Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 október 2003

Heitast í pólitíkinni
Kjördæmavika þingmanna stendur nú yfir og þingmenn á ferð og flugi, þinghald hefst svo eftir helgi á ný. Mikið hefur seinustu daga verið rætt um málefni ríkis og kirkju og hvert skilja skuli þar á milli. Á Kirkjuþingi tjáðu biskup og kirkjumálaráðherra þá skoðun sína að svo ætti ekki að gera. Þeim er ég ósammála, ég tel borðleggjandi að rjúfa skuli tengslin á milli. Ekki á að gera upp á milli trúflokka og þau eiga að standa jöfn. Ríkistrú á ekki við á Íslandi í dag. Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, hefur átt erfiða mánuði að undanförnu og hefur þurft að horfa upp á að ná lágmarki í vinsældum og sæta yfirheyrslum vegna máls Dr. Kelly. Nú á dögunum veiktist hann, fékk hjartsláttartruflanir og var skipað að taka sér hvíld. Á meðan dala vinsældirnar og nú hefur hann náð sögulegri lægð í vinsældum. Demókrataslagurinn fyrir forsetakosningar á næsta ári er að verða sífellt spennandi. Sýnist á öllu að Wesley Clark sé þar í forystu. Það er þó enn rúmt ár til kosninga og langur vegur að tilnefningu flokksins. 10 í framboði þar, en í mars munu í mesta lagi 3-4 standa eftir.

Gestapistillinn
Á hverjum fimmtudegi héðan í frá verður á heimasíðu minni gestapistlar eftir þá sem ég hef kynnst í pólitísku starfi seinasta áratuginn. Fyrir viku skrifaði Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi á Akureyri, en í þessari viku er komið að Hafsteini Þór Haukssyni formanni SUS, að munda pennann og tjá skoðanir sínar á vefnum. Í pistli sínum fjallar Hafsteinn um ofbeldi gegn börnum. Í vikunni fór hann fyrir hönd SUS á fund um ofbeldi gegn börnum sem haldinn var á Nordica Hotel af menntamálaráðuneytinu, Barnaverndarstofu og Æskulýðsráði ríkisins. Bendir hann á í pistlinum að mikilvægt sé að leitað verði leiða til að stemma stigu við slíku ofbeldi, snúa vörn í sókn. Til þess þurfi samhent átak á víðum grundvelli. Við þurfum semsagt að vera vera vakandi fyrir því þjóðfélagsböli sem kynferðisofbeldi gegn börnum er. Það er á ábyrgð okkar allra, ekki bara fagfólks á vegum hins opinbera, að hlusta á börn, taka mark á þeim og kveikja á perunni þegar ekki er allt með felldu.

Svona er frelsið í dag
Aðalumfjöllunarefni á frelsinu í dag eru niðurskurðartillögur Heimdallar sem unnið hefur verið að af krafti seinustu vikur. Í morgun afhenti stjórn félagsins svo fjárlaganefnd Alþingis, niðurskurðartillögur þess vegna fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2004. Það var Magnús Stefánsson, formaður fjárlaganefndar, sem tók við tillögum Heimdallar í Alþingishúsinu. Við sama tækifæri afhenti stjórn Heimdallar fjárlaganefnd gullfisk til merkis um að hömlulaus eyðsla hins opinbera minni um margt á hegðun gullfiska. Þeir kunna sér ekki magamál og hætta ekki að éta þrátt fyrir að hafa fengið nóg. Háttur hins opinbera þegar kemur að útgjöldum er sambærilegur en eyðslunni virðast lítil takmörk sett. Hvet ég alla til að kynna sér tillögur félagsins í þessum efnum. Í skrifum á vefsíðu minni hef ég ítrekað skoðanir SUS á þessu máli, leita þarf allra leiða til að draga úr þenslu ríkisins og skera niður þar sem við á. Tillögur Heimdellinga í þessum efnum eru mikilvægar. Þetta er lofsvert framtak.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gærkvöldi í Íslandi í dag var Drífa Snædal í viðtali um skýrslu sína sem fjallar um vændisþjónustu almennt. Margt athyglisvert sem fram kom í spjallinu við hana. Gestur í Kastljósinu var m.a. mótmælandi Íslands nr. 1, Helgi Hóseasson sem þekktur er fyrir að hafa atað skyri á þingmenn og tjöru á Stjórnarráðið til að vekja athygli á skoðunum sínum. Í lok vikunnar verður frumsýnd mynd um hann. Vegna þess kom hann í spjall við Sigmar og Svansí. Litríkur karakter og spjallið kraftmikið. Kom einlæglega fram og tjáði sínar skoðanir hispurslaust. Fór á kostum er kom að því að útskýra skammstöfunina RÍÓ. Í Pressukvöldi Sjónvarpsins var gestur biskup Íslands. Umræðuefnið aðskilnaður ríkis og kirkju og umræða um ummæli hans um drauga. Komst biskup vel frá viðtalinu, tjáði skoðanir sínar af krafti. Fréttamenn hefðu mátt vera beittari og komast betur að vissum punktum, en mér fannst biskup svara lokaspurningunni um drauga vel.

Vefur dagsins
Í dag vil ég sérstaklega benda öllu sem líta hingað inn á góðan bloggvef vinar míns, Gísla Haukssonar, gjaldkera SUS. Þar tjáir hann sínar skoðanir án þess að hika og finnur oftast léttu hliðarnar á hlutunum til að krydda lýsingar sínar. Bendi einkum á góð ummæli hans um borgarstjórann í Reykjavík og umræðu um aðskilnað ríkis og kirkju. Litríkt og skemmtilegt blogg.

Snjallyrði dagsins
Óvinir frelsisins rökræða ekki; þeir skrækja og skjóta.
William R. Inge