Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

01 september 2004

Arnold SchwarzeneggerHeitast í umræðunni
Arnold Schwarzenegger ríkisstjóri í Kaliforníu, var óneitanlega stjarnan á öðru kvöldi flokksþings Repúblikanaflokksins í Madison Square Garden í New York. Gríðarleg stemmning myndaðist í salnum þegar ríkisstjórinn birtist á sviðinu og hóf ræðu sína. Má fullyrða að Schwarzenegger hafi yfirburðarstöðu innan flokksins og hafi allt frá kosningasigri sínum í Kaliforníu fyrir tæpu ári styrkst gríðarlega sem ein af vonarstjörnum Repúblikanaflokksins. Í ræðu sinni vitnaði hann í vinsælar bíómyndir sem hann hefur leikið í, á borð við "Terminator". Sagði hann að Bush forseti væri sá sterki leiðtogi sem Bandaríkin þörfnuðust í stríðinu gegn hryðjuverkum. Orðrétt sagði hann: "Ég er stoltur af því að tilheyra flokki Abraham Lincoln, flokki Teddy Roosevelt, flokki Ronalds Reagan og flokki George W. Bush". Schwarzenegger, sem talinn er í röðum hófsamari repúblikana lofaði mjög stjórn forsetans á landinu á þessu kjörtímabili og hvernig hann hefði tekið á málum eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001, sem urðu næstum 3.000 manns að bana. Hvatti hann bandaríska kjósendur til þess að kjósa Bush svo "tortíma mætti hryðjuverkum." Schwarzenegger hefur haldið sig nokkuð fjarri kosningabaráttu Bush undanfarið, en fór fögrum orðum um forsetann í ræðu sinni. Hann sagði að Bandaríkin væru land tækifæranna. Hvergi væri hægt að upplifa drauminn um að verða eitthvað í lífinu og byggja sig upp sem persónu betur en einmitt þar. Það vissi hann af eigin raun. Í Bandaríkjunum hefði hann fengið tækifæri lífs síns. Sagði hann að stefna repúblikana væri sú sem sameinaði bandaríska drauminn, frelsi einstaklingsins og frelsið til að lifa tækifæri sín væri að finna í flokknum. Þess vegna hefði hann orðið repúblikani, og þess vegna væri hann stoltur af að vinna í þágu hans. Var Schwarzenegger fagnað með slíkum krafti að óneitanlega læðist að manni sá grunur að hann verði um síðir einn af helstu forystumönnum hans. Stjórnarskrá landsins bannar þó einstaklingum fæddum utan Bandaríkjanna að verða forseti landsins, og hefur mikið verið rætt um breytingar á því.

Laura Welch BushAð lokinni ræðu Schwarzeneggers ríkisstjóra, stigu dætur forsetans, Jenna og Barbara Bush, á svið og ávörpuðu flokksþingið. Er óhætt að fullyrða að framkoma þeirra hafi brotið upp alvarleikann á flokksþinginu og glætt það hlýrri og persónulegri hlið. Sögðu þær marga brandara og slógu á létta strengi. Kynntu þær föður sinn, George W. Bush forseta Bandaríkjanna, sem var staddur í Pennsylvaniu, á kosningaferðalagi á leið sinni til New York, en hann mun ávarpa flokksþingið annað kvöld og þiggja þá formlega útnefningu flokksins sem forsetaefni hans í komandi forsetakosningum. Kom það í hlut forsetans að kynna eiginkonu sína, Lauru Welch Bush, með aðstoð gervihnattasíma. Sagði hann að það væri ánægja lífs síns að geta kynnt lífsförunaut sinn og heilsteyptustu konu sem hann hefði kynnst. Forsetafrúnni var ákaft fagnað er hún steig á sviðið og flutti ávarp sitt. Lýsti hún í ræðu sinni hve þungbært það var fyrir forsetann að þurfa að beita hervaldi gegn ráðamönnum í Afganistan og Írak, hann hefði ekki átt annarra kosta völ, öryggi Bandaríkjanna og allrar heimsbyggðarinnar hefði oltið á því. Hún minnti á framlag Bush til menntamála, of margir barnaskólar hefðu brugðist börnum og hann hefði í samvinnu við þingið komið á umtalsverðum umbótum. Í kvöld mun Dick Cheney varaforseti Bandaríkjanna, ávarpa þingið og þiggja formlega útnefningu flokksins sem varaforsetaefni Bush í kosningunum. Ennfremur munu Lynne Cheney varaforsetafrú, Mitch McConnell öldungadeildarþingmaður, Elaine Chao atvinnumálaráðherra Bandaríkjanna, Michael Reagan og Mitt Romney ríkisstjóri, ávarpa flokksþingið. Loks mun demókratinn Zell Miller öldungadeildarþingmaður, flytja lykilræðu flokksþingsins, en hann flutti samskonar ræðu á flokksþingi demókrata í sama sal árið 1992 er Clinton varð forsetaefni flokksins.

ÞjóðminjasafniðÞjóðminjasafnið opnað á ný
Í dag mun Þjóðminjasafn Íslands verða opnað á ný eftir langt hlé. Það hefur verið lokað vegna endurbyggingar á húsi safnsins við Suðurgötu allt frá vorinu 1998. Taka þurfti húsnæði safnsins algjörlega í gegn og endurbyggja í raun að mestu. Viðamikilli endurgerð þess er nú loks lokið, taka þurfti góðan tíma til að fara yfir alla þætti, enda er umfangsmikið verk að gera alla þætti vel úr garði, sem óhjákvæmilega er nauðsynlegt, þegar um er að ræða svo mikilvæga stofnun. Um safnið segir svo á vef þess: "Saga Þjóðminjasafnsins er 140 ára gömul og sýnir að þjóðin vaknaði snemma til vitundar um menningargildi, minjavernd og hlutverk safna í íslensku samfélagi. Þjóðminjasafnið hefur síðan verið miðstöð þjóðminjavörslu og rannsókna á menningarsögulegum minjum í landinu. Hlutverk þess er að auka og miðla þekkingu á menningararfi íslensku þjóðarinnar frá upphafi til vorra daga og stuðla að því að sem flestir geti fræðst um minjar og sögu lands og þjóðar. Við stofnun lýðveldisins árið 1944 ákvað Alþingi Íslendinga að láta reisa safnhús við Suðurgötu, og var það morgungjöf til þjóðarinnar." Það verður Davíð Oddsson forsætisráðherra, sem vígir safnið við hátíðlega athöfn í kvöld. Verður þetta fyrsta embættisverk hans eftir að hann lagðist inn á sjúkrahús, 21. júlí sl. vegna veikinda sinna. Að því loknu mun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, afhenda Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði, húsið formlega. Ný grunnsýning verður opnuð samhliða opnun safnsins. Mun hún fjalla um sögu Íslands frá landnámi til nútíma og ber nafnið "Þjóð verður til - Menning og samfélag í 1200 ár".

Dagurinn í dag
1939 Seinni heimsstyrjöldin hefst - Hitler fyrirskipar herum sínum að ráðast með hervaldi í Pólland
1972 Fiskveiðilögsagan færð út í 50 sjómílur - Bretar féllust ekki á útfærsluna fyrr en árið 1973
1972 Bobby Fischer verður heimsmeistari í skák, er hann sigrar Boris Spasski þáv. heimsmeistara, í einvígi aldarinnar í skák í Reykjavík sem stóð í rúmar sjö vikur - Fischer missti titilinn 1975
1978 Önnur ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar tekur við völdum á Bessastöðum. Stjórnin sat í rúmt ár, en féll með hvelli í byrjun októbermánaðar 1979 er Alþýðuflokkurinn hætti öllum stuðningi við hana
1988 Berglind Ásgeirsdóttir tekur formlega við embætti ráðuneytisstjóra, fyrst íslenskra kvenna

Snjallyrði dagsins
Everything I have: my career, my success, my family, I owe to America. In this country, it doesn't make any difference where you were born. It doesn't make any difference who your parents were. It doesn't make any difference if, like me, you couldn't even speak English until you were in your twenties. America gave me opportunities, and my immigrant dreams came true. I want other people to get the same chances I did, the same opportunities. And I believe they can. That's why I believe in this country, that's why I believe in this party and that's why I believe in this President.
Arnold Schwarzenegger ríkisstjóri í Kaliforníu (úr ræðu á flokksþingi repúblikana)