Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 maí 2004

AlþingiHeitast í umræðunni
Líkur eru á því að þingstörfum ljúki fyrir hvítasunnu og sumarfrí þingmanna geti því hafist um mánaðarmótin. Rúmur hálfur mánuður er liðinn frá því áætlað var að þinglok yrðu upphaflega. Deilt hefur verið á þingi seinustu daga um smábátafrumvarp sjávarútvegsráðherra. Samkvæmt tillögum sjávarútvegsnefndar verður sóknardagakerfinu lokað og skulu sóknardagabátar stunda veiðar með krókaaflamarki frá upphafi næsta fiskveiðiárs. Hart hefur verið deilt um frumvarpið en líkur eru þó á því að það verði að lögum fyrir þinglok. Deilt var á þingi í morgun um fjölmiðlalögin, en þau hafa ekki enn verið sent forseta Íslands til staðfestingar. Sagði forsætisráðherra í umræðu í morgun að lögin færu með venjulegum hætti til forsetaembættisins, yrði meðhöndlað eins og önnur lög, þau myndu ekki lúta öðrum lögmálum. Þingmenn stjórnarandstöðu ítrekuðu að mikilvægt væri að forseti fengi málið sem fyrst á sitt borð. Samkvæmt stjórnarskránni hefur forsætisráðherra allt að 14 daga til að afhenda forseta lög eftir samþykki á þingi. Taugaveiklun í stjórnarandstöðunni kemur mjög á óvart, þegar svo skýrt kemur fram að hér er ekkert óeðlilegt um að vera, og eðlilegt ferli í gangi varðandi staðfestingu forseta og hann fái lög í hendur innan þess tíma sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Ennfremur í ljósi þess að forseti hefur ekki sjálfur gefið til kynna að hann velti því fyrir sér að neita að staðfesta lögin.

PersónuverndÞað er kunnara en frá þurfi að segja að undirskriftasöfnun andstæðinga fjölmiðlalaganna hefur verið mjög umdeild og margt flókið við hana sem þyrfti að kanna betur. Á skömmum tíma hefur þar verið safnað rúmlega 30.000 undirskriftum, bæði á netinu og með skriflegum undirskriftum. Mikill meirihluti hefur þó safnast á netinu. Merkilegt er að allir fjölmiðlar hafa fjallað lítið um bakgrunn þessarar söfnunar eða spurt einfaldra spurninga eða kannað hlutina beint. Engin gagnrýnin rannsókn virðist eiga sér þar stað á söfnuninni. Á þessu vefsvæði sem vísað er til er hægt með auðveldum hætti að skrá kennitölu fólks án sérstaks eftirlits og engan veginn er hægt að fylgjast með því hvort kennitala fólks hafi verið skráð að því forspurðu. Lítið mál er að fara í þjóðskrá í gegnum heimabanka sinn og fá kennitölur og skrá eftir það fólk inn. Það þarf kannski að kæra þessa undirskriftasöfnun til að fá slíkt fram með óyggjandi hætti. Fram kom í fjölmiðlum í dag að margir hafa leitað til Persónuverndar í ljósi þess að einstaklingar sem vildu skrá upplýsingar um sig á vefsíðuna, komust að því að nafn þeirra og kennitala hafði þegar verið skráð. Þetta er slæmt mál, sem þarf að kanna nánar og kæra nefnda söfnun ef framhald verður á slíkum vinnubrögðum. Þetta er algjörlega óviðunandi.

Ríkisútvarpið við EfstaleitiFram kom í fréttum í dag að Eftirlitsstofnun EFTA, væri nú að rannsaka hvort rekstur Ríkisútvarpsins standist samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Í ítarlegri frétt í hádeginu á Bylgjunni kom fram að eftirlitsstofnun EFTA hafi nýlega tekið upp nýjar leiðbeinandi reglur um ríkisstyrki til opinberra ljósvakafjölmiðla í takti við samsvarandi reglur ESB frá árinu 2001. Samkvæmt þeim þarf að skilgreina almannaþjónustu fjölmiðilsins og þarf skilgreiningin að vera nákvæm og skýr. Þá þarf opinber fjölmiðill að starfa samkvæmt lögum. Ennfremur á opinbert fé sem rennur til opinbers fjölmiðils að vera bundið við almannahlutverk fjölmiðilsins. Eftirlitsstofnunin ætlar með athugun sinni að sjá til þess að opinberir styrkir verði ekki meiri en tilefni er til. Ástæða er til að fagna þessari rannsókn eftirlitsnefndarinnar, það er fyrir löngu orðin þörf á að kanna stöðu RÚV á markaðnum hér, í ljósi þess að afnotagjöldin fela í sér ólöglegan ríkisstyrk þar sem viðkomandi aðili er líka á auglýsingamarkaði.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsi.is fjallar Kári um frelsið. Orðrétt segir: "Þó að á undanförnum árum hafi náðst mikill árangur, með auknu frelsi, sem meðal annars hefur veitt okkur svigrúm til eigin ákvörðunartöku, án afskipta ríkisvaldsins, þá er þó en mjög langt í land í vissum málefnum. Einna helst er það stefna ríkisins hvað varðar vörur á borð við tóbak og áfengi. Sumir stjórnmálamenn telja það nefnilega í sínum verkahring að stýra neyslu fólks á þessum vörum. Forræðishyggjan hjá þessum stjórnmálamönnum fer langt útfyrir öll mörk, ekki ætla ég að taka fyrir neina ákveðna þingmenn í þessum máli en ljóst er að þeir koma bæði úr stjórnarandstöðu en einnig úr röðum stjórnarþingmanna. Efni þessara stuttu greinar er fremur að varpa fram ýmsum hugmyndum um þetta efni heldur en að agnúast út í einstaka óvita. Árum saman máttu íslendingar ekki framleiða eða neyta áfengis því að stjórnmálamenn höfðu einfaldlega bannað alla framleiðslu á öllum drykkjum sem innihélt alkahól 1914. Þessi lög ollu þó ekki almennri hugarfarsbreytingu almennings til áfengis, þvert á móti. Þeim sem höfðu áhuga á að eignast slíka bannvöru útveguðu sér hana þó að verðið hafi sennilega verið dálítið hærra en ella, ástandið varð þó ekki eins slæmt eins og þegar áfengisbann gekk í gildi í Bandaríkjunum, sem gerði mönnum á borð við Al Capone ríkan, á örskotsstundu."

BloggBloggið
Rúmt hálft ár er nú liðið síðan ég ákvað að efla bloggið með markvissum hætti, og hætta skrifum á spjallvefi að mestu og tjá mig hér í staðinn daglega og taka saman ítarlegar færslur um fréttir dagsins og fleiri þætti sem ég vildi fjalla um. Hef ég því hér næstum því daglega allt frá októbermánuði birt daglega helstu pælingar mínir, tengdar helstu fréttunum, greinaskrifum og því sem um er að vera sem ég tel viðeigandi að fjalla um. Breytti ég einnig forminu á blogginu, hafði fasta þætti hér á hverjum degi og fjallaði um það út frá því og bætti við myndum. Tel ég að það hafi gengið vel, teljarinn sýnir fram á að vel er fylgst með skrifunum og þau eru rædd víða. Markmiðið sem ég setti þegar ég ákvað að breyta blogginu og efla það, hefur því náðst og vel það. Hér hef ég daglega umfjöllun um helstu fréttirnar og greinar sem mér þykir vert að benda á. Með þessu hef ég fengið það fram að vefdagbókin hér er heimild um atburði í samfélaginu, einskonar atburðasamantekt. Hef ég engan sérstakan hug á að gera bloggið mjög persónulegt, nema að því leyti að tjá skoðanir mínar á stjórnmálum og samtímaviðburðum. Bloggið hér hefur lengst af verið mjög pólitísks eðlis og byggt á áhuga mínum á stjórnmálum og öðrum þáttum sem hér koma fyrir. Áfram verður haldið á sömu braut, þó eitthvað verði um breytingar á færslukerfinu í sumar, með hækkandi sól. En þeim sem vilja hafa samband bendi ég á netfangið mitt.

Dagurinn í dag
1883 Alexander III krýndur keisari Rússlands - sat á valdastóli allt til dauðadags árið 1894. Sonur hans, Nikulás (sem tók við af honum) og fjölskylda hans voru drepin í byltingunni 1917
1937 Golden Gate-brúin í San Francisco vígð - eitt af helstu táknum San Francisco borgar
1964 Jawaharlal Nehru fyrsti forsætisráðherra Indlands, deyr í Nýju Delhi, 74 ára að aldri - dóttir hans, Indira Gandhi, og dóttursonur, Rajiv Gandhi, urðu bæði forsætisráðherrar landsins
1983 Hús verslunarinnar vígt - var reist til að efla íslenska verslun og einingu samtaka þeirra
1999 Slobodan Milosevic og fleiri forystumenn Serbíu ákærðir fyrir stríðsglæpi í Haag - Milosevic missti völdin árið 2001 og var framseldur til Haag síðar sama ár og bíður dóms fyrir glæpi sína

Snjallyrði dagsins
The artist doesn't have time to listen to the critics. The ones who want to be writers read the reviews, the ones who want to write don't have the time to read reviews.
William Faulkner (1897-1962)