsið. Það er ekki svo rosalega langt til forsetakosninga og venjulega hefst undirbúningur og keppni bakvið tjöldin þegar að þingdeildirnar koma saman í janúar eftir miðtímabilskosningarnar. Það er alveg ljóst að ljón gætu orðið á veginum fyrir Hillary. Hún á sér andstæðinga bæði innan flokks og utan og víst er að mörgum stendur stuggur af því í flokkskjarnanum muni Clinton-hjónin aftur taka yfir flokkinn, rétt eins og í forsetatíð Bill Clinton.

Hillary Rodham Clinton

Þegar litið er til mögulegra andstæðinga Hillary, fari hún fram, er oftast litið á þá sem eru augljósastir í stöðunni, þeirra sem hafa reynslu af því harki sem fylgir forsetaframboði í Bandaríkjunum. Þær raddir verða sífellt háværari að Al Gore, fyrrum varaforseti, sem beið ósigur fyrir George W. Bush í hinum æsispennandi og jafnframt sögulegu forsetakosningum árið 2000, sé að íhuga framboð. Svo má auðvitað ekki gleyma John Edwards, sem var varaforsetaefni Kerrys í kosningabaráttunni á síðasta ári. Enn heyrast kjaftasögur um að John Kerry hefði jafnvel áhuga á framboði aftur, en víst má telja að margir telji ólíklegt að Kerry takist að vinna árið 2008 fyrst honum mistókst það árið 2004 þó að hann reyndi að hamra á Íraksstríðinu og stöðu mála þar. Þeir einir gætu veitt Hillary einhverja keppni um hnossið mikla. Aðrir verða varla bógar í það.

Það vita reyndar allir sem þekkja pólitíska loftið vestanhafs að stjörnur Demókrataflokksins eru Clinton-hjónin. Á flokksþinginu í júlí 2004, þar sem Kerry var útnefndur til verka sem frambjóðandi flokksins gegn Bush í heimaborginni Boston, voru þau aðalleikarar - stálu sviðsljósinu með stæl. Kannanir sýna enda að hún gæti neglt útnefninguna nokkuð auðveldlega leggi hún í slaginn. En það eru áhættur á veginum, sérstaklega fyrir fyrrum forseta Bandaríkjanna, sem gæti skaðast tapi Hillary fyrir repúblikana. Þó er enginn vafi að framboð kitlar Hillary. Hún hefur allavega stjörnuljómann sem tveim fyrri frambjóðendum flokksins hefur skort svo áþreifanlega.

Og stjörnuljóminn einn gæti alveg borið þessa miðaldra konu í borg háhýsanna alla leið í Pennsylvaniu-götu í Washington eftir nokkur ár - hver veit annars. Ljóst er allavega að æsispennandi tímar eru framundan í bandarískri pólitík.

Hver er Jón Sigurðsson?

Jón Sigurðsson

Það er greinilegt eftir flokksþing framsóknarmanna að rykið hefur sest í öllum stympingunum í flokksforystunni þar seinustu árin, ólgan milli forystu flokksins og grasrótarinnar er ekki eins hörð og áður. Það hefur verið kosið milli manna og eftir stendur flokkur sem getur skartað forystu þar sem eru ólíkar áherslur og fylkingar með sinn fulltrúa. Allir geta farið tiltölulega sáttir heim, þó sumir hafi orðið að skúffa eigin framavonum um sinn. Reyndar verður væntanlega staldrað við það að tveir karlmenn eru í æðstu sveit embætta, en eftir stendur að þessi blanda getur sætt ólík sjónarmið. Þó að Siv Friðleifsdóttir, öflug forystukona innan Framsóknarflokksins, hafi lotið í gras í formannskjöri leikur enginn vafi á því að hún stendur sterkar eftir en fyrir. Hún tók rétta áhættu, góð útkoma hennar í formannskjörinu tryggir henni auðvelda leið í æðstu sveit flokksins að vori.

Stóra spurningin eftir flokksþingið snýst um þann mann sem aðeins á tíu vikum hefur tekist að leggja flokkinn að fótum sér, komast þar til forystu, bjóða sjálfan sig fram sem kost sáttar og samstöðu og stendur eftir sem flokksleiðtogi í elsta stjórnmálaflokki landsins. Hver er Jón Sigurðsson? Þetta er spurning sem flestir stjórnmálaáhugamenn spá mikið í núna og satt best að segja vita ekki til fulls hvernig skal svara. Eftir stendur sextugur flokkshollur maður, sem ávallt hefur fórnað sér fyrir flokkinn í verkefni og ábyrgðarfullt innra starf á bakvið tjöldin, í fylkingarbrjósti og er orðinn flokksformaður eftir Halldór Ásgrímsson, sem hafði á sér ímynd klettsins í hafinu lengst af en var undir lokin orðinn akkilesarhæll flokks sem virðist fara sífellt minnkandi í pólitísku litrófi. Stóra spurningin er hvert mun Jón Sigurðsson fara með þennan flokk og hvernig mun hann installera sína forystu.

Ég verð að viðurkenna að ég varð að hugsa mig um allnokkra stund í júníbyrjun þegar að ég heyrði skoðanir manns sem ég þekki vel og met mikils í minni fjölskyldu, sem hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn hér á Akureyri, er hann sagði að Jón Sigurðsson væri sennilega kandidatinn sem Halldór horfði til að redda málunum, þegar að allt var farið fjandans til í flokkskjarnanum, svo maður tali hreina og beina íslensku. Skyndilega mundi ég eftir Jóni Sigurðssyni, seðlabankastjóra, sem hafði í formannstíð Steingríms og Halldórs verið kallaður til, ævinlega til skítverka sem þurfti að leggja í að laga - hann var alltaf í að redda málunum. Ég mundi þá aðeins eftir Jóni sem grandvörum en athugulum bankastjóra en fór í það verkefni að tína upp brot um manninn. Ég sá að þarna var kominn maður flokkshollustu, maður sem hugsaði sem svo, hvað get ég gert fyrir flokkinn minn? Hann væri æðri sér.

Þegar að ég fór að hugsa til Jóns Sigurðssonar í sumarbyrjun hugsaði ég nokkur ár aftur í tímann. Það var til þáttaraðar Viðars Víkingssonar um Samband íslenskra samvinnufélaga, helstu valda- og kjarnastofnun Framsóknarflokksins í áratugi. Í þessum þætti, sem bar á sér allt bragð minningargreinar um stórveldið sem féll og endaði sem hver annar munaðarleysingi sem allir vildu þvo sig af, birtist Jón Sigurðsson, samvinnumaðurinn sem þekkti sögu SÍS. Í morgun tók ég mig til og spólaði mig inn í þáttinn, enda á ég þá eins og margt annað gott sjónvarpsefni. Þar sem ég horfði á þættina birtist mér maður sem var miðpunkturinn á gullaldartíma þessa kerfis, var partur af því og samherji allra þeirra sem héldu um málin innan SÍS. Hann var vinur Vals Arnþórssonar (manns sem var samviska SÍS alla sína starfsævi, reddaði málum) og félaga hans. Jón virkaði þarna á mig sem samviska þessa tíma.

Jón Sigurðsson

Skyndilega áttaði ég mig á því að Jón er hluti þessarar gömlu fortíðar. Síðar bjargaði hann peningahítinni í kringum tímaritaútgáfu Tímans (sem var að draga flokkinn til glötunar fjármálalega) og bjargaði Byggðastofnun úr skítahaugnum sem stóð eftir formannstíð Kristins H. Gunnarssonar þar inni. Þar kom hann vinkonu sinni og Halldórs, henni Völlu frá Lómatjörn, til bjargar. Þar var hann reddarinn. Það er því svosem varla stórt undrunarefni þó að margir eldri flokksmenn sem voru staddir á Hótel Loftleiðum hafi hugsað sem svo: "Æi hann Jón á nú þetta inni hjá okkur - hann hefur alltaf reddað okkur og býður okkur að rífa okkur nú enn eina ferðina upp úr skítnum". Ég held að margir flokksmenn gömlu hugsunar og samvisku flokksins hafi einmitt hugsað svona. Svo við tölum mannamál að þá er meginþorri þeirra sem mæta á fundi svona flokksmaskínu Framsóknar einmitt partur af þessari fortíð líka.

En nú er Jón orðinn formaður flokksins, hann er ekki aðeins flokksformaður smáflokks sem sumir vilja kalla sem svo til að niðurlægja þá, hann er skyndilega orðinn einn valdamesti stjórnmálamaður landsins. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr er Jón orðinn lykilmaður í íslenskri pólitík. Hann á risavaxið verkefni fyrir höndum. Annaðhvort verður hann bjargvættur flokksins (enn eina ferðina) eða mun verða maðurinn sem verður brennimerktur sem afgangsmistök fyrrum flokksformanns sem hugsaði til Jóns á þeirri stundu er draga þurfti flokkinn upp úr þeim skít sem hann sjálfur skildi eftir en hann gat hvorki né treysti sér í að moka til fulls. Hann var með mann til verksins - mann sem treysti sér í að redda málunum.

En hver er pólitík Jóns Sigurðssonar, þessa nýja og valdamikla leiðtoga? Fæst þekkjum við hann sem stjórnmálamann - nú verður hann vessgú að mæta á hið pólitíska svið og standa sig sem slíkur. Ég held t.d. að hann og Geir Haarde, forsætisráðherra, geti náð vel saman og tel kjör hans boða gott fyrir þetta farsæla stjórnarsamstarf. Ég verð að viðurkenna að auki því sem fyrr er sagt að ég mundi eftir Jóni Sigurðssyni sem einum nánasta samherja Halldórs í stefnumótun innan flokksins. Það var hann sem mótaði stefnutal Halldórs um ESB, hann var helsti ráðgjafi Halldórs í efnahagsmálum og svo miklu meira. Skyndilega áttaði ég mig á því að Jón Sigurðsson var maðurinn á bakvið tjöldin í allri stefnumótun Halldórs. Er því nokkuð óeðlilegt að meta stöðuna sem svo að Jón haldi áfram þar sem Halldór skildi við er hann kvaddi flokkinn á föstudag?

Það eru margar spurningar í hausnum á mér er ég horfi á sextugan mann taka kjöri sem flokksformaður, mann sem hefur aldrei verið miðpunktur stjórnmálabaráttu og stígur fram á sviðið sem sáttasveinn flokksins, reynir að redda því sem aflaga hefur farið. Fyrst og fremst vil ég sjá hvernig pólitíkus Jón verði. Ég hef óljósar hugmyndir um það en grunar margt. Það er um að gera að gefa þessum sáttasemjara flokksins tækifæri á að sanna sig. Hann allavega hefur athygli okkar allra.

Jón og Siv

Það segir mér svo hugur að hann muni ekki rugga bátnum en haldi nú í það verkefni að sameina það sundraða og skaddaða fley sem Framsóknarflokkurinn er orðið í íslenskum stjórnmálum. Það verður svo sannarlega áhugavert að vera pólitískur áhorfandi á þessum kosningavetri. En já nú verður Jón Sigurðsson að sanna sig. Það er ekki öfundsvert að vera hann, enda hefur hann risavaxið verkefni og erfitt í höndunum.

19 ágúst 2006

Ný forysta til verka í Framsóknarflokknum

Forysta Framsóknarflokksins

29. flokksþingi Framsóknarflokksins lauk síðdegis í dag. Þetta var stutt flokksþing hjá Framsóknarflokknum, aðeins rétt um sólarhringur. En nóg var þar þó af verkefnum. Tilgangur þess var fyrst og fremst að velja flokknum nýja forystu og greinilega til að hefja nýja sókn eftir mikla niðursveiflu í pólitískri umræðu seinustu ár og mánuði, en flokkurinn mælist aðeins með um eða rétt yfir 10% fylgi í skoðanakönnunum. Halldór Ásgrímsson kvaddi stjórnmálin á flokksþinginu og sagði skilið við forystu flokksins eftir aldarfjórðung á formanns- og varaformannsstóli. Á mánudag mun hann láta af þingmennsku og halda í aðrar áttir eftir um margt sögulegan stjórnmálaferil sinn. Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var kjörinn eftirmaður hans og mun takast á hendur það verkefni að leiða flokkinn í gegnum erfiðan kosningavetur. Næg verkefni bíða hans í forystu flokksins.

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, vann endurkjör á varaformannsstóli og sigraði Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, með nokkrum yfirburðum. Guðni lagði mikið undir í kjörinu, enda lagði hann ekki í formannsslaginn við Jón Sigurðsson. Hann mat stöðuna rétt og sá að landsbyggðarkjarni hans myndi skipta sköpum hvort sem að Jón eða Siv yrðu kjörin til verka á formannsstóli. Hvað svo sem segja má um Guðna má reyndar fullyrða með nokkurri vissu að hann sé hinn ekta framsóknarmaður að flestra mati og víst er að stjórnmálin væru nokkuð litlaus án hans, en hann hefur oftar en ekki vakið mikla athygli fyrir framgöngu sína í pólitík og hnyttinn talsmáta um menn og málefni stjórnmálanna. Það er mitt mat að Guðni hafi lesið rétt í spilin og lagt rétt undir. Hvað svo sem segja má um ákvörðun hans að leggja ekki í formannsslaginn má fullyrða að hann haldi sínum pólitísku völdum eftir brotthvarf Halldórs.

Fyrirfram var ljóst fyrir þetta flokksþing að tekist yrði á um ritaraembættið, enda höfðu fjórir mjög góðir kostir komið þar fram. Svo fór ekki er á hólminn kom. Öllum varð ljóst eftir kjör í formanns- og varaformannsembættið að Framsóknarflokkurinn þyrfti að tefla konu fram til ritarastarfans. Það fór því svo að alþingismennirnir Birkir Jón Jónsson og Kristinn H. Gunnarsson stigu til hliðar og hvöttu flokksmenn til að velja konu. Fyrirfram hafði ein kona, Sæunn Stefánsdóttir varaþingmaður og pólitískur aðstoðarmaður Jóns Kristjánssonar á ráðherrastóli, gefið kost á sér til embættisins. Greinilegt var með fyrrnefndum yfirlýsingum að samstaða myndi að mestu nást um hana. Sæunn hlaut um 75% atkvæða og örugga kosningu en Haukur Logi Karlsson hlaut um 15%. Hefði kona valist til formanns- eða varaformannsembættisins hefðu mál eflaust farið á annan veg en Sæunn tefldi rétt eins og Guðni er til þingsins kom.

Framsóknarflokkurinn stendur nokkuð breyttur eftir að loknu þessu sögulega flokksþingi sínu. Halldór Ásgrímsson er horfinn af velli og ný forysta tekur við flokknum af honum. Jón Sigurðsson hlaut gott umboð til formennsku, sama má segja um þau Guðna og Sæunni sem hlutu góða kosningu til sinna miklu verka á kosningavetri. Það blandast engum hugur eftir þetta flokksþing að þar fæddist ný pólitísk stjarna á sama tíma og lífsreyndur flokksmaður varð flokksformaður, sem fáum hefði órað fyrir jafnvel fyrir aðeins örfáum mánuðum. Það verður fróðlegt að fylgjast með verkum Jóns Sigurðssonar á formannsstóli Framsóknarflokksins og ekki síður Sæunnar Stefánsdóttur sem ritara flokksins. Bæði eru að koma ný inn til verka í forystusveit og munu verða áberandi á Alþingi næstu mánuðina og væntanlega í kosningabaráttunni.

Sæunn Stefánsdóttir er greinileg ný pólitísk stjarna. Fyrir aðeins nokkrum mánuðum hefðu fáir spáð því að hún hlyti hinn valdamikla sess sem ritaraembættið er innan Framsóknarflokksins. Ritarinn stjórnar öllu innra starfi flokksins og er formaður landsstjórnar hans. Sæunn mun á mánudag taka formlega sæti á Alþingi er Halldór Ásgrímsson lætur af þingmennsku eftir langa þingsetu, en hann er sem kunnugt er starfsaldursforseti Alþingis. Það er skemmtileg tilviljun að þingsæti Halldórs erfist til ungrar konu, forystukonu innan flokksins. Halldór var 26 ára þegar að hann tók sæti á Alþingi árið 1974 og Sæunn Stefánsdóttir er 27 ára þegar að hún kemur nú inn í þingflokk og forystusveit Framsóknarflokksins. Allra augu verða á henni í verkum sínum og má fullyrða að þar fari framtíðarkona innan flokksins, sem eigi eftir að láta til sín taka.

Að síðustu: margir hafa sent mér póst og haft samband við mig um þessi miklu skrif um Framsóknarflokkinn og haft áhuga á það hversu vel ég fjalla um leiðtogakjör í litlum stjórnmálaflokki. Ástæðan fyrir því að ég fjalla um þessi mál er einföld. Ég hef áhuga á stjórnmálum, ég hef áhuga á því að spá í pólitík. Því fær ekkert breytt að Framsóknarflokkurinn er áhrifamikill flokkur, þrátt fyrir minnkandi fylgi greinilega seinustu mánuði, og hann hefur verið flokkur áhrifa í stjórnmálasögu landsins alla tíð. Ég lít á þennan vef sem vettvang stjórnmálapælinga minna. Ég fjalla vel um þessi mál því að mörgu leyti hef ég ávallt metið Framsóknarflokkinn nokkurs, hann er stofnun í stjórnmálalitrófi landsins og verið áberandi þar alla mína ævi. Það er því eðlilegt að ég hafi áhuga á forystumálum hans og vilji skrifa um þau.

Ég verð enda ekki var við annað en að allra flokka fólk hafi áhuga á að analísa þá stöðu sem þar er. Það gildir það sama um stjórnmálaáhugamenn í öllum flokkum, þar á meðal mig, og svo auðvitað fræðimenn víða sem fylgjast með stöðu mála. Ég fer ekki leynt með það að ég hef alla mína ævi verið ósammála Framsóknarflokknum að mörgu leyti og haft aðra skoðun á fjölda hitamála en fram hafa komið innan hans og forystumanna hans í öll þau ár sem ég hef fylgst með stjórnmálum. En þeir sem ætla sér að fylgjast með stjórnmálum og ætla að reyna að komast hjá því að horfa til Framsóknarflokksins í pólitískum pælingum og spámennsku á opinberum vettvangi á sama tíma ættu að finna sér eitthvað annað að gera. Ég fell ekki í þá gryfju, hreint út sagt. Þetta er flokkur með sögu, einkum valdasögu, sem er merk.

En já, spennandi tímar eru framundan í íslenskum stjórnmálum. Nú hafa Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson báðir horfið á braut og yfirgefið stjórnmálin eftir mjög langa og farsæla stjórnmálaforystu í ríkisstjórn landsins og Geir H. Haarde og Jón Sigurðsson hafa tekið við forystu stjórnarflokkanna nokkrum misserum fyrir alþingiskosningar. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að stjórnarsamstarfið gangi undir forystu þeirra á þessum kosningavetri og hvort að þetta langlífa stjórnarsamstarf lifi lengur en fram að kosningum. Það yrði sögulegt ef að það yrði áfram við völd. Fyrst og fremst er merkilegt að Framsóknarflokkurinn skyldi ekki velja öflugar konur til forystu, en þeim gafst tækifærið en nýttu það ekki. En þær standa sterkar eftir, einkum Siv sem fékk góða kosningu þrátt fyrir tap.

En við stjórnmálaáhugamönnum blasir ný forysta Framsóknarflokksins. Það verður hennar hlutverk umfram allt að lægja öldur í sundruðum og ósamstilltum flokki og tryggja að hann komi ekki sem laskað fley að landi í kosningunum. Þeirra bíður mikið og erfitt verkefni, það má fullyrða það með nokkrum sanni.

Jón kjörinn formaður Framsóknarflokksins

Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur verið kjörinn formaður Framsóknarflokksins. Hann er þrettándi formaður Framsóknarflokksins frá stofnun flokksins árið 1916, fyrir 90 árum. Jón sigraði Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra og ritara Framsóknarflokksins, í formannskjörinu. Hann hlaut 412 atkvæði eða tæp 55%. Siv Friðleifsdóttir hlaut 336 atkvæði eða rúm 44%. Jón tekur við formennsku flokksins af Halldóri Ásgrímssyni, fyrrum forsætisráðherra, sem nú hættir í stjórnmálum eftir þriggja áratuga litríkan stjórnmálaferil og tólf ára setu á formannsstóli. Er úrslitin voru kynnt á Hótel Loftleiðum á tólfta tímanum var Halldór hylltur fyrir störf sín í þágu flokksins, en hann hefur verið í forystusveit flokksins í aldarfjórðung.

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, verður sextugur á miðvikudag, hann er fæddur 23. ágúst 1946. Jón varð iðnaðar- og viðskiptaráðherra í júní þegar að Halldór Ásgrímsson hætti í ríkisstjórn. Hann varð með því fyrsti maðurinn til að gegna ráðherraembætti án þess að vera þingmaður frá því að Ólafur Ragnar Grímsson var fjármálaráðherra 1988-1991. Jón hefur til fjölda ára verið virkur í starfi Framsóknarflokksins og gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir hann og var seðlabankastjóri 2003-2006. Það vakti mikla athygli að hann ákvað að fórna öruggum seðlabankastjórastól fyrir óvissu stjórnmálanna.

Jón Sigurðsson

Ég vil óska Jóni Sigurðssyni, formanni Framsóknarflokksins, til hamingju með kjörið. Hann vann nokkuð góðan sigur þrátt fyrir harða baráttu um embættið. Það verður hans hlutverk að taka við þessum elsta flokk landsins núna þegar að stjórnmálaferli Halldórs Ásgrímssonar er lokið. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Jóni gangi á formannsstóli á næstu mánuðum, er landsmenn fá betur að kynnast stjórnmálamanninum Jóni Sigurðssyni, en aðeins eru tveir mánuðir síðan að hann fór í stjórnmálin, eins og fyrr segir.

Fróðlegt verður að sjá hvar Jón fari fram að vori, enda öllum ljóst að formaður Framsóknarflokksins verður ekki utanþings lengur en fram að næstu kosningum. Það verður verkefni Jóns að leiða flokkinn á kosningavetri og í gegnum næstu alþingiskosningar. Fullyrða má að þar muni örlög flokksins ráðast og hvort að hann nái að snúa vörn í sókn. Altént er öllum ljóst að með formannskjöri Jóns Sigurðssonar verður áferðarbreyting á flokknum.

Flokkur á krossgötum velur nýjan formann

Jón SigurðssonSiv Friðleifsdóttir

Halldór Ásgrímsson hefur nú kvatt forystusveit Framsóknarflokksins og yfirgefið íslensk stjórnmál eftir þriggja áratuga litríkan stjórnmálaferil. Í dag er komið að því að eftirmaður hans sem formaður flokksins verði kjörinn á flokksþinginu á Hótel Loftleiðum, svo og kosið um það hverjir gegni embættum varaformanns og ritara. Kjörið hefst nú í morgunsárið og kl. 11:00 verður því formlega lýst yfir hvort að Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, eða Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, verði næsti formaður Framsóknarflokksins, sá þrettándi í röðinni í 90 ára sögu flokksins. Jón og Siv eru mjög ólík og er því hægt að fullyrða með mikilli vissu að breytingar verði á flokknum sama hvort þeirra muni sigra og taka við keflinu af Halldóri Ásgrímssyni.

Í sumarbyrjun hefði fáum dottið í hug að seðlabankastjórinn Jón Sigurðsson yrði jafnvel eftirmaður Halldórs á formannsstóli og eða að hann yrði ráðherra í ríkisstjórninni og fórnaði öruggum bankastjórastól sínum fyrir óvissa framtíð stjórnmálanna. Kom innkoma hans flestum stjórnmálaáhugamönnum á óvart, enda situr Jón ekki á Alþingi og hafði aldrei verið kjörinn fulltrúi flokksins á opinberum vettvangi stjórnmála. Hlaut hann mjög stórt ráðuneyti og vakti athygli hversu mikla trú fráfarandi formaður og þingflokkurinn höfðu á honum. Jón nýtti sér tómarúmið eftir að Halldór fór úr ríkisstjórn til að tilkynna formannsframboð sitt snemma og kom greinilega varaformanninum Guðna Ágústssyni það mjög að óvörum að hann lagði ekki í baráttu við hann. Jón hefur lengi verið í innra starfi flokksins og því þekktur þar, en ekki mikið utan hans. Verði hann kjörinn bíður hans það verkefni að kynna sig og sínar áherslur fyrir þjóðinni.

Siv Friðleifsdóttir hafði verið nefnd sem formannsefni í flokknum í allt sumar og beðið var eftir ákvörðun hennar mjög lengi. Hún tilkynnti framboð sitt seint, á afmælisdegi sínum, þann 10. ágúst sl. Mörgum fannst hún vera lengi að taka ákvörðun og veita Jóni of mikið forskot. Siv er þó auðvitað ólík Jóni sérstaklega að því leyti að hún hefur helgað sig stjórnmálum í sextán ár, eða allt frá því að hún var kjörin formaður SUF, fyrst kvenna, árið 1990. Hún varð bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi sama ár, sigraði í prófkjöri flokksins í Reykjaneskjördæmi árið 1995, fór þá á þing, varð umhverfisráðherra árið 1999 og heilbrigðisráðherra árið 2006. Hún var utan stjórnar í tvö ár og hefur ófriðarbálið innan flokksins oft verið rakið til þess að hún missti sæti sitt. Hún lagði í formannsslaginn viss um gott gengi og taldi sig ekki þurfa langan tíma, enda myndu verk hennar fyrir flokkinn til fjölda ára tala sínu máli fyllilega.

Má búast við að formannskjörið geti orðið mjög jafnt og spennandi, svo virðist enda sem að spennan innan flokksins um að hvort þeirra muni leiða þennan elsta flokk landsins hafi aukist sífellt eftir því sem nær dró. Jón var framan af talinn hafa óyfirstíganlegt forskot og talinn vera með pálmann í höndunum en innkoma Sivjar hefur breytt stöðunni og hún sífellt bætt við sig fylgi eftir því sem liðið hefur að formannskjörinu. Eru menn því ekki vissir um hvernig fari. Jón virðist hafa sterka stöðu víða um land, en sama má segja auðvitað um Siv ennfremur, enda er hún víða með sterk tengsl, enda hefur hún sem ritari flokksins í fimm ár leitt innra starf hans og verið formaður landsstjórnar Framsóknarflokksins.

Er erfitt að kortleggja stöðu Jóns, en þó eru deildar meiningar um pólitíska innkomu hans svo snögglega og telja margir það vera greinilegt útspil fráfarandi formanns til að reyna að tryggja að eftirmaður hans verði svokallaður bráðabirgðaformaður og auðvelt verði að koma einhverjum öðrum fylgismanni hans í formannsstólinn, t.d. Birni Inga Hrafnssyni, til valda síðar meir með auðveldum hætti. Sigri Siv má búast við að hún verði enginn bráðabirgðaformaður, enda er hún aðeins 44 ára gömul og því heilum 16 árum yngri en Jón Sigurðsson. Mjög deildar skoðanir virðast vera uppi víða, innan flokks sem utan, um Jón og margir hafa undrast gamaldags framkomu hans í sjónvarpsviðtölum seinustu vikurnar.

Það stefnir í spennandi kosningu um embætti varaformanns, rétt eins og um embætti flokksformannsins. Verður fróðlegt að sjá hvort að Guðni Ágústsson, sem verið hefur þingmaður frá árinu 1987, ráðherra frá árinu 1999 og varaformaður í rúm fimm ár, muni halda velli á sínum stóli, þrátt fyrir að hann hafi ekki lagt í formannsslaginn þó auðvitað augljós kostur væri, þrátt fyrir illindi milli hans og fráfarandi formanns. Atlaga Jónínu Bjartmarz að honum hefur vakið athygli og mun pólitísk framtíð Guðna ráðast af úrslitunum. Svo verður spennandi að sjá hver vinnur ritaraembættið, þar sem fjórir eru í kjöri, og verður með því í forystu alls innra starfs flokksins sem formaður landsstjórnar flokksins.

Það má búast við spennandi og jöfnum kosningum á þessu flokksþingi, væntanlega þeim mest spennandi í sögu Framsóknarflokksins allt frá árinu 1944 er Hermann Jónasson felldi Jónas Jónsson frá Hriflu af formannsstóli, eftir tíu ára formannsferil hans. Það voru mikil þáttaskil fyrir flokkinn sem fólust í því uppgjöri og brennimerktu flokkinn til fjölda ára eftir það og hafði víðtæk áhrif á heila kynslóð flokksmanna með mörgum hætti, enda hafði Jónas verið einn stofnenda og hugmyndafræðinga flokksins. Framsóknarflokkurinn var byggður á samvinnuhugsjóninni og hefur verið flokkur landbúnaðarins. Nú blasir við að hann verður að marka sér nýtt líf og nýja tilveru á pólitískum krossgötum í upphafi nýrrar aldar.

Það blasir við að mikið verkefni blasir við þeim einstakling sem hlýtur kjör sem formaður Framsóknarflokksins í dag. Það verður hlutverk nýs formanns að leiða flokkinn inn í væntanlegan kosningavetur og í þá kosningabaráttu sem framundan er, en í þeirri baráttu gætu örlög flokksins ráðist og hvort honum tekst að rífa sig upp úr þeirri miklu lægð sem hann hefur verið mjög lengi. Hvort sem að Jón eða Siv leiða flokkinn í gegnum kosningarnar má fullyrða að flokkurinn þarf að fara í verulega uppstokkun til að ná að endurheimta sína fyrri stöðu að þingkosningum loknum eftir níu mánuði.