Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 apríl 2004

Halldór Blöndal forseti AlþingisHeitast í umræðunni
Lögð var fram á þingi í dag, þingsályktunartillaga um hálendisveg milli Borgarfjarðar og Skagafjarðar. Myndi sú leið stytta veginn milli Reykjavíkur og Akureyrar um 42 kílómetra. Gert er ráð fyrir að framkvæmdirnar verði boðnar út, utan vegaáætlunar og að innheimt verði veggjöld. Áætlaður kostnaður við framkvæmdina er um 4,5 milljarðar króna. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Halldór Blöndal forseti Alþingis. Leggur hann tillöguna fram ásamt þingmönnum úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Samfylkingu. Gert er ráð fyrir að vegur verði lagður upp úr Borgarfirði um Hallmundarhraun, yfir Stórasand sunnan Blöndulóns niður í Norðurárdal. Hefur Halldór sagt að slíkur vegur myndi stytta leiðina til Akureyrar um 42 kílómetra og ef vegur yrði lagður um Kaldadal, eins og gert væri ráð fyrir á vegaáætlun, myndi leiðin styttast alls um rúma 80 kílómetra. Þessi tillaga hefur verið forgangsmál Halldórs í samgöngumálum hin seinni ár og vonandi verður þetta brátt að veruleika. Í febrúar 2002 flutti Halldór ítarlega ræðu um hugmyndir sínar og síðar sama ár skrifaði ég grein í Moggann um sama mál. Mikilvægt er að ná fram sem mestri styttingu á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur. Það er nauðsynlegt að lækka flutningskostnað milli Akureyrar og Reykjavíkur og ekki síður milli Norðausturlands og Austfjarða til Reykjavíkur. Hér er um mikið forgangsmál að ræða fyrir okkur á landsbyggðinni og mikilvægt að hefjast handa og sameinast um að koma þessu í gegn sem fyrst.

RÚV - tímaskekkja!Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, um að afnotajöld Ríkisútvarpsins hækki um 7% frá og með 1. maí. Á þessi hækkun að koma til móts við fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins en skv. ráðherra mun ekki einvörðungu leysa hann. Afnotagjaldið hækkaði síðast 1. janúar sl. um 5%. Það er nú 2528 krónur á mánuði og hækkar samkvæmt þessu í rúmlega 2700 krónur 1. maí nk. Tekjur stofnunarinnar aukast um rúmlega 160 milljónir króna á ársgrundvelli vegna þessarar hækkunar. Rekstrarhalli Ríkisútvarpsins á síðasta ári nam um 314 milljónum króna. Þetta er afskaplega léleg og dómgreindarlaus ákvörðun hjá ráðherra og ríkisstjórninni. Ef fyrirtæki er rekið með botnlausu tapi þá er ekki til sú einfalda lausn að hækka bara endalaust verð á þjónustunni. Öðru máli virðist gilda með RÚV sem getur sukkað fram og til baka og komist upp með það með því að vera bjargað af ráðherra með hækkun afnotagjalda. Þetta er afskaplega ódýr ákvörðun og slöpp, enda margt annað í stöðunni en hækka verð þjónustunnar og það tvisvar á örfáum mánuðum. Eins og ég hef oft bent á er nauðsynlegt að stokka upp rekstur fyrirtækisins.

SUS7. febrúar sl. hélt Samband ungra sjálfstæðismanna ráðstefnu um menntamál í sal sjálfstæðismanna í Hafnarfirði, undir heitinu Breytt rekstrarform - betri menntun. Skrifaði ég ítarlegan pistil á frelsi.is um ráðstefnuna og stöðu menntamála í valdatíð okkar sjálfstæðismanna í menntamálaráðuneytinu. Nú hefur SUS gefið út rit um menntamálaráðstefnuna. Í því birtast erindi framsögumanna á ráðstefnunni. Ræðumennirnir búa yfir sérþekkingu á íslensku menntakerfi, hver á sínu sviði, og eiga það sameiginlegt að búa yfir hugmyndum um leiðir til þess að nýta breytt rekstrarform til eflingar íslenskrar menntunar, öllum til heilla. Í ritinu er einnig að finna ályktun síðasta sambandsþings SUS um menntamál þar sem hugmyndir ungra sjálfstæðismanna eru teknar saman í stuttu máli.

Helga Baldvinsdóttir BjargardóttirSvona er frelsið í dag
Tveir góðir pistlar á frelsinu í dag. Í þeim fyrri fjallar Helga um stórfurðulega menntasókn Samfylkingarinnar. Orðrétt segir hún: "Það jaðrar við menntasnobb að ætla skipa fólki í bása eftir því hvort það hefur lokið grunnskólamenntun eða frekari menntun. En að tala um að hlutfall hinna minna skólagenginna sé óviðunandi er hreinn og beinn menntahroki. Þó ekki verði efast um einlægan vilja Björgvins til góðra verka þá gerist hann sekur um að ofmeta menntun og prófgráður. Hvorki aukin menntun né prófgráður hafa gildi í sjálfu sér. Þar fyrir utan vanmetur Björgvin starfsreynslu og þá mikilvægu menntun sem fólk aflar sér úti á vinnumarkaðnum, en þess konar menntun fylgja engin prófskírteini. Þrátt fyrir að státa af háskólamenntun virðist Björgvin ekki skilja að ekki eru einhlít tengsl milli aukinnar menntunar þeirra, sem nú þegar sjá um að framleiða ákveðin gæði úti á vinnumarkaðnum, og aukinnar framleiðslu. Það sem helst aðgreinir hugsunarhátt vinstri og hægri manna í þessum málaflokki jafnt sem öðrum, er sú hugsun vinstri manna að hlutverk stjórnmálamanna felist í því að skipuleggja samfélagið út frá sínum hugdettum um betra samfélag." Í seinni pistlinum fjallar Bjarki um samræmd stúdentspróf og kemst vel að orði í endanum er hann segir: "Íslendingar eru prófaglaðir og skilst mér að mun meira sé prófað í íslenskum skólum en víða annarsstaðar. Það er því alveg ljóst að til að bæta við samræmdum stúdentsprófum þurfa að vera góð og gild rök og eins og framkvæmdin er á prófunum í ár, virðast sem rökin vanti." Hvet alla til að lesa þessa góðu pistla.

Some Like It HotHeimsókn - kvikmyndir
Fórum í gær í heimsókn til Hönnu ömmu, hún var að koma heim úr kóraferð til Suðurlands. Alltaf sama fjörið í ömmu, í fullu fjöri og enn í kór aldraðra, orðin 84 ára. Sannkölluð kjarnakona. Erum svo lík í áhugamálum og pælingum almennt að við eigum létt með að sameinast í vangaveltum um vinstrimenn og pólitík almennt. Sækjum bæði heitan stjórnmálaáhuga til langafa míns, Stefáns Jónassonar útgerðarmanns og bæjarfulltrúa. Sá gamli var mjög heitur í pólitíkinni. Fréttir Stöðvar 2 eru loks komnar á sinn gamla sess, klukkan hálfsjö, virkilega gott mál að geta horft á báða fréttatíma með góðu móti. Ætluðum að fara í bíó í gærkvöldi, en hættum við það og horfðum þess í stað á gullmolann Some Like It Hot í leikstjórn Billy Wilder. Það var árið 1959 sem Wilder og handritshöfundurinn I.A.L Diamond gerðu handritið að þessari mögnuðu mynd, sem telst ein eftirminnilegasta gamanmynd 20. aldarinnar. Hún var tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir leikstjórn Wilder og handrit þeirra Diamond. Marilyn Monroe geislar sem fyrr í hlutverki Sugar Kane í myndinni. Jack Lemmon og Tony Curtis fara á kostum í hlutverkum Jerry og Joe, tveggja tónlistarmanna í San Francisco sem verða vitni að morði og reyna að sleppa undan mafíunni. Eina leiðin til þess að halda lífi og sleppa er sú að klæða sig í kvenmannsföt og þykjast vera í kvennahljómsveit. Framundan er kostuleg atburðarás sem erfitt er að lýsa með orðum. Sjón er sögu ríkari. Einstök gamanmynd, ein sú besta sinnar gerðar. Einstök skemmtun, hiklaust eitt af allra bestu verkum Billy Wilders.

Dagurinn í dag
1725 Eldgos hófst í nágrenni Heklu og fylgdu því allmiklir jarðskjálftar
1928 Jóhanna Magnúsdóttir fékk lyfsöluleyfi, fyrst íslenskra kvenna
1974 Jack Lemmon hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Save the Tiger
1982 Argentína ræðst inn í Falklandseyjar - leiddi til innrásar Breta
1996 Rússneskur togari var tekinn við ólöglegar veiðar út af Reykjanesi

Snjallyrði dagsins
Eftir þrjú ár verður R-listinn búinn að vera 12 ár við völd í Reykjavík. Teljið þið að Ingibjörg Sólrún muni þá ganga fram fyrir skjöldu og segja að nú verði nauðsynlegt að fella R-listann, hann hafi verið 12 ár við völd? Haldið þið það? Ég held ekki.
Davíð Oddsson forsætisráðherra (í spjallþættinum Tæpitungulaust - 6. maí 2003)