Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 apríl 2004

George W. Bush forseti BandaríkjannaHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, flutti ræðu um stöðu mála í Írak og sat í kjölfar þess fyrir svörum á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í nótt að íslenskum tíma. Kom fram í ræðunni að hann teldi verk bandarískra hersveita í Írak ekki lokið og sagði mikilvægt að koma á stöðugleika þar og leiða þjóðina seinustu skrefin í átt til lýðræðis. Sagði Bush að Bandaríkjamenn muni standa við fyrri loforð um að láta völdin í landinu í hendur heimamanna 1. júlí nk. Forsetinn sagði ennfremur að ríkisstjórn hans hafi skýra áætlun um hvernig taka skuli á málum í Írak, og mikilvægt væri að halda áfram á sömu braut til að tryggja virkt lýðræði í landinu og heiðarlega stjórnarhætti er heimamenn taka við forystu sinna mála. Er þetta í tólfta skiptið á kjörtímabilinu sem forsetinn heldur blaðamannafund í Hvíta húsinu, sem er mun lægri tala blaðamannafunda en hjá forverum hans á forsetastóli hin seinni ár. Líklegt er að blaðamannafundurinn sé haldinn til að skýra stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum Íraks og ennfremur til að forsetinn geti tjáð sig ítarlega um stöðuna í Írak. Mikilvægt er að forsetinn tjái sig um þessi mál og svari spurningum fréttamanna, til að tjá skoðanir sínar og stjórnarinnar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherraÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, tilkynnti á blaðamannafundi í Þjóðminjasafninu í gær að safnið yrði opnað á ný þann 1. september nk. eftir miklar endurbætur á húsnæðinu. Hafa þær staðið frá 1998 og allan þann tíma hefur safnið verið lokað. Kom fram í ræðu ráðherra á blaðamannafundinum að kostnaður við endurbætur á húsinu nemi samtals um 970 milljónum króna. Oft hafa verið nefndar dagsetningar opnunar safnsins, lengi vel var talað um árið 2000 og síðar um sumardaginn fyrsta 2004. Vegna þess að húsið var mun verr á sig komið en upphaflega var talið seinkaði framkvæmdum og viðgerðirnar urðu mun umfangsmeiri en reiknað var með árið 1998 er safninu var lokað. En nú loks blasir við að opnun safnsins verður í haust. Framkvæmdum við húsið eru á lokastigi og mun þeim ljúka í maímánuði. Verður í kjölfar þess hafist handa við að setja upp nýjar sýningar og flytja þjóðminjar í húsið. Á grunnsýningu munu verða um 2000 merkustu gripir safnsins sýndir. Í húsinu verður að auki stórt kaffihús og safnverslun, fyrirlestrarsalur og kennslustofa. Í dag var fyrsti safngripurinn fluttur í húsið. Var það Landhelgisbáturinn Ingjaldur sem Hannes Hafstein ráðherra, fékk að láni þegar hann reyndi að taka breska landhelgisbrjóta á Dýrafirði 1899.

Davíð Oddsson forsætisráðherraDavíð Oddsson forsætisráðherra og eiginkona hans, Ástríður Thorarensen, eru nú stödd í Bandaríkjunum. Fjallað hefur verið talsvert um ferð þeirra og t.d. sýndar í gær myndir á fréttavefsíðum er þau skoðuðu staðinn þar sem World Trade Center-byggingarnar stóðu til hryðjuverkanna í New York 11. september 2001. Hann hefur verið nefndur Ground Zero eða núllpunkturinn. Framundan er uppbygging á svæðinu og mun fyrirhuguð bygging sem rísa á þar, verða sú stærsta í heimi. Meðal annarra verkefna forsætisráðherra í ferðinni til Bandaríkjanna verður að opna sýningu Errós í Grey Art Gallery og kynna sér starf skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í Norður-Ameríku.

FrelsisdeildinSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu uppfærð staða í Frelsisdeildinni. Í umfjöllun um stöðu mála nú segir: "Pétur H. Blöndal hefur forystu nú þegar lokaspretturinn er að hefjast í Frelsisdeildinni. Hann leiðir nú með 11 stig en Guðlaugur Þór og Sigurður Kári koma næstir með sex og fimm stig. Einar Kristinn sem var í öðru sæti hefur nú fallið í það fjórða en hann hefur ekki bætt við sig stigi frá síðustu umferð. Nú hafa flest þau mál sem afgreidd verða á þessu þingi verið lögð fram og því snýr lokabaráttan aðallega að því að fá góðu málin samþykkt. Góðar breytingartillögur gætu þó reynst drjúgar." Ennfremur kemur fram: "Nokkrir þingmenn tóku sig saman og fluttu frumvarp um afnám opinberrar birtingar álagningarskráa. Þetta voru þau Sigurður Kári Kristjánsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Birgisson, Guðjón Hjörleifsson, Einar Oddur Kristjánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Sólveig Pétursdóttir, Pétur H. Blöndal, Drífa Hjartardóttir og Halldór Blöndal. Heimdallur hefur lengi barist fyrir afnámi slíkra birtinga og er frumvarpið því sérstakt ánægjuefni." Það verður spennandi að sjá hver vinnur Frelsisdeildina og fær farandbikar til varðveislu í eitt ár.

AkureyrarkirkjaKveðja - ár frá flutningum
Í gær kvöddum við í fjölskyldunni hinstu kveðju okkar ástkæru Kristínu Jensdóttur, eða Stínu, eins og hún var ávallt kölluð. Hún lést 4. apríl sl. Stína var eiginkona ömmubróður míns, Kristjáns Stefánssonar. Var sól og blíða hér á Akureyri á útfarardegi hennar og kom mikill hópur fólks saman í Akureyrarkirkju til að kveðja Stínu. Sannaðist þar endanlega að þau hjón höfðu eignast gríðarlega stóran og fjölmennan vinahóp, þau voru gríðarlega trygglynd. Allt frá bernskuárum mínum hafa Kiddi og Stína verið mér mjög kær og verður seint hægt að þakka til fulls allt það góða sem þau hafa gert fyrir mig. Þau hafa alla tíð verið stoð og stytta og eru samverustundir fyrri ára mjög kærar í minningunni. Athöfnin var í senn látlaus en virðuleg. Tónlistin var vel valin, t.d. forspilið var Intermezzo úr óperunni Cavalleria Rusticana, var það vel í takt við tónlistaráhuga þeirra hjóna, en þau hafa alla tíð verið miklir óperuunnendur. Eftir athöfnina var erfidrykkja í safnaðarheimilinu og kom þar saman mikill fjöldi fólks. Gullý frænka, býr á Spáni og Kristján yngri í Frakklandi, og var virkilega gaman að hitta þau og fjölskyldur þeirra, yfir páskana, og ræða saman. Seinnipartinn hittumst við svo öll í Víðilundi og borðuðum saman. Á svona stundum sér maður best hvað fjölskylda getur verið samhent og sterk. Ekkert jafnast á við traust fjölskyldubönd. Í gær var ár liðið frá því ég flutti í íbúðina í Þórunnarstrætinu og um kvöldið bauð ég nokkrum vinum til mín og áttum við góða stund að loknum löngum degi.

Dagurinn í dag
1865 Abraham Lincoln 16. forseti Bandaríkjanna, myrtur í leikhúsi í Washington
1914 Farþegaskipið Titanic ferst í jómfrúrsiglingu sinni við Nýfundnaland - 1500 manns fórust
1963 Hrímfaxi, flugvél Flugfélags Íslands, fórst í Noregi - Anna Borg leikkona, lést í slysinu
1987 Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Suðurnesjum, vígð að viðstöddum þrjú þúsund gestum
1992 Ráðhús Reykjavíkurborgar vígt við hátíðlega athöfn - það var fjögur ár í byggingu

Snjallyrði dagsins
Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra.
Jesús Kristur