Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 apríl 2004

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraHeitast í umræðunni
Kærunefnd jafnréttismála skilaði niðurstöðu í gær í máli Hjördísar Hákonardóttur gegn ríkinu vegna ráðningar hæstaréttardómara. Niðurstaða nefndarinnar var að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með skipun í stöðuna. Beinir nefndin þeim tilmælum til dómsmálaráðherra að fundin verði viðunandi lausn á málinu. Ráðherra skipaði í ágúst í fyrra Ólaf Börk Þorvaldsson í embætti hæstaréttardómara. Varð sú skipun umdeild í lagastétt vegna þess að hvorugur þeirra sem Hæstiréttur taldi heppilegasta varð fyrir valinu. Umsækjendur voru átta: sex karlar og tvær konur. Fyrir lá að allir umsækjendur voru taldir hæfir til setu á dómarastóli. Rétturinn sagði þó í sérstakri umsögn að heppilegast væri að annar hvort Eiríkur Tómasson eða Ragnar H. Hall, yrðu fyrir valinu. Engum blandast hugur um að ráðherra hefur lokaorðið um hver hlýtur stöðuna, það er mat þess sem situr á ráðherrastóli hver eigi að hljóta sæti í réttinum. Finnst mér með hreinum ólíkindum að lesa úrskurð kærunefndar jafnréttismála, enda gerir hún lítið úr rétti ráðherra á hverjum tíma til að velja úr hópi umsækjenda. Það er óumdeilt að samkvæmt lögum á ráðherra lokaorð um skipan í þessa stöðu. Það er hann sem tekur ákvörðunina eftir að hafa fengið mat réttarins. Rétturinn á ekki lokaorðið. Einfalt mál. Með hreinum ólíkindum er að lesa skrif um þetta mál á vissum stöðum og lesa fákunnáttu sums fólks í þessum málum.

UmferðSkýrsla um eðli og umfang umferðarlagabrota á Íslandi var kynnt í dag í tilefni af Alþjóða heilbrigðisdeginum, er hann nú helgaður baráttunni gegn umferðarslysum. Við það tækifæri boðaði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, þjóðarátak gegn slysum í umferðinni. Megináhersla verður lögð á breytt hugarfar, aukna fræðslu og ökuþjálfun ungmenna og úrbætur á þjóðvegakerfinu, þar sem flest og alvarlegustu slysin verða. Umferðarslys eru eitt helsta heilbrigðisvandamál í heiminum, einnig á Íslandi. Af því tilefni hefur Alþjóða heilbrigðisstofnunin helgað alþjóða heilbrigðisdaginn baráttunni gegn umferðarslysum að þessu sinni og markar um leið upphaf alþjóðlegs umferðaröryggisárs. Ein helsta orsök umferðarslysa er umferðarlagabrot. Skýrsla um eðli og umfang þeirra var kynnt í morgun. Meðal niðurstaðna er að umferðarlagabrot eru nærri þrjú af hverjum fjórum brotum í málaskrá lögreglu og meira en helmingur þeirra er hraðakstursbrot. Yfir 16.000 umferðaróhöpp eru skráð hvert ár og yfir 34 þúsund bílar skemmast í þeim, 2.300 manns slasast, þar af rúmlega 700 alvarlega. Og tölur sýna að 22 látast í umferðarslysum að meðaltali hvert ár. Mikilvægt er að blása til sóknar og berjast gegn þessari miklu vá sem umferðarslys eru.

AkureyriÁ fundi skólanefndar Akureyrarbæjar 5. apríl sl. var rætt um byggingu og rekstrarform nýs leikskóla við Helgamagrastræti 29-41. Skólanefnd hefur óskað eftir því að umhverfisráð Akureyrarbæjar og stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar hefji nú þegar undirbúning að deiliskipulagi og hönnun á leikskólabyggingunni. Skólanefnd hefur óskað eftir því að framkvæmdum verði hraðað þannig að hægt verði að taka nýjan leikskóla í gagnið í lok ágúst 2005. Meirihluti skólanefndar samþykkti að rekstur leikskólans skyldi boðinn út og fól deildarstjóra skóladeildar að vinna drög að útboðsgögnum sem verði lögð fyrir fund skólanefndar 17. maí nk. Fulltrúi Samfylkingar í skólanefnd greiddi atkvæði gegn því að reksturinn skyldi boðinn út og bókaði gegn samþykktum meirihlutans. Mjög gott skref er hjá meirihlutanum að hafa tekið þessa ákvörðun, mikilvægt er að bjóða rekstur hins nýja leikskóla út og feta þessa slóð. Bæjarstjórnarmeirihlutinn mun ekki hika við að berjast gegn gamaldags hugmyndum vinstrimanna í bænum, og kreddum gegn einkarekstri í skólamálum. Hvet ég alla til að lesa fundargerð frá fundi skólanefndar 5. apríl og kynna sér þar málið og umfjöllun um það.

Stefán Friðrik StefánssonSvona er frelsið í dag
Í dag birtist ítarlegur pistill minn um utanríkismál og mikilvægi þess að stokka upp eyðslu utanríkisráðuneytisins. Í pistlinum segir svo: "Er löngu orðið tímabært að utanríkisráðherra hugaði að uppstokkun í utanríkisþjónustunni, enda hefur blasað við öllum að ráðuneytið hefur þanist út seinasta áratuginn, meira en góðu hófi gegnir. Í ríkisreikningi sem kynntur var sl. haust kom fram að utanríkisráðuneytið hefði eytt 5,5 milljörðum króna á árinu 2003. Óhætt er að fullyrða að þetta er gríðarleg útgjaldaaukning á nokkuð skömmum tíma. Telst hún 170% miðað við t.d. árið 1996, en vísitala neysluverðs hækkaði hinsvegar aðeins um 26% á sama tíma. Það ár námu útgjöld utanríkisráðuneytisins 2 milljörðum króna. Hafa útgjöldin því jafnt og þétt aukist, þó að á þessu tímabili hafi reikningsskilum af hálfu ríkisins verið breytt." Ennfremur: "Við blasir að tækifærið fyrir okkur sjálfstæðismenn til að hafa áhrif á gang mála í þessu ráðuneyti er framundan. Halldór Ásgrímsson mun láta af embætti utanríkisráðherra í haust, eftir að hafa setið þar í rúmlega 9 ár, eða frá 23. apríl 1995. Er mikilvægt að utanríkisráðherra úr hópi okkar sjálfstæðismanna muni vinna af krafti að því að skera niður og hagræða í rekstri sendiráða og taka til endurskoðunar umsókn um sæti í Öryggisráðinu. Annað er ekki viðunandi."

A Civil ActionKvikmyndir - bókalestur
Horfðum í gærkvöldi á úrvalsmyndina A Civil Action. Byggð á frásögn af sönnu máli sem kom upp þegar átta fjölskyldur í smábæ einum í Bandaríkjunum misstu börn sín úr hvítblæði. Í ljós kom að orsök hvítblæðisins mátti e.t.v. rekja til þess að drykkjarvatni bæjarins hafði verið spillt og voru tvö stórfyrirtæki grunuð um verknaðinn. Það var hins vegar ljóst að möguleikarnir á að vinna málið voru hverfandi þar sem fyrirtækin höfðu efni á að ráða til sín bestu lögfræðinga Bandaríkjanna á meðan fjölskyldurnar höfðu nánast enga peninga á milli handanna til málarekstursins. Til að leita réttar síns leituðu fjölskyldurnar til lögfræðingsins Jans Schlichtmann sem hafði sérhæft sig í slíkum málarekstri, en hafði fram að þessu einbeitt sér að málum sem mátti semja um utan réttar. Jan leist í fyrstu ekkert á málið en ákvað að taka það að sér þegar hann hafði farið í gegnum þær vísbendingar sem fjölskyldurnar höfðu handbærar. En baráttan við lögfræðinga stórfyrirtækjanna átti eftir að verða erfiðari en jafnvel hann hafði grunað og brátt kom að því að hann neyddist til að velja milli þess að hætta við málssóknina eða eiga það á hættu að missa allt sitt. Frábær mynd með John Travolta, Robert Duvall, William H. Macy, Kathleen Quinlan, John Lithgow og James Gandolfini. Eftir myndina las ég í bókinni Guðfaðirinn, magnaðri skáldsögu Mario Puzo, sem varð uppistaðan að magnaðri kvikmyndatrílógíu Francis Ford Coppola.

Dagurinn í dag
1906 Ingvarsslysið - 20 manns fórust er þilskipið Ingvar strandaði við Viðey
1943 Laugarnesspítali í Reykjavík brann til grunna - var byggður árið 1898
1968 Formúlukappinn Jim Clark lætur lífið í slysi á Hockenheim-brautinni
1970 John Wayne hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni True Grit
1979 Fjögur systkini úr Vestmannaeyjum gengu í hjónaband - einsdæmi hérlendis

Snjallyrði dagsins
Aye, fight and you may die, run, and you'll live... at least a while. And dying in your beds, many years from now, would you be willin' to trade all of that from this day to that, for one chance, just one chance, to come back here and tell our enemies that they may take away our lives, but they'll never take our freeeedoooomm.
William Wallace í Braveheart