Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 mars 2004

Sögulegt handtak í Líbýu - Tony Blair og Moammar Gaddafi heilsastHeitast í umræðunni
Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, kom til Trípólí í Líbýu í gær til að ræða við Moammar Gaddafi leiðtoga landsins, eftir áratugalanga einangrun þess. Fundarstaður leiðtoganna var tjald Gaddafi fyrir utan Trípólí. Er siður þar í landi að höfðingjar fundi í tjöldum og ráði ráðum sínum. Stóðu viðræður þeirra í rúmlega 90 mínútur. Ekki var annað hægt sjá en að vel færi á með leiðtogunum. Þeir tókust í hendur og vinsamlegt spjall í örfáar mínútur fyrir framan myndavélarnar fyrir og eftir fundinn í tjaldinu. Fundurinn markar þáttaskil og er skref í átt til þess að einangrun Vesturlanda á Líbýu líði undir lok. Sambúð Bretlands og Líbýu stórversnaði eftir að breska lögreglukonan, Yvonne Fletcher, féll fyrir skotum úr sendiráði Líbýu í London 1984 þegar efnt var til mótmæla gegn Gaddafi. Bretar slitu stjórnmálasambandi við landið í apríl 1984. Í desember 1988 sprakk bandarísk farþegaflugvél yfir Lockerbie í Skotlandi og 270 menn létu lífið. Árið 1991 sökuðu stjórnir Bretlands og Bandaríkjanna nafngreinda Líbýumenn um tilræðið en Líbýustjórn neitaði sekt þeirra. Réttað var yfir sakborningum í Haag eftir að þeir voru loks framseldir í apríl 1999. Voru þeir dæmdir til lífstíðarfangelsisvistar í Skotlandi á árinu 2001.

Blair og Gaddafi ræða samanUndanfara þessarar sögulegu heimsóknar má rekja til þess að lausn kom í Lockerbie-málið. Í mars 2003 náði Líbýa samningum við Bandaríkin og Bretland um að axla ábyrgð á sprengingunni og greiddi 10 milljónir dollara í skaðabætur fyrir hvern mann sem fórst, alls 2,7 milljarða dollara. Í september 2003 aflétti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna refsiaðgerðum gegn Líbýu, sem verið höfðu í gildi í tæp 20 ár. Í desember tilkynnti Líbýustjórn að hún ætlaði að hætta við öll áform um smíði gereyðingarvopna og leyfa alþjóðaeftirlit með kjarnorkuáætlunum sínum. Margir hafa gagnrýnt ferð forsætisráðherrans til landsins, bæði stjórnarandstaðan og aðstandendur þeirra sem létust í Lockerbie-tilræðinu fyrir 16 árum. Sagði Michael Howard leiðtogi stjórnarandstöðunnar, að siðferði Blairs væri ekki mikið. Er þetta fyrsta opinbera heimsókn bresks þjóðarleiðtoga til Líbýu í valdatíð Gaddafis, sem hefur setið á valdastóli frá 1969. Hefur Blair svarað harkalegum viðbrögðum við för sinni á þann veg að sjálfsagt sé að taka í útrétta sáttahönd þegar ríki hætti stuðningi við hryðjuverk og smíði ólöglegra vopna. Líklegt er talið að fjöldi breskra fyrirtækja leiti nú eftir viðskiptasamningum við fyrirtæki í Líbýu.

SíminnSeinustur vikur hefur verið unnið að áreiðanleikakönnun til undirbúnings að sölu Símans og ráðgjöf við söluna verður formlega boðin út á næstunni. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra gerir ráð fyrir að Síminn verði seldur næsta vetur. Er reynt var að selja Símann haustið 2001 var miðað við gengið 5.75 og Síminn því metinn á 40 milljarða króna. Það þótti of mikið og hætt var við söluna í kjölfar hryðjuverka og ástands á hlutabréfamörkuðum, einkum hjá fjarskiptafélögum. Fjarskiptafyrirtæki eru nú almennt kominn upp úr þeim erfiðleikum. Ástandið á hlutabréfamörkuðum er almennt mjög gott. Mikil eftirspurn er eftir fjárfestingakostum og mikið fjármagn er í umferð. Má því gera ráð fyrir að gott verð fáist fyrir Símann. Sé miðað við núverandi gengi sem er 7,5 er Síminn metinn á alls 52 milljarða króna. Mikið ánægjuefni er að loks blasir við einkavæðing Símans.

FrelsisdeildinSvona er frelsið í dag
Nóg um að vera á frelsinu venju samkvæmt. Í dag birtist staða í Frelsisdeildinni og hafa miklar breytingar orðið á röð þingmannanna frá seinasta lista. Orðrétt segir á vefnum: "Pétur H. Blöndal skýst á toppinn og nær þriggja stiga forskoti á Einar K. sem fellur í annað sætið, þrátt fyrir að bæta við sig tveim stigum. Yngri þingmenn Sjálfstæðisflokksins bæta allir stöðu sína og áreiðanlegar heimildir segja að meira sé í pípunum. Birgir Ármannsson er hástökkvari vikunnar og stekkur upp um átta sæti. Eru þeir Sigurður Kári þá jafnir að stigum. Árni Mathiesen flutti tvö frumvörp sem fella niður greiðslur til ríkisins sem dugðu til að lyfta honum af botninum og fellur Einar Oddur á botninn þar með. Spennan magnast og getur allt gerst nú þegar lokabaráttan er að hefjast í frelsisdeildinni. Þessar miklu breytingar koma til vegna samþykktar á breytingu á lögum um erfðafjárskatt. Fær Geir Haarde stig fyrir að koma frumvarpinu í gegn enda lækkar það skatthlutfall af erfðafé. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og viðskiptanefnd fá allir stig fyrir að koma breytingatillögu í gegn sem lækkaði hlutfallið enn frekar. Þó ber að geta þess að með þessum breytingum gætu sumir þurft að greiða hærri fjárhæð í skatt af hlutafé. Er það miður og rétt að áminna í því sambandi að best hefði verið að fella niður skattinn með öllu." Gott mál að þingmenn safna stigum í deildinni. Ennfremur eru á vefnum góðir pistlar eftir Mæju, Ragnar og Hjölla. Og svo er að finna tvær ályktanir, önnur um fjárhættuspil og hin um skólagjöld.

The War RoomFimmtudagskvöld
Þurfti að fara suður í gær á fund seinnipartinn, að honum loknum hélt ég milli 6 og 7 á fund í áfengismálahópi Heimdallar í Valhöll þar sem rædd voru ýmis athyglisverð mál. Virkilega gaman að líta á blómlegt starf í Heimdalli og greinilegt að stjórn félagsins stendur sig vel og nóg er að gerast þar. Eftir þann fund fórum við niður í aðalsalinn þar sem var að hefjast myndbandakvöld hjá SUS og ennfremur umræða um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum sem fram fara 2. nóvember. Sýnd var heimildarmyndin The War Room sem fjallar um kosningabaráttu Bill Clinton gegn George Bush eldri, þáverandi forseta Bandaríkjanna. Myndin var tilnefnd til óskarsverðlauna í flokki heimildarmynda árið 1993. Var myndin virkilega fróðleg og margir góðir punktar sem voru áhugaverðir fyrir þá sem fylgjast með bandarískri pólitík. Hef ég lengi haft verulegan áhuga á þessum málum og fannst þetta því mjög gagnlegt. Að myndinni lokinni fluttu Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, og Friðjón Friðjónsson varaformaður SUS, erindi um stöðu mála fyrir kosningarnar og sátu fyrir svörum eftir það. Voru lífleg skoðanaskipti í Valhöll um komandi kosningaslag og t.d. sýndar auglýsingar sem eru í gangi í slagnum núna úti. Eftir fundinn átti ég gott spjall við góða vini. Virkilega gott kvöld.

Dagurinn í dag
* 1947 Knattspyrnusamband Íslands var stofnað - fjölmennasta íþróttasambandið innan ÍSÍ
* 1958 Sir Alec Guinness hlaut óskarinn fyrir stórleik sinn í The Bridge on the River Kwai
* 1973 Flugvélin Vor fórst norður af Langjökli - Björn Pálsson flugmaður, fórst með henni
* 1990 Jessica Tandy hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Driving Miss Daisy
* 2000 Kevin Spacey hlaut óskarinn fyrir stórleik sinn í kvikmyndinni American Beauty

Snjallyrði dagsins
You look good, you are still young.
Moammar Gaddafi er hann heilsaði Tony Blair í Líbýu - 25. mars 2004