Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 nóvember 2003

Heitast í umræðunni
Mikið hefur verið rætt um það um helgina að Fréttablaðið og DV myndu jafnvel renna saman í eitt blað undir stjórn manna tengdum Fréttablaðinu. Ekki líst mér á þessa þróun ef svona fer, enda vont fyrir fjölmiðlamarkaðinn að slík fákeppni verði hér að aðeins verði tvö blöð gefin út. Frá upphafi hefur markaðurinn getað rúmað fleiri en tvö blöð og þetta því slæmt mál. Því fleiri fjölmiðlar því betra, það sem gerist ef svona fer er að fákeppnin eykst og það skal harmað. Annars eru örlög málsins ekki enn ljós.

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, réðist harkalega að heilbrigðismálastefnu Samfylkingarinnar á þingi í dag og gerði lítið úr henni. Sagði Jón að „þessi kanína, sem þeir voru að draga upp úr hatti um helgina" að markaðslögmálið ætti að leysa vandamál í heilbrigðisþjónustu væri ekki ný af nálinni, því einkarekstur og kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu væru til staðar. Eins og ég benti á um helgina að þá eru Samfylkingarmenn aðeins að taka upp stefnu sjálfstæðismanna í þessum málaflokki.

Ásmundur Stefánsson hefur tekið við embætti ríkissáttasemjara af Þóri Einarssyni. Vonandi er að honum gangi vel í komandi kjaraviðræðum að sætta ólík sjónarmið, með sama hætti og forveri hans.

Svona er frelsið í dag
Í dag skrifar Kristinn Már athyglisverða grein á frelsið um stjórnmálaályktun landsfundar Samfylkingarinnar. Bendir hann með svipuðum hætti og ég í sunnudagspistlinum í gær að verið er að sækja í smiðju sjálfstæðismanna t.d. í heilbrigðismálum. Það er ekkert nýtt eða frumlegt við ályktun Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum. Bendir Kristinn á ályktun Sjálfstæðisflokksins í vor og því ljóst á samanburði að Samfylkingin er að fikra sig nær okkar stefnumálum. Þau sjá eins og er að sóknarfæri í stjórnmálum í dag eru hægramegin við miðju en ekki í afdankaðri vinstristefnu. Á frelsi.is er birt góð ályktun stjórnar Eyverja í Vestmannaeyjum, þar sem lýst er yfir stuðningi við sjálfstæðisbaráttu Færeyinga. Tek ég heilshugar undir hana. Að sjálfsögðu eiga Íslendingar að styðja Færeyinga í þeirra baráttu fyrir sjálfstæði frá Dönum.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í Silfri Egils í gær mætti Össur Skarphéðinsson sjálfendurkjörinn formaður Samfylkingarinnar, í spjall. Þar var mikið rætt um hvaða tök hinn svokallaði formaður (eins og skríbent á politik.is kallaði hann fyrir skömmu) hefði á flokknum. Sagðist hann vera formaður og með mikið fylgi innan hans. Nefndi hann sem dæmi að hann hefði barist gegn straumnum fyrir því að koma með byltingarkenndar hugmyndir í heilbrigðismálum fram og hefðu þær verið samþykktar. Benti þá Egill á að þetta væru hugmyndir Ástu Möller og sjálfstæðismanna og alþekktar þaðan. Eftir það var allur vindur úr formanninum, enda hann slíkur vindhani að þess eru fá takmörk að lýsa vitleysunni sem frá honum kemur. Gott dæmi er þó vissulega Evrópustefnan sem bakkað var frá vegna skoðanakannana. Ennfremur var athyglisvert viðtal við John Kay og sýnt frá ræðum Björgólfs og Styrmis frá landsfundi Sf. Egill fer ágætlega af stað, en hefur þó verið kraftmeiri finnst mér.

Sjónvarpsgláp - kvikmyndir
Eftir að hafa horft á fréttirnar og 60 mínútur horfði ég á þátt Jóns Ársæls. Gestur hans að þessu sinni söngkonan Ruth Reginalds og var spjallið við hana áhugavert, enda hefur hún kynnst ýmsu í gegnum tíðina. Horfði ég svo á fyrsta þáttinn af Viltu vinna milljón, en nú er Jónas R. Jónsson tekinn við stjórn þáttarins af Þorsteini J. Fannst mér Jónas byrja mjög vel og standa sig mjög vel. Er ég ekki frá því að hann sé mildari og hressari í þessu en Þorsteinn, jafnvel manneskjulegri. Eftir milljónaþáttinn var stillt yfir á Skjá einn og horft á spjallþátt Sigmundar Ernis. Hann ræddi þar maður á mann við Þorstein Má Baldvinsson forstjóra Samherja á Akureyri. Líflegt og gott spjall við Máa. Horfði ég svo á gamla klassíkerinn One Flew Over the Cuckoo´s Nest með Jack Nicholson. Alveg mögnuð mynd, Jack í essinu sínu þarna.

Vefur dagsins
Í seinustu viku benti ég vefi tengda því opinbera. Nú höldum við til Akureyrar og tökum fyrir vefi tengda bænum, fyrirtæki í bænum og fleira t.d. Fyrst bendi ég öllum til að líta á vef Akureyrarbæjar. Alveg magnaður vefur. Allt sem þú vilt vita um Akureyri og stjórnkerfi bæjarins er þar að finna.

Snjallyrði dagsins
Ríkið er goðsögnin mikla um að allir geti lifað á kostnað annarra.
Frederic Bastiat