
Nú, þegar aðeins tæpur sólarhringur er í að kjörstaðir opni í Bandaríkjunum, má vart á milli sjá í skoðanakönnunum hvort George W. Bush forseti Bandaríkjanna, eða John Kerry öldungadeildarþingmaður, hafa yfirhöndina í baráttunni um æðsta valdaembætti í stjórnmálaheimi heimsins, forsetaembættið í Bandaríkjunum. Staðan er það jöfn að ómögulegt virðist að spá með vissu hvoru megin sigurinn muni lenda. Sé tekið mið af könnunum á landsvísu hefur Bush forseti, smávægilegt forskot almennt, einkum ef vísað er t.d. til kannana CNN, Gallup, CBS, Washington Post og Zogby. Forskot forsetans er t.d. 2% í könnun Gallups og 3% í könnun CBS. Báðar kannanir voru birtar í gærkvöldi. Munurinn er innan skekkjumarka og ekki hægt að fullyrða með vissu um stöðuna. Þetta verður því spennandi allt til loka. Athygli vekur könnun Newsweek sem er frábrugðin hinum að því leyti að forskot forsetans er þar heil 6%, öruggt forskot hans þar ólíkt hinum sem sýna kosningaslaginn hnífjafnan. Nýjustu skoðanakannanir benda til að Bush og Kerry séu hnífjafnir í nokkrum lykilríkjum, þar á meðal Ohio, Flórída og Pennsylvanía, en úrslitin þar gætu gert úti um hvor verður næsti forseti Bandaríkjanna. Forsetaefnin verða á ferð og flugi í lykilfylkjunum í dag til að ná til kjósenda og reyna að koma boðskap sínum til skila á lokametrunum. Seinasta tækifæri frambjóðendanna til að ná til almennings í von um að fá atkvæði þeirra er í dag, enda lýkur kosningabaráttunni formlega á miðnætti. Kerry fer til Michigan, Wisconsin og Ohio áður en hann heldur til Boston í Massachusetts, heimaborg sína, þar sem hann heldur seinasta fundinn í kosningabaráttu sinni, sem hefur staðið (vegna kosninganna á morgun og áður forkosninganna innan flokksins) í eitt og hálft ár. Bush forseti, ferðast um allt land og fer í sex af helstu baráttufylkjunum á lokasprettinum í dag: fer til Ohio, Wisconsin, Iowa, Michigan, Minnesota og Pennsylvaníu. Forsetahjónin ljúka deginum með fjöldafundi í Dallas í Texas, heimafylki forsetans, þar sem hann var ríkisstjóri í sex ár, frá 1994 allt til kosningasigurs hans í forsetakosningunum 2000. Það er við hæfi að forsetaefnin ljúki kosningabaráttu sinni á heimaslóðum seint í kvöld. Það er hefð fyrir því að frambjóðendur endi í heimafylkinu kvöldið fyrir kjördag og ljúki þar formlegri baráttu sinni. Þó fara frambjóðendur oft um á kjördag og hitta stuðningsmenn án skipulagðra fjöldafunda. En þetta verður langur dagur fyrir keppinautana um forsetaembættið og mikil ferðalög á seinustu metrum slagsins, áður en siglt er í höfn.

Bush vs. Kerry - pistill SFS um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á morgun

Tilkynnt var á föstudag að Samkeppnisráð hefði ákveðið að beita fjögur olíufélög stjórnvaldssektum vegna ólögmæts verðsamráðs sem stóð yfir í að minnsta kosti tæpan áratug. Með verðsamráði brutu olíufélögin klárlega samkeppnislög. Eru mörg dæmi rakin í skýrslu um þessi mál um hvernig forstjórar olíufélaganna unnu saman að því að brjóta samkeppnislög. Meðal þeirra sem nefndur er í skýrslunni og kom að þessu ferli er Þórólfur Árnason borgarstjóri í Reykjavík. Hann starfaði sem markaðsstjóri ESSÓ á árunum 1993-1998. Hefur hann jafnan neitað að hafa tekið þátt í ólöglegu samráði beint, en hafa gert sér grein fyrir því undir lok starfstíma síns að maðkur hafi verið í mysunni. Vissulega er borgarstjóri í athyglisverðri stöðu í þessu máli vegna þess að hann er framkvæmdastjóri borgarinnar. Það er að ég tel krafa almennings að sá maður sem stjórni stærsta sveitarfélagi landsins sé yfir allan vafa hafinn um að hafa tekið þátt í samsæri gegn almenningi. Samsæri sem var til þess að halda uppi bensínverði, ólöglegum vinnubrögðum samkvæmt samkeppnislögum. Þórólfur situr á borgarstjórastóli í umboði borgarfulltrúa R-listans. Hann hefur aldrei verið kjörinn af borgarbúum til starfa í pólitík, né verið í framboði. Það eru því hinir kjörnu fulltrúar meirihlutans sem réðu hann til starfa fyrir tæpum tveim árum, sem treysta honum fyrir að sitja áfram á stóli borgarstjóra. Þeirra er ábyrgðin á störfum hans í kjölfar þess að svona er komið. Að mínu mati leikur enginn vafi á að borgarstjóri verður að segja af sér. Það getur ekki gengið að hann sitji áfram á sínum stóli, enda liggur algjörlega fyrir að hann var beinn þátttakandi í þessum verknaði, snýr mál hans beint að Reykjavíkurborg sem hann er nú framkvæmdastjóri fyrir án pólitísks valds. Greinilegt er að slá á skjaldborg um hann og stöðu hans þrátt fyrir staðreyndir mála, borgarstjórnarmeirihlutinn er orðinn svo veikburða að hann þorir ekki að rugga bátnum með því að reka borgarstjóra. Treysta borgarfulltrúar R-listans sér annars til að fara í kosningabaráttu og verja allar gjörðir og ákvarðanir borgarstjórans í þessu máli?

Olíufélögin skiptu landsbyggðinni á milli sín
Olíufélögin hótuðu Statoil og unnu gegn Irving Oil
Dagurinn í dag
1894 Nikulás II verður keisari í Rússlandi - hann var tekinn af lífi ásamt fjölskyldu sinni 1918
1928 Brúin yfir Hvítá í Borgarfirði, hjá Ferjukoti, var vígð - brúin þótti mikið mannvirki á sínum tíma
1984 Óeirðir brjótast út í Nýju-Delhi og svo um allt Indland í kjölfar morðsins á Indiru Gandhi forsætisráðherra Indlands - sonur hennar, Rajiv, tók við völdum í landinu. Hann var myrtur 1991
1990 Sir Geoffrey Howe, aðstoðarforsætisráðherra Bretlands og einn nánasti samstarfsmaður Margaret Thatcher á stjórnmálaferli hennar, segir af sér vegna ágreinings við Thatcher um Evrópumál. Howe var eini ráðherrann utan Thatcher sem setið hafði í stjórn hennar allt frá 1979 er hún varð fyrst forsætisráðherra. Afsögn hans og trúnaðarbresturinn við Thatcher, veiktu stöðu hennar og greiddu leiðina fyrir mótframboð - leiddi til falls hennar fyrir lok nóvember 1990
1999 Ísland í bítið, morgunsjónvarp Stöðvar 2 og Bylgjunnar, hóf útsendingar. Fyrstu umsjónarmenn þáttarins voru Guðrún Gunnarsdóttir og Snorri Már Skúlason. Um þáttinn sjá nú Inga Lind Karlsdóttir og Heimir Karlsson. Þátturinn markaði þáttaskil, var fyrsti morgunþátturinn í íslensku sjónvarpi
Snjallyrði dagsins
Bush and Cheney say now they're targeting people who can't make up their minds, so apparently they're trying to get John Kerry's vote as well.
Jay Leno grínisti
<< Heim