Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 júlí 2004

AlþingiHeitast í umræðunni
Eftir atburði gærdagsins er sá tími loksins að renna upp að stjórnarandstaðan verður að gera heyrinkunna efnislega afstöðu sína til lagasetningar um eignarhald á fjölmiðlum, ekki gengur lengur að vísa á aðra aðila þegar spurt er eftir skoðunum flokkanna til lagasetningar um málið, enda hefst innan nokkurra mánaða umræða í fjölmiðlanefndinni um málið. Það sást vel í Kastljósviðtali í gærkvöldi að stjórnarandstaðan er ekki á einu máli þegar kemur að því að taka afstöðu til lagasetningar um eignarhaldið. Einar K. Guðfinnsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, þurfti eiginlega að toga með töngum uppúr Össuri Skarphéðinssyni þá skoðun hans að ekki þyrfti að setja lög um eignarhaldið. Reyndar virðist ekki vera full samstaða um þetta, enda hafði áður komið fram í viðtali við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í sama þætti að stjórnarandstaðan kæmi að málinu með opnum huga og útilokaði ekkert í því samhengi. Við blasir nú að algjör grundvallarmunur er í afstöðu Samfylkingarinnar til málsins miðað við VG og Frjálslynda. Formaður Samfylkingarinnar vill enga lagasetningu, meðan forystumenn hinna flokkanna taka undir þörfina á lagasetningu um eignarhaldið. Það hefur svosem blasað við, en ágætt að fá það fram með þessum hætti.

Tony BlairÍ dag eru 10 ár liðin frá því að Tony Blair var kjörinn leiðtogi breska Verkamannaflokksins, hann tók við af John Smith sem varð bráðkvaddur í maí 1994. Blair gjörbreytti flokknum, sveigði hann inn á miðjuna og náði með því að gera Verkamannaflokkinn að miðjuflokki sem náði að höfða til fleiri hliða en fyrri leiðtogar hans höfðu gert. Flokkurinn vann stórsigur í þingkosningunum 1. maí 1997. Verkamannaflokkurinn varð nútímalegri og heillandi en t.d. undir forystu Neil Kinnock sem var með flokkinn mun meira til vinstri og náði aldrei að leiða flokkinn til sigurs, einmitt vegna vinstriáherslna hans. Blair stokkaði upp öll vinnubrögð og áherslur innan flokksins er hann tók við valdataumunum innan hans og náði að gera flokkinn að stórveldi í breskum stjórnmálum á ný. Að undanförnu hefur hallað undan fæti, við upphaf valdaferils hans 1997, hafði hann um 80% persónufylgi, nú eru innan við 40% landsmanna sem vilja hann beinlínis sem forsætisráðherra og styðja hann persónulega. Hvað gerist nú er stór spurning en greinilega er kominn flótti í þá þingmenn Verkamannaflokksins sem tæpastir voru inn á þing í seinustu kosningum og telja að nú verði að stokka upp til að flokkurinn eigi möguleika á sigri í næstu kosningum. Framtíð Blair er því mjög óviss á þessum tímamótum.

Jahérna hér....

On the WaterfrontMeistaraverk - On the Waterfront
On the Waterfront er hiklaust eitt af bestu meistaraverkum kvikmyndasögunnar. Segir frá spilltu verkalýðsfélagi hafnarverkamanna sem lendir í rannsókn yfirvalda. Til að forða félaginu frá skaða ráða verkalýðsleiðtogarnir einum verkamanninum, Joey Doyle, bana. Meðal þeirra sem standa að baki því er félagi hans, uppgjafa boxarinn Terry Malloy. Verkalýðsleiðtoginn Johnny Friendly stendur að baki glæpaveldinu við höfnina og meðal samverkamanna hans er bróðir Terrys, Charley. Eftir morðið á Joey verður Terry hrifinn af systur hans, Edie, og fer Terry að fá samviskubit vegna þess sem gert var. Með hjálp hennar og sr. Barry bætir Terry fyrir mistök fortíðarinnar og leggur til atlögu við glæpaveldið við höfnina. Marlon Brando fékk óskarinn fyrir hreint magnaðan leik sinn á Terry Malloy og Eva Marie Saint ennfremur fyrir stórleik í hlutverki Edie. Lee J. Cobb er hrollkaldur í hlutverki Johnnys en samt svo magnaður, Rod Steiger er eftirminnilegur sem Charley og Karl Malden fer á kostum í lágstemmdu hlutverki sr. Barry. Sögufrægur leikhópurinn vinnur því glæsta sigra. Elia Kazan heldur einkar vel utanum þessa beittu ádeilu er lýsir á einkar stórbrotinn hátt einu allra mesta böli bandarísks þjóðlífs, sem er skipulögð glæpastarfsemi. Myndin hefur elst með stakri prýði, boðskapur hennar og ágæti er engu síðra nú en þegar hún var gerð á sínum tíma. Hlaut átta óskarsverðlaun árið 1954, þ.á m. sem besta kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn Elia Kazan og magnaðan leik Brando og Saint. Ég hvet alla kvikmyndaunnendur til að sjá þetta magnaða meistaraverk ef þeir eiga tök á því, betri mynd er vart hægt að sjá.
stjörnugjöf

Áhugavert á Netinu
Enn þáttaskil í fjölmiðlamáli - pistill Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra
Grein á Múrnum svarað á frelsi.is - pistill Hafsteins Þórs Haukssonar
Forseti fer út og Samfylking klofin í fjölmiðlamáli - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Þingfundur kl. 13:30 í dag - búist við að þinghaldi muni ljúka fyrir helgina
Fjölmiðlalög felld úr gildi - unnið í málinu á næstu mánuðum í fjölmiðlanefnd
Davíð Oddsson forsætisráðherra, vill endurskoða 26. grein stjórnarskrárinnar
Halli á rekstri Ríkisendurskoðunar meiri en leyfilegt er - skondið vægast sagt
George W. Bush heitir því á kosningafundi í Iowa að tryggja öryggi landsins
Sandy Berger viðurkennir að hafa orðið á - mun hætta sem ráðgjafi Kerrys
10 ár frá því Tony Blair var kjörinn leiðtogi breska Verkamannaflokksins
Farið yfir 10 ára leiðtogaferil Tony Blair - eftirminnileg ummæli Blair
Tony Blair, Michael Howard og Charles Kennedy takast á um Íraksmálið
Tapi John Kerry kosningunum, vilja flestir demókratar Hillary Clinton 2008
George W. Bush og John Kerry eyða álíka miklum peningum í baráttuna
Michael Howard heitir þjóðaratkvæði strax nái Íhaldsmenn völdum í UK
Ísland í sjöunda sæti á lífgæðalista Sameinuðu þjóðanna - góð tíðindi
I Robot, með Will Smith slær í gegn í Bandaríkjunum, fór beint á toppinn
Fangar í Tennessee í Bandaríkjunum stinga af - fóru og keyptu sér einn kaldan
John Edwards heldur kosningafund á verönd í Durham í Norður Karólínu
Bill Gates telur alveg öruggt að DVD verði að mestu orðið úrelt eftir 10-15 ár
Karl Bretaprins fer fyrsta sinni í leigubíl - hlýtur að vera viðbrigði fyrir karlinn

Dagurinn í dag
1914 Sigurður Eggerz verður ráðherra Íslands - sat sem forsætisráðherra 1922-1924
1944 Franklin D. Roosevelt forseti Bandaríkjanna, útnefndur forsetaefni demókrataflokksins í fjórða skiptið - hann sat á forsetastóli lengur en nokkur annar í Bandaríkjunum, rúm 12 ár
1963 Skálholtskirkja vígð við hátíðlega athöfn af Ásgeiri Ásgeirssyni forseta Íslands
1969 Bandaríkjamaðurinn Neil Armstrong stígur fyrstur manna fæti á tunglið - við það tækifæri féllu hin fleygu orð: "That's one small step for man but one giant leap for mankind."
1994 Tony Blair kjörinn leiðtogi breska Verkamannaflokksins - hann varð forsætisráðherra Bretlands 2. maí 1997, eftir kosningasigur flokksins, og hefur setið síðan á valdastóli

Snjallyrði dagsins
The greatness comes not when things go always good for you. But the greatness comes when you're really tested, when you take some knocks, some disappointments, when sadness comes. Because only if you've been in the deepest valley can you ever know how magnificent it is to be on the highest mountain.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)