Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 desember 2002

4 ungliðar á leiðinni á þing
Eins og margoft hefur komið fram náðu þrír einstaklingar úr ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins góðum árangri í prófkjörinu í borginni. Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson ættu að vera allir nokkuð öruggir um þingsæti á næsta kjörtímabili. Í þennan hóp bætist nú Bjarni Benediktsson lögfræðingur, sem verður í fimmta sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi, það ætti að vera nokkuð öruggt þingsæti. Það er því nokkuð ljóst að SUS mun eiga að minnsta kosti fjóra fulltrúa sína á þingi að loknum næstu kosningum, ef miðað er við kjörfylgið 1999. Bjarni verður SUS-ari megnið af næsta kjörtímabili og Siggi Kári allt tímabilið og verður enn fulltrúi ungliða á þingi við kosningarnar 2007. Mjög ánægjulegt að þingflokkurinn yngist upp með þessum hætti. Það er bæði nauðsynlegt flokknum og ungliðahreyfingunni að brú myndist á milli SUS og þingflokksins.

Tilhugalíf Jóns Baldvins
Ég keypti í dag Tilhugalíf fyrra bindi af ævisögu Jóns Baldvins Hannibalssonar sendiherra og fyrrv. utanríkisráðherra og formanns Alþýðuflokksins. Stjórnmálaferill hans og reyndar ævi hefur verið stormasöm og einkennst í senn af sætum sigrum og sárum vonbrigðum. Hann varð alþingismaður Alþýðuflokksins árið 1982, er Benedikt Gröndal fyrrv. forsætisráðherra og formaður flokksins, varð sendiherra. Hann sigraði í prófkjöri flokksins í Reykjavík fyrir þingkosningarnar 1983 og leiddi því flokkinn í höfuðborginni við þær kosningar. Hann bauð sig fram í formannskjöri á landsfundi flokksins árið 1984 og sigraði Kjartan Jóhannsson þáverandi formann flokksins. Alþýðuflokkurinn bætti við sig fylgi í þingkosningunum 1987 og í kjölfar þeirra varð JBH fjármálaráðherra. Í septembermánuði 1988 varð hann utanríkisráðherra og sat á þeim stóli í tæp 7 ár, til vorsins 1995. Hann lét af formennsku í flokknum árið 1996. Hann varð sendiherra í Washington haustið 1997 og hætti þarmeð öllum afskiptum af stjórnmálum. Nú þegar bókin er gefin út stendur Jón Baldvin á krossgötum - hann er að yfirgefa Bandaríkin eftir 5 ára starf þar og tekur við sendiherrastöðu í Finnlandi með aðsetur í Helsinki næstu árin. Verður athyglisvert að fylgjast með þessum fyrrum stríðsmanni á nýjum vettvangi og enn athyglisverðara verður að lesa ævisöguna. Ég hef mikinn áhuga á ævisögum stjórnmálamanna og því nokkuð ljóst að þessi bók verður athyglisverð lesning fyrir mig, og eflaust fræðandi að kynnast frekar ævi Jóns Baldvins.