Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 maí 2004

AlþingishúsiðHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra, mælti á þingi í gær fyrir umdeildu fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Til að koma málinu á dagskrá þurfti að greiða atkvæði um afbrigði, en frumvarpið kemur fram eftir að fresti til að setja ný mál á dagskrá rann út. Sú atkvæðagreiðsla fór 32-27, það hefur aldrei gerst í þingsögunni að neitað hefði verið um afbrigði. Í ræðu sinni sagði forsætisráðherra að því færi fjarri að tilraunir til að stemma stigu við samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum væru séríslenskt fyrirbæri; jafnvel þótt aðstæður í öðrum löndum ættu sér enga hliðstæðu við það sem hér á landi væri raunin. Sagði hann þróun á fjölmiðlamarkaði hérlendis hafa verið orðna óæskilega og tímabært að setja lög til að tryggja heilbrigðan fjölmiðlamarkað. Þar væri Ísland að feta í fótspor annarra lýðræðisríkja. Forsætisráðherra sagðist telja að þótt einhverjum núverandi flokka á Alþingi hefði fipast þegar út í alvöruna væri komið hefðu þeir allir á einhverju stigi verið því sammála að setja þyrfti reglur til að stemma stigu við slíkri samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlamarkaði sem nú blasti við. Urðu ítarlegar umræður um frumvarp ríkisstjórnarinnar og stóðu þær fram á nótt. Kom fram í máli stjórnarandstöðuþingmanna að frumvarpið væri meingallað, óvandað og gæti kostað ríkissjóð milljarða í formi skaðabóta. Starfsfólk Norðurljósa mótmæltu frumvarpinu við þinghúsið, og sumir þeirra köstuðu banönum að þinghúsinu.

Ingibjörg Sólrún GísladóttirGuðrún ÖgmundsdóttirMikla athygli vakti í gærkvöldi er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður og borgarfulltrúi, tók sæti á þingi í fjarveru Guðrúnar Ögmundsdóttur. Var tilkynnt að vegna veikinda gæti Guðrún ekki sinnt þingstörfum á næstunni og eins og flestir vita er Ingibjörg fyrsti varamaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hún náði ekki kjöri við alþingiskosningarnar fyrir tæpu ári, þann 10. maí 2003. Er þetta athyglisvert í ljósi þess að fyrr sama dag birtist grein Ingibjargar í Morgunblaðinu, þar sem hún fjallar um fjölmiðlamálið. Er þetta í þriðja sinn sem Guðrún víkur til að rýma fyrir Ingibjörgu á þingi frá kosningum. Er engin furða sennilega að Samfylkingarfólk reyni að lappa upp á Ingibjörgu og koma henni í sviðsljósið. Hefur ásýnd hennar ryðgað nokkuð eftir að hún hrökklaðist af borgarstjórastóli vegna þingframboðs fyrir einu og hálfu ári og náði ekki kjöri í kosningunum. Hefur hún verið lítt sýnileg á pólitískum vettvangi síðan þá, ja nema ef vera skyldi innan Samfylkingarinnar, þar sem hún er nú varaformaður að baki Össurar Skarphéðinssonar. Ingibjörg sem byggði varnarvirki fyrir nokkur fyrirtæki í Borgarnesræðum sínum, vitnar nú í þær fram og til baka og telur þær heilagan boðskap. Flestum öðrum þóttu þær ræður lykta af einhverju öðru en snilld.

Michael HowardKosningabarátta fyrir Evrópuþingkosningarnar 10. júní nk. er komin á fullt í Evrópusambandslöndunum. Greinilegt er að hart verður tekist á um sæti Breta á þinginu í þeim kosningaslag. Hefur Breski Íhaldsflokkurinn verið áberandi í umræðunni um Evrópumál að undanförnu í Bretlandi og sótti Michael Howard leiðtogi flokksins, hart að Tony Blair forsætisráðherra, vegna umræðu um þjóðaratkvæðqgreiðslu um stjórnarskrá ESB og ennfremur hefur hann gagnrýnt linkind Blairs forsætisráðherra í viðræðum Breta við sambandið um stjórnarskrána. Hefur Howard heitið því að binda enda á stjórn Evrópusambandsins yfir breskum fiskveiðum, nái flokkurinn góðri stöðu í Evrópukosningunum og næstu þingkosningum í Bretlandi. Skv. nýrri skoðanakönnun í Bretlandi nýtur Íhaldsflokkurinn meira fylgis en Verkamannaflokkurinn. Persónulegt fylgi Blair og Howard er jafnmikið, en það hefur ekki gerst í allri forsætisráðherratíð Blair að hann standi jafnfætis öðrum stjórnmálaleiðtoga.

Margaret ThatcherMargaret Thatcher
Í dag eru 25 ár liðin frá því Margaret Thatcher tók við embætti sem forsætisráðherra Bretlands. Daginn áður hafði Íhaldsflokkurinn unnið táknrænan sigur í þingkosningum og velt úr sessi ríkisstjórn Verkamannaflokksins sem James Callaghan veitti forsæti. Kjör hennar í embætti markaði mikil þáttaskil. Hún var fyrsti kvenforsætisráðherra Bretlands og hafði fjórum árum áður verið kjörin leiðtogi Íhaldsflokksins og steypt þar af stóli, Edward Heath fyrrum forsætisráðherra. Stjórnmálaferill hennar hófst árið 1951 er hún var frambjóðandi flokksins í Dartford. Hún náði ekki kjöri, en jók fylgi flokksins þar umtalsvert. 1959 var Thatcher kjörin á breska þingið fyrir Finchley hérað, sat hún á breska þinginu fyrir það kjördæmi allt þar til hún hætti þingmennsku árið 1992. Er Íhaldsflokkurinn komst til valda árið 1970 varð Thatcher menntamálaráðherra og leiddi hún í sinni ráðherratíð, uppstokkun í menntamálum og stóð fyrir miklum sparnaðaraðgerðum. Eftir þingkosningarnar 1974 misstu íhaldsmenn völdin og Heath missti leiðtogastólinn ári síðar eins og ég hef vikið að, og Thatcher tók við leiðtogahlutverkinu. Forsætisráðherraferill Margaret Thatcher markaðist af nýjum og ferskum tímum í breskum stjórnmálum. Stjórn hennar bætti stöðu bresks efnahagslífs gríðarlega, kom stjórn á útgjöld ríkissjóðs, minnkaði hlut ríkisins í efnahagslífinu og einkavæddi fjölda ríkisfyrirtækja. Thatcher lét af embætti 28. nóvember 1990 eftir rúmlega 11 ára valdaferil og sigur í þrennum þingkosningum, hún var eini forystumaður breskra stjórnmála sem náði slíkum áfanga á 20. öld og sat lengst á þeim tíma. Hún er án nokkurs vafa einn af fremstu leiðtogum hægrimanna á 20. öld, markaði mikinn sess í sögu aldarinnar.

Hafsteinn Þór HaukssonPistill Hafsteins
Á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna birtist í gær pistill eftir Hafstein Þór Hauksson formann sambandsins. Þar fjallar hann fjölmiðlafrumvarpið og skattalækkanir sem vonandi verða samþykktar nú á vorþinginu. Orðrétt segir í pistlinum: "Auðvitað dylst engum sú herferð sem fjölmiðlar í eigu Baugs hafa haldið uppi gegn Sjálfstæðisflokknum. Sú herferð hefur reyndar ekki síst beinst að persónum forsætis- og dómsmálaráðherra. Þá liggur fyrir að hér á landi hefur orðið veruleg samþjöppun í eignarhaldi fjölmiðlanna. Við það bætist svo að stærsti eignaraðilinn að frjálsu fjölmiðlunum er með mjög mikla markaðshlutdeild í smásöluverslun. En vinnubrögð stjórnarandstöðunnar og hin sérstaka staða á íslenskum fjölmiðlamarkaði breyta þó ekki grundvallarhugmyndum mínum um að ríkisvaldið eigi að skipta sér sem allra minnst af atvinnulífinu." Hvet alla til að lesa pistilinn.

Dagurinn í dag
1880 Útför Jóns Sigurðssonar forseta, og konu hans fór fram í Reykjavík
1979 Margaret Thatcher verður forsætisráðherra Bretlands - hún sat í embætti til 1990
1980 Josip Broz Tito einræðisherra Júgóslavíu deyr - hann hafði setið á valdastóli í 35 ár
1986 Solveig Lára Guðmundsdóttir kjörin fyrst kvenna, prestur í almennum prestskosningum
2000 Ken Livingstone kjörinn borgarstjóri í London - söguleg úrslit og áfall fyrir ríkisstjórnina

Snjallyrði dagsins
Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.
Halldór Blöndal forseti Alþingis (í umræðu á þingi - 3. maí 2004)