
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarpaði bandarísku þjóðina í gærkvöldi og lýsti formlega yfir sigri í forsetakosningunum 2004, við mikinn fögnuð stuðningsmanna sinna sem fjölmenntu í sigurhátíð hans sem haldin var í Ronald Reagan-byggingunni í Washington. Áður en hann tók til máls ávarpaði Dick Cheney varaforseti, mannfjöldann og þakkaði þeim og öllum þeim sem hefðu stutt framboð þeirra fyrir stuðninginn og samfylgdina í gegnum kosningabaráttu seinustu mánaða. Sigurinn væri þeirra og það væri verkefni hans og forsetans að vinna af krafti fyrir alla landsmenn á komandi kjörtímabili. Forsetinn tók að því loknu til máls og var hylltur af mannfjöldanum. Hann sagði að sigurinn hefði verið sögulegur og það væri sér mikið ánægjuefni að landsmenn hefðu falið sér og flokki sínum umboð til áframhaldandi verka með svo kraftmiklum hætti sem kæmu fram í úrslitum til þing- og forsetakosninga. Forsetinn þakkaði John Kerry öldungadeildarþingmanni og forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, fyrir drengilega og góða baráttu seinustu mánuða, og sagði að stuðningsmenn hans gætu verið stoltir af starfi sínu og árangri. Hann þakkaði fjölskyldu sinni, eiginkonu sinni: Lauru Welch Bush, dætrunum Barböru og Jennu og foreldrum sínum, Barböru Pierce Bush og George H. W. Bush 41. forseta Bandaríkjanna, fyrir stuðning þeirra og ástúð. Að lokum færði hann Dick Cheney varaforseta, og fjölskyldu hans, auk alls stuðningsliðs og þeirra sem hefðu stutt sig, fyrir starfið í kosningabaráttunni og tryggðina í gegnum átökin tengd kosningunum. Sagði hann að Bandaríkjamenn hefðu kveðið upp sinn dóm og nú tæki við að vinna úr því sem kosningaúrslitin hefðu fært sér. Sagði hann að þjóð hefði ávallt varið sig og varið frelsi mannkyns. Hann væri í senn bæði stoltur af því leiða hana og vera falin sú ábyrgð af landsmönnum með kosningasigrinum. Bush forseti, sagði að tímabil vonar væri framundan fyrir alla heimsbyggðina, barist yrði af krafti gegn hryðjuverkum og glæpamönnum tengdum hryðjuverkasamtökum. Að lokum talaði forsetinn til þeirra sem kusu sig ekki og sagði mikilvægt að horfa fram á veginn, hann sagðist þurfa á stuðningi þeirra að halda og að hann myndi reyna allt til að vinna fyrir honum. Úrslit forsetakosninganna nú eru sérstaklega mikið ánægjuefni fyrir forsetann, því nú vinnur hann bæði kjörmannakosninguna og fær flest atkvæði og það rúmlega helming atkvæða. Er því um mikilvægan sálfræðilegan sigur að ræða fyrir forsetann og nánustu samstarfsmenn hans, sem geta nú einbeitt sér að næsta kjörtímabili og verkefnum sem framundan eru. Næsta verkefni forsetans verður að velja ráðherra í ríkisstjórn sína.
Sigurræða George Walker Bush forseta Bandaríkjanna
Helstu brot úr ræðum George Walker Bush og John Kerry
George W. Bush tekur við hamingjuóskum frá John Kerry
Forsetinn fagnar sigri - myndir frá kosningahátíðinni í Washington

Ræða John Kerry öldungadeildarþingmanns
Kerry kveður baráttuna með sæmd - myndir frá Boston

Engum blandast nú orðið hugur um að staða Þórólfs Árnasonar borgarstjóra í Reykjavík, er orðin svo veik að hann mun segja af sér embætti á næstu dögum. Er ljóst að umfang afskipta hans í þeim glæp sem ólöglegt samráð olíufyrirtækjanna er, mun leiða til þess að hann verður að víkja af vettvangi forystu borgarinnar, með einum hætti eða öðrum. Er öllum ljóst sem les skýrslu Samkeppnisstofnunar um olíufélögin að borgarstjórinn tók áberandi þátt í samsæri gegn almenningi, sem leiddi til þess að halda uppi bensínverði, ólöglegum vinnubrögðum samkvæmt samkeppnislögum. Fjallað er um þátt Þórólfs á meira en hundrað stöðum í skýrslunni, en hann starfaði sem markaðsstjóri ESSÓ í tæp fimm ár. Sífellt kemur meira fram í dagsljósið sem staðfestir þátt borgarstjóra í þessu máli, tölvupóstar og fundargerðir eru svo samhljóða í því að staðfesta þátttöku Þórólfs í málinu. Er svo komið að pólitísk forysta R-listans er farin að velja á milli þess að halda í Þórólf og að slíta samstarfinu og stokka málin upp með þeim hætti ella. Forysta vinstri grænna í borginni telur að borgarstjóri hafi ekki komið með fullnægjandi svör um þátttöku sína í málinu. Blasir við að meirihluti borgarstjórnar styður hann ekki lengur til verka. Á fundi með borgarfulltrúum R-listans í gærkvöldi var borgarstjóra gefinn skammur frestur til að færa betri rök fyrir máli sínu og fara betur yfir það. Blasir við að borgarstjóraferli hans ljúki bráðlega. Er þegar farið að tala um mögulega eftirmenn hans. Staðnæmast sumir við nafn Dags B. Eggertssonar læknis og borgarfulltrúa, sem kjörinn var í borgarstjórn sem óháður fulltrúi árið 2002. Er þegar komin fram tillaga um hann sem borgarstjóraefni og blasti lengstan hluta gærdagsins við á borði R-listans að Þórólfur segði af sér embætti í dag og Dagur tæki við embætti 10. nóvember nk. Samstaða gæti myndast um að hann kláraði kjörtímabilið, ef svo má segja. Ekki yrði aftur leitað út fyrir hópinn að borgarstjóraefni. Svo verður ekki í bili, mun Þórólfi verða gefinn lengri tími til að skýra mál sitt, allt fram í næstu viku jafnvel. Langlíklegast er þó að honum verði gert að víkja af borgarfulltrúum R-listans sem telja stöðu mála ekki viðunandi.

Dagurinn í dag
1942 Áhöfn Brúarfoss bjargaði 44 skipbrotsmönnum af enska skipinu Daleby, sem var sökkt
1956 Sovésk yfirvöld ráðast inn í Ungverjaland og fella stjórn landsins sem reynt hafði að færa stjórnarfar landsins í lýðræðisátt, sem var einum of mikið fyrir sovésk yfirvöld að sætta sig við
1980 Ronald Reagan ríkisstjóri í Kaliforníu, kjörinn forseti Bandaríkjanna. Hann var 69 ára er hann náði kjöri og því elstur þeirra sem kjörinn hafði verið á forsetastól í landinu. Hann sat í embætti í tvö kjörtímabil og varð einn af vinsælustu leiðtogum í sögu landsins. Reagan forseti, lést 5. júní 2004
1992 Bill Clinton kjörinn forseti Bandaríkjanna, með afgerandi hætti. Hann felldi George H. W. Bush sitjandi forseta, af valdastóli. Clinton forseti, sat í embætti í tvö kjörtímabil, eða allt til ársins 2001
1995 Yitzhak Rabin forsætisráðherra Ísraels, skotinn til bana á útifundi í Tel Aviv. Framlag hans til friðar í Mið Austurlöndum kostaði hann lífið, en öfgasinnaður maður skaut hann til að hefna fyrir friðarsamkomulagið við Palestínumenn. Þjóðarsorg ríkti í Ísrael vegna andláts forsætisráðherrans. Þjóðarleiðtogar um allan heim fylgdu Rabin til grafar - friðarferlið fór af sporinu eftir dauða Rabins
Snjallyrði dagsins
When we come together and work together, there is no limit to the greatness of America. I'm proud to lead such an amazing country and I'm proud to lead it forward.
George W. Bush forseti Bandaríkjanna (sigurræða forsetans)
<< Heim