Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 apríl 2004

Dr. Condoleezza RiceHeitast í umræðunni
Dr. Condoleezza Rice þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjastjórnar, bar vitni fyrir bandarískri þingnefnd í dag, sem rannsakar aðdraganda hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001. Kom fram í vitnisburði hennar að Bush forseti hefði gert sér grein fyrir hættunni, sem stafaði af hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda um leið og hann tók við embætti forseta Bandaríkjanna, þann 20. janúar 2001. Sagði hún í vitnisburði sínum að það hefði verið fyrsta stóra stefnumörkun forsetans í embætti í þjóðaröryggismálum að grípa til aðgerða til að útrýma samtökunum. Ríkisstjórnin hefur sætt harðri gagnrýni að undanförnu fyrir að hafa vanmetið hættuna, sem bæði stafaði af al-Qaeda og Osama bin Laden. Orðrétt sagði dr. Rice: "Bush forseti gerði sér grein fyrir ógninni. Hann gerði okkur ljóst, að hann vildi ekki bregðast við árásum al-Qaeda einni af annarri og sagði mér að hann væri orðinn þreyttur á að 'drepa flugu' ". Yfirlýsing Rice er í öllum meginatriðum andstæð framburði Richard Clarke, sem áður stýrði aðgerðum forsetaembættisins gegn hryðjuverkastarfsemi. Clarke sagði sömu þingnefnd í vitnisburði fyrir hálfum mánuði að Bush hefði ekki talið al-Qaeda vera alvarlega ógnun við þjóðaröryggi Bandaríkjanna fyrr en eftir hryðjuverkaárásirnar.

KynjamerkinMeð hreinum ólíkindum hefur verið að fylgjast með málflutningi Femínistafélagsins undanfarið. T.d. þegar kemur að afskiptum þeirra af fegurðarsamkeppni framhaldsskólanna, þar sem þær óska eftir afskiptum menntamálaráðherra til að stöðva hana af. Þetta birtist svo aftur þegar kemur að ráðningu í störf almennt, þar sem Femínistar telja að ráða eigi konu í starf séu kona og karl jafnhæf. Mér finnst það alveg einfalt að ráða eigi í stöður eftir hæfni og líka eftir huglægu mati. Það er eitur í mínum beinum þegar farið er að tala um kynjakvóta og staðla þannig tengd. Fólk á að komast áfram á eigin verðleikum en ekki kynjakvótum sem sett eru beinlínis til að breyta mati úr því hver sé hæfastur til starfsins í það hvort um sé að ræða jafnan hlut kynjanna. Tek ég undir með dómsmálaráðherra að jafnréttislögin séu tímaskekkja og tel mikilvægt að huga að uppstokkun þeirra. Þar sem ég mun taka þátt í störfum jafnréttis- og fjölskyldunefndar Akureyrarbæjar, mun ég ekki hika við að tjá mínar skoðanir, t.d. gegn kynjakvótunum.

Snorri StefánssonSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu góður pistill eftir Snorra um jafnstöðulögin. Orðrétt segir: "Markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins svo sem segir í 1. gr laganna. Markmiðið er í eðli sínu mótsagnarkennt þar sem sitt er hvað jafnrétti og jafnstaða en hvort tveggja felst í markmiðslýsingunni. Þegar keppt er að einhverju hlutfalli er í mörgum tilvikum óhjákvæmilegt að hunsa jafnréttissjónarmið. Það getur ekki alltaf farið saman að allir skuli hafa jafnan rétt óháð kynferði og að jafna skuli hlutföll kynjanna, annað verður undan að láta. Jafnstöðumarkmið laganna eru því óeðlileg andstætt jafnréttismarkmiðinu. Það er ekki þar fyrir að hlutföll kynjanna geti ekki orðið jöfn. Sé jafnrétti við lýði er líklegra en hitt að hlutföllin muni smám saman jafnast út. Þegar lagt er af stað með jafnrétti vita allir að hverju þeir ganga, fólkið veit þá að það verður metið að verðleikum. Hver og einn ætti því að geta stefnt að sínum markmiðum óhikað, vitandi það að þegar til kemur mun viðkomandi vera metinn á grundvelli þess hver hann er en ekki þess hvers kyns hann er. Með þær upplýsingar í farteskinu ætti engin kona og engin karl að þurfa að hika við að stefna að því að ná sínum markmiðum." Allir að lesa þennan pistil. Ennfremur bendi ég á ályktun stjórnar Heimdallar um breytingar á sölu áfengis. Vert er að taka undir hvert orð í henni.

Dagurinn í dag
1571 Guðbrandur Þorláksson var vígður Hólabiskup - hann sat á þeim stóli í 56 ár
1703 Fyrsta manntalið í heiminum sem náði til heillar þjóðar var tekið á Íslandi
1973 Listmálarinn Pablo Picasso deyr á heimili sínu í Cannes við frönsku rívíeruna
1975 Ingrid Bergman hlaut óskarinn fyrir leik sinn í Murder on the Orient Express
1989 Jóhannes Jónsson kaupmaður, opnaði fyrstu Bónusverslunina við Skútuvog

Snjallyrði dagsins
Þú getur haft mig fyrir því, að frelsi er meira vert en lofthæðin í bænum.
Bjartur í Sumarhúsum (Sjálfstætt fólk eftir Halldór Kiljan Laxness)