Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 nóvember 2003

Heitast í umræðunni
Landsfundur VG er haldinn um helgina í Hveragerði. Í setningarræðu landsfundarins sagði Steingrímur J. Sigfússon formaður flokksins, að VG væri eini skýri valkostur vinstrimanna nú á dögum. Nefndi hann máli sínu til stuðnings leið Samfylkingarinnar til hægristefnu, t.d. í heilbrigðismálum. Má í raun segja að í ræðu sinni hafi formaðurinn ráðist harkalega að Samfylkingunni og forystufólki þess flokks. Greinilegt er að hann telur þau höfuðandstæðinga sína í pólitík. Leiðtogi VG innan R-listans telur réttast að flokkurinn bjóði fram sem víðast í eigin nafni í byggðakosningunum 2006. Brestirnir á R-listanum verða sífellt greinilegri. Enn geisa erjur á vinstrivæng íslenskra stjórnmála.

Enn eitt hneykslið skekur bresku konungsfjölskylduna. Nú hefur Karl bretaprins opinberlega neitað vissum sögusögnum um sig. Hæstiréttur Bretlands setti fjölmiðlabann á fréttina áður en hún var birt. Það varð þó ekki til að stöðva umræðu um það meðal almennings. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum mun fyrrum bílstjóri Karls hafa sakað hann um að hafa nauðgað sér árið 1989, er vitni að málinu. Þessu máli hefur verið haldið niðri síðan þá, en Díana prinsessa tók vitnisburð bílstjórans og vitnisins upp, til að geta notað gegn konungsfjölskyldunni einhverntíma og er jafnvel talið að fyrrum þjónn hennar hafi gögn um þetta og noti gegn fjölskyldunni sennilega. Breska pressan er í essinu sínu þessa dagana.

DV varð gjaldþrota í vikunni eins og flestir vita. Á fimmtudag keypti Frétt ehf. útgáfufélag Fréttablaðsins þrotabú DV. Er ætlun þeirra að halda áfram útgáfu DV. Breytingar verða hinsvegar miklar á efnistökum blaðsins. Útgáfutími þess breytist frá því að vera hádegisblað í morgunblað í beinni samkeppni við Moggann á áskriftarmarkaði. Mun blaðið verða beittara, einskonar gul pressa að breskri fyrirmynd.

Svona er frelsið í dag
Í dag fjalla ég í pistli á frelsi.is um ríkið og fjölmiðla. Eins og flestum hefur verið kunnugt hefur ríkið verið í fjölmiðlarekstri seinustu sjö áratugina. Á þessu tímabili hefur ríkið rekið útvarps- og sjónvarpsstöðvar, seinustu tvo áratugi í samkeppni við einkaaðila eftir að einokun ríkisins á ljósvakamarkaði var afnumin. Seinustu árin hafa málefni Ríkisútvarpsins verið mikið í umræðunni og einkum verið rætt um af almenningi hvort breyta eigi rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi verið þeirrar skoðunar að breyta þurfi rekstrarfyrirkomulaginu og hefur mikið verið rætt um að gera ætti Ríkisútvarpið að hlutafélagi og hafa forystumenn flokksins lengi talað fyrir þeirri hugmynd, við dræmar undirtektir t.d. Framsóknarflokksins. Rek ég hvaða breytingar eru nauðsynlegar, fjalla um RÚV viku Heimdallar, undarleg viðbrögð á vefsíðunni Maddömunni um hana og fjalla um mikilvægi þess að stofnuninni sé breytt.

Pólitíkin - kvikmyndir - gott spjall
Vegna þess að ég skrapp úr bænum í gær var ekkert blogg hér að finna í gær. Hafa vinir og ættingjar látið mig vita að þeim finnist leitt að ég skuli ekki hafa frætt þá um málin seinustu tvo sólarhringa. En jæja, best að segja hvað hefur gengið á. Á fimmtudagskvöldið fór ég á Hótel KEA á fund Frjálshyggjufélagsins. Þar fluttu Haukur Örn Birgisson og Gunnlaugur Jónsson góðar framsögur og skýrðu stefnu félagsins. Eftir það voru líflegar stjórnmálaumræður. Að fundi loknum hélt góður hópur á kaffihúsið Amour og var þar spjallað um stjórnmál og fleira. Að morgni föstudagsins fór ég til Dalvíkur á fund vegna bæjarmála þar. Var þetta seinasti fundurinn sem ég sit þar. Vona ég að Svansa og félagar mínir í forystu flokksins stýri málum vel og farsællega eins og ávallt og flokknum gangi vel þar í næstu kosningum. Að kvöldi föstudags fór ég í Idol partí, er að verða hefð á föstudagskvöldum. Var þar gætt sér á ljúffengum Dominos pizzum og bjór. Eftir þáttinn var magnað spjall um ýmis mál í gangi. Um miðnættið fór ég í bíó og sá hina mögnuðu The Matrix Revolutions, lokakafla Matrix trílógíunnar. Mögnuð mynd fyrir mig spennufíkilinn. Að þessu loknu fór ég út og skemmti mér með nokkrum vinum.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á fréttavef Norðausturkjördæmis. Þar eru ítarlegar fréttir frá Akureyri, Eyjafirði og kjördæminu öllu. Góður fréttavefur.

Snjallyrði dagsins
Frelsi manna á ekki að vera bundið nema þar, sem öllu félaginu(þjóðinni) mætti verða skaði, að það gengi fram
Jón Sigurðsson forseti.