Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 apríl 2003

Kosningabarátta sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi hafin
Í dag hófst formlega kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Nú þegar 36 dagar eru til kosninga blasir við að baráttan í kjördæminu verði snörp og hressileg. Í hádeginu í dag stóð Stafnbúi, félag nemenda við auðlindadeild Háskólans á Akureyri, fyrir árlegum skyrfundi sínum í mötuneyti háskólans á Sólborg. Gestur fundarins var Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra. Fundurinn hófst klukkan 12:30 með stuttu ávarpi menntamálaráðherra þar sem hann fór yfir stöðu menntamála og einkum nefndi hann málefni Háskólans og menntastofnana í Norðausturkjördæmi og þann árangur sem náðst hefði í menntamálum í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Að ávarpi hans loknu báru nemendur og aðrir viðstaddir fram fyrirspurnir og svaraði ráðherra þeim greiðlega. Var fundurinn vel heppnaður og einkar gagnlegur. Kl. 17:00 var svo opnuð í Kaupangi við Mýrarveg á Akureyri, aðalkosningaskrifstofa Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Opnaði Halldór Blöndal forseti Alþingis og leiðtogi flokksins í kjördæminu, kosningabaráttu flokksins, með ítarlegu og góðu ávarpi til flokksmanna sem viðstaddir voru opnun skrifstofunnar. Ennfremur flutti menntamálaráðherra gott ávarp og hvatti flokksfélagana til dáða í baráttunni. Ennfremur fluttu Bergur Guðmundsson og Guðmundur E. Erlendsson Stórasandsrímur við mikla hylli, enginn vafi er á þeir félagar munu slá í gegn með þessu. Mikill fjöldi var samankominn við opnun kosningaskrifstofu flokksins og þáðu léttar veitingar og ræddu málin, kosningabaráttuna framundan og stjórnmálastöðuna almennt nú þegar rúmur mánuður er til alþingiskosninga. og var ekki annað að heyra en sjálfstæðismenn sem viðstaddir voru séu bjartsýnir um baráttuna framundan. Málefnastaða okkar er góð og listinn er vel skipaður. Það er engin spurning í okkar huga um að baráttan muni verða drengileg af okkar hálfu. Kjörorð okkar sjálfstæðismanna við þingkosningarnar í Norðausturkjördæmi 2003 er Blátt áfram! Áfram á sömu braut.

Frelsi.is opnar á ný - glæsileg vefsíða ungra sjálfstæðismanna
Kl. 17:00 í dag (á sama tíma og aðalkosningaskrifstofa Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi opnaði formlega), opnaði Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, nýja Frelsisvefinn á fjölmennum fundi Heimdallar og SUS í Valhöll. 34 ungir sjálfstæðismenn, 16 stúlkur og 18 drengir, munu starfa við vefinn sem umsjónarmenn málefnaflokka en á vefnum eru níu undirsíður og er hver þeirra tengd umfjöllun um ákveðna málefnaflokka. Ritstjórar og ábyrgðarmenn vefsins verða Magnús Þór Gylfason formaður Heimdallar og Jón Hákon Halldórsson. Helga Árnadóttir og Ragnar Jónasson eru aðstoðarritstjórar vefsins. Vefurinn mun eftir breytingarnar verða þrískiptur. Þar verða sagðar fréttir úr stjórnmálunum, birtar greinar og pistlar ungra sjálfstæðismanna og tenglar á önnur sjónarmið sem birtast á öðrum vefmiðlum. Fram að kosningum verður vefurinn einnig kosningavefur ungra sjálfstæðismanna um allt land. Reynir Pálsson hönnuður hjá Nýjustu tísku og vísindum hannaði útlit vefsins og Hugsmiðjan sá um forritun en notast er við eplica vefumsjónarkerfið. Umsjónarmannahópurinn er skipaður af einvalaliði ungra sjálfstæðismanna. Í ritnefnd sem sjá um vefinn eru: Andrés Andrésson, Andri Óttarsson, Atli Rafn Björnsson, Ásgerður Ragnarsdóttir, Bjarney Sonja Ólafsdóttir, Bolli Thoroddsen, Friðjón R. Friðjónsson, Gísli Hauksson, Guðríður Sigurðardóttir, Guðrún Inga Ingólfsdóttir, Hafsteinn Þór Hauksson, Haukur Þór Hauksson, Helga Árnadóttir, Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir, Helga Lára Hauksdóttir, Hjörleifur Pálsson, Hrefna Ástmarsdóttir, Ingólfur Snorri Kristjánsson, Ingvi Hrafn Óskarsson, Jón Hákon Halldórsson, Kristinn Már Ársælsson, Magnús Þór Gylfason, Margrét Einarsdóttir, Margrét Leósdóttir, Ragnar Jónasson, Sesselja Sigurðardóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Sigþrúður Ármann, Snorri Stefánsson, Stefán Friðrik Stefánsson, Steinunn Vala Sigfúsdóttir, Svava Björk Hákonardóttir, Tinna Traustadóttir og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Að auki skrifa fjölmargrir aðrir ungir sjálfstæðismenn reglulega pistla á vefinn. Framundan er spennandi kosningabarátta og greinilegt að ungir sjálfstæðismenn hafa eignast nýjan og frábæran vettvang fyrir skoðanir sínar. Frelsi.is mætir til leiks sterkari en nokkru sinni fyrr.