Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 desember 2002

Al Gore ekki í forsetaframboð
Í gær tilkynnti Al Gore fyrrv. varaforseti Bandaríkjanna, að hann myndi ekki gefa kost á sér sem forsetaefni Demókrataflokksins árið 2004. Þessi ákvörðun hafði legið í loftinu og sagði ég frá þessu hér á bloggsíðunni á föstudaginn og spáði þar að hann færi ekki fram nú, þetta liggur nú endanlega fyrir. Margir höfðu spáð að þessi ákvörðun myndi ekki liggja fyrir fyrr en á næsta ári, en hann ákvað að tilkynna þetta í fréttaskýringaþættinum 60 mínútur á CBS. Í frétt á fréttavef CNN, er fjallað ítarlega um ákvörðun Gore. Með þessu galopnast forsetaslagurinn að hálfu Demókrata og eru margir nefndir sem líklegir frambjóðendur, t.d. John Kerry, Tom Daschle, Joe Lieberman, Dick Gephardt, Hillary Rodham Clinton og margir fleiri. Það er mitt mat að staða Bush forseta sé svo sterk eftir kosningasigurinn í nóvember, að enginn muni eiga neina raunhæfa möguleika á að sigra hann, ég tel að ástæða þess að Gore fer ekki fram sé sú að flokkurinn sé í sárum eftir tapið í þingkosningunum og telji að slagurinn sé þegar tapaður. En það verður gaman að fylgjast með þessu næstu árin.

Laugardagskvöld á ljúfum jólanótum
Óhætt er að fullyrða að þáttur Gísla Marteins á laugardagskvöld hafi verið sá besti það sem af er vetri. Þátturinn var á ljúfum jólanótum, enda aðeins nokkrir dagar til jóla, og góðir gestir komu í heimsókn og ljúf tónlist hljómaði. Aðalgestur þáttarins var Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Var spjall þeirra á léttu nótunum, og var víða komið við. Vitanlega var rætt um pólitíkina, jólin og ritstörf forsætisráðherrans. Fyrir nokkrum vikum kom út smásagnabók hans, Stolið frá höfundi stafrófsins. Ég hef lesið bókina og hafði mjög gaman af, enda mikill unnandi hnyttinna og athyglisverðra smásagna. Fyrir jólin 1997, eða fyrir fimm árum, kom út metsölubók Davíðs, Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar sem var virkilega góð. Heyrst hefur að von megi eiga á spennusögu frá forsætisráðherranum, verður án efa athyglisvert að lesa, hlakka til þess. Björgvin Halldórsson og Diddú komu svo einnig í létt spjall og tóku lagið. Björgvin söng gamalt og gott lag Jónasar og Jóns Múla, Undir Stórasteini sem er að finna á ballöðuplötu Björgvins, en kom upphaflega út á Íslandslögum 2 árið 1994. Diddú söng ljúft jólalag, til að koma öllum í jólaskapið. Rúsínan í pylsuendanum í þessum þætti var tenórinn Kristján Jóhannsson, eðal Akureyringur. Barst talið að því sem hann er að gera þessa dagana og t.d. að útgáfu plötu til minningar um Jóhann Konráðsson, föður Kristjáns. Á þeirri plötu eru lög með Jóhanni og er óhætt að segja að það sé verðugur minnisvarði um þennan einstaka alþýðusöngvara, nú um jólin verða tveir áratugir liðnir frá því að hann lést í Skotlandi. Að lokum söng Kristján eina aríu eins og honum einum er lagið. Það er óhætt að fullyrða að þessi þáttur hafi verið skemmtilegur og mjög gaman að honum.

Góð vettvangsgrein Björns
Undanfarna sex mánuði hefur Björn Bjarnason alþingismaður og leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, skrifað greinar á miðopnu Morgunblaðsins á laugardögum undir heitinu Vettvangur. Þar hefur hann tjáð sig um það sem jafnan ber hæst í pólitíkinni og þjóðlífinu almennt. Á laugardaginn skrifaði Björn um ráðleysi R-listans í málefnum Kárahnjúkavirkjunar og Landsvirkjunar. Vegna áforma um virkjun við Kárahnjúka er meira uppnám í Ráðhúsinu en jafnan áður, þó oft sé þar nóg af hasar innanborðs hjá bræðingslistanum. Það virðist nefnilega vera erfitt fyrir þetta bræðingsbandalag þriggja flokka að komast að einni skoðun á þessum málum. Á öðrum endanum er Framsóknarflokkurinn sem er í ríkisstjórnarsamstarfi og með Iðnaðarráðuneytið á sinni könnu, ef svo má sega. Á hinum endanum eru svo vinstri/grænir sem eins og endranær eru á móti öllum virkjunaráformum sama hvaða nafni þær nefnast. Á miðjunni er svo Samfylkingin ráðalaus yfir samstarfsflokkunum. Það er nú svo skondið með VG að ekki má einu sinni breyta Norðurorku, orkufyrirtæki Akureyrarbæjar í hlutafélag nema allt ætli vitlaust að verða og læti bæði í bæjarstjórn Akureyrar og á Alþingi, þó að margreynt sé að þar sé um að ræða hagstæðasta kostinn í stöðunni. Það er með græningjana að þeir eru á móti öllum framfaramálum, enda alræmdir þvergirðingar eins og landbúnaðarráðherrann sagði í frægri þingræðu. Á þá er alltaf hægt að stóla á - að vera á móti öllum helstu framfaramálum. Ég hvet alla áhugamenn um stjórnmál til að lesa grein Björns.