Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 febrúar 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra er gestapenni helgarinnar á vefritinu Tíkinni sem ungar hægrisinnaðar konur halda úti. Þetta er í fyrsta skipti sem forsætisráðherra skrifar pistil á netið. Pistill Davíðs fjallar um eignarhald á fjölmiðlum. Orðrétt segir Davíð: "Því miður hefur tilkoma fyrirtækjamálgagna að undanförnu grafið undan trúverðugleika íslensks viðskiptalífs. Það þarf til dæmis engan sérstakan speking til að sjá hversu óheppilegt það er að viðskiptasamsteypa með umtalsverð ítök í íslensku viðskiptalífi er eigandi fjölmiðla. Hvað þá að fjölmiðlar í eigu hennar skuli vera í lykilstöðu á fjölmiðlamarkaði. Fjölmörg dæmi hafa verið nefnd á opinberum vettvangi hvernig fjölmiðlar í eigu Baugs hafa ítrekað verið staðnir að því að láta hagsmuni eigenda sinna ganga fyrir hagsmunum almennings. Nú nýverið bættist í þann haug enn eitt dæmið um vinnubrögð á þessum fjölmiðlum, sem hlýtur að auka á áhyggjur manna um hæfi eigendanna til að reka fjölmiðil. Hallur Hallsson, fyrrverandi fréttamaður, birti nýlega grein í Morgunblaðinu. Þar ræddi hann á skilmerkilegan hátt um hvernig Fréttablaðinu var beitt í pólitískum tilgangi eigenda þess. Meðal annars ræddi Hallur sérstaklega hvernig trúnaðarskjöl stjórnar Baugs bárust til ritstjóra Fréttablaðsins. Þögn forráðamanna fyrirtækisins um þetta mál og sú staðreynd að tveir af stjórnarmönnum fyrirtækisins sögðu sig úr stjórn vegna þessa hlýtur að vekja mikla athygli."

Tony BlairÁsakanir sem fram komu í vikunni þess efnis að breska stjórnin hafi látið hlera skrifstofu Kofi Annan framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í aðdraganda Íraksstríðs, þykja draga enn frekar úr trúverðugleika ríkisstjórnar Tony Blair. Hefur nú verið upplýst að tveir seinustu vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna, voru einnig hleraðir í starfi. Richard Butler, sem gegndi starfi vopnaeftirlitsmanns Sameinuðu þjóðanna frá 1997 til 1999, segist hafa vitað að fjögur ríki í öryggisráðinu; Bretar, Frakkar, Bandaríkjamenn og Rússar, hafi fylgst með símtölum hans. Þá greindi útvarpsstöðin ABC í Ástralíu frá því að samkvæmt heimildum áströlsku leyniþjónustunnar hefðu samtöl Hans Blix ennfremur verið hleruð. Hvað varðar ásakanir Clare Short um að Bretar hafi hlerað skrifstofu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna þá geta SÞ ekki sett ofan í við bresku stjórnina. Njósnirnar hafa engar lagalegar afleiðingar þótt hlerun sé brot á alþjóðalögum og stofnunin sé friðhelg. Líklegast er að Blair forsætisráðherra, muni komast hjá því að axla ábyrgð; hann hafi sagt ummæli Shorts ábyrgðarlaus en hafi þó ekki neitað þeim.

SUSGóður föstudagur
Fór suður með flugi um þrjúleytið í gær. Klukkan hálffimm var fundur í Valhöll í utanríkismálanefnd SUS þar sem farið var yfir ýmis mál. Á fundinum voru góðir gestir, sem hafa lengi fylgst með bandarískum stjórnmálum. Fræddu þeir okkur um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, og fóru yfir stöðuna og komu með þeirra mat á hvað kosningarnar munu snúast um. Á fundinum flutti ég erindi um málefni sendiráða og fór yfir marga þætti, einkum þó kostnað við rekstur þeirra og vék ennfremur að umsókn Íslendinga um sæti í Öryggisráði SÞ. Ástæða þess að ég tók saman erindi um þetta, er auðvitað sú að Sjálfstæðisflokkurinn mun taka við utanríkisráðuneytinu í haust. Að fundinum loknum fórum við í nefndinni niður í salinn í Valhöll, þar sem hófst kl. 17:30 hóf. Var þar sus.is opnuð að nýju og nýtt útlit vefsins formlega kynnt. Er ég þar í ritstjórn og hlakka til samstarfs við aðra sem vinna að verkefninu, en það er góður hópur sem þar er samankominn. Í hófinu átti ég góð samtöl við félaga innan SUS og ennfremur þau Birgi Ármannsson alþingismann og Ástu Möller, sem situr nú á þingi í fjarveru forsætisráðherra. Var þar farið yfir stjórnmálin og fleiri málefni að auki. Við Ásta ræddum mikið saman um heimasíður og pólitísk skrif á netinu, en hún hefur nú opnað opnað vef sinn á ný. Átti ég góða stund svo í gærkvöldi með félögum mínum, þeim Kristni Má og Snorra, og var um margt að ræða. Mikið um að vera hjá Heimdalli og gaman að fræðast um stöðu mála þar og svo er pólitíkin alltaf jafn skemmtilegt umræðuefni. Þetta var virkilega góð kvöldstund.

GothikaKvikmyndir
Fór í bíó í gærkvöldi með góðum vini. Fengum okkur hressingu í Smáralind og röbbuðum vel saman, skelltum okkur svo í Smárabíó og horfðum á kvikmyndina Gothika með óskarsverðlaunaleikkonunni Halle Berry í aðalhlutverki. Ekta spennutryllir, er segir frá geðlækninum Miröndu Grey. Hún vinnur á geðspítala við ummönnun sjúklinga sem eru mjög andlega vanheilir, er ennfremur eiginkona yfirmanns geðspítalans, Douglas Grey. Kvöld eitt er hún á leið heim til sín og lendir í bílslysi og undarlegri atburðarás. Er hún vaknar, þrem dögum síðar, er hún stödd á geðspítalanum, en þá ekki sem geðlæknirinn Miranda Grey, heldur sem sjúklingurinn og morðinginn Miranda Grey. Hún man í fyrstu lítið hvað gerðist, en smátt og smátt fer atburðarásin að skýrast. Ágætis spennutryllir, sem á virkilega góð augnablik og nær vissum hápunktum, þar sem áhorfandinn tekur andköf og tvö eða þrjú augnablik, slær hjartað helmingi hraðar en ella. Margt í handritinu er einkar gloppótt. Halle Berry stendur sig afbragðsvel í aðalhlutverkinu og á stóran þátt í að myndin nær ágætishæðum. Góð mynd fyrir þá sem hafa áhuga á ekta spennumyndum.

Dagurinn í dag
* 1066 Westminster Abbey dómkirkjan í London vígð
* 1920 Þilskipið Valtýr ferst fyrir sunnan land og með því 30 manns
* 1972 Sögulegri heimsókn Nixons Bandaríkjaforseta til Kína lýkur formlega
* 1983 Alþingi samþykkir að Ó, guð vors lands, sé þjóðsöngur og sameign þjóðarinnar
* 1986 Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar, myrtur á götuhorni í Stokkhólmi

Snjallyrði dagsins
This is my moment.
Aurora Greenway í Terms of Endearment