Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 janúar 2004

George W. Bush forseti BandaríkjannaHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, hóf formlega kosningabaráttu sína fyrir forsetakosningarnar með stefnuræðu sinni á Bandaríkjaþingi í nótt. Þetta er síðasta stefnuræða forsetans á þessu kjörtímabili. Þar fór hann yfir t.d. innrásina í Íraka, heilbrigðismál, herferð gegn hryðjuverkum og viðskiptamál. Forsetinn sagði í ræðunni fall ríkisstjórnar Saddams Husseins mikið framfaraspor og staðhæfði ennfremur að festa í baráttunni við hryðjuverkamenn og stuðningsríki þeirra hefði þegar skilað margþættum árangri. Einkum hefði það sést er tekist hefði að sannfæra Moammar Gaddafi forseta Líbýu, um skynsemi þess að hætta við áform sín um að koma sér upp gjöreyðingarvopnum. Bush varaði landsmenn við því að sofna á verðinum, nauðsyn væri til að halda vöku sinni, enda óvinurinn ekki af baki dottinn. Hvatti hann í ræðunni þingið til að endursetja föðurlandslögin svonefndu, sem veita lögreglu og yfirvöldum öryggismála mikið vald en þrengja almenn réttindi manna. Þetta væri ill nauðsyn í baráttunni við hryðjuverkamenn. Í dag hélt Bush fundi með námsmönnum í Ohio og Arizona, og kynnti betur stefnu stjórnar sinnar. Forsetakosningar verða í Bandaríkjunum, 2. nóvember nk.

Færeyski fáninnÞingkosningar voru haldnar í Færeyjum í gær. Litlar breytingar urðu í kosningunum á fylgi flokkanna. Því hafði verið spáð fyrir kosningar að stjórnarandstöðuflokkarnir, Sambandsflokkurinn og Jafnaðarmannaflokkurinn, myndu ná þingmeirihluta og bæta við sig báðir fylgi. Það gekk ekki eftir. Sambandsflokkurinn missti rúmlega tvö prósentustig og einn þingmann, en héldu þó stöðu sinni sem stærsti flokkur landsins en hefur nú 8 þingmenn, jafnmarga og Þjóðveldisflokkurinn. Hart var sótt að Anfinn Kallsberg lögmanni, og Fólkaflokknum sem veitt hefur forsæti stjórn landsins seinustu ár. Anfinn og flokkurinn halda velli, halda sínum sjö þingmönnum. Það er því ljóst að atlaga sumra stjórnmálamanna að lögmanninum hefur misheppnast. Jafnaðarmenn fengu ennfremur sjö, Miðflokkurinn hlaut tvo þingmenn og Sjálfstýriflokkurinn hlaut einn. Lisbeth L. Petersen formaður Sambandsflokksins, hefur tilkynnt afsögn sína og mun Alfred Olsen varaformaður, sitja á formannsstóli fram að landsfundi flokksins í mars. Sú sveifla sambandsflokkanna sem spáð var gekk ekki eftir, sjálfstæðisflokkarnir hafa enn meirihluta á þingi. Óvíst er með stjórnarmyndun, en ljóst er þó að sigurvegari kosninganna er Anfinn Kallsberg lögmaður.

Howard DeanEftir að hafa fengið vænan skell í forkosningunum í Iowa er Howard Dean kominn til New Hampshire, til að reyna að hleypa lífi í kosningabaráttu sína. Eftir að hafa verið talinn sigurstranglegastur í Iowa ásamt Dick Gephardt lengi vel, lenti hann þar að lokum í þriðja sæti með 18%, langt á eftir John Kerry sem hlaut 38% og John Edwards, er hlaut 32%. Dick Gephardt hætti baráttu sinni eftir afhroðið í Iowa. Eftir að hafa verið talinn sigurstranglegastur forsetaframbjóðenda demókrata og hafa hlotið stuðningsyfirlýsingu frá Al Gore og Jimmy Carter, hefur framboð Deans misst dampinn. Er augljóst að þar kemur einkum til, að andstaða hans við Íraksstríðið hefur orðið honum fjötur um fót eftir handtöku fyrrum forseta Íraks. Eftir handtökuna hefur fylgi Deans minnkað jafnt og þétt og hann misst forystuhlutverkið til John Kerry og Wesley Clark. Dean berst nú fyrir stöðu sinni í kosningaslagnum, með tapi í New Hampshire er hann úr leik. Því er engin furða að hann berjist af krafti í New Hampshire.

Helga Baldvinsdóttir BjargardóttirSvona er frelsið í dag
Í dag birtist góður pistill Helgu um R-listann. Orðrétt segir hún: "R-listinn hefur löngum verið talinn duglegur við að taka á vandamálum. Þegar nektardansstaðir ætluðu að tröllríða borginni með öllum sínum ósóma, var brugðið á það ráð að banna þá iðju sem einkadans nefnist. Ýmsir vildu meina að vændi væri einnig stundað á slíkum stöðum og var það notað sem rök fyrir banninu. Bannið hafði tilætluð áhrif því nektardansstaðirnir hurfu úr borginni. Sá möguleiki að vinna sér inn pening með því að fækka fötum hvarf einnig. Vændið hvarf þó ekki, þrátt fyrir að það færðist úr augsýn stjórnmálamannana. Nei, þeim R-listamönnum tókst ekki, öllum til mikillar undrunar, að útrýma vandamálinu. Í stað þess að sjá að sér og hverfa frá banninu ályktaði einhver nefnd sem kennd er við jafnrétti um hvernig best væri nú að útrýma vandamálinu á landsvísu. Var sú ályktun utan skilgreinds verksviðs nefndarinnar." Á frelsinu er margt annað efni í dag, t.d. pistill Steina um WTO og góð grein eftir Jón Elvar Guðmundsson.

Bafta verðlaunastyttanBafta kvikmyndaverðlaunin
Tilkynnt var á mánudag um tilnefningar til Bafta, bresku kvikmyndaverðlaunanna 2004. Kvikmyndirnar Cold Mountain og Lord of the Rings: The Return of the King hlutu flestar tilnefningar. Cold Mountain, sem gerist í bandaríska borgarastríðinu, hlaut tilnefningar í alls 13 flokkum, m.a. tilnefnd sem besta kvikmynd ársins og fyrir leik Jude Law og Renée Zellweger. Athygli vakti að aðalleikkonan Nicole Kidman hlaut ekki tilnefningu. ROTK hlaut 12 tilnefningar, m.a. fyrir leikstjórn og sem besta mynd ársins. Auk þessara tveggja mynda voru tilnefndar sem besta mynd: Big Fish, Lost in Translation og Master and Commander. Leikkonan Scarlett Johansson kom á óvart og hlaut tvær tilnefningar í flokknum besta leikkonan, bæði fyrir Lost in Translation og Girl with a Pearl Earring. Sama var með Sean Penn sem bæði var tilnefndur fyrir leik sinn í Mystic River og 21 Grams. Fyrir leikstjórn voru tilnefnd Peter Jackson, Tim Burton, Anthony Minghella, Sofia Coppola og Peter Weir. Mikla athygli vakti að fáir breskir leikarar voru tilnefndir þessu sinni. Á seinustu árum hefur Bafta fest sig í sessi sem ein af helstu kvikmyndahátíðum heims og er komin þar á svipaðan stall og Golden Globe og Óskarsverðlaunin og vilja oft gefa góða mynd um hvað gerist á Óskarnum. Tilnefningar til Óskarsins verða tilkynntar nk. þriðjudag. Bafta verðlaunin verða afhend 15. febrúar nk.

PsychoKvikmyndir
Í gærkvöldi horfði ég enn einu sinni á meistaraverk Sir Alfred Hitchcock, Psycho. Það var árið 1960 sem Hitch gerði þessa mögnuðu kvikmynd, eftir samnefndri bók Robert Bloch. Var lítil og ódýr í framleiðslu, en hreint meistaralega uppsett í spennu og hryllingi. Hér er sögð saga ungrar konu sem stelur peningafúlgu frá vinnuveitanda sínum og leggur á flótta með þá. En hún mætir skapara sínum þegar hún tekur þá örlagaríku ákvörðun að eyða nóttinni á hinu sögufræga Bates-móteli. Skartar einu eftirminnilegasta morðatriði kvikmyndasögunnar, hinu fræga sturtuatriði - þar sem varla sést blóðdropi en leikstjórinn beitir klippingum og áhrifstónlist til að ná fram hryllingnum. Fleiri atriði má telja upp, sem öll ná fram hámarksáhrifum með lágmarks blóðsúthellingum. Alfred Hitchcock kallaði sjálfur myndina lítinn og nettan brandara en fáum hefur tekist að útskýra þá lýsingu sómasamlega. Kvikmyndin stendur enn í dag fyrir sínu og meira en það. Meistaraverk!

Vefur dagsins
Breski Íhaldsflokkurinn er með góðan vef á netinu. Þar er hægt að kynnast betur stefnumálum flokksins og pólitískri sýn leiðtoga hans, Michael Howard. Bendi í dag á heimasíðu breska Íhaldsflokksins.

Snjallyrði dagsins
Ofstjórn er versti vargur allra lýða.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964)