Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 desember 2002

Vinsældir Guðna Ágústssonar
Á sunnudaginn birtist skoðanakönnun Gallups þar sem farið var yfir hversu vinsælir ráðherrar Framsóknarflokksins eru nú á þessum tímapunkti. Er skemmst frá því að segja að Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra og varaformaður flokksins, er vinsælasti ráðherra hans. Ennfremur er ljóst að hann nýtur gríðarlegs stuðnings meðal kjósenda allra stjórnmálaflokka og er meira að segja vinsælli í sínum flokk en formaðurinn sjálfur. Seinustu árin hefur Guðni styrkst jafnt og þétt. Er nú svo komið að hann hefur greinilega slegið í gegn fyrir létta lund og skemmtileg tilsvör, hann er orðinn að einskonum farandskemmtikraft. Hann kyssir beljurnar í sveitinni, velur fallegustu kýrnar í samkeppni þar sem aðalverðlaunin eru Gateway-tölva, hann skemmtir á árshátíðum og þorrablótum, slær í gegn á hestamannamótum og fleira mætti nefna. Óborganlegt var hvernig Jóhannes Kristjánsson fór á kostum í hlutverki ráðherrans í seinasta áramótaskaupi, svo mjög að margir hlæja enn af atriðinu þar sem grín er gert af sölu ríkisjarðar til ónefnds flokksbróður hans. Jóhannes leikur ekki ráðherrann, hann hreinlega verður hann á kostulegan hátt. Er skemmst að minnast þess er Jóhannes lék Guðna í bráðfyndnum Maltauglýsingum að fólk hélt að þarna væri ráðherrann kominn og breyta þurfti þeim til að segja að þarna væri eftirherman en ekki ráðherrann sjálfur. Guðni er að mínu mati vinsæll einkum fyrir framkomu sína og létta lund frekar en verk á ráðherrastóli. Í dag skrifar einn af frelsispennunum, félagi minn á frelsi.is, Ágúst Flygenring, frábæran pistil um vinsældir ráðherrans og er vægast sagt undrandi á þeim. Hvet alla til að lesa þennan frábæra pistil Ágústs.

Sterk fjárhagsstaða Akureyrarbæjar
Frumvarp að fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2003 var afgreitt í fyrri umræðu í bæjarstjórn nú síðdegis. Veltufjárhlutfall samstæðureiknings er 1,09 og eiginfjárhlutfall er 40%. Fjárhagsstaða bæjarins verður því að teljast afar sterk. Heildartekjur Akureyrarbæjar verða tæpir 7,9 milljarðar króna en heildargjöld rétt um 7,4 milljarðar skv. samstæðureikningi. Fjárhagsáætlun ársins 2003 gerir áfram ráð fyrir miklum fjárfestingum í grunngerð samfélagsins og er það í samræmi við málefnasamning meirihlutaflokkanna. Samkvæmt framkvæmdayfirliti Akureyrarbæjar eru framkvæmdir A-hluta rúmir 1,4 milljarðar. Þar af eru 220 milljónir vegna öldrunarþjónustu, rúmar 500 milljónir vegna fræðslu- og uppeldismála, 250 milljónir vegna menningarmála og 268 milljónir vegna æskulýðs- og íþróttamála. Í B-hluta eru 685 milljónir áætlaðar til framkvæmda og munar þar mestu um framkvæmdir á vegum Norðurorku fyrir tæpar 400 milljónir og Fráveitu Akureyrarbæjar fyrir rúmar 100 milljónir. Skatttekjur aðalsjóðs eru áætlaðar tæpir 3,5 milljarðar króna og framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 360 milljónir. Aðrar tekjur Akureyrarbæjar eru rúmir 4 milljarðar skv. samstæðureikningi. Ljóst er að hemja verður útgjöld bæjarins, en á heildina litið er staða bæjarins mjög góð nú við upphaf kjörtímabilsins og meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem gengið hefur mjög vel það sem af er.