Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 apríl 2004

Akureyrarkirkja

Í dag kvöddum við í fjölskyldunni hinstu kveðju okkar ástkæru Kristínu Jensdóttur, eða Stínu, eins og hún var ávallt kölluð. Hún lést 4. apríl sl. Stína var eiginkona ömmubróður míns, Kristjáns Stefánssonar. Var sól og blíða hér á Akureyri á útfarardegi hennar og kom mikill hópur fólks saman í Akureyrarkirkju til að kveðja Stínu. Sannaðist þar endanlega að þau hjón höfðu eignast gríðarlega stóran og fjölmennan vinahóp, þau voru gríðarlega trygglynd.

Allt frá bernskuárum mínum hafa Kiddi og Stína verið mér mjög kær og verður seint hægt að þakka til fulls allt það góða sem þau hafa gert fyrir mig. Þau hafa alla tíð verið stoð og stytta og eru samverustundir fyrri ára mjög kærar í minningunni. Athöfnin var í senn látlaus en virðuleg. Tónlistin var vel valin, t.d. forspilið var Intermezzo úr óperunni Cavalleria Rusticana, var það vel í takt við tónlistaráhuga þeirra hjóna, en þau hafa alla tíð verið miklir óperuunnendur. Eftir athöfnina var erfidrykkja í safnaðarheimilinu og kom þar saman mikill fjöldi fólks. Gullý frænka, býr á Spáni og Kristján yngri í Frakklandi, og var virkilega gaman að hitta þau og fjölskyldur þeirra, yfir páskana, og ræða saman. Seinnipartinn hittumst við svo öll í Víðilundi og borðuðum saman.

Á svona stundum sér maður best hvað fjölskylda getur verið samhent og sterk. Ekkert jafnast á við traust fjölskyldubönd. Við leiðarlok kveðjum við Stínu með virðingu - hún var einstök að öllu leyti. Kiddi minn á erfiða tíma framundan við að horfast í augu við tilveruna án Stínu - þau voru eitt í öllu tilliti í hálfa öld. Ég dáðist að því hversu vel hann hugsaði um Stínu í veikindum sínum - en þrátt fyrir að hún væri illa haldin af Alzheimer-sjúkdómnum sinnti hann henni heima allt til þess síðasta er hún varð að leggjast inn á sjúkrahús nokkrum vikum fyrir lokin. Þá sá ég hversu sterk og öflugu ást getur verið. Kiddi dýrkaði Stínu meira en allt annað og ást þeirra var svo gríðarlega sterk. Kiddi sannaði fyrir mér þá betur en nokkru sinni áður hvað hann er sterkur persónuleiki.

Við styðjum hann áfram eftir þessi þáttaskil í ævi sinni. Minningin um einstaka konu mun lifa í huga okkar allra sem unnum henni.