Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 maí 2004

AlþingiHeitast í umræðunni
2. umræða um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar hélt áfram á Alþingi í gærmorgun kl. 10:00 en fundi hafði áður verið frestað á fjórða tímanum um nóttina. Í allan gærdag var málþóf í þinginu af hálfu stjórnarandstæðinga, aðeins komust fimm þingmenn í ræðustól til að ræða um frumvarpið. Alþingismennirnir Mörður Árnason og Björgvin G. Sigurðsson eyddu t.d. megninu af sínum ræðutíma með að lesa upp úr bókum og ritum. Mörður las úr skáldsögu og ljóðabók Sr. Jóns Þorlákssonar frá Bægisá en Björgvin úr Frelsinu eftir John Stuart Mill. Undir kvöld fór Jóhann Ársælsson í pontu og eyddi þar tæpum klukkutíma að ræða um málefni ríkisstjórnarinnar og eyddi megninu af tímanum í að ræða skipan hæstaréttardómara fyrir tæpu ári síðan og málefni dómsmálaráðherra. Það er því ljóst að Samfylkingin er með öllu stefnulaus í málinu og talar út og suður, út í bláinn. Hefur í raun tekið marga hringi í kringum sjálft sig á skömmum tíma. Það ætti að blasa við öllum sem hlusta á umræðurnar frá upphafi til enda. Engin málefnaleg umræða er um málið sjálft, eignarhald á fjölmiðlum og aldrei kemur stefna flokksins til þess beint fram. Hér hef ég áður vikið að fréttaflutningi fréttamiðla Norðurljósa, ekkert hefur breyst í þeim efnum. Þeim hefur verið beitt í þessu máli í pólitískum tilgangi í því skyni að verja ákveðna hagsmuni. Frjáls og óháð fjölmiðlun, sem þau hafa haft að leiðarljósi, hefur vikið á undanförnum vikum fyrir einkahagsmunum eigenda Norðurljósa og starfsmanna fyrirtækisins. Spyrja mætti, er það virkilega rétt og ásættanlegt?

Ólafur Ragnar GrímssonÞegar fjölmiðlafrumvarpið verður orðið að lögum mun það verða verkefni Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands, að taka til þeirra afstöðu og annaðhvort staðfesta þau eða vísa til þjóðarinnar með þjóðaratkvæðagreiðslu. Í 26. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands kemur fram að forsetinn geti neitað að staðfesta lög frá Alþingi. Hefur málskotsréttur forseta verið bitbein í 60 ára sögu forsetaembættisins og deilt um hvort hann sé virkur eður ei, en honum hefur aldrei verið beitt. Nú keppast andstæðingar fjölmiðlafrumvarpsins við að skora á forsetann að ganga gegn meirihluta þingsins ef það verður samþykkt þar á næstu dögum. Er reyndar svo langt gengið að hann sneri heim í gær til landsins frá Mexíkó í kastljósi fjölmiðla. Var áður fyrirhugað að forseti héldi þaðan til Kaupmannahafnar, þar sem forseti átti að vera viðstaddur brúðkaup Friðriks Danaprins á morgun, sem er afmælisdagur forsetans. Er væntanlega ljóst að með nærveru sinni er hann að senda þinginu skilaboð. Hann sagðist við komuna hafa skyldum að gegna. Neiti forseti að undirrita þessi lög sem samþykkt verða af meirihluta þingmanna er ljóst að komið er að tímamótum í sögu forsetaembættisins og reyndar ekki ólíklegt að sú stjórnlagakreppa sem þá kæmi upp myndi verða upphaf að endalokum embættis forseta Íslands. Allavega leiða þær til breytinga á þann hátt að taka hina úreldu 26. grein úr stjórnarskránni.

Sonia Gandhi og Atal Behari VajpayeeÞáttaskil hafa orðið í indverskum stjórnmálum seinasta mánuðinn. Er indversku þingkosningarnar hófust fyrir tæpum mánuði áttu flestir von á öruggum sigri Atal Behari Vajpayee forsætisráðherra, og stjórnar hans. Líklegt þótti að eyðimerkurganga Kongressflokksins, er leitt hafði landið í tæp 40 ár, og hafði verið utan stjórnar í tæpan áratug, myndi halda áfram. Ljóst er hinsvegar nú að flokkurinn hefur borið sigurorð af Vajpayee og stjórnarskipti framundan. Vajpayee og ríkisstjórnin hefur nú formlega viðurkennt ósigur sinn í kosningunum. Kongressflokkurinn hefur markvisst bætt við sig fylgi allan þann mánuð sem kosningarnar hafa staðið, en þar sem landið er stórt og mikið standa kosningar í tæpan mánuð og eru haldnar í alls fimm þrepum. Líklegast er nú að Sonia Gandhi leiðtogi Kongressflokksins, muni taka við valdataumunum og verða önnur konan til að vera forsætisráðherra landsins. Tveir áratugir verða liðnir í október frá því að tengdamóðir Soniu, Indira Gandhi var myrt. Hún hefur lengst allra verið forsætisráðherra landsins, 1966-77 og 1980-1984. Við af henni tók Rajiv Gandhi, sonur hennar og eiginmaður Soniu. Hann var forsætisráðherra 1984-1989, en var myrtur í sprengjutilræði þann 21. maí 1991, en hann var þá í kosningabaráttu í héraðinu Tamil Nadu. Þáttaskil eru nú framundan á Indlandi og verður fróðlegt að fylgjast með verkum frú Gandhi á forsætisráðherrastóli.

Eurovision söngvakeppninEurovision
Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að komið er að Eurovision-söngvakeppninni. Hún er að þessu sinni haldin í Istanbul í Tyrklandi, um er að ræða 49. skiptið sem keppnin fer fram. Hún er haldin að þessu sinni með öðru sniði en áður, er í tveim hlutum. Annarsvegar undanúrslitakeppni þar sem 22 þjóðir keppa um að komast í úrslitakeppni sem haldin er svo þrem dögum síðar. Þar keppa þau 14 lönd sem örugg eru áfram, 10 þeirra eru þau sem verða í 10 efstu sætum keppninnar og að auki eru fjögur stærstu löndin sem alltaf eru örugg inn, samkvæmt sérstöku samkomulagi. Undankeppnin fór fram fyrsta sinni í gærkvöldi. Þau 10 lönd sem komust áfram úr undanúrslitakeppninni að þessu sinni voru Serbía-Svartfjallaland, Malta, Holland, Albanía, Úkraína, Króatía, Bosnía-Hersegóvina, Makedónía, Grikkland og Kýpur. Ekki var greint frá stigafjölda þjóðanna eða hvar þau voru í röðinni sem 10 efstu. Athygli vakti að lag Dana komst ekki áfram, en almennt hafði verið gert ráð fyrir því. En vilji fólks komst þarna til skila og ekkert við því að segja. Framlag Íslands í keppninni að þessu sinni, er eins og allir vita, Heaven, flutt af Jónsa, söngvara hljómsveitarinnar Í svörtum fötum. Eurovision-hópurinn skrifar þessa dagana á skemmtilegt blogg og fjallar um það sem er að gerast þar.

Stanley KubrickLeikstjóraumfjöllun
Ég hef nú aftur hafið skrif um leikstjóra á kvikmyndir.com eftir smáhlé. Hef þar seinasta árið skrifað um 13 leikstjóra, feril þeirra og ævi. Í nýjasta pistlinum er fjallað um leikstjóraferil Stanley Kubrick. Hann fæddist í Bronx í New York 26. júlí 1928 og leikstýrði á ferli sínum mörgum af athyglisverðustu stórmyndum Hollywood á seinni hluta 20. aldarinnar. Nægir þar að nefna sem dæmi 2001: A Space Odyssey, A Clockwork Orange, Dr. Strangelove, Spartacus og The Shining. Stanley Kubrick lést 7. mars 1999 í Harpenden í Hertfordskíri í Englandi, aðeins fjórum dögum eftir að hann kláraði mynd sína, Eyes Wide Shut. Hvet alla til að lesa ítarlegan pistil minn um ævi og feril Kubricks. Framundan eru svo fleiri pistlar um þekkta leikstjóra úr kvikmyndasögunni, sem mörkuðu spor með meistaraverkum sínum.

Dagurinn í dag
1776 Gefin var út konungleg tilskipun um póstferðir á Íslandi
1888 Brasilía afnemur þrælahald með öllu - þáttaskil í mannréttindum þar
1894 Ásgeir Ásgeirsson forseti fæðist - var forseti 1952-1968. Ásgeir lést 15. september 1972
1966 Undirritaðir voru samningar um kaup ríkisins á Skaftafelli í Öræfum, varð þjóðgarður
1981 Jóhannesi Páli II páfa, sýnt banatilræði - hann slapp naumlega. Jóhannes Páll páfi hefur setið á páfastóli frá októbermánuði 1978. Aðeins þrír páfar hafa setið lengur en hann

Snjallyrði dagsins
A celebrity is a person who works hard all his life to become well known, then wears dark glasses to avoid being recognized.
Fred Allen grínisti

Hvet að lokum alla til að lesa Ríkisdagblaðið