Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 júlí 2004

George W. Bush og John KerryHeitast í umræðunni
Kosningabaráttan vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum, þriðjudaginn 2. nóvember nk. er tekin að harðna nokkuð og mun hún brátt ná hámarki. Flokksþing demókrata verður haldið í Boston í Massachusetts-fylki, heimavígi John Kerry forsetaframbjóðanda flokksins og öldungadeildarþingmanns, og hefst á mánudag og mun standa í fjóra daga. Þar munu forystumenn flokksins og trúnaðarmenn hans, sem kjörnir voru í forkosningum fyrr á árinu hittast, ráða ráðum sínum, móta endanlega kosningastefnu sína og setja kosningavél sína endanlega á fullt. Að kvöldi fimmtudagsins 29. júlí lýkur flokksþinginu með því að Kerry þiggur útnefningu flokksins og flytur einskonar stefnuræðu sína. Daginn áður mun varaforsetaefni hans, John Edwards þiggja formlega boð Kerrys um að leiða framboð flokksins með honum, með ræðu í Boston. Fram að því munu Kerry og Edwards dvelja á búgarði í Nantucket og undirbúa sig fyrir flokksþingið með ræðuriturum til að semja ræður sínar. Meðan demókratar hittast og móta baráttutaktíkina fyrir baráttuna, eru George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Dick Cheney varaforseti, á fullu á kosningaferðalagi um gervöll Bandaríkin og hitta kjósendur. Nú er forsetinn í Pennsylvaníu, en það er eitt hinna svokölluðu "key state" sem eru tæp, Gore vann þar naumlega árið 2000 en Bush reynir nú að ná yfirhöndinni. Flokksþing repúblikana hefst í lok næsta mánaðar og mun standa frá 30. ágúst - 2. september. Allar skoðanakannanir vestanhafs sýna að það stefnir í jafnar kosningar. Má búast við að átökin milli Kerrys og Bush geti orðið ein af hatrömmustu kosningabaráttum seinni tíma.

Peter MandelsonTony Blair forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í morgun að Peter Mandelson þingmaður Verkamannaflokksins og fyrrum ráðherra í stjórn hans, yrði tilnefndur sem næsti fulltrúi Bretlands í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Mandelson hefur til fjölda ára verið einn nánasti samverkamaður forsætisráðherrans, var ásamt Alastair Campbell einn af helstu hugsjónahönnuðum hins nýja Verkamannaflokks (New Labour og spinnpólitíkurinnar kennda við Blair) eftir valdatöku Blairs í aðdraganda þingkosninganna 1997. Ári eftir kosningarnar, varð Mandelson viðskiptaráðherra, en varð að víkja vegna hneykslismála fyrir lok ársins. Árið 1999 varð hann skipaður aftur í stjórnina sem ráðherra málefna N-Írlands, en varð að víkja aftur vegna hneykslismála skömmu eftir þingkosningarnar 2001. Hefur hann setið sem þingmaður Hartlepool frá 1992, en verður að víkja af þingi ef hann er samþykktur af Evrópuþinginu. Fara þá aukakosningar fram um sæti hans. Reyndar fór Mandelson fram á sæti í stjórn Blairs, en var hafnað en fær tilnefningu í þetta starf nú, er tveir Bretar láta af störfum í framkvæmdastjórn ESB: Neil Kinnock fyrrum leiðtogi Verkmannaflokksins og Chris Patten fyrrum ráðherra Íhaldsflokksins. Missa Bretar nú annað sætið og því mun Mandelson einn taka þar sæti af hálfu Breta.

Cinema ParadisoKlassabíó - Cinema Paradiso
Kvikmyndin verður eilíf, ég tel það allavega. Þetta er það listform sem hefur sameinað kynslóðirnar í rúma öld og heillað þær, sagt sögur og mótað fólk verulega. Áhrifamáttur kvikmyndanna er gríðarlegur. Varla er hægt að vera annarrar skoðunar eftir að hafa séð ítölsku kvikmyndina, Cinema Paradiso. Þetta heillandi meistaraverk hlaut óskarinn sem besta erlenda kvikmyndin árið 1989 og fær alla sem hana sjá til að njóta kvikmyndagerðalistarinnar og gerir okkur öll að ég tel betri og mannlegri, við gleymum okkur í hugarheimi kvikmyndanna meðan myndin stendur. Slíkur er kraftur hennar. Segir frá frægum kvikmyndagerðarmanni sem snýr aftur til æskuslóða sinna á Sikiley eftir 30 ára fjarveru. Þar rifjast upp fyrir honum æskuárin og hvernig hann kynntist töfraheimi kvikmyndanna. Hann vingaðist í æsku við sýningarstjórann í bíóinu, Alfredo, og stelst í bíóið til að gleyma innri veikleikum og raunveruleika hins ytri heims. Hann tekur síðar við starfi þessa læriföður síns og fetar slóðina í átt að frægð með því að gerast kvikmyndagerðarmaður. Líf hans snýst því allt frá æskuárum um kvikmyndina, listformið og það að finna hinn rétta tón í að njóta kvikmyndarinnar, en það er viss list útaf fyrir sig. Giuseppe Tornatore skapar hér sannkallaðan gullmola, spinnur heillandi andrúmsloft og sprelllifandi persónur. Fylgst er með reisn og hnignun kvikmyndanna á hálfrar aldar tímabili, en sjónvarpið drap kvikmyndahúsið sem Salvatore naut í æsku. Þetta er mynd sem er unnin af næmleika og óblandinni lotningu fyrir listgreininni, hér er lífið svo sannarlega kvikmynd. Þú munt sjá lífið í öðru ljósi, þegar myndinni lýkur. Ef þú ert ekki kvikmyndaunnandi fyrir, verðurðu það að lokinni myndinni. Töfrar í sinni bestu mynd.
stjörnugjöf

Dagurinn í dag
1926 Fyrsta hljóðmyndin sýnd - tóku ekki við sessi þöglu myndanna fyrr en 1931
1951 Frímúrarareglan var stofnuð á Íslandi - nú eru um 3.000 manns í reglunni
1952 Farouk Egyptalandskonungi, steypt af stóli - konungdæmið þar var afnumið árið eftir
1974 Gríska einræðisherstjórnin missir völdin - Karamanlis verður aftur forsætisráðherra
1986 Andrew Bretaprins giftist Söru Ferguson í Westminster Abbey - þau skildu árið 1992

Morgundagurinn
1956 Þriðja ríkisstjórn Hermanns Jónassonar tekur við völdum - sat í rúm tvö ár
1959 Khrushchev Sovétleiðtogi og Nixon varaforseti Bandaríkjanna, rífast opinberlega á amerískri sýningu í Moskvu - rifrildið gengur almennt undir nafninu The Kitchen Debate
1967 De Gaulle Frakklandsforseti, ergir kanadísk stjórnvöld í heimsókn sinni til landsins með stuðningsyfirlýsingu sinni við frjálst Québec með orðunum: "Vive le Québec libre!"
1980 Gamanleikarinn Peter Sellers deyr í London, 54 ára að aldri - hann var einn af helstu gamanleikurum 20. aldarinnar og varð víðfrægur um allan heim fyrir leik sinn í Dr. Strangelove, Ladykillers, Lolitu, Being There og myndunum um klaufabárðinn Clouseau
1987 Jeffrey Archer lávarður, vinnur sigur í meiðyrðamáli fyrir dómstólum gegn slúðurblaði - málið var síðar tekið upp þegar ljóst var að hann hafði framið meinsæri og logið fyrir rétti og hlaut hann fjögurra ára fangelsisdóm árið 1999 sem markaði lok stjórnmálaferils hans

Snjallyrði dagsins
A free society is a place where it's safe to be unpopular.
Adlai Stevenson sendiherra (1900-1965)