Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 nóvember 2004

AkureyriHeitast í umræðunni
Seinustu daga hefur nokkuð verið fjallað um ályktanir stjórnar Varðar í fjölmiðlum hér fyrir norðan og ennfremur hafa ályktanir birst í blöðum og á netfréttamiðlum. Skoðanir stjórnar félagsins ná því vel til annarra og rödd félagsins varðandi helstu málefni svæðisins og kjördæmisins er virk. Frá aðalfundi hefur stjórnin samþykkt 11 ályktanir og farið vel yfir stór mál og tjáð afstöðu sína til þeirra. Nýjustu ályktanir, um kennara í Brekkuskóla og stóriðju á Norðurlandi, hafa verið mest í umræðunni nú seinustu sólarhringa. Í sunnudagspistli í gær fór ég yfir kennaramálið og málefni vegna auglýsingar kennaranna í Brekkuskóla, sem hefur verið hitamál hér seinustu daga. Um hálfsexleytið í kvöld fór ég í viðtal í Útvarp Norðurlands og ræddi við Björn Þorláksson fréttamann, um tvær ályktanir okkar um stóriðjuna, einkum þá seinni þar sem við gagnrýnum mat Örlygs Hnefils Jónssonar varaþingmanns Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, á því að stóriðja eigi frekar að rísa í Þingeyjarsýslu. Er mat okkar það að stóriðja eigi frekar að rísa í Eyjafirði, þar sem um yrði að ræða miðpunkt Norðurlands.

Hinsvegar er það jafnljóst að engin stóriðja kemur hingað nema Norðlendingar nái einhverjum samhljómi í stöðunni og sameinist um það í upphafi að fá stóriðju. Þann samhljóm vantar, fólk talar greinilega bara í hreppapólitík eins og staðan er. Leggjum við því lykiláherslu á að málin verði rædd með opnum huga og tryggt fyrir það fyrsta að stóriðja komi á svæðið. Svo má ekki gleyma því að mat fjárfestanna mun ráða úrslitum. Það er ábyrgðarhluti að neita að sætta sig við slíka afstöðu, en greinilegt er á Þingeyingum að það mat muni litlu ráða að þeirra mati og þeir sitji fastir við þann keip sinn að láta það ekki hafa áhrif á afstöðuna. Þingeyingar þurfa því að átta sig á að það eru hvorki þeir né Eyfirðingar sem ákveða hvar næstu stórframkvæmdir verða, heldur mun sú ákvörðun undir fjárfestunum komin, eins og segir í ályktun okkar. Áttum við Björn gott samtal um þessa hluti og náði ég að tjá okkar lykilafstöðu í málunum og það sem komið hefur fram í þeim tveim ályktunum sem við höfum sent frá okkur. Það var gott að fá þetta tækifæri til að tjá sig um málið og koma afstöðu okkar til skila í svæðisútvarpið. Vonandi mun umræðan um stóriðju á Norðurlandi verða heilsteyptari á næstunni og menn ná einhverjum samhljóm í tjáningu sína um málið.

DalvíkÁ laugardag slitnaði uppúr meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar. Meirihlutinn hafði setið í tvö og hálft ár, eða frá sveitarstjórnarkosningunum 2002. Ástæða falls meirihlutans var ósamkomulag milli flokkanna um framtíð sveitaskólans að Húsabakka í Svarfaðardal. Dalurinn og Árskógsströnd sameinuðust Dalvík í sveitarfélagið Dalvíkurbyggð árið 1998. Frá þeim tíma hafa skólar verið á öllum þremur stöðunum en seinustu ár hefur skólinn á Dalvík sífellt verið styrktur með hliðsjón af því að hagkvæmara sé að reka skóla þar. Nýleg úttekt á skólunum staðfesti með óyggjandi hætti að óhagkvæmt var að reka skóla í Svarfaðardal, 6 kílómetrum frá Dalvík. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu því fram tillögu um að leggja skólann niður en samstaða náðist ekki innan Framsóknarflokksins um framtíðina.

Grunnlína í þessu máli var að fólk þurfti að horfast í augu við staðreyndir um rekstur skólanna í Dalvíkurbyggð, en gat ekki lifað á tilfinningalegum rökum. Það eru engin rök nema tilfinningaleg lengur með skólarekstri í Svarfaðardal, svo einfalt var það. Leitt var að framsóknarmenn létu stranda á þessu máli, en ég tek undir með sjálfstæðismönnum í bænum að það er ábyrgðarhluti að samþykkja óbreyttan skólarekstur áfram í Svarfaðardal. Á þessu allavega steytti og mynda þarf nýjan meirihluta. Eins og staðan er nú eru bæjarfulltrúar Sameiningar vinstrimanna í oddaaðstöðu og ákvað fólk þar á fundi í gær að bjóða framsóknarmönnum til viðræðna um samstarf næstu 18 mánuðina. Ljóst er að þeir gera kröfu um það að Svanfríður Jónasdóttir fyrrum alþingismaður, verði bæjarstjóri, en hún er fyrrum bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar af hálfu vinstrimanna á Dalvík. Samþykki framsóknarmenn það verða þeir að kasta leiðtoga sínum, Valdimar Bragasyni, til hliðar en hann er sitjandi bæjarstjóri. Fróðlegt verður að sjá hvort framsóknarmenn taka þeim kosti eða hvort Sameining reyni meirihluta með D-lista. En eftir stendur að mat sjálfstæðismanna á skólunum var rétt og það er erfitt að samþykkja áframhaldandi skólarekstur að Húsabakka að óbreyttu.

John F. Kennedy (1917-1963)John F. Kennedy (1917-1963)
Í dag er liðið 41 ár frá því að John F. Kennedy 35. forseti Bandaríkjanna, féll fyrir morðingjahendi í Dallas í Texas. Hann hafði þá setið á forsetastóli í Bandaríkjunum í rúmlega 1000 daga. Þótt liðinn sé langur tími frá þessum atburðum eru þeir mörgum Bandaríkjamönnum enn í fersku minni og blandast þar saman sorg, söknuður og tilfinningin um að þjóðin hafi verið svipt ungum og kraftmiklum leiðtoga. Þá er að margra mati sem spurningunni um hver myrti forsetann hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Opinber rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði framið morðið og verið einn að verki en margir aðhyllast þá kenningu að árásarmennirnir hafi verið tveir og sumir segja allt að fjórir. Einnig hafa komið fram kenningar um að mafían, bandaríska leyniþjónustan, útsendarar erlendra ríkja eða jafnvel Johnson forseti, hafi skipulagt ódæðið. Ólíklegt er að niðurstaða, sem allir sætta sig við, fáist nokkurn tíma en ekkert lát er á umfjöllun um morðið, bæði í bókum og fjölmiðlum þótt 41 ár sé liðið frá morðinu á forsetanum.

Fyrir ári, þegar fjórir áratugir voru liðnir frá morðinu á Kennedy forseta, birtist á vef Heimdallar, ítarlegur pistill minn um stjórnmálaferil og ævi hans. Kennedy forseti, fæddist í Brookline í Massachusetts, þann 29. maí 1917, næstelstur í hópi 9 barna hjónanna Joseph og Rose Kennedy. Hann nam í Choate menntaskólanum og Harvard, fór að því loknu í herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni. Hann hóf þátttöku í stjórnmálum, 29 ára gamall árið 1946 er hann var kjörinn þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. 1952 var hann kjörinn til setu í öldungadeild þingsins fyrir Massachusetts. Árið 1955 ritaði Kennedy bókina Profiles in Courage. Í henni ræðir hann um menn sem á örlagastundu sýna hugrekki og siðferðisþrek. Ennfremur frá ákvörðunum manna sem þorðu að standa við skoðanir sínar og gjörðir, hvað svo sem það í raun kostaði. Enginn vafi er á því að í þessari bók er að finna lykilinn að lífsskoðun John F. Kennedy, þ.e. að gera verði það sem samviskan býður hverjum manni. Fyrir bók sína hlaut Kennedy, Pulitzer verðlaunin, virtustu bókmenntaverðlaun Bandaríkjanna. Árið 1960 var hann kjörinn forseti Bandaríkjanna, sigraði Richard Nixon naumlega í spennandi kosningum. Hann sat á forsetastóli eins og fyrr segir í rúmlega 1000 daga, ferlinum lauk með hörmulegum hætti í Dallas í Texas. Hann kvæntist í september 1953, Jacqueline Bouvier. Þau eignuðust tvö börn, Caroline (1957) og John Fitzgerald yngri (1960). John Fitzgerald Kennedy var jarðsunginn í Washington, 25. nóvember 1963. Var hann jarðsettur í þjóðargrafreitnum í Arlington. Á gröf hans lifir hinn eilífi logi, táknmynd þess að vonarneistinn slokknar aldrei, hvað sem á bjátar.

Dagurinn í dag
1907 Giftar konur í Reykjavík fengu kosningarétt og kjörgengi til sveitarstjórna. Alþingi féllst ekki á að allar konur fengju þennan rétt fyrr en tveimur árum seinna. Fullt kjörgengi kvenna tók gildi 1915
1907 Vegalög staðfest - vinstri umferð tók gildi. Ekki var skipt í hægri umferð fyrr en í maí 1968
1963 John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, myrtur í Dallas í Texas í opinberri heimsókn sinni. Hann var 46 ára að aldri. Fráfall hans var gríðarlegt áfall fyrir Bandaríkjamenn. Miklar vonir voru bundnar við forsetann sem tákn nýrra tíma og andlát hans mikið reiðarslag. Lyndon Baines Johnson varaforseti, tók formlega við embætti sem 36. forseti Bandaríkjanna, um borð í forsetaflugvélinni
1990 Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands, segir af sér embætti. Hún hafði setið í forsæti ríkisstjórnar Bretlands í 11 ár en varð að víkja vegna ágreinings um störf hennar innan eigin flokks
1997 Kristinn Björnsson, frá Ólafsfirði, sem þá var 25 ára, varð í öðru sæti á heimsbikarmóti í svigi í Park City í Utah. Þetta var talinn langbesti árangur Íslendings í skíðaíþróttum fram að þeim tíma

Snjallyrði dagsins
Ástum og eldi skírð
óskalönd birtast mér.
Hvílíka drottins dýrð
dauðlegur maður sér!
Allt ber hér hinn sama svip;
söm er hin gamla jörð.
Hægara skaltu skip,
skríða inn Eyjafjörð.

Allt það, sem augað sér,
æskunnar hörpu knýr,
syngur og segir mér
sögur og ævintýr.
Mild ertu, móðir jörð.
Margt hefur guð þér veitt.
Aldrei ég Eyjafjörð
elskaði nógu heitt.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Sigling inn Eyjafjörð)