Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 maí 2004

SjálfstæðisflokkurinnSjálfstæðisflokkurinn 75 ára
Í dag eru 75 ár liðin frá stofnun Sjálfstæðisflokksins. 25. maí 1929 sameinuðust þingflokkar Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins í Sjálfstæðisflokkinn. Við stofnun voru tvö mál tilgreind sem aðalstefnumál Sjálfstæðisflokksins. Hið fyrra var að vinna að því og undirbúa, að Ísland myndi taka að fullu í sínar hendur eigin mál, samhliða því að 25 ára samningstímabili sambandslaganna væri á enda. Hið seinna var að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta að leiðarljósi. Með þessu voru markaðir tveir höfuðþættir sjálfstæðisstefnunnar: sjálfstæði þjóðarheildarinnar og sjálfstæði einstaklinganna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt frá upphafi staðið vörð um einkaframtakið og hefur frelsi einstaklingsins og ábyrgð í ríkisfjármálum verið einkunnarorð Sjálfstæðisflokksins. Það hefur verið gæfa Sjálfstæðisflokksins að valist hafa til forystustarfa hæfir og frambærilegir menn, er hafa leitt flokkinn farsæla leið. Það er mikil ástæða til að fagna á þeim miklu tímamótum er flokkurinn fagnar 75 ára afmæli sínu. Forysta flokksins í landsmálum hefur verið traust og leitt til hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Sjálfstæðisstefnan er nú rétt eins og 1929 sú stefna sem mun reynast íslensku þjóðinni farsælust.

75 ára afmæli - umfjöllun mín um afmæli flokksins

AlþingiEldhúsdagsumræður á Alþingi
Senn líður að lokum þingstarfa á vorþinginu, mörg hitamál hafa verið rædd í þingsölum á þessu starfstímabili og mikið tekist á um helstu málin. Í eldhúsdagsumræðum í gærkvöldi litu þingmenn allra flokka yfir sviðið og fóru yfir veturinn í stjórnmálunum og starfstíma þingsins. Stjórnarandstöðuþingmenn voru hvassir í orðavali og notuðu gífuryrði til að ráðast að stjórnarþingmönnum, má fullyrða að eldhúsdagsumræður hafi aldrei verið jafn hvassbeittar og nú. Fyrstur stjórnarþingmanna í umræðunni talaði Geir H. Haarde fjármálaráðherra. Í ræðu sinni sagði hann að ríkisstjórnarflokkarnir ynnu að lokafrágangi á tillögum um skattalækkanir og búast mætti við að þær yrðu kynntar á þingi á næstu dögum. Fram kom í ræðu hans að Ísland hefði að undanförnu fest sig í sessi sem fyrirmyndarríki á mörgum sviðum en það ástand og málþóf sem stjórnarandstaðan hefði haldið uppi vegna andstöðu sinnar við fjölmiðlafrumvarpið hefði sett mikinn blett á virðingu Alþingis bæði hér á landi og út á við. Tók Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, undir að tillögur um skattalækkanir kæmu fram á næstunni í ræðu sinni. Ber að fagna því mjög að þetta baráttumál okkar ungra sjálfstæðismanna og eitt helsta kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins í fyrra verði efnt nú á vorþinginu, enda var áríðandi að koma þessu máli á hreint fyrir sumarfrí þingmanna.

ReyðarfjörðurForystumönnum Vinstri grænna á þingi varð tíðrætt í ræðum sínum í eldhúsdagsumræðunni um þá miklu uppbyggingu sem nú á sér stað á öllum sviðum í Fjarðabyggð og um allt Austurland og birst hefur okkur í vönduðum fréttaskýringum Björns Malmquist fréttamanns á Egilsstöðum. En því fór hinsvegar víðsfjarri að þar væri heimamönnum og íbúum Austurlands og Norðausturkjördæmis samfagnað með góða stöðu mála og þá miklu framför sem orðið hefur. Þeir kepptust þess í stað við að níða niður allt það góða sem komið hefur með væntanlegum virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka með endalausu svartagallsrausi. Forystumaður VG í Reykjavík sá reyndar ástæðu til að hvetja fólk til að reisa álverinu og virkjuninni níðstangir sem víðast og herða á neikvæðum ummælum gegn framkvæmdunum og uppbyggingunni fyrir austan. Það er merkilegt að annar þingmaðurinn er málsvari kjördæmis Austfirðinga, en málflutningurinn kemur ekki á óvart. Hann hefur oft heyrst vel en undarlegt er að hert sé á honum þegar jákvæð staða mála blasir við. Einu lífslexíur vinstri grænna eru úr sér gengnar kommaþulur sem engir aðrir vilja kannast við í dag. Það er kannski spurning hvort ekki væri rétt fyrir þessa menn að horfa til nútímans og fagna því sem vel gengur í stað þess að níða það niður.

ÞingsalurFormaður Vinstri grænna fór mikinn í ræðu sinni í þingumræðunum, venju samkvæmt og fúkyrðin flugu í allar áttir. Hann vandaði stjórnarflokkunum ekki kveðjurnar og var auk þingflokksformanns sama flokks í ótrúlegu svartagallsrausi eins og fyrr er nefnt t.d. varðandi stöðu mála fyrir austan. Sagði formaðurinn að hér væri allt að fara fjandans til og sagði réttast að henda ríkisstjórninni á haugana sem fyrst. Var hann svo hvassur og uppstökkur að hann minnti einna helst á predikara í sértrúarsöfnuði að tala um myrkravættina sem allsstaðar væru. Gleymdi hann sér það mjög í formælingunum að er kom að lokum ræðunnar, gargaði hann sumarkveðju sína til landsmanna. Uppskar hann að vonum hlátur úr salnum, enda ekki furða að menn hlæji að því hversu illa maðurinn hefur stjórn á sér, hefur það reyndar birst oft að undanförnu. Eins og fram kom í ræðum fjármála- og utanríkisráðherra ríkir hér stöðugleiki á flestum sviðum. Samfellt hagvaxtarskeið hérlendis hefur komið til vegna ábyrgrar efnahagsstjórnar og uppbyggingar. Þeir sem andmæla framkvæmdum og uppbyggingu á Austurlandi með öllum kröftum eru hinsvegar ekki trúverðugir þegar kemur að því að gagnrýna stjórnvöld við það hvernig haldið er á stjórn landsmála að öðru leyti. Þar fara vinstri grænir framarlega og hafa alla tíð verið, en Samfylkingarmenn skiptu um skoðun eftir að fram hafði komið að meirihluti þjóðarinnar væri hlynntur framkvæmdunum, eins og kunnugt er.

ÞingsalurLög um eignarhald á fjölmiðlum er samþykkt voru á þingi í gær, var rauður þráður í gegnum allar ræður kvöldsins í eldhúsdagsumræðunum. Stjórnarandstæðingar fóru mikinn í að endurtaka alla frasana er heyrðust í þingumræðum seinustu vikna en stjórnarsinnar minntu á mikilvægi laganna. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, minntist á í ítarlegri ræðu sinni að stjórnarandstaðan hefði forðast það eins og heitan eldinn í umræðunum að koma sjálf með tillögur að lögum um eignarhaldið á fjölmiðlum og Samfylkingin vakið sérstaka athygli fyrir stefnuleysi sitt. Undir þessi ummæli tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, sem benti á mörg ummæli stjórnarandstöðunnar um málið frá fyrri tíð. Kristján Möller svaraði í ræðu sinni fyrir Samfylkinguna og sagði flokkinn hafa komið með margar tillögur um málið. Engar nefndi hann þó beint í ræðu sinni, enda eru þær allt annars eðlis en taka beint á sjálfu eignarhaldinu á fjölmiðlunum. Það blasir við öllum að Samfylkingin er bara flokkur sem eltir vindinn og dansar eins og vindhani eftir könnunum og hefur engar skoðanir nema taka púlsinn, sannfæringarnar eru engar og tillögurnar allar byggðar á vinsældamati. Það hefur sannast vel seinustu vikur.

ÞingsalurÍ ræðum sínum við eldhúsdagsumræðurnar fjölluðu bæði Geir H. Haarde fjármálaráðherra og Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, um málskotsrétt forseta Íslands, og sögðu að það væri atlaga að þingræðinu og óeðlilegt inngrip hjá forseta í málefni þingsins, ef hann staðfesti ekki lög um eignarhald á fjölmiðlum. Ef hann færi þá leið myndi hann stíga af friðarstóli og valda stjórnlagakreppu án fyrirsjáanlegra endaloka. Sú umræða er nú uppi að hann eigi ekki að skrifa undir og hann meira að segja hvattur beint með útifundi við forsetaskrifstofuna við Sóleyjargötu í gærkvöldi. Fólk hlýtur að gera sér grein fyrir því að forseti er í erfiðri aðstöðu, en hann hefur í hendi sér hvort hann fer eftir vilja meirihluta þingsins eða fær það upp á móti sér með inngripum í störf þess. Það er mikið umhugsunarefni að almenningur telji forsetann eiga frekar að beita þessu valdi nú en t.d. í málum tengdum EES og gagnagrunni á heilbrigðissviði. En umræður gærkvöldsins voru líflegar og mörg orð féllu þar og beitt skoðanaskipti milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég mun fjalla meira um umræðurnar í sunnudagspistli á heimasíðu minni um næstu helgi.

Dagurinn í dag
1787 Stjórnarskrárráðstefna haldin í Philadelphiu í Bandaríkjunum
1929 Sjálfstæðisflokkurinn stofnaður - Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinast
1958 Steinn Steinarr, eitt merkasta ljóðskáld 20. aldarinnar, deyr í Reykjavík, 49 ára að aldri
1961 John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, kynnir geimferðaráætlun stjórnar sinnar
1997 Strom Thurmond verður sá þingmaður Bandaríkjanna er lengst hefur setið, þá alls í 47 ár og 10 mánuði - hann sat á þingi til janúarmánaðar 2003. Hann lést í júní 2003, þá aldargamall

Snjallyrði dagsins
Sjálfstæðisstefnan hafnar kreddum og kyrrstöðu niðurrifsafla og afturhaldsafla, í hvaða mynd sem þær birtast og hvaða nafni sem þær nefnast. Hún er umfram allt stefna markvissrar jákvæðrar þróunar til betri lífskjara og lífsfyllingar. Trúin á manninn er í öndvegi sjálfstæðisstefnunnar.
Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins (Sjálfstæðisstefnan - 1981)