Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

01 apríl 2004

BroskallHeitast í umræðunni
Eins og flestir hafa tekið eftir er 1. apríl í dag. Þá þykir vel við eiga að gera kunningjum sínum þann óleik að gabba þá. Þar sem ég er almennt talinn grallari mikill og nokkuð kaldhæðinn, tók ég þátt í sprellinu. Ég setti í hádeginu hingað á vefinn inn tilkynningu um að vegna anna hætti ég bloggskrifum frá og með deginum í dag. Ekki leið löng stund þar til rigndi yfir mig á MSN skilaboðum um hvað ég væri eiginlega að gera og ég margbeðinn að hætta við "þetta rugl" eins og einn vinur minn sagði. Þegar leið á daginn setti ég á MSN inn skilaboð um að gabbið hefði virkað og þá kom sér vel fyrir mig að vera í nokkurri fjarlægð við nokkra vini mína, hehe. En þetta er ekki illa meint. Flestir fjölmiðlar voru með aprílgöbb venju samkvæmt. Í Morgunblaðinu var sagt frá tónleikum bandaríska rokkarans Bruce Springsteen á Nasa í kvöld, Fréttablaðið sagði að Skjár einn hefði náð réttinum á að halda Stjörnuleit hér á landi, Bæjarins besta á Ísafirði birti frétt um að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkurkaupstaðar hefðu náð samkomulagi um að skiptast á bæjarstjórum. Hjá RÚV var frétt um að sníkjudýrið blóðagða, sem getur valdið svonefndum sundmannakláða og fannst nýlega í Landmannalaugum, hefði borist í sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu og því yrði sett sérstakt efni í laugarvatnið á næstunni sem hefði þær óheppilegu aukaverkanir að fólk yrði blátt. Stöð 2 sagði að leikstjórinn George Lucas væri kominn til landsins til að velja tökustaði fyrir fjórðu Indiana Jones myndina og leita að leikurum og Sjónvarpið sagði að styttan að Kristjáni 9. yrði flutt að Staðastað við Sóleyjargötu. Það seinastnefnda var besta gabb dagsins að mínu mati.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherraSturla Böðvarsson samgönguráðherra, og Harri Holkeri, sérstakur sendifulltrúi Kofi Annan framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, skrifuðu í morgun undir samning bráðabirgðastjórnar Sameinuðu þjóðanna í Kosovo um stjórnun og faglega ráðgjöf Flugmálastjórnar Íslands við uppbyggingu flugvallarins í Pristina. Við það breytist hann úr að vera hernaðarflugvöllur í borgaralegan flugvöll. Samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn Íslands gildir samningurinn milli UNMIK og íslenska stjórnvalda til ársloka 2005 og kostar á bilinu fimm-sex hundruð milljónir króna. Flugmálastjórn er framkvæmdaraðili samgönguráðuneytisins við samninginn og mun sjá um faglega stjórnun og ráðgjöf við rekstur og uppbyggingu flugvallarins hvað varðar flugumferðarstjórn, leiðsögumál og annan nauðsynlegan búnað. Þá mun Flugmálastjórn sjá um flugupplýsingaþjónustu og allar tæknilegar handbækur fyrir flugvöllinn hvað varðar flugöryggismál, samkvæmt reglum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóriKristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, var gestur spjallþáttarins Pressukvölds í Ríkissjónvarpinu í gærkvöld. Í þættinum var rætt um stöðu Eyjafjarðar með tilliti til byggðaáætlunar byggðamálaráðherra sem bið er á greinilega að verði að veruleika. Hefur Kristján óhikað gagnrýnt ráðherra fyrir að sýna lítinn lit í að koma eigin stefnu í framkvæmd. Tjáði hann sig mikið um samskipti sín við ráðherrann í viðtalinu, vegna þessara mála. Sagði hann að samstarfið gengi vel innan meirihlutans í bæjarstjórn, þrátt fyrir hnútuköst við ráðherrann. Ennfremur var vikið að sameiningarmálum sveitarfélaga í Eyjafirði, stöðu Akureyrar í Norðausturkjördæmi og að lokum um möguleika á að bæjarstjóri sækist eftir framboði í landsmálapólitík árið 2007. Sagði hann ekkert liggja fyrir um það, en tilkynnti að hann yrði í framboði við bæjarstjórnarkosningarnar 2006.

Samfylkingin: Útsala á úreltum hugmyndumSvona er frelsið í dag
Í pistli ritstjórnar frelsi.is er fjallað í dag um vændismálin og svarað þar grein á politik.is. Orðrétt segir: "Dagbjört nokkur Hákonardóttir ritar áhugaverða grein sem birtist á vefriti ungra jafnaðarmanna miðvikudaginn 31. mars. Í greininni mælir hún með því að löggjafinn beiti sér fyrir því að setja lög í siðferðiefnum. Dagbjört fjallar í grein sinni um vændi. Rétt er að geta þess strax í upphafi að það er hvergi að finna í stefnuskrá SUS né Sjálfstæðisflokksins að breyta skuli lögum um vændi hérlendis. Margir ungir sjálfstæðismenn, rétt eins og margir ungir jafnaðarmenn sem hlýddu á kappræður ungliðahreyfinganna síðastliðin laugardag, hafa hins vegar efasemdir um að hin svokallaða sænska leið sé fólki til hagsbóta." Ennfremur kemur fram: "Rétt er að geta þess að rök Dagbjartar leiða til þess að eðlilegt sé að setja almenn lög um siðferði. Með svipuðum rökfimleikum og hún beitir má svo fá það út að stefna samfylkingarinnar sé að setja slík lög. Dagbjört segir sem sagt: (1) skoðun mín er siðskoðun, (2) vilji minn og annarra er í meirihluta í þessu máli og (3) rétt er að setja lög óháð vilja minnihlutans. Þessi röksemdarfærsla leiðir til þess að setja beri almenn lög um siðferði. Almenn lög sem banna allt það sem er andstætt vilja Dagbjartar og meirihlutans hennar. Því af hverju ættu samfylkingarmenn að láta staðar numið við vændi? Það er eflaust fjölmargt annað sem þeim þykir siðlaust og eigi ekki heima í þeirra samfélagi. Virðum ekki frelsið að vettugi – Fyrirlítum höft sem kunna að skaða enn frekar þá sem eiga erfitt uppdráttar í samfélaginu." Virkilega góður pistill, sem ég hvet alla gesti bloggsins til að lesa og ennfremur aðrar greinar um þetta sama mál á frelsinu, til að kynna sér málið betur.

PleasantvilleKvikmyndir - sjónvarpsgláp
Eftir kvöldfréttirnar og dægurmálaþættina horfðum við á kvikmyndina Pleasantville. Í henni er gamansamur tónn en ennfremur hárfín ádeila á samfélagið, ádeilu sem hverjum og einum er frjálst að túlka að vild. Segir frá David Wagner sem hefur það áhugamál helst að fylgjast grannt með Pleasantville, bandarískum sjónvarpsþáttum frá sjötta áratugnum sem einhver sjónvarpsstöðin er að endursýna. Þættirnir gerast í bandarískum smábæ og eru dæmigerðir fyrir þá þætti sem nutu hvað mestrar hylli hjá bandarískum sjónvarpsáhorfendum á þessum tíma. Systir Davids, Jennifer, er hins vegar ekki jafn áhugasöm um þessa þætti og því hefur stundum komið til rifrildis þeirra á milli á hvað skuli horfa. Eftir eina slíka rimmu og heimsókn dularfulls viðgerðarmanns í kjölfarið gerast þau undur og stórmerki að þau systkinin fara í óviðbúið ferðalag sem skilar þeim til Pleasantville. Skyndilega eru þau stödd í þessum svarthvíta vinsæla sjónvarpsþætti! Koma systkinanna til bæjarins á síðan eftir að hafa afgerandi áhrif á bæjarbúa sem vita vart hvernig á að taka þeim nýtískustraumum sem systkinunum fylgja! Mögnuð mynd, sem er ennþá jafngóð og er ég sá hana fyrst í bíó fyrir sex árum. Eftir tíufréttirnar horfðum við á Kristján Þór í Pressukvöldinu. Kom hann virkilega vel út og stóð sig vel, eins og við var að búast.

Dagurinn í dag
1855 Íslendingum var leyfð frjáls verslun við þegna allra þjóðar - einokunarverslun Dana lauk
1873 Hilmar Finsen skipaður fyrsti landshöfðinginn - varð síðar borgarstjóri í Kaupmannahöfn
1936 Alþýðutryggingalög tóku gildi - mörkuðu stórt skref í íslenskri félagsmálalöggjöf
1998 Fréttavefurinn visir.is opnaður - var um tíma einn vinsælasti fréttavefur landsins
2001 Slobodan Milosevic handtekinn í Belgrad - síðar framseldur til Haag

Snjallyrði dagsins
Ég er hógvær í kröfum. Alltaf ánægður með það besta.
George Bernard Shaw