Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 maí 2003

Úrslit þingkosninganna 2003
Úrslit þingkosninganna liggja nú ljós fyrir. Niðurstaða þeirra er á þá leið að Framsóknarflokkurinn vinnur varnarsigur, Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi eftir 12 ára stjórnarsetu en heldur sess sínum sem stærsti flokkur landsins, Samfylkingin vinnur á en ekki eins mikið og upphaflega var spáð, vinstri grænir dala og Frjálslyndir eflast og fá helmingi stærri þingflokk. Ætla að fara aðeins yfir úrslit kosninganna. Flokkurinn bætir við sig þeim ungu mönnum sem unnu prófkjörssigra í fyrra sem er mér mjög að skapi. Hinsvegar detta kraftmiklar þingkonur út sem er mjög miður. Mikil vonbrigði voru niðurstöður kosninganna hér í Norðausturkjördæmi, þar duttu því miður út þingkonur okkar, Abba og Sigga. Undir lok kosningabaráttunnar kom vel í ljós að við vorum að tapa verulegu fylgi til Framsóknarflokksins miðað við seinustu kannanir. Undir lok baráttunnar varð okkur ljóst að fólk vildi endurnýjun á listann, þær raddir komu ekki fyrr en á seinni stigum og listinn hafði verið ákveðinn. Framundan er algjör uppstokkun á forystusveit flokksins í mínu kjördæmi og að mínu mati algjörlega nýtt lið verður að taka við forystunni. Það er mitt mat að Kristján Þór Júlíusson ásamt yngra fólki eigi að taka við stjórn flokksins í kjördæminu á komandi árum. Persónulega mun ég leggja mitt af mörkum við þá uppstokkun. Gleðiefni var hinsvegar góð útkoma í Suðvesturkjördæmi þar sem við héldum okkar fimm mönnum og í Norðvestur þar sem Sturla stóð af sér mótvindinn. Niðurstaðan í borginni eru vonbrigði en þar erum við þó enn stærsti flokkurinn með 9 þingmenn samtals.

Halldór Ásgrímsson fékk góða kosningu í Reykjavík og fer inn við annan mann. Siv og Jónína fá góða kosningu. Sigurvegari kosninganna af hálfu Framsóknar er hinsvegar Valgerður Sverrisdóttir sem fer inn með þrjá með sér í sínu kjördæmi (þar á meðal yngsta þingmann landsins frá 1934, Birki Jón) og er klárlega orðin leiðtogakandidat í flokknum þegar Halldór hættir. Guðni kemur veikur út í sínu kjördæmi, en Valgerður trompar og ég tel líklegast að hún verði formaður flokksins á eftir Halldóri, hennar staða hefur styrkst gríðarlega. En Framsókn er klárlega með pálmann í höndunum þegar kemur að stjórnarmyndun. Ingibjörg Sólrún komst sem betur fer ekki inn á þing og mun ekki leiða næstu ríkisstjórn hvernig svo sem fer, hún er ekki lengur inn í myndinni sem forsætisráðherraefni. Hún getur á næstu árum einbeitt sér að einhverju öðru en forystustörfum í pólitík. Samfylkingin vann sigra í Suðurkjördæmi og í Reykjavík norður en tapar í Norðvestur og missa þar mann. Í Norðaustur komst Lára Stefánsdóttir ekki inn. Inn kemur ungt Samfylkingarfólk sem á framtíðina fyrir sér. Steingrímur J. og VG bíða skipbrot og missa dampinn. Tel líklegt að þessa flokks bíði að þurrkast út í næstu kosningum, hann missir flugið og tapar manni. Frjálslyndir Stækka þingflokkinn um helming og bæta við nýju fólki á þing. Guðjón fer inn við annan mann og Gunnar Örlygsson og Magnús Þór fara báðir inn. Athygli vekur að flokkurinn fær engan mann í borginni, semsagt fer dóttir stofnanda flokksins, Margrét, ekki inn á þing, sem hljóta að vera vonbrigði fyrir flokksmenn.

Niðurstaða: Stjórnin heldur velli og mun sitja áfram tel ég. Uppstokkun verður hinsvegar á ráðuneytum og tel ég ekki ólíklegt að formenn stjórnarflokkanna skipti kjörtímabilinu með sér í forsætinu. Ekki ólíklegt að mannaskipti verði. Annars fer stjórnarmyndun nú af stað og athyglisvert hvernig hún fer. Mitt mat er að stjórnin muni sitja áfram, hún heldur velli og flokkarnir eiga að halda áfram samstarfinu. Verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með að vinkonur mínar þær Lára Margrét, Ásta, Arnbjörg og Sigga nái ekki inn, að þeim er mikill sjónarsviptir á þingi. Þessar kjarnakonur stóðu sig vel á þingi og ég vona að þeim farnist vel á nýjum vettvangi. Framundan eru spennandi dagar í pólitíkinni við stjórnarmyndun.