Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 nóvember 2004

Steinunn Valdís Óskarsdóttir verðandi borgarstjóriSteinunn Valdís Óskarsdóttir verður borgarstjóri
Tilkynnt var formlega á blaðamannafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í kvöld að Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarfulltrúi R-listans, tæki við embætti borgarstjóra í Reykjavík af Þórólfi Árnasyni fráfarandi borgarstjóra, 1. desember nk. Steinunn Valdís Óskarsdóttir verðandi borgarstjóri, hefur verið borgarfulltrúi R-listans allt frá stofnun hans árið 1994, var fyrst fulltrúi Kvennalista á listanum en síðar Samfylkingarinnar. Steinunn Valdís hefur verið formaður skipulagsnefndar borgarinnar frá 2002 og er varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og situr ennfremur í samgöngunefnd, hverfisráði Laugardals og Hlíða, er í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, lánatryggingasjóðs kvenna og Skipulagssjóðs. Hún sat í stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu 1994-1999 og var formaður 1997-1999. Steinunn var formaður íþrótta og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar 1994-2002 og formaður jafnréttisnefndar borgarinnar 1996-1998. Hún var í miðborgarstjórn 1998-2002 og sat í borgarráði 1998-2002. Steinunn Valdís Óskarsdóttir varð stúdent frá MS árið 1986 og varð B.A. í sagnfræði frá HÍ 1992. Hún var fulltrúi á launaskrifstofu fjármálaráðuneytisins 1986-1987, starfskona Rannsóknarstofu í kvennafræðum 1992, framkvæmdastjóri Hallveigarstaða 1994-1997 og starfaði á skrifstofu Kvenfélagasambands Íslands 1992-1994. Steinunn Valdís var formaður félags sagnfræðinema við HÍ 1989-1990 og sat í stúdentaráði HÍ 1990-1992 og var formaður Stúdentaráðs 1991-1992. Hún sat í áfrýjunar- og sáttanefnd HÍ 1990-1991 og í stjórn Félagsstofnunar stúdenta 1992-1994.

Ánægjulegt er að valdafarsa R-listans sé lokið, en það blasir við að Steinunn er valin vegna þess að hún var sú eina af borgarfulltrúunum 8 sem samstaða náðist um til að klára þessa 18 mánuði sem eftir eru til kosninga. Leiðtogar flokkanna gátu ekki unnt hvor öðrum þetta, Dagur er álitinn of mikið efni fyrir Samfylkinguna til að fá þetta og Anna, Björk og ISG koma ekki til greina. Eftir stendur Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sem eina manneskjan sem samstaða gat náðst um. Ég tel það skynsamlegt að stjórnmálamaður verði borgarstjóri. Hef alltaf verið þeirrar skoðunar að réttast sé að kjörinn fulltrúi gegni embætti borgarstjóra eða bæjarstjóra og tel þetta rökrétt skref og réttara að manneskja með beint umboð frá kjósanda sé í svona stóru embætti. En það verður fróðlegt að fylgjast með borgarmálunum þann tíma sem lifir af kjörtímabilinu.