Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 apríl 2004

Tony Blair og George W. BushHeitast í umræðunni
Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, og George W. Bush forseti Bandaríkjanna, hittust á fundi í Hvíta húsinu í gær og áttu ítarlegar viðræður um málefni Íraks. Að fundinum loknum ræddu þeir við blaðamenn í Rósagarði Hvíta hússins. Fór vel á með leiðtogunum og greinilegt að sá orðrómur sem gengið hafði, þess efnis að stirt væri þeirra á milli, á ekki við rök að styðjast. Fram kom í málflutningi þeirra að Bandaríkjamenn og Bretar muni hvergi hvika í málefnum Íraks. Landið muni verða sjálfstætt og frjálst á ný. Forsetinn sagði að möguleikar í stöðunni væru tveir, annars vegar lýðræði, hinsvegar harðstjórn og ógnarstjórn eins og var í valdatíð Saddams Husseins og Baath-flokksins. Skýrt kom fram í málflutningi þeirra að valdaskipti verði í Írak 30. júní nk. og heimamenn taki þá við stjórn landsins. Áfram verði þó bandalagsher í landinu, til að aðstoða nýrri ríkisstjórn leiðina til lýðræðis. Báðir bentu á það lykilhlutverk sem Sameinuðu þjóðirnar hefðu að gegna í Írak og Blair kallaði sérstaklega eftir nýrri ályktun Sameinuðu þjóðanna um valdaskiptin í Írak er að þeim kæmi. Mikilvægt er að ljúka því verki sem hafið var í Írak með falli stjórnar Baath og Saddams og færa landið í lýðræðisátt.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÁ þingi fór fram í gær utandagskrárumræða að beiðni Jóhönnu Sigurðardóttur um skipan hæstaréttardómara í fyrra, í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála í seinustu viku. Þar var Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, sakaður um lögbrot, valdhroka, forneskju og hraksmánarleg viðhorf til jafnréttis og mannréttinda. Var með hreinum ólíkindum að fylgjast með þeim umræðum sem fram fóru og þeim gegndarlausu og merkingarlitlu upphrópunum sem hin vanmáttuga stjórnarandstaða hafði í frammi. Sérstaklega kom það þó ekki á óvart að sjá hvernig Jóhanna sneri út úr almennum stjórnskipunarlögum og lagabókstöfum í umræðunni. Er slíkt ekki nýtt og þingmenn reyndar orðnir vanir að sjá slík hráslagavinnubrögð hjá henni. Athygli vakti er þingmaður Frjálslynda flokksins sem nýlega afplánaði fangelsisdóm fyrir brot á fiskveiðilögum líkti saman athæfi sínu og úrskurði kærunefndarinnar sem hefur verið langt í frá óskeikul, eins og dæmin sanna. Er ruglið í þingmanninum líklega einsdæmi í umræðum og er þá margt sem að baki er í sögu þingsins. Ekkert kom nýtt fram í þessari umræðu annað en máttlitlar upphrópanir frá stjórnarandstöðunni. Björn fer vel yfir þetta mál allt í pistli á heimasíðu sinni í dag.

Hafsteinn Þór Hauksson formaður SUSStarfið framundan
Hafsteinn Þór Hauksson formaður SUS, skrifar fróðlegan pistil á vef SUS um starfið framundan hjá Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Fjallar hann þar um komandi útgáfu SUS í kjölfar ráðstefnu um landbúnaðarmál sem haldin verður í dag. Orðrétt segir þar: "Landbúnaðarritið mun verða þriðja smáritið sem ný stjórn SUS gefur frá sér en áður hefur SUS gefið út Bláa kverið, sem dreift var til þingmanna. Bláa kverið innihélt samantekt á ályktunum síðasta sambandsþings. Fyrir nokkrum vikum síðan gáfum við svo út smárit um menntamál sem innihélt erindi frá ráðstefnunni Breytt rekstrarform, betri menntun sem haldin var í Hafnarfirði. Annars er það að segja af útgáfustarfsemi að brátt mun nýtt tölublað Stefnis koma út en vinnsla blaðsins er á lokastigi. Á heimasíðunni okkar má svo nálgast um þrjátíu eldri Stefnisblöð sem skönnuð hafa verið inn og hvet ég unga sjálfstæðismenn til þess að kynna sér þau. Þau verða svo gerð ennþá aðgengilegri með stuttri samantekt á efni hvers blaðs fyrir sig svo auðveldara verði að nálgast efni sem áhugi er fyrir. SUS.is hefur tekið miklum breytingum síðustu mánuði og er sífellt að eflast. Auk aðgangsins að eldri Stefnisritum hefur til dæmis verið opnuð vefverslun og þingverði komið á fót. Enn mega þó lesendur búast við nýjungum sem ritstjórn vefsins vinnur hörðum höndum að." Hvet alla til að lesa pistil formannsins.

HidalgoSjónvarpsgláp - kvikmyndir
Átti gott símaspjall við mætan félaga snemma í gærkvöldi. Fórum við yfir ýmis mál. Skömmu áður hafði ég horft á Andrés Magnússon blaðamann, ræða fréttir vikunnar í spjalli við Elísabetu Jökulsdóttur skáldkonu, í Íslandi í dag. Var þar einna mest um málefni dómsmálaráðherra í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála. Athygli mína vakti er Þórhallur spurði hana hvort ráðherra hafi ekki bara einfaldlega haft málefnalegar forsendur fyrir vali sínu á hæstaréttardómara. Orðrétt sagði Elísabet þá eftir smáhik: "Það er ekki alltaf hægt að taka ákvarðanir útfrá málefnalegum forsendum". Merkilegt svar, hvernig ætli fólk taki þá ákvarðanir? Kannski segir þetta meira um vinstri græna en aðra. Eftir að hafa litið á fréttirnar fórum við í bíó og sáum kvikmyndina Hidalgo. Virkilega góð mynd, sem við höfðum bæði mjög gaman að. Omar Sharif er alltaf flottur. Er heim kom horfðum við á þrjár pottþéttar myndir sem seint klikka. Back to the Future, Back to the Future Part II og Back to the Future Part III. Alveg mögnuð trílógía, sem ég hef jafnmikið gaman af núna og á sínum tíma. Var orðið nokkuð um liðið frá því ég sá mynd 2 og magnað að sjá allar myndir í réttri röð, sama kvöldið.

Dagurinn í dag
1913 Járnbraut, sú fyrsta og eina hérlendis, tekin í notkun - notuð til ársins 1928
1939 Ríkisstjórn Hermanns Jónassonar, Þjóðstjórnin, tók við völdum - hún sat í þrjú ár
1961 Billy Wilder hlaut leikstjóraóskarinn fyrir hina stórfenglegu, The Apartment
1984 Lögreglukonan Yvonne Fletcher myrt í óeirðum við sendiráð Líbýu í London - leiddi til harkalegra deilna milli landanna sem voru loks leyst með heimsókn Tony Blair til Líbýu 2004
1994 Listasafn Kópavogs, Gerðarsafn, var opnað - kennt við Gerði Helgadóttur myndhöggvara

Snjallyrði dagsins
Verðbólga er ekkert annað en ein tegund skattlagningar.
Milton Friedman