
George Walker Bush var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna í forsetakosningunum í gær. Hann bar sigurorð af John Kerry forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, í jöfnum og æsispennandi kosningaslag. Repúblikanar héldu meirihluta sínum, bæði í fulltrúa- og öldungadeild þingsins. Lengi vel dagsins beindust augu alls heimsins að Ohio og úrslitunum þar í forsetakjörinu. Áður var staðan þannig að Bush var kominn með 254 kjörmenn en Kerry 252. Eini möguleiki Kerrys til að vinna sigur í kosningunni var með því að hafa sigur í Ohio. Allt myndi því ráðast þar. Demókratar voru ekki reiðubúnir að viðurkenna að Kerry hefði tapað í Ohio. Klukkan hálfátta í morgun ávarpaði John Edwards varaforsetaefni Kerry, mannfjöldann í Boston, og tilkynnti að hann og Kerry myndu ekki viðurkenna ósigur fyrr en endanleg úrslit kæmu frá Ohio. Þegar leið að hádegi varð ljóst að vonir Kerry og Edwards voru byggðar á sandi og nær vonlaust var að ná sigri í Ohio. Þá voru ótalin í Ohio rúmlega 150.000 atkvæði og forskot forsetans var um 136.000 atkvæði. Útilokað var því að sigra kosningarnar, bæði þar og á landsvísu. Þegar þetta varð ljóst efndi Kerry til fundar með ráðgjöfum sínum til að ræða stöðuna. Ljóst var að neytendafrömuðurinn Ralph Nader hefði engin áhrif á úrslitin, honum var ekki leyft að fara í framboð í Ohio og munurinn var afgerandi í Flórída. Ósigur Kerry var því staðreynd og engar forsendur til málshöfðunar vegna úrslitanna. Að fundinum loknum hringdi Kerry í George W. Bush, viðurkenndi ósigur sinn í forsetakosningunum og óskaði forsetanum til hamingju. Var samtal þeirra stutt, stóð í tæpar þrjár mínútur. Er haft eftir talsmönnum Kerry-kosningaliðsins að Kerry hafi sagt Bush að hann hafi verið verðugur, harður og mjög heiðarlegur andstæðingur. Kerry mun ávarpa þjóðina klukkan 19:00 að íslenskum tíma og viðurkenna þar opinberlega að hann hefði beðið ósigur í kosningunum. Hefur forsetinn unnið sigur í 29 ríkjum: Alabama, Alaska, Arizona, Arkansas, Colorado, Flórída, Georgía, Idaho, Indiana, Kansas, Kentucky, Louisiana, Mississippi, Missouri, Montana, Nebraska, Nevada, N-Karólínu, N-Dakóta, Ohio, Oklahoma, S-Karólínu, S-Dakota, Tennessee, Texas, Utah, Virginíu, Vestur-Virginíu og Wyoming. Kerry vann í Kaliforníu, Connecticut, Delaware, Illinois, Maine, Maryland, Massachusetts, Minnesota, New Hampshire, New Jersey, New York, Oregon, Pennsylvaníu, Rhode Island, Vermont, Michigan, Washington, í Washington DC og Wisconsin. Úrslit eru enn óljós í Iowa og Nýju Mexíkó, en flest bendir til sigurs forsetans þar. Ef svo fer hefur forsetinn hlotið 286 kjörmenn, en Kerry 252. Er það einn naumasti munur í sögu bandarísku kjörmannasamkundunnar.


CNN
BBC
CBS
NBC
ABC
Race 2004
Fréttablaðið
Morgunblaðið
Washington Post
Ítarleg kosningahandbók WP
Umfjöllun um kjörmannakosninguna
Saga forsetakosninga í Bandaríkjunum
Dagurinn í dag
1660 Kötlugos hófst með langvaranlegum jarðskjálfta og jökulhlaupi - eitt af stærstu Kötlugosunum
1964 Lyndon B. Johnson kjörinn forseti Bandaríkjanna - hann vann afgerandi sigur á Barry Goldwater. Hann hlaut 486 kjörmenn og vann stærsta sigur fram að þeim tíma - Johnson gaf ekki kost á sér í forsetakjöri 1968 vegna andstöðu við stefnu hans í Víetnamsstríðinu - Johnson lést 1973
1968 Alþýðubandalagið var formlega stofnað sem stjórnmálaflokkur - bauð síðast fram árið 1995
1976 Jimmy Carter kjörinn forseti Bandaríkjanna, í tvísýnum kosningum þar sem Gerald Ford sitjandi forseti, beið ósigur í kjörmannasamkundunni - Ford sat sem forseti allt frá afsögn Nixons
2004 George W. Bush endurkjörinn forseti Bandaríkjanna, í tvísýnni valdabaráttu þar sem nokkur fylki ráða úrslitum - John Kerry viðurkennir ósigur, eftir að hafa reynt að hnekkja úrslitum í Ohio
Snjallyrði dagsins
Leadership and learning are indispensable to each other.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna
<< Heim