Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 mars 2004

Dr. Condoleezza RiceHeitast í umræðunni
Dr. Condoleezza Rice þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjastjórnar, mun bera vitni eiðsvarin fyrir þingnefnd, sem rannsakar aðdraganda hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001. Ennfremur munu George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Dick Cheney varaforseti, boðist til að bera vitni fyrir nefndinni, en með því skilyrði að það verði ekki gert fyrir opnum tjöldum. Hvíta húsið hafði áður gefið til kynna að dr. Rice myndi ekki koma fyrir nefndina en mikill þrýstingur hefur verið á bandarísk stjórnvöld um að hún beri vitni vegna gagnrýni, sem komið hefur fram á viðbúnað Bandaríkjamanna við hugsanlegum hryðjuverkum. Richard Clarke fyrrum yfirmaður baráttunnar gegn hryðjuverkum, gagnrýndi í vitnisburði sínum fyrir frammi nefndinni og nýlegri bók sinni, ríkisstjórnina fyrir aðgerðarleysi í aðdraganda 11. september 2001, en embættismenn í Hvíta húsinu hafa ráðist harkalega að Clarke og saka hann um að vilja koma höggi á Bush og hleypa lífi í sölu bókar sinnar um efnið. Scott McClellan talsmaður Hvíta hússins, sagði við blaðamenn í dag að nefndin hefði fallist á að gefa skriflega yfirlýsingu um að hvorki vitnisburður Rice né Bush og Cheney, myndi raska stjórnarskrárbundnum ákvæðum um aðskilnað framkvæmda- og löggjafarvalds.

Jean-Pierre Raffarin og Jacques ChiracJacques Chirac forseti Frakklands ákvað í morgun að Jean-Pierre Raffarin myndi gegna áfram embætti forsætisráðherra landsins, þrátt fyrir ákafan þrýsting um að hann skyldi látinn víkja og annar skipaður í hans stað. Ríkisstjórnin sagði í morgun af sér og ennfremur Raffarin en forsetinn skipaði hann þegar í stað aftur í embætti og fól honum að mynda starfhæfa stjórn. Eins og ég sagði frá í gær voru úrslit frönsku sveitarstjórnarkosninganna mikið áfall fyrir forsetann og stjórnina. Sósíalistar unnu sigur í nær öllum 26 héruðum Frakklands og stjórnarflokkarnir guldu afhroð og hlutu aðeins 37% atkvæða en sósíalistar og stuðningsflokkar þeirra tæplega helming atkvæða. Erfitt er að spá í stöðu forsætisráðherrans, þó hann sitji áfram. Flestir eru á því að hann verði látinn fara frá seinna á árinu þegar efnahagsumbætur ríkisstjórnarinnar verða endanlega komnar í gegn og breytt þá um forystu. Raffarin er óvinsælasti stjórnmálamaður landsins um þessar mundir og því ekki farsælt hægristjórninni að hann leiði hana áfram mikið lengur.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherraHalldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun fyrirhugað samkomulag EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins sem tryggir að stækkun Evrópska efnahagssvæðisins taki gildi 1. maí nk. samtímis stækkun Evrópusambandsins. Þann dag ganga 10 ný ríki í sambandið. Með samkomulaginu er komið í veg fyrir að dráttur verði á stækkun EES jafnvel þó einstök aðildarríki ESB hafi ekki lokið því að fullgilda samninginn um stækkun EES. Stefnt er að því að samkomulagið verði undirritað í Brussel í næstu viku. Ráðherra segir í Stiklum, vefriti utanríkisráðuneytisins, að hann fagni þessu samkomulagi og líti svo á að stækkun EES sé komin í örugga höfn. Almenn samstaða ríki á Alþingi um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins, en hún hafi verið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Kostir EES-samningsins séu þannig óumdeildir ólíkt því sem margir héldu fram þegar samningurinn var gerður. Almenningur er greinilega á sama máli en fram kom í nýlegri skoðanakönnun að 72% landsmanna töldu samninginn hafa haft jákvæð áhrif á íslenskt samfélag.

Atli Rafn BjörnssonSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins fjallar Atli Rafn um mikilvægi þess að einkavæða sem fyrst Símann. Eins og fram kom fyrir nokkrum dögum er stefnt að sölu fyrirtækisins fyrir lok þessa árs. Orðrétt segir Atli Rafn: "Þær erfiðu markaðsaðstæður sem ollu því að fresta varð sölu Landsímans eru ekki lengur til staðar. Þvert á móti þá hefur ítrekað komið fram hjá greiningar- og markaðsaðilum að Kauphöllinni sárlega vanti fleiri góða kosti. Mikið fjármagn leitar nú fárra fjárfestingatækifæra og margir líta híru auga til Símans enda fyrirtækið öflugt. Sala á þessum tímapunkti mun því bæði styrkja Símann sem á í mikilli samkepnni við einkafyrirtæki og einnig Kauphöllina þar sem áhugasamir fjárfestar s.s. lífeyrissjóðir virðast nú tilbúnir til að kaup hlut í félaginu. Það sem mestu máli skiptir er hins vegar að einkavæðing stuðlar að bættum rekstri starfsmönnum og eigendum til hagsbóta, betri þjónustu fyrir viðskiptavini og skilar fjármagni í ríkiskassann. Það sjá allir sem vilja að ástæður tafa á sölu Símans liggja í skorti á pólitískum vilja. Í þessu máli sem og svo mörgum öðrum þá hefur heyrst að þrálát andstaða Framsóknarflokksins við söluna sé aðal orsökin." Góður pistill, hvet alla til að líta á hann. Ennfremur birtist ályktun stjórnar Heimdallar um nýframlagt frumvarp dómsmálaráðherra til breytinga á útlendingalögum.

TrafficSjónvarpskvöld
Eftir fréttirnar horfði ég á viðtal Kristjáns og Svansíar við utanríkisráðherra. Var farið víða yfir í pólitíkinni: Íraksmálið, þingmálin, ráðherrakapal Framsóknar og forsetaembættið svo fáeint sé nefnt. Mesta athygli mína vakti að utanríkisráðherrann ljáði máls á að fella niður eða breyta verulega 26. grein stjórnarskrárinnar um heimild forseta til að synja lagafrumvörpum um samþykki. Gott að heyra það, en mínus vissulega að hann halda lífinu í þessu gagnslausa embætti. Eftir þáttinn horfðum við á kvikmyndina Traffic. Spannar fjórar sögur af fíkniefnavandanum mikla í Bandaríkjunum og Mexíkó. Allt magnaðar mannlýsingar að vönduðustu gerð. Það er í raun ekki hægt annað en að dást að Steven Soderbergh fyrir að hafa tekist á hendur þetta mikla verk að túlka á raunsæjan hátt afleiðingar og fylgifiska eiturlyfjanna. Leikaraliðið er glæsilegt, fremstur í flokki er Benicio Del Toro sem hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á fíkniefnalöggu. Michael Douglas er einnig eftirminnilegur í hlutverki íhaldssams dómara, eiginkona hans Catharine Zeta-Jones, er ekki síðri í að túlka eiginkonu dópbaróns. Soderbergh hlaut óskarinn fyrir leikstjórn sína. Einstakt meistaraverk.

Dagurinn í dag
* 1816 Hið íslenska bókmenntafélag, stofnað til að viðhalda íslenskri tungu og bókaskrift
* 1949 Aðild Íslands að NATÓ samþykkt á Alþingi - óeirðir á Austurvelli vegna þess
* 1955 Marlon Brando hlýtur óskarinn fyrir túlkun sína á Terry Malloy í On the Waterfront
* 1981 Geðsjúkur maður reynir að myrða, Ronald Reagan forseta Bandaríkjanna
* 2002 Elísabet drottningarmóðir, andast í Royal Lodge í Windsor, 101 árs að aldri

Snjallyrði dagsins
Even the most sublime ideas sound ridiculous if heard too often.
Mario Ruoppolo í Il Postino