Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 nóvember 2003

Heitast í umræðunni - pistill Björns
Björgólfur Guðmundsson stjórnarformaður Landsbankans, og Styrmir Gunnarsson ritstjóri Moggans, fluttu í dag ræður á málþingi á landsfundi Samfylkingarinnar. Þar kom fram að Björgólfi hefði lengi fundist að Eimskipafélagið hefði verið allt of stórt og hefði aldrei haft frumkvæði að nokkrum hlut. Hann sagði mikilvægt að rjúfa flókin eignatengsl í fyrirtækjum til að tryggja að stjórnendur þeirra hafi ekki annarra hagsmuna að gæta en fjárfestanna. Kom fram að félagið yrði að hafa skýr markmið og það væri ekki hægt að hlaupa á milli landshluta og bjarga þessu í dag og hinu á morgun. Styrmir talaði mikið um stórar viðskiptablokkir og starfsemi þeirra og sagði að þær mættu ekki verða of stórar. Verð ég að viðurkenna að margt athyglisvert kom fram í ræðum þeirra og eflaust voru þær hápunkturinn á líflausum landsfundi krata.

Í pistli sínum í dag á heimasíðunni, fjallar Björn um tvennt, 90 ára afmæli Morgunblaðsins sem er í dag og landsfund Samfylkingarinnar um helgina. Í fyrri hlutanum fer hann vel yfir sögu Moggans, tengsl föður hans og sín við blaðið í gegnum tíðina, er það mjög fróðleg umfjöllun um mbl. Fer hann svo vel yfir landsfund og kemur með marga góða punkta.

Sunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um landsfund Samfylkingarinnar sem haldinn var um helgina – að honum loknum blasir við að valdaátökin krauma undir og að flokkurinn telji sóknarfæri sín liggja til hægri með því að taka undir stefnumál Ástu Möller í heilbrigðismálum, bandarísku forsetakosningarnar 2004 – í dag er nákvæmlega ár þar til Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu og því rétt að spá aðeins í stöðuna enda ljóst að spennandi kosningaslagur taki við, og að lokum um söguna endalausu um átökin í Heimdalli – stjórn SUS ályktaði um málið í vikunni og tel ég rétt í ljósi umræðu seinustu vikna að tjá mig um málið hér og fara yfir þætti tengda því. Að lokum óska ég Birni Bjarnasyni til hamingju með að hafa hlotið Íslensku vefverðlaunin.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gær hóf Silfur Egils á ný göngu sína í sjónvarpi. Nú á Stöð 2, en áður var þátturinn í fjögur ár á Skjá einum. Þátturinn verður nú tvískiptur, fyrri hlutinn á laugardögum en hinn á sunnudögum, báða daga kl. 18:00. Hér eftir verður laugardagsþátturinn til að fara yfir fréttir vikunnar en sunnudagsþátturinn inniheldur ítarlegri viðtöl. Í fyrsta þættinum fékk hann til sín Sigurð Kára, Reyni Traustason og Kristrúnu Heimisdóttur til að ræða fréttir vikunnar. Eins og við var að búast var mikið rætt um valdaátök í Samfylkingunni og greinilegt að Siggi Kári hitti beint í mark með að gera grín að hægrisnúningi flokksins og hitti þar beint á punkta Kristrúnar. Rætt var um vændisumræðuna og athyglisvert þar að heyra útúrsnúninga Kristrúnar á skoðunum Sigga Kára, greinilegt var að hún var nett pirruð með stöðu mála almennt innan flokksins. Að lokum kom Þorvaldur Gylfason í létt spjall. Gott er að fá Silfrið aftur á skjáinn. Það er aldrei of mikið af pólitískri umræðu í gangi.

Sjónvarpsgláp - kvikmyndir
Í gærkvöldi var venju samkvæmt horft á Gísla Martein og þátt hans. Þar var létt og gott spjall að venju. Gestir voru Felix Bergsson leikari, Örlygur Hálfdánarson bókaútgefandi og Ilmur Stefánsdóttir myndlistarkona. Skemmtileg tónlistaratriði voru, komu Ragnheiður Gröndal og Friðrik Ómar Hjörleifsson og sungu tvö lög. Gaman er að sjá hversu vel Frikka gengur í tónlistinni. Þekkjumst við vel frá því á Dalvík í denn og brölluðum reyndar margt saman. Hitti ég hann seinast á fiskideginum á Dalvík í ágúst og áttum við gott spjall. Frikki er alveg magnaður. Horfði ég svo á Spaugstofuna, þar voru mörg skemmtileg atriði. Nýyrðin meyfirðill og biðþæfingsskaft eru komin til að vera! Horfði svo á góðar kvikmyndir á dagskrá sjónvarpsstöðvanna, K-PAX með Kevin Spacey og Jeff Bridges og As Good as it Gets með Jack Nicholson og Helen Hunt. Alveg magnaðar myndir.

Vefur dagsins
Bendi ég gestum vefsins í dag að líta á vefinn rettarheimild.is. Um er að ræða heildstæða yfirlitssíðu yfir helstu lagagögn og réttarheimildir, s.s. lög og reglugerðir, dóma, stjórnvaldsúrskurði, alþjóðasamninga, niðurstöður alþjóðadómstóla og fleira. Á síðunni birtist meðal annars í fyrsta sinn heildarsafn gildandi reglugerða á netinu auk hundruða stjórnvaldsúrskurða og úrskurða Félagsdóms.

Snjallyrði dagsins
Hver sá undir þrítugu sem er ekki frjálslyndur vantar hjartað og hver sá yfir þrítugu sem er ekki íhaldsmaður vantar heilann.
Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands (1940-1945; 1951-1955)