Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 nóvember 2004

George Walker Bush 43. forseti BandaríkjannaGeorge Walker Bush endurkjörinn forseti
George Walker Bush var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna í forsetakosningunum í gær. Hann bar sigurorð af John Kerry forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, í jöfnum og æsispennandi kosningaslag. Repúblikanar héldu meirihluta sínum, bæði í fulltrúa- og öldungadeild þingsins. Lengi vel dagsins beindust augu alls heimsins að Ohio og úrslitunum þar í forsetakjörinu. Áður var staðan þannig að Bush var kominn með 254 kjörmenn en Kerry 252. Eini möguleiki Kerrys til að vinna sigur í kosningunni var með því að hafa sigur í Ohio. Allt myndi því ráðast þar. Demókratar voru ekki reiðubúnir að viðurkenna að Kerry hefði tapað í Ohio. Klukkan hálfátta í morgun ávarpaði John Edwards varaforsetaefni Kerry, mannfjöldann í Boston, og tilkynnti að hann og Kerry myndu ekki viðurkenna ósigur fyrr en endanleg úrslit kæmu frá Ohio. Þegar leið að hádegi varð ljóst að vonir Kerry og Edwards voru byggðar á sandi og nær vonlaust var að ná sigri í Ohio. Þá voru ótalin í Ohio rúmlega 150.000 atkvæði og forskot forsetans var um 136.000 atkvæði. Útilokað var því að sigra kosningarnar, bæði þar og á landsvísu. Þegar þetta varð ljóst efndi Kerry til fundar með ráðgjöfum sínum til að ræða stöðuna. Ljóst var að neytendafrömuðurinn Ralph Nader hefði engin áhrif á úrslitin, honum var ekki leyft að fara í framboð í Ohio og munurinn var afgerandi í Flórída. Ósigur Kerry var því staðreynd og engar forsendur til málshöfðunar vegna úrslitanna. Að fundinum loknum hringdi Kerry í George W. Bush, viðurkenndi ósigur sinn í forsetakosningunum og óskaði forsetanum til hamingju. Var samtal þeirra stutt, stóð í tæpar þrjár mínútur. Er haft eftir talsmönnum Kerry-kosningaliðsins að Kerry hafi sagt Bush að hann hafi verið verðugur, harður og mjög heiðarlegur andstæðingur. Kerry mun ávarpa þjóðina klukkan 19:00 að íslenskum tíma og viðurkenna þar opinberlega að hann hefði beðið ósigur í kosningunum. Hefur forsetinn unnið sigur í 29 ríkjum: Alabama, Alaska, Arizona, Arkansas, Colorado, Flórída, Georgía, Idaho, Indiana, Kansas, Kentucky, Louisiana, Mississippi, Missouri, Montana, Nebraska, Nevada, N-Karólínu, N-Dakóta, Ohio, Oklahoma, S-Karólínu, S-Dakota, Tennessee, Texas, Utah, Virginíu, Vestur-Virginíu og Wyoming. Kerry vann í Kaliforníu, Connecticut, Delaware, Illinois, Maine, Maryland, Massachusetts, Minnesota, New Hampshire, New Jersey, New York, Oregon, Pennsylvaníu, Rhode Island, Vermont, Michigan, Washington, í Washington DC og Wisconsin. Úrslit eru enn óljós í Iowa og Nýju Mexíkó, en flest bendir til sigurs forsetans þar. Ef svo fer hefur forsetinn hlotið 286 kjörmenn, en Kerry 252. Er það einn naumasti munur í sögu bandarísku kjörmannasamkundunnar.

George W. Bush á kosninganóttGeorge Walker Bush forseti Bandaríkjanna, mun ávarpa þjóðina klukkan 20:00 í kvöld að íslenskum tíma og formlega lýsa yfir sigri í forsetakosningunum. Sigur hans er ótvíræður. Nú þegar talin hafa verið 99.6% greiddra atkvæða hefur Bush forseti, hlotið 58.704.164, eða 51%. Kerry hlaut 55.163.995 eða 48% greiddra atkvæða. Það er því ljóst að Bush hefur unnið sögulegan sigur. Það hefur ekki gerst í 16 ár, eða síðan faðir forsetans, George H. W. Bush vann sigur í forsetakosningunum 1988. Bill Clinton náði aldrei á ferli sínum slíkum árangri í kosningum að hljóta meira en helming greiddra atkvæða. Helgast það af því að þrjú forsetaefni voru þá í slagnum af krafti og atkvæðin jöfnuðust meira út, en hann vann meira afgerandi sigur í kjörmannasamkundunni 1992 og 1996. Um var að ræða mestu kjörsókn í bandarískum forsetakosningum frá árinu 1968, er Richard Nixon var kjörinn forseti Bandaríkjanna, í jöfnum slag hans og Hubert Humphrey um forsetastólinn. Úrslit forsetakosninganna nú eru sérstaklega mikið ánægjuefni fyrir forsetann, því nú vinnur hann bæði kjörmannakosninguna og fær flest atkvæði og það rúmlega helming atkvæða. Er því um mikilvægan sálfræðilegan sigur að ræða fyrir forsetann og nánustu samstarfsmenn hans, sem geta nú einbeitt sér að næsta kjörtímabili og verkefnum sem framundan eru, fyrst forsetinn hefur hlotið endurkjör til setu. Mun hann nú stokka upp hóp sinn og skipa í ríkisstjórn sína þá sem hann vill vinna með. Má búast við breytingum á mannaskipan í stjórninni og er helst nefnt að nýtt fólk taki við sem utanríkis- og varnarmálaráðherra. Annars mun Bush nú setjast yfir stöðuna og velja ríkisstjórn til setu. Bush forseti tekur á ný við embætti fimmtudaginn 20. janúar nk.

John KerryEr þetta í fyrsta skipti í tvo áratugi sem John Kerry bíður ósigur í kosningum. Hann var síðast kjörinn öldungadeildarþingmaður fyrir Massachusetts árið 2002 og rennur kjörtímabil hans því út árið 2008. Hann á því fjögur ár eftir af tímabilinu og verður fróðlegt að sjá hvort hann muni klára kjörtímabil sitt. Líklegt má þó telja að hann dragi sig þá í hlé úr stjórnmálum. Úrslit kosninganna eru gríðarlegt áfall fyrir demókrata, jafnt hvað varðar forsetakosningarnar sem og þingkosningarnar. Repúblikanar héldu meirihluta sínum, bæði í fulltrúa- og öldungadeild þingsins. Tom Daschle leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, missti þingsæti sitt í hörðum kosningaslag í S-Dakóta og eru demókratar því leiðtogalausir nú í deildinni. Hann beið naumlega ósigur fyrir John Thune sem var valinn til framboðs þar af stuðningsmannasveit forsetans, til að losna við Daschle úr forystu demókrata. Tókst það og eru demókratar nú höfuðlaus her í öldungadeildinni, heillum horfnir. Demókratinn Barack Obama, vann mikinn kosningasigur í öldungadeildarkosningunum í Illinois. Hann verður eini svarti Bandaríkjamaðurinn í öldungadeildinni er hann tekur þar sæti. Kosið var um sæti Edwards í N-Karólínu og fór sætið til repúblikana. Sama gilti um Flórída, en Mel Martinez fyrrum ráðherra í stjórn Bush, vann sæti Bob Graham í öldungadeildinni frá demókrötum til repúblikana. Johnny Isakson vann sæti Zell Miller í Georgíu frá demókrötum til repúblikana, en á það skal bent að Miller var orðinn mjög repúblikamegin í þinginu undir lokin. Í heildina var því nóttin svört fyrir demókrata. Jafnvel enn dökkari en kosninganóttin 2002, og er þá mikið sagt. Demókrataflokkurinn er í algjörri pólitískri eyðimörk í Bandaríkjunum. Stefna forsetans fékk eindreginn meðbyr í kosningunum.


Kosningavefir 2004
CNN
BBC
CBS
NBC
ABC
Race 2004
Fréttablaðið
Morgunblaðið
Washington Post
Ítarleg kosningahandbók WP
Umfjöllun um kjörmannakosninguna
Saga forsetakosninga í Bandaríkjunum



Dagurinn í dag
1660 Kötlugos hófst með langvaranlegum jarðskjálfta og jökulhlaupi - eitt af stærstu Kötlugosunum
1964 Lyndon B. Johnson kjörinn forseti Bandaríkjanna - hann vann afgerandi sigur á Barry Goldwater. Hann hlaut 486 kjörmenn og vann stærsta sigur fram að þeim tíma - Johnson gaf ekki kost á sér í forsetakjöri 1968 vegna andstöðu við stefnu hans í Víetnamsstríðinu - Johnson lést 1973
1968 Alþýðubandalagið var formlega stofnað sem stjórnmálaflokkur - bauð síðast fram árið 1995
1976 Jimmy Carter kjörinn forseti Bandaríkjanna, í tvísýnum kosningum þar sem Gerald Ford sitjandi forseti, beið ósigur í kjörmannasamkundunni - Ford sat sem forseti allt frá afsögn Nixons
2004 George W. Bush endurkjörinn forseti Bandaríkjanna, í tvísýnni valdabaráttu þar sem nokkur fylki ráða úrslitum - John Kerry viðurkennir ósigur, eftir að hafa reynt að hnekkja úrslitum í Ohio

Snjallyrði dagsins
Leadership and learning are indispensable to each other.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna