Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 nóvember 2003

Heitast í umræðunni
Enn er deilt um stækkun EES. Hefur undirritun þessa efnis tafist seinustu vikur vegna þess að Liechtenstein sá sér ekki fært að samþykkja samkomulagið á tilsettum tíma. Hefur málið verið í mikilli óvissu síðan. Samkvæmt utanríkisráðherra hyllir nú loks undir lok samningaferlisins og loksins hægt að skrifa undir, væntanlega um helgina. Mikilvægt er að landa málinu farsællega, enda aðild að EES okkur mikilvæg, stækkun er ekki síður mikilvæg okkur til að efla EES.

Ingimundur Sigurpálsson hefur beðist lausnar frá forstjórastarfi í Eimskip. Til stendur að hálfu nýrra eigenda að stokka upp fyrirtækið. Sameina Burðarás og Brim í eitt félag og hafa Eimskipafélagið óbreytt sem eina blokk, við það fækkar fyrirtækjum Eimskips um eitt. Sér Ingimundur sér ekki fært að stýra fyrirtækinu eftir breytingar og telur réttast að láta af störfum. Framundan eru væntanlega miklir breytingatímar hjá fyrirtækinu.

Michael Howard hefur tekið við sem leiðtogi breska Íhaldsflokksins. Framboðsfrestur í embættið rann út kl. 12 á hádegi og Howard var eini framjóðandinn í leiðtogastólinn. Hann var því sjálfkjörinn og hefur tekið við stjórn flokksins af Iain Duncan Smith. Er ljóst að við tekur mikið verkefni fyrir Howard. Vonandi er að hinn nýi leiðtogi nái að sameina flokkinn farsællega að baki sér.

Davíð Oddsson forsætisráðherra, ljær máls á því að breyta vissum þáttum stjórnarskrárinnar. Þetta sagði hann á þingi í gær. Um er að ræða breytingar á stjórnskipan og hlutverki forseta og ríkisstjórnar, hann telur ekki rétt að breyta stjórnarskránni umfangsmeira á þessum tímapunkti.

Svona er frelsið í dag
Í dag birtast pistlar á frelsi eftir kjarnakonurnar Maríu Margréti og Helgu Baldvins. María skrifar um ríkisstyrkta menningu. Fram kemur í grein hennar að ef ríkisstyrkir til menningarmála væru skornir niður væri hægt að skila tæplega 5,8 milljörðum króna aftur til skattgreiðenda. Þeir gætu þá veitt sér meira sem því nemur. Það myndi án efa gera fólki betur kleift að fara á þá listviðburði sem það hefur áhuga á. Eins og María bendir á er til fólk sem sé þeirrar skoðunar að ef ríkið styrkir ekki listir þá sé menningaruppeldi þjóðarinnar stefnt í voða. Þetta sé sorgleg afstaða í garð þjóðarinnar. Í pistli Helgu fjallar hún um persónufrelsi. Ber upp spurninguna Er persónufrelsi minna virði en viðskiptafrelsi? Að hennar mati er persónufrelsi ekki síður mikilvægt en viðskiptafrelsi. Frelsinu fylgi almennt mikil ábyrgð. Er sammála skrifum hennar. Mikilvægt að um þetta sé fjallað með þessum hætti.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í Íslandi í dag í gærkvöldi var ítarlegt viðtal við Ingimund Sigurpálsson fráfarandi forstjóra Eimskipafélags Íslands. Hann lætur senn af störfum eftir þriggja ára starf á forstjórastóli. Hann rakti ástæður þess að hann lætur af störfum og fyrirtækið undir hans stjórn og fyrirætlanir nýrra eigenda Eimskips í ítarlegu viðtali við Þórhall Gunnarsson. Í Kastljósinu var rætt um landssöfnun Sjónarhóls sem fram fer um helgina í beinni útsendingu Sjónvarpsins. Vonandi er að sú söfnun gangi vel, enda mikilvægt að styrkja vel við þetta verkefni. Í Pressukvöldi Sjónvarpsins síðar um kvöldið var Þórólfur Árnason borgarstjóri, yfirheyrður. Þar var eins og við mátti búast rætt um rannsókn lögreglu og samkeppnisyfirvalda á olíufélögunum og ennfremur um fjárhagsstöðu borgarinnar og stöðu hans innan R-listans. Spurðu fréttamennirnir borgarstjórann krefjandi spurninga, er gott að tekið er á þvælunni á honum með engum silkihönskum.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á að líta á vef Útgerðarfélags Akureyringa. Útgerðarfélag Akureyringa er ein af meginstoðum Brims - sjávarútvegssviðs Eimskipafélags Íslands. Fyrirtækið er í hópi stærstu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja landsins. Meginstarfsemi félagsins snýst um öflun, framleiðslu og sölu sjávarafurða. Byggir félagið á öllum sviðum starfseminnar á áratugalangri reynslu og hefur á að skipa sérhæfðu starfsfólki á öllum sviðum sjávarútvegs.

Snjallyrði dagsins
Sannleikurinn stendur einn en vitleysan þarf stuðning hins opinbera.
Thomas Jefferson forseti Bandaríkjanna (1801-1809)