

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og starfandi forsætisráðherra, las skömmu eftir hádegið forsetabréf um frestun þingfunda til þingsetningar, föstudaginn 1. október nk. Áður hafði breytt frumvarp stjórnarflokkanna um niðurfellingu fjölmiðlalaganna verið samþykkt sem lög af þinginu, eftir þriðju umræðu um málið. Verða lögin nú send forseta Íslands til staðfestingar. Frumvarpið var samþykkt með 32 atkvæðum þingmanna stjórnarflokkanna, en þingmenn stjórnarandstöðunnar sátu hjá. Með þessu er endanlega ljóst að engin lög um eignarhald á fjölmiðlum verða sett á sumarþinginu og lögin sem samþykkt voru 24. maí sl. og forseti synjaði staðfestingar 2. júní sl. falla úr gildi, við undirritun forseta á nýjum lögum. Mikið var deilt um það í annarri umræðu í gær og þeirri þriðju í dag hvort þjóðaratkvæðagreiðsla ætti að fara fram um fjölmiðlalögin sem forseti synjaði. Það er auðvitað fjarstæða enda eru þau nú fallin úr gildi og erfitt að kjósa um lög sem ekki eru lengur til staðar. Þingið hefur fullan rétt á að setja lög og jafnframt að fella þau úr gildi. Málið er nú komið á þann reit að nauðsynlegt er að taka loks hina efnislegu umræðu um málið, það er langt í frá á byrjunarreit eftir umræðu seinustu mánuða, en það vantar efnislega afstöðu stjórnarandstöðunnar. Málið verður því rætt af krafti, bæði í fjölmiðlanefnd og á þingi á næsta starfsvetri löggjafarsamkundunnar.


Í All the King's Men er sögð saga stjórnmálamannsins Willie Stark sem rís upp úr litlum efnum, nemur lögfræði og gefur kost á sér til stjórnmálastarfa. Hann er kosinn sem leiðtogi í stéttarfélag og nær þannig að vekja á sér athygli með því að komast í sveitarstjórn svæðisins. Hann reynir því næst að komast í ríkisstjórastólinn og tekst það í annarri tilraun, en í þeirri fyrri höfðu valdamiklir menn barist gegn honum, en í seinna skiptið samdi hann við andstæð öfl til að hljóta stuðning. Með þessu opnar hinn heiðarlegi Willie veginn fyrir því að kaupa sér stuðning og kemst í óvandaðan félagsskap. Brátt kemur að því að samstarfsfólk ríkisstjórans heiðarlega fer að taka eftir því að hann er bæði orðinn óheiðarlegur og siðspilltur og hefur umturnast í argaþrasi stjórnmálanna. Einstaklega góð mynd sem hlaut óskarinn sem besta kvikmyndin árið 1949. Ætti að henta öllu stjórnmálaáhugafólki. Skólabókardæmi um það hvernig stjórnmálamaður getur fallið í freistni, farið af leið og endað sem andstæða þess sem stefnt var að: óheiðarlegur og spilltur. Broderick Crawford fer á kostum í hlutverki Willies, sem var hlutverk ferils hans, en hann hlaut óskarsverðlaunin fyrir heilsteyptan leik, ennfremur Mercedes McCambridge sem stelur senunni í hlutverki hjákonu Willies. John Ireland er svo eftirminnilegur ennfremur í lágstemmdu hlutverki sögumannsins Jack Burden, sem rekur upphaf, hátind og að lokum fall stjórnmálamannsins Willie Stark, sem að lokum verður andstæða alls þess í stjórnmálum sem hann stefndi að í upphafi. Óviðjafnanleg mynd sem allir stjórnmálaáhugamenn verða að sjá, þó ekki væri nema einu sinni. Hún er lífslexía fyrir alla stjórnmálamenn.

Dagurinn í dag
1245 Kolbeinn ungi Arnórsson lést, 37 ára gamall - var höfðingi af ætt Ásbirninga
1929 Landakotskirkja í Reykjavík vígð - er kirkja kaþólska söfnuðarins á Íslandi
1965 Alec Douglas-Home biðst lausnar sem leiðtogi breska Íhaldsflokksins - varð leiðtogi flokksins og forsætisráðherra við afsögn Macmillan árið 1963 - tapaði kosningum 1964
1977 Deng Xiaoping nær fullum völdum eftir dauða Maó árið áður - varð einráður í Kína að mestu við það og ríkti sem yfirmaður einræðisstjórnarinnar allt til dauðadags 1997
2003 Uday og Qusay Hussein, synir Saddams Husseins, felldir í skotbardaga í N-Írak
Snjallyrði dagsins
Það er sárt að sakna, einhvers
Lífið heldur áfram, til hvers?
Ég vil ekki vakna, frá þér
Þvi ég veit að þú munt aldrei aftur
Þú munt aldrei, aldrei aftur
Aldrei aftur strjúka vanga minn
Eyjólfur Kristjánsson (Draumur um Nínu)
<< Heim