Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 október 2003

Heitast í pólitíkinni
Samkvæmt fréttum í dag er olíumálið komið á borð ríkislögreglustjóra og rannsókn hafin á þætti forstjóra félaganna og millistjórnenda á tímabilinu 1993-2001. Meðal þeirra sem falla undir þá rannsókn er Þórólfur Árnason borgarstjóri, en hann var markaðsstjóri ESSO 1993-1998. Hans þáttur í olíumálinu var mikið ræddur í sumar og fór ég yfir málið þá vel og hvet áhugasama til að lesa pistla um þetta á stebbifr.com. Mikið hefur verið rætt um niðurskurðartillögur Heimdallar sem kynntar voru í gær. Atli Rafn og félagar mínir í Heimdalli fengu verðskuldaða athygli fyrir sínar góðu tillögur sem ég vona að ríkisstjórn og fjárlaganefnd taki fyrir og gefi gott klapp - því svona eiga menn að gera! Enn er verið að deila um mál á Kárahnjúkum og verða mál þar eflaust bitbein í kjaraviðræðum sem brátt hefjast. Árni Magnússon félagsmálaráðherra, ávarpaði í gær ASÍ þing og var lágstemmt tekið, eftir varaforsetakjör sem Ingibjörg Guðmundsdóttir vann naumlega. Það er ljóst að félagsmálaráðherra hefur verið langmest áberandi framsóknarráðherra eftir kosningar. Er þarna kominn eftirmaður Halldórs, það er stóra spurningin?

Svona er frelsið í dag
Á frelsinu í dag skrifar Ragnar félagi minn, athyglisverðan pistil um Arnold Schwarzenegger, verðandi ríkisstjóra Kaliforníu, og skoðanir hans. Um það er vart deilt að hann er frjálshyggjumaður, sjálfur segist hann virða mjög Milton Friedman og lífsskoðanir hans. Ríkisstjórinn verðandi sem tekur við embætti 17. nóvember nk, af Gray Davis, á fyrir höndum erfitt verkefni við að bæta fjárhag Kaliforníufylkis og ennfremur styrkja undirstöður þess á margan hátt. Verkefnin eru næg og mikilvægt að Arnold taki vel til hendinni. Það er mikilvægt að hann vinni af krafti, mun í því reyna á skoðanir hans og sannfæringu í pólitík. Á frelsi er linkað í dag á gestapistil Hafsteins Þórs sem birtist á stebbifr.com í gær.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í Íslandi í dag var fjallað um kvennafrídaginn sem er í dag. 28 ár eru liðin frá því að konur héldu fjölmennan fund á Lækjartorgi og kröfðust meiri réttinda og minntu á sig. Vegna þess komu Svanborg og Katrín Anna og ræddu þessi mál. Konur voru hvattar til að mæta á vinnustað og krefjast 14% launahækkun. Vegna málsins var rætt við konur og þær spurðar hvað þær myndu gera. Ennfremur var málið rætt við borgarstjóra, fjármálaráðherra og stjórnendur í stórfyrirtækjum. Sérstaklega var athyglisvert að heyra komment þessara valdamiklu manna og mjúk svör þeirra. Það er ljóst að konur eiga að minna á sig og ekki óeðlilegt að krafist sé launajafnréttis. Misrétti af þessu tagi skal ekki líða og borga á jafnt fyrir sömu verk óháð kyni. Ekki á að gera upp á milli.

Kvikmyndir - MSN spjall
Eftir að hafa horft á dægurmálaþættina samkvæmt venju var farið að horfa á bíómyndir (hvað annað). Horfði ég á tvær magnaðar myndir og poppaði og alles - pure afslöppun og syndasvall að mínum hætti, hehe. Sá fyrst Adaptation, mögnuð mynd þar sem Nicolas Cage, Meryl Streep og Chris Cooper (fékk óskarinn - enda brillerar) fara á kostum. Svo var komið að því að sjá Chicago með Renée Zellweger, Richard Gere og Catharine Zeta Jones (sem er skemmtilega nastí í óskarsrullunni sinni). Pottþétt kvöld. Eftir þetta var skellt góðum jassdisk á fóninn og skellt sér á netið, þar sem rætt var við vini og kunningja í gegnum hið einstaka spjallkerfi MSN. Áttum við Kristinn Már virkilega gott spjall um flokkinn og innviði hans. Við Kristinn erum góðir í plottinu saman!

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum sem líta á mig á blogginu til að skella sér í heimsókn á magnaðan bloggvef Hauks Þórs, góðvinar míns. Hann fer þar á kostum. Stóridómur alltaf flottur. Kanzlarinn hittir alltaf á réttu punktana í umfjöllun sinni.

Snjallyrði dagsins
Til þess að njóta frelsisins verðum við að hafa stjórn á okkur sjálfum.
Virginia Woolf