Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 október 2003

Heitast í pólitíkinni
Nú er hafin sérstök RÚV vika hjá Heimdalli. Tilgangur með henni er að vekja athygli á að tímaskekkja sé að ríkið reki fjölmiðla. Var ætlunin að birta í Ríkisútvarpinu í dag lesna auglýsingu frá Heimdalli á samtengdum ríkisrásunum. Átti hún að vera á þessa leið: "Slökkvum á Ríkisútvarpinu. Heimdallur". Stutt og laggott. Auglýsingunni var hafnað af RÚV sem "ótilhlýðilegum áróðri". Ríkisútvarpið telur að fylgja verði siðareglum sem leyfa ekki tiltekna auglýsingu. Í dag sendi stjórn Heimdallar útvarpsstjóra bréf vegna málsins. Það verður að teljast mikil tímaskekkja að ríkisútvarp hafni auglýsingum með þessum hætti. Enda virðist fréttastofa útvarps taka afstöðu með Heimdalli. Orðið ritskoðun kemur upp í hugann við þessa ákvörðun RÚV. Þessi ákvörðun eflir ungt hægrifólk áfram í baráttunni.

Framundan er uppgjör innan breska Íhaldsflokksins um stöðu Iain Duncan Smith leiðtoga flokksins. 25 þingmenn lýstu yfir vantrausti á hann og því verður að kjósa á morgun meðal þingmanna um hvort hann leiði áfram flokkinn. Ef hann tapar þeim slag verður haldið nýtt leiðtogakjör og getur hann ekki boðið sig fram þar.

Þing hefur komið saman á ný eftir kjördæmavikuna, þar tóku alls 6 varamenn sæti í dag!

Svona er frelsið í dag
Í dag birtist góður pistill eftir Kristinn Má. Þar svarar hann skrifum Sverris Jakobssonar á Múrnum fyrir nokkrum dögum. Þar gerði Sverrir lítið úr niðurskurðartillögum Heimdallar sem kynntar voru fyrir tæpri viku og sagði þær "dæmi um íhaldssemi, fáfræði, þröngsýni og andúð á hugvísindum". Kristinn Már svarar af krafti og bendir á að niðurskurðartillögur Heimdallar séu dæmi um að frjálshyggjufólk vilji stokka upp hlutina og berjast fyrir miklum breytingum í átt til frelsis. Þær megi finna í tillögum Heimdallar. Fram kemur í skrifum Sverris að hægrimenn séu á móti hugvísindum vegna tillagna Heimdallar. Eins og Kristinn segir er svo víðsfjarri, enda ekki verið að vinna gegn neinum, enda geti einkaaðilar vel séð um þessa þætti. RÚV-vika Heimdallar er eins og fyrr er sagt hafin og þar verður margt athyglisvert gert. Mikilvægt er að mínu mati að þetta sé gert og ég fagna framtaki Heimdallar, enda er það tímaskekkja hin mesta að ríkið reki fjölmiðla á okkar dögum. Þetta hef ég oft tjáð opinberlega, seinast í grein á frelsi.is fyrir rúmri viku. Mín skoðun og Heimdellinga í þessu fer vel saman. Ég hvet þá til dáða í þessari baráttu.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Eftir umræðu seinustu daga um forsetaembættið lét Stöð 2 gera fyrir sig skoðanakönnun um hvern Íslendingar vilja að sitji á forsetastóli. Var könnunin framkvæmd af Plúsnum á netinu. Í þessari viku mun Stöð 2 kynna í Íslandi í dag þá fimm sem flest atkvæði hlutu í tilviljanakenndri röð. Í gær var því sýndur prófíll um tvo af þessum fimm, þau Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur varaþingmann og Jón Baldvin Hannibalsson sendiherra. Kom þar margt mjög athyglisvert fram. Næstu daga verða hinir þrír nefndir og fjallað um þá með sama hætti. Ennfremur var í þættinum rætt um nýja skýrslu um vændi, þar sem fram kemur að algengara er að strákar selji sig í vændi en stelpur. Kom Mummi í Götusmiðjunni og var mjög athyglisvert spjall sem Jóhanna og Þórhallur áttu við hann. Í Kastljósinu var gestur þáttarins, Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra. Umræðuefnið eldi á löxum og gagnrýni á frumvarp hans því tengt. Fór hann mikinn og talaði með þjósti og var ófeiminn við að sýna skap sitt þegar þáttastjórnendur sóttu að honum. Í lokin komu Guðrún Agnarsdóttir og Svanborg Sigmarsdóttir og ræddu jafnrétti og ráðstefnu um það sem stendur næstu daga undir forsæti Guðrúnar. Semsagt, líflegt dægurmálaspjall.

Stjórnmálafundur - kvikmyndir - MSN
Eftir að hafa horft á dægurmálaþættina í gærkvöld var haldið upp í Kaupang, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri. Þar kom saman stjórn og varastjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri til fundar við Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra (starfandi forsætisráðherra). Björn var á ferð hér í firðinum í dag, hitta sýslumenn í Eyjafirði, hitta lögregluyfirvöld og hitta nemendur lagadeildarinnar í Háskólanum. Björn vildi sérstaklega hitta unga sjálfstæðismenn á Akureyri, ræða málin og kynnast sjónarmiðum ungra hægrimanna hér. Það er gríðarlega mikilvægt að finna fyrir því að dómsmálaráðherra sýnir því sérstakan áhuga að hitta unga fulltrúa sjálfstæðisstefnunnar hér. Í samstarfi við Björn til fjölda ára hef ég kynnst vel að hann vill sérstaklega ræða við ungt fólk og heyra þeirra áherslur. Enda er hann mjög vinsæll meðal ungra hægrimanna, hann sýnir öllu þeirra starfi mikinn áhuga, mættu margir forystumenn okkar flokks taka hann sér til fyrirmyndar í þeim efnum. Á fundinum ræddi hann þau mál sem viðstaddir vildu bera upp og var farið yfir mörg athyglisverð mál. Útkoman létt og gott spjall við dómsmálaráðherra, mjög gott kvöld. Eftir fundinn með Birni, hélt ég heim og horfði á restina á athyglisverðri kvikmynd á Stöð 2, Path to War sem lýsir Víetnamsstríðinu og pólitískum erfiðleikum Lyndon B. Johnson forseta, tengt því. Að myndinni lokinni fór ég á netið og átti gott spjall sem fyrr við Kristinn Má, félaga minn og kommentaraði á góðan pistil hans sem fyrr er getið.

Vefur dagsins
Í dag hvet ég alla til að líta á stórgóðan vef Stjórnarráðs Íslands. Þar er hægt að finna allar fréttir tengdar ráðuneytunum, sögu þeirra og fréttatilkynningar. Ómissandi vefur í dagsins önn!

Snjallyrði dagsins
Enginn hefði munað eftir miskunnsama samverjanum, hefði hann verið bara hjartagóður. Hann átti líka peninga.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1979-1990)