Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 febrúar 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Um fátt hefur verið rætt meira í dag en ríkisráðsfundinn á sunnudag og eftirmála hans. Fram kom í gær að forseti Íslands var ekki látinn vita af fundinum, þótti honum það óviðeigandi þó hann væri í fríi erlendis og hefði við brottför afsalað sér forsetaskyldum formlega. Tjáði hann sig afdráttarlaust að því er virtist um málið og virtist mjög reiður. Í gærkvöldi tjáði Halldór Blöndal forseti Alþingis, sig ennfremur um málið í Kastljósi Ríkissjónvarpsins. Kom fram í viðtalinu að honum hefði þótt viðeigandi að forseti Íslands, hefði verið á landinu þegar haldið var upp á aldarafmæli heimastjórnar og tekið þátt í því sem þá var að gerast. Sagði Halldór að forseti hefði verið erlendis og því hefðu handhafar forsetavalds gegnt störfum hans á meðan og því stýrt ríkisráðsfundinum. Í morgun tjáði Davíð Oddsson forsætisráðherra, skoðun sína á þessu máli eftir ríkisstjórnarfund. Sagðist hann ekki skilja reiði forsetans. Sagði Davíð að forsetinn hafi sjálfur valið að vera erlendis og vegna þess að hann kaus að vera ekki viðstaddur hátíðarhöld 1. febrúar hafi varla verið ástæða fyrir hann að sækja 7 mínútna langan ríkisráðsfund. Þegar Davíð var spurður um viðbrögð sín vegna reiði forsetans sagði hann: "Þau eru ekki nein. Dálítið óskiljanleg, náttúrulega, en hann ákvað að vera í skíðafríi á þessum tíma og það er hans ákvörðun. Við hvern getur hann verið reiður?" Margt til í þessu, eins og ég fjallaði um í gær.

AlþingiÍ dag var þetta mál rætt í utandagskrárumræðu á þingi. Orðrétt sagði forsætisráðherra í umræðum: "Umræðan um ríkisráðsfundinn er upphlaup og alveg út í himinblámann, þekkingarleysi fjölmiðla nær algjört og glappaskot af Samfylkingunni að taka svona vitlaust mál upp á sínar herðar". Davíð sagði að boðun ríkisráðsfundarins hefði verið nákvæmlega í samræmi við stjórnskipunarreglur og venjur ríkisins og ekki að nokkru leyti frábrugðin þeim. "Það er þannig til að mynda þegar handhafar forsetavalds staðfesta lög í fjarveru forseta - sem þeir hafa gert, ekki tugum sinnum heldur hundruðum sinnum - þá er aldrei við þau tækifæri haft samband við forsetann eða forsetaskrifstofuna. Það eru mikilvægustu verkefni forsetans. Og þegar ákveðið er að halda ríkisráðsfund vegna 1. febrúar, reglugerðar um Stjórnarráðið sem átti 100 ára afmæli þann dag, er að sjálfsögðu haft samband við handhafa forsetavalds sem gegna stöðu forsetans. Allt annað er alveg fráleitt að halda fram að sé einhver regla." Davíð sagði að handhafar forsetavaldsins hefðu fengið bréf frá forseta Íslands, 23. janúar þar sem fjarveran var boðuð. "Ég hafði ekki hugmynd um að forseti Íslands væri farinn til útlanda. Hann hafði ekki rætt það við forsætisráðuneytið. Hann vissi mjög vel um fyrsta febrúar enda kom það fram í hans áramótaávarpi eins og menn vita. Þannig að þetta upphlaup núna er algjörlega úti í himinblámann.“

Færeyski fáninnstjórn tók við í Færeyjum í dag. Jóhannes Eidesgaard formaður Jafnaðarflokksins, var kjörinn lögmaður Færeyja á þingfundi í dag, auk hans sitja sex ráðherrar í stjórninni. Fólkaflokkurinn, Sambandsflokkurinn og Jafnaðarflokkurinn mynda landsstjórn Færeyja nú. Þeir hafa mjög öruggan meirihluta á þinginu, alls 21 þingmann af 32. Hefur ekki fyrr verið mynduð stjórn í Færeyjum með svo traustum þingmeirihluta og hafa þessir flokkar ekki fyrr starfað saman. Fólkaflokkurinn fær þrjú sæti í landsstjórninni, en hinir flokkarnir tvo hver. Ráðherrar Fólkaflokksins eru: Bjarni Djurholm, Jógvan á Lakjuni og Jógvan við Keldu. Varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að hitta Bjarna og Óla Breckmann í Færeyjaferð minni sl. sumar. Vonbrigði er að Anfinn Kallsberg verði ekki lögmaður áfram, en hann nýtur stuðnings almennings í það embætti. Jóhannes Eidesgaard er 11 maðurinn sem gegnir embætti lögmanns frá því færeyska heimastjórnin var sett á fót árið 1948.

SUSSvona er frelsið í dag
Á frelsinu í dag er fjallað um ráðstefnu SUS um menntamál í Hafnarfirði, 7. febrúar nk. Ennfremur birtist pistill Stefáns Ottó um vandamál Landsspítala Háskólasjúkrahúss. Orðrétt segir hann: "Það sem er mikilvægast að spyrja sig að í þessu samhengi er hvort ekki sé verið að gefa óþarflega mikið af lyfjum. Það eru ekki nægilega margir lyfjafræðingar hjá LSH til að búa til heildar meðferð fyrir flesta hvað þá alla sjúklinga. Það er mikilvægt að ekki sé verið að gefa fólki lyf sem það hefur ekki raunverulega þörf fyrir. Við núverandi rekstrarform spítalanna er fjármunum illa varið, það er lítið hagrætt í rekstri, framleiðsluþættir eru illa nýttir og stjórnun er ekki nógu markviss. Eðli málsins samkvæmt þar sem stjórnkerfi spítalans er tvískipt þannig að tveir menn eru í æðstu stöðum án þess að hafa nokkuð yfir hinum að segja. Þetta torveldar allt skipulag og gerir ákvarðanatöku ómarkvissa. Lausnin felst í auknum einkarekstri."

Sigmar, Svansí og KristjánDægurmálaspjallið
Klukkan 19.00 í gærkvöldi sneri Páll Magnússon aftur á skjáinn sem aðalfréttalesari Stöðvar 2, eftir rúmlega þriggja ára fjarveru. Páll sem á föstudag var ráðinn formlega framkvæmdastjóri dagskrársviðs Norðurljósa, mun nú taka við af Karli Garðarssyni sem aðalfréttalesari stöðvarinnar. Las hann fréttir stöðvarinnar í gær með nýjum fréttastjóra, Sigríði Árnadóttur. Verð að viðurkenna að fáir eru betri fréttalesarar en Páll, reyndar enginn karllesari betri í dag. Það verður gaman að sjá hann og Eddu saman á skjánum aftur. Allavega gott hjá Stöð 2 og gæti vel verið að hér eftir horfi maður á fagmannlegan lestur Páls á kvöldin. Í Kastljósinu var Halldór Blöndal forseti Alþingis, gestur Svansíar og Kristjáns. Rætt var um ríkisráðsfundinn á föstudag og Halldór eins og venjulega ófeiminn við að tjá sínar skoðanir. Gott viðtal við forseta vorn, gat ekki betur séð en að þau Svansí tækju smá snerru saman. Ennfremur var endurflutt símaviðtal við forseta Íslands, sem er ósáttur greinilega við sinn hlut í miðju fríi í Aspen. Í Íslandi í dag ræddu Hjörtur J. Guðmundsson og Guðrún Ögmundsdóttir, innflytjendamál og voru hvergi nærri sammála. Hefði mátt taka lengri tíma í þetta spjall.

Thirteen DaysStjórnmál - kvikmyndir
Fór í gærkvöldi á bæjarmálafund í Kaupangi, þar sem bæjarmálin voru rædd við bæjarstjóra og bæjarfulltrúa flokksins. Bæjarmálafundir eru alltaf annaðhvert mánudagskvöld og kjörið tækifæri fyrir bæjarbúa til að heyra stöðu mála frá kjörnum fulltrúum flokksins. Áttum gott spjall um ýmis mál. Að fundi loknum hélt ég heim og við horfðum á kvikmyndina Thirteen Days. Pólitísk úrvalsmynd eins og þær gerast bestar, byggð á raunverulegum atburðum og fjallar um þrettán sögulega daga í októbermánuði 1962 er alheimurinn var á barmi kjarnorkustyrjaldar. Er bandarískur kafbátur tekur myndir af sovéskum kjarnorkueldflaugum á Kúbu ætlar allt um koll að keyra því þeim er beint að Bandaríkjunum. Kennedy forseti, er á báðum áttum um hvað eigi að gera í málinu en ákvörðunin um næstu aðgerðir er hans, enda er forseti Bandaríkjanna einn valdamesti maður heims. Líf milljóna jarðarbúa eru þannig sett á herðar forsetans og fylgjumst við gaumgæfilega með 13 magnþrungnum dögum í lífi John Fitzgerald Kennedy forseta, og ráðgjafa hans sem reyna að komast að þeirri niðurstöðu sem bjargar mannkyninu frá eilífri glötun.

Dagurinn í dag
* 1937 Norðurljósahjálmur sást á lofti í Eyjafirði í fyrsta og eina sinn á Íslandi á 20. öld
* 1944 Hótel Ísland, sem þá var stærsta timburhús í Reykjavík, brann til kaldra kola
* 1975 Gunnar Þórðarson hlaut listamannalaun, fyrstur popptónlistarmanna
* 1981 Síðasti torfbærinn í Reykjavík rifinn, hann stóð við Suðurgötu
* 1991 Eitt mesta fárviðri á 20. öld gekk yfir landið - vindhraði mældist 66 metrar á sekúndu

Snjallyrði dagsins
You know, we are sitting here, you and I, like a couple of regular fellas. You do what you do, and I do what I gotta do. And now that we've been face to face, if I'm there and I gotta put you away, I won't like it. But I tell you, if it's between you and some poor bastard whose wife you're gonna turn into a widow, brother, you are going down.
Vincent Hanna í Heat