Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 desember 2002

Frábær spjallþáttur
Horfði í gærkvöldi á spjallþátt Jóns Ólafssonar tónlistarmanns, Af fingrum fram. Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég um áhuga minn á þessum þáttum, enda bæði skemmtilegir og fræðandi, sannkölluð unun á að horfa. Enda kom ekki á óvart að þátturinn hlaut Edduna sem besti sjónvarpsþáttur ársins 2002. Þátturinn í gærkvöldi var sérstaklega áhugaverður. Gestur Jóns í gærkvöldi var kóngurinn sjálfur, Björgvin Halldórsson. Er óumdeilt að hann sé sá íslenskur tónlistarmaður sem hefur sungið flest lög inn á plötur og stendur einna fremst af núlifandi poppsöngvurum þjóðarinnar. Spjall þeirra var mjög áhugavert og fræðandi og gaman að fá brot af ferli hans á tæpum klukkutíma í bland við áhugaverðar poppsögur. Það var semsagt gaman að horfa á þáttinn, hiklaust einn besti þátturinn í seríunni til þessa. Í kvöld verður gaman að horfa á Sjónvarpið. Þá mun Gísli Marteinn taka á móti forsætisráðherranum, Diddú og stórsöngvara okkar Akureyringa, Kidda Konn. Þetta verður eflaust skemmtilegt laugardagskvöld - með Gísla og gestum hans.

Biðin eftir Soprano-fjölskyldunni
Eins og allir vinir mínir ættu að vita er ég forfallinn áhugamaður um hina frábæru framhaldsþætti um Tony Soprano og fjölskyldu hans og hef horft á alla þættina. Nú styttist hinsvegar í að fjórða serían verði sýnd í sjónvarpi allra landsmanna. Hin langa bið hefur verið gerð þolanlegri með því að endursýna þriðju seríuna seint á fimmtudagskvöldum nú fyrri hluta vetrar. Fljótlega á nýju ári er hinsvegar búist við nýrri seríu á skjáinn. Ýmsar sögusagnir hafa rambað hingað upp á klakann af nýjustu seríunni. Sumir segja að hún sé slöpp og þynnri en hinar fyrri en lokaþættirnir bæti það upp. Ég ætla allavega að vona að ekki fari fyrir félaga okkar Soprano eins og sálfræðingnum Frasier sem er orðinn ansi útþynntur. Sú var tíðin að ég var einn harðasti Frasier-aðdáandi ever, en ég verð að viðurkenna að það er farið að halla ansi mikið á félaga okkar í Seattle. Horfi núorðið á Six Feet Under og The Agency með miklum áhuga, en bíð spenntur eftir félaga Soprano og fagna því mjög komu hans og famelíunnar á skjáinn á nýju ári. Á meðan horfi ég á upptökur af 24, snilldarþætti sem sýndur var á Stöð 2 í sumar. Alveg brilljant-þættir!