Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 júlí 2004

Davíð Oddsson og Halldór ÁsgrímssonHeitast í umræðunni
Leiðtogar stjórnarflokkanna hittust á fundi í Stjórnarráðinu í gær og ræddu helsta hitamál stjórnmálanna á hásumri, fjölmiðlamálið og framgang þess á sumarþinginu. Fram kom í viðtölum eftir fundinn að stjórnarsamstarfið væri traust, fjölmiðlamálið væri ekki þess eðlis að umræða um það myndi leiða til stjórnarslita. Ber að fagna þessari niðurstöðu, það er greinilegt að trúnaðarsamband leiðtoga stjórnarflokkanna er traust. Er greinilegt að ágreiningur er innan viss hluta Framsóknarflokksins um þetta mál, en það er enginn vafi á því að farsæl niðurstaða mun koma fram í málinu og stjórnin situr áfram. Það hefur endanlega verið staðfest með yfirlýsingum forystumanna flokkanna. Er ekki gott að vita hverjir voru trúnaðarmenn vissra fjölmiðla í gær, þess efnis að það væri að slitna uppúr stjórnarsamstarfinu, eða það lægi í loftinu í gær. Fram kom í dagblöðum Norðurljósa og fréttum útvarps í hádeginu í gær að málið væri þannig statt að það leiddi til slita samstarfsins. Ef marka má yfirlýsingar gærdagsins verður það ekki, sem hlýtur að leiða hugann að því hverjir séu heimildarmenn fyrir þeim fréttum sem gengu í gær í fréttum.

Birgir Ármannsson alþingismaðurÍ gestapistli sem Birgir Ármannsson alþingismaður og nefndarmaður í allsherjarnefnd þingsins, skrifar á vef minn og birtist í dag tjáir hann sig um stöðu fjölmiðlamálsins eftir synjun forsetans og víkur að nýju frumvarpi sem til umfjöllunar er í þinginu. Orðrétt segir Birgir: "Lagasetningarvaldi Alþingis verða almennt ekki settar aðrar skorður en skýrt má ráða af ákvæðum stjórnarskrárinnar og þar er ekki að finna neinar takmarkanir í þessu veru. Í 26. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að synji forseti lagafrumvarpi staðfestingar fái það þó engu að síður lagagildi, en framtíðargildi laganna ráðist hins vegar af niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu, sem fram skuli fara svo fljótt sem kostur sé. Ekki er að finna neinar takmarkanir gagnvart því að Alþingi samþykki lög sem felli hin fyrri úr gildi né gagnvart því að ný lagaákvæði séu sett um þau atriði, sem fjallað var um í gömlu lögunum. Samþykki Alþingi hið nýja frumvarp eru allar forsendur málsins auðvitað breyttar. Synjun forseta hefur þá ekki þá ekki raunhæft gildi lengur og sú atkvæðagreiðsla, sem leiddi af synjuninni, er óþörf eðli málsins samkvæmt. Öllum vera ljóst að ekki er nein ástæða til að efna til atkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur þegar samþykkt að eigi ekki að gilda til framtíðar."

CasablancaMeistaraverk - Casablanca
Klassísk og óviðjafnanleg óskarsverðlaunamynd sem hlotið hefur sæmdartitilinn besta kvikmynd 20. aldarinnar, og skal ekki nokkurn undra. Í Casablanca er sögð sagan af kaffihúsaeigandanum Rick Blaine, í Casablanca í Marokkó, í seinni heimsstyrjöldinni og ævintýrum hans. Af öllum búllum í öllum heiminum verður gamla kærastan hans endilega að stíga fæti sínum inn á staðinn hans með ástvini sínum, foringja í frönsku andspyrnuhreyfingunni sem er á flótta undan nasistum, og þá hefst óvænt og stórskemmtileg atburðarás. Humphrey Bogart er hér í sínu allra frægasta hlutverki fyrr og síðar sem Rick og Ingrid Bergman fer einnig á kostum í hlutverki Ilsu, samleikur þeirra er unaðslegur. Claude Rains á stórleik í hlutverki Louis Renault og fléttar húmor vel saman við alvöruna og Paul Henreid skilar sínu vel á lágstemmdum nótum í hlutverki Victor Laszlo, unnusta Ilsu. Sannkölluð gullaldarklassík gerð eftir hreint einstöku handriti og ekki síst einstaklega vel leikstýrð af Michael Curtiz. Casablanca er án nokkurs vafa ein af bestu kvikmyndum sögunnar og er persónulega sú kvikmynd sem ég met mest. Hún verður alltaf meira heillandi eftir því sem árin líða og verða atriðin í henni þess þá meira heillandi, nefni ég þá sem dæmi atriðið þar sem Rick og píanóleikarinn Sam sitja við flygilinn og Sam leikur hið undurfagra "As Time Goes By" og lokaatriði myndarinnar sem gerist á flugvellinum þar sem framtíð sambands Ricks og Ilsu ræðst endanlega. Það atriði er alveg klassík út af fyrir sig. Ég gef Casablanca þau allra bestu meðmæli sem meistaraverk verðskuldar að fá. Ég hvet alla sem ekki hafa séð hana að drífa í því hið snarasta. Allir verða nefnilega að sjá þetta meistarastykki kvikmyndasögunnar a.m.k. einu sinni. Gæti orðið "upphafið að fallegri og einstakri vináttu". Það var það svo sannarlega í mínu tilfelli.
stjörnugjöf

Áhugavert á Netinu
Alþingi getur breytt lögum sem það hefur sett - gestapistill Birgis Ármannssonar
Heimdallur hvetur til skattalækkana og aðhalds - ályktun stjórnar Heimdallar
Hvert er í raun hlutverk Lýðheilsustöðvarinnar? - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Hverjir skyldu fara með fimmta valdið? - pistill Jóns Elvars Guðmundssonar
Leiðtogar stjórnarflokkanna segja að flokkarnir muni ná saman um fjölmiðlamálið
Fjármálaráðuneytið gagnrýnir Ríkisendurskoðun vegna nýlegrar skýrslu
Dick Cheney varaforseti Bandaríkjanna, verður varaforsetaefni Bush áfram
Alain Juppe fyrrum forsætisráðherra Frakklands, lætur af stjórnmálaforystu
Bandaríska samkvæmisdrottningin Martha Stewart dæmd í fimm mánaða fangelsi
Hillary Rodham Clinton ekki í forsetaframboð árið 2008 ef John Kerry vinnur nú
John Kerry býður Hillary Clinton að halda ræðu á flokksþinginu eftir hávær mótmæli
Schwarzenegger segir að fjárlagatillögur fari í gegn, sama hvað demókratar segi
Úrslit aukakosninga áfall fyrir Tony Blair - Blair og Howard takast á um skýrslu
Bobby Fischer fyrrum heimsmeistari í skák, handtekinn í Japan - eftirlýstur í áratug
Bandarísku forsetaframbjóðendurnir berjast harkalega um gyðingaatkvæðin
Shrek mættur aftur / Hárið sett upp á Akureyri í september / 100 undur veraldar
Viðtal við Ásdísi Höllu Bragadóttur bæjarstjóra í Garðabæ - rætt um stöðu bæjarins
Nýjar reglur varðandi Óskarinn - verðlaunin verða næst afhent 27. febrúar 2005
Seinasta hlutverk snillingsins Marlon Brando var allnokkuð frábrugðið hinum
Angels in America og Sopranos hlutu flestar tilnefningar til Emmy verðlaunanna

Dagurinn í dag
1627 Tyrkjaránið: sjóræningjar frá Alsír komu til Vestmannaeyja á þremur skipum, drápu 34 íbúa þar, tóku 242 konur og karla með sér og seldu þá í ánauð við heimkomu til Alsír
1955 Dwight D. Eisenhower forseti Bandaríkjanna, kom í stutta heimsókn til Íslands
1979 Saddam Hussein tekur við völdum í Írak. Honum var steypt af stóli í apríl 2003
1999 John F. Kennedy yngri og eiginkona hans Carolyn Kennedy, láta lífið í flugslysi
2002 Simon og Garfunkel koma saman á ný eftir 30 ára hlé - gáfu út lag í tilefni þess

Morgundagurinn
1930 Þýska loftskipið Graf Zeppelin kom til Íslands, flaug yfir sunnanvert landið
1932 Stytta af Leifi heppna afhjúpuð á Skólavörðuholti - hún var gjöf frá Bandaríkjunum
1946 Íslendingar léku sinn fyrsta landsleik í knattspyrnu, spiluðu við Dani sem unnu 3:0
1979 Einræðisstjórn Somoza felld í Nicaragua, við tók stjórn sandinista sem sat til 1990
1991 Arnór Guðjohnsen skorar fjögur mörk í landsleik og jafnar met Ríkharðs Jónssonar

Snjallyrði dagsins
Dagar og nætur segja mér
Ég mun aldrei gleyma þér
Mynd þín mun ávallt vera hér
Geymd í huga mér
Birgitta Haukdal (Eldur í mér)